Brothættur leigjandi
Sögur
19.04.2017
Kristinn Guðjónsson, Kiddi, hefur búið hálfa ævina í Sjálfsbjargarblokkinni í Hátúni. Þar getur hann farið allra sinna ferða í hjólastól. Í Hátúni lifði hann öruggu lífi þar til hann fór að finna fyrir gjá milli sín og yfirmanna Sjálfsbjargar. Hann er ósáttur við framkomu þeirra og segir þá gera lítið úr sér og sínum kröfum.
Kristinn Guðjónsson, sem af vinum sínum er kallaður Kiddi, hefur búið hálfa ævina í Sjálfsbjargarblokkinni í Hátúni eða frá árinu 1990. Blokkin er þessi ljósbláa og hvíta í brekkunni fyrir neðan háu Öryrkjabandalagsblokkirnar. Staðsetningin er þægileg og hentar hans þörfum í gegnum hversdaginn. Hádegismatinn borðar hann á annarri hæð, en eldar sjálfur kvöldmatinn eftir að hann fékk þægilegri eldhúsinnréttingu. Vinnan hans hjá Örtækni er í seilingarfjarlægð, stutt er í sund og félagsskapinn í húsinu eða húsunum í kring. Það sem er best er að hann kemst allra sinna ferða á hjólastólnum. Meira að segja út í Krónu í Nóatúni.
En undanfarin ár hefur safnast upp kergja á milli stjórnenda bæði Sjálfsbjargarheimilisins og Landssambands Sjálfsbjargar annarsvegar og Kidda hinsvegar. Og það er þessi kergja sem veldur Kidda hugarangri. Hann er ósáttur við framkomu framkvæmdastjóranna við sig sem honum finnst gera lítið úr sér og kröfum sínum. Það er ekki eins og Kiddi sé með miklar væntingar aðrar en þær að komið sé á móts við hann og hans líkamlega ásigkomulag.
Hlaup eftir lambi
Kiddi ólst upp í Haukadal í Dalasýslu og bjó þar til tvítugs. Helst hefði hann óskað sér að verða bóndi eins og foreldrar hans og vinna við búskap. En Kiddi er með erfðagalla svo slæman að við minnsta álag þá brotna bein og vöðvar líkama hans.
„Ég byrjaði að detta sjö ára, ég var að hlaupa eftir lambi, þá var alltaf markað úti. Maður þurfti að hlaupa á eftir þeim. Ég var að hlaupa þarna þegar ég datt og fékk svona rosalegan verk í nárann sem voru fyrstu einkenni sjúkdómsins. Vöðvasjúkdómur sem hefur aldrei greinst. Pabbi og mamma voru systkinabörn og læknar meina að þetta sé litningagalli. Það var samt ekki hægt að greina það. Þetta er undirliggjandi galli,“ segir Kiddi sem fær hinsvegar glampa í augun þegar sveitin hans ber á góma. En værð sveitarinnar og jafnaðargeðið sem einkennir þá sem eru berskjaldaðir í lífinu einkenna þennan hægláta mann í Hátúni.
Ég get alveg lært
Kiddi kláraði 8. bekk í grunnskóla á Laugum í Sælingsdal en flosnaði upp úr námi eftir það en hann átti erfitt með lestur. „Það er erfitt að vera í heimavistarskóla og vera öðruvísi en aðrir. Ég gekk alltaf haltur og ég var hræddur við að detta. Ég var þegar búinn að handleggs- og fótbrotna og ég gat ekkert hlaupið. Það var verið að stríða manni og maður bara barðist áfram. Þetta var ekki góður tími.“
Seinna þegar hann flutti í bæinn fór hann í Hringsjá í einstaklingsmiðað nám og þá kom í ljós að stærðfræði, tölvur og bókfærsla voru hans styrkleikar. Einnig gat hann lært heilu handritin utan að þegar hann lék í Halaleikhópnum. Hann lék til dæmis stórt hlutverk í Kirsuberjagarðinum. Hann var í hlutverki rónans Simenov-Pischik og uppgötvaði að hann gat vel lesið og lært.
Reykherbergið eltir Kidda
„Um tvítugt neyddist ég endanlega til þess að yfirgefa sveitina. Ég var að labba á milli húsa á fljúgandi svelli og þegar hundur bróður míns kom hlaupandi á móti mér, og datt á mig og ég datt aftur fyrir mig. Þá hafði vöðvinn farið í tvennt, sá sem er við hnéskelina. Ég fór í þá aðgerð og var í heilt ár í Reykjadal. Ég sem vildi helst ekki gista í Reykjavík á þessum tíma,“ segir Kiddi og brosir.
En það var árið 1990 sem hann leigði sér litla íbúð á 3. hæð í vesturálmu Sjálfsbjargarblokkarinnar í Hátúni og hefur búið í blokkinni síðan. Á 3. hæðinni var reykherbergi og þegar tækifæri gafst og íbúð losnaði flutti hann sig upp á 5. hæð til þess að komast sem lengst frá tóbaksreyknum en Kiddi er með slæmt ofnæmi fyrir tóbaksreyk. Eins þolir hann illa ilmvatns- og rakspíralykt og verður flökurt og máttvana við minnsta áreiti.
Síðan gerist það fyrir nokkrum árum að skrifstofa Landssambands Sjálfsbjargar flutti sig um set og inn á 3. hæðina í blokkinni hans Kidda. Sem sagt sömu hæð og reykherbergið. Og upp úr því hófst sú umræða hjá þeim sem unnu á skrifstofunni að flytja reykherbergið upp á fimmtu hæð. Kiddi brást illa við því þessu strax og mótmælti af því að reykherbergið væri að elta hann uppi. Á móti fékk hann harkaleg viðbrögð frá yfirmönnum heimilisins og Landssambandsins. „Ég mátti ekki mótmæla, ég var bara öryrki og hafði ekkert um þetta að segja. Við ráðum! Það var viðmótið.“
Reykurinn fer út um allt
Í byrjun mars á þessu ári var síðan gerð alvara úr því að flytja reykherbergið upp á 5. hæðina og taka sameiginlega þvottahúsaðstöðu á hæðinni alfarið undir reykherbergið, þrátt fyrir mótbárur Kidda og annarra íbúa. Útsogið er svo mikið í reykherberginu að dyrnar lokast ekki og reykurinn fer fram á gang og inn í íbúðina hjá Kidda. En Kiddi hefur það mikið óþol fyrir reyk að hann hafði áður þétt í kringum loftnetsleiðslur í íbúðinni sinni til þess að sporna gegn reyk sem færi á milli íbúðanna. En hann finnur fyrir reyk sem fer á milli íbúða eftir leiðslum og snúrum, eða meðfram þeim.
„Kiddi er einn okkar besti starfsmaður,“ segir Hartmann sem stjórnar Örtækni, þar sem Kiddi hefur unnið í 21 ár. Hartmann segir um Kidda að hann sé ekki einn af þeim sem kvarti eitthvað út í bláinn, hann er einfaldlega ekki sú manngerð. En Hartmanni og Elfu, samstarfsmanni Kidda hjá Örtækni, krossbrá þegar Kiddi kom í vinnuna eftir að reykherbergið flutti á fimmtu hæð. Hann hafði kastað upp og kom skjálfandi og grár til vinnu enda svaf hann ekki dúr þarna fyrstu næturnar á eftir.
Far þú bara
Kiddi fór á fund framkvæmdastjóra Landssambandsins með réttindagæslukonu fatlaðra í framhaldi af þessu og eftir nokkrar svefnlausar nætur. „Framkvæmdastjórinn sagði að ég gæti bara farið í aðra íbúð en það tekur fjögur til fimm ár að fá aðra íbúð. Það verður að leysa málið þangað til,“ segir Kiddi á sinn hógværa hátt.
Kidda fannst framkvæmdastjórinn valta yfir réttindagæslukonu sína og gefa í skyn að Kiddi væri að gera sér þetta upp. „Við tökum ekki mark á honum,“ sagði framkvæmdastjórinn og meinti þá að skrifstofan tæki ekki mark á Kidda. „Hann hefur alltaf verið á móti herberginu,“ sagði framkvæmdastjórinn.
Kiddi segir það vera rétt en að á móti komi að þegar hann beri fram tillögu að lausnum þá sé gert lítið úr þeim. „Viðkvæðið er alltaf, heimilið ræður en ekki vistmennirnir,“ segir Kiddi.
Réttindagæslukona Kidda pantaði heilbrigðiseftirlitið sem kom tvisvar. Þeir komu með tillögur að því hvernig hægt væri að laga útsogið. Setja viftuna á réttan stað til þess að koma hreyfingu á loftið í herberginu og þétta hurðina. Það var komið á móts við eftirlitið að hálfu leyti, viftan sett upp en ekki á réttan stað, að sögn Kidda, og ennþá smýgur reykurinn út á gang og inn til Kidda.
„Ég sé alveg á augunum á honum að hann er vansvefta, hann er ekki eins og hann á að sér að vera,“ segir Hartmann. Þrátt fyrir að ástandið hafi batnað. Kiddi segist hafa séð þátt í sjónvarpinu þar sem fólk var að lýsa áhrifunum af myglu í húsum. Og segir sig þekkja áhrifin, þetta vera sömu líðan, hann svíður í augun og hausinn er þungur eins og blý og hann er máttvana og ómögulegur.
Við eigum íbúðirnar
Kiddi rifjar einnig upp húsfund með framkvæmdastjórunum þar sem aðeins sumir íbúarnir voru boðaðir. Á þeim fundi kom fram að stjórnendur heimilisins höfðu farið inn í íbúðirnar án vitundar leigjenda sinna og töluðu um að þær væru í mismunandi ástandi. „Ég sagði ha, megið þið það? Bara vaða inn þegar enginn er heima. Er það ekki virðingarleysi?“ Þá var svarið að þeir ættu íbúðirnar. „Auðvitað eiga þeir ekki íbúðirnar, þeir eru aðeins starfsmenn sem reka Sjálfsbjörg, Landssamband hreyfihamlaðra, og verkefni þeirra er að hlúa að skjólstæðingum sínum. Kannski líta þeir á þetta eins og stofnun þar sem þeir mega vaða inn eins og þeim sýnist en ég lít á mig sem leigjanda með réttindi,“ segir Kiddi sem borgar sína leigu mánaðarlega. Hann segir það líka alltaf betra að skoða íbúðirnar með leigjandanum sem dvelur í henni alla daga, leigjandinn hlýtur að þekkja kosti og galla íbúðarinnar sinnar betur en nokkur annar.
Vil hafa val
„Ég leigi hjá Landssambandinu en kaupi matarkort og borða hjá Sjálfsbjargarheimilinu í hádeginu. Aðra þjónustu sæki ég til Reykjavíkurborgar. Kannski liggur óánægjan gagnvart mér út af því,“ segir Kiddi hugsi. Kiddi þarf aðstoð við að fara í rúmið og úr rúmi og í bað og á klósettið. „Ég er í vinnu þannig allt annað geri ég eftir hádegi. Fara í bað og hitt og þetta. Mér var boðinn samningur frá Sjálfsbjargarheimilinu sem var á skjön við vinnuna mína og mína rútínu. Ég sagði að ég yrði að fá betri samning. Ég vil fá einstaklingsmiðaðan samning. Ég vil kaupa minn mat þegar mér hentar og til dæmis geta sleppt að borga ef ég fer út að borða. En matur og þrif eru í samningum. Ef ég er með fastan samning þá borga ég bara fast gjald þótt ég noti það aðeins að hluta til. Þetta gjald er mikið til maturinn. Málið er að maður vill geta haft eitthvert val.“
Hún komst ekki í bingó
Það eru fleiri sem vilja gjarnan geta átt val í Sjálfsbjargarhúsinu. „Ég hitti vinkonu mína sem á erfitt með að tjá sig og er föst í hjólastól. Hún var grátandi hérna á ganginum af því að hún komst ekki í bingó í félagsheimilinu því hún fékk ekki þjónustu fyrir utan rammann sem henni var ætlaður. Það að neita þessari vesalings konu um að fara í bingó er frekar leiðinlegt. En þá hentaði það ekki starfsfólkinu sem vildi koma vinkonu minni í rúmið fyrir einhvern sérstakan tíma. Það er auðvitað álag á starfsfólkinu og vakthafandi starfsmaður fékk áminningu, skilst mér. En ég held að það sé fólkið á toppinum sem ræður þessu en ekki starfsfólkið. Allavega finnst mér ekki líðandi að fólk sé grátandi yfir því að fá ekki þá þjónustuna sem það þarf,“ segir Kiddi.
Birtist áður í Fréttatímanum