Framboð Sósíalista í borginni – Claudia Overesch
Frétt
14.05.2022
Ég heiti Claudia og er 42 ára gömul einstæð móðir úr Vesturbænum.
Ég er fædd og uppalin í Þýskalandi en flutti til Íslands fyrir 20 árum, til að byrja með sem skiptinemi. Í kjölfarið vann ég ymis láglaunastörf, í fiskvinnslu, eldhúsi á veitingastað og á sambýlum. Eftir það vann ég í ferðaþjónustu, þangað til ég missti vinnnuna í Covid-kreppunni.
Ég á tvö leikskólabörn, eitt þeirra er einhverft. Það tók langan tíma að fá greiningarferlið hans af stað, og heil tvö og hálft ár að fá loksins greininguna. Sem betur fer er hann í dag í leikskóla sem sinnir honum frábærlega, en ég veit líka að það er ekki alltaf raunin. Mannekla á leikskólum leiðir oft til þess að samþykktur og niðurgreiddur stuðningur verður tekinn af börnum með sérþarfir, til að dekka “stærri vandamál”. Það er með öllu óliðandi, og ég er ekki einu sinni komin með reynslu af grunnskólakerfinu. En af hverju stafar manneklan, sem bitnar á börnunum? Það vitum við öll. Laun og vinnuaðstæður.
Nú er einn flokkur á eftir hinum að auglýsa “betri borg fyrir börnin”, þó það hefði alveg verið hægt að búa til betri borg fyrir börnin á síðustu árum, enda sumir þeirra við stjórnvölinn. Af hverju ættum við að gera ráð fyrir því að þau myndu gera það á næstu 4 árum?
Annað málefni sem er mér ofarlega í huga eru almenningssamgöngur. Ég hef aldrei átt bíl og því alltaf reitt mig á strætó eða hjól. Ég hef líka alveg tekið eftir að nú er nýbúið að kynna þjónustuskerðingu vegna tekjutaps. Það er auðvitað beina leiðin inn í vitahringinn “minni þjónusta – færri notendur – minni þjónusta”. Við verðum að skilgreina strætó sem grunnþjónustu, sem er óháð tekjum eða tapi, til að efla hann til framtíðar, ekki síst í dag. Kannski eru Íslendingar bílaþjóð, eins og oft er haldið fram, en við þurfum alls ekki að vera það til frambuðar.
Ég er svo heppin að vera í eigin húsnæði; gat keypt á “réttum tíma” og hef hagnast á því síðan þá. Í dag gæti ég aldrei keypt íbúð. Ég væri pikkföst á leigumarkaðnum, og hann þekki ég vel. Á fyrstu 12 árunum mínum á Íslandi flutti ég 8 sinnum. Í hverju einasta tilfelli eyddi ég meira en helmingi tekna minna í leiguna. Stundum fékk ég að vita að það “þyrfti” að hækka leiguna með dags fyrirvara. Mér var sagt upp íbúð af því að krakkinn var að koma heim frá útlöndum eða af því að nú þyrfti að nota kjallaraherbergið undir dót.
Ég styð, og gleðst yfir því, að Sósíslistaflokkurinn er að gera leigumarkaðsmál að svo miklu umtalsefni. Við þurfum ekki endilega að koma öllum í eigið húsnæði, en við þurfum að koma öllum í öruggt og stöðugt húsnæði sem er einnig hægt að borga fyrir án þess að þurfa að borða núðlur síðustu tíu daga mánaðarins (been there).
Ég býð mig fram fyrir Sósíalistaflokk Íslands, og það með stolti.
Claudia Overesch býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí.