Sósíalíska bókahornið: Les Misérables eftir Victor Hugo
Pistill
31.08.2017
Les Misérables kom út 1862 og varð strax fádæma vinsæl. Bókin gerði Hugo, sem fram að útgáfu hennar hafði aðallega verið þekktur sem eitt af fremstu ljóðskáldum Frakklands, að einum vinsælasta rithöfundi allra tíma. Aðeins Charles Dickens kemst nálægt honum í vinsældum á meðan hann lifði. Sem dæmi um vinsældir hans þá fylgdu á bilinu tvær til þrjár milljónir manns honum til grafar þegar hann dó 1885 – sem gerir jarðarför hans einni fjölmennustu allra tíma.
Segja mætti þó að stórvirki Hugos sé að einhverju leyti fórnarlamb eigin velgengni – ekki síst söngleiksins sem hefur jafnvel alveg yfirskyggt upprunalega verkið. Hún er ein af þessum bókum sem hefur verið endursögð svo oft á allan mögulegan hátt að margir telja sig ekki þurfa að fara í gegnum allt verkið sjálft þar sem þeir þekkja söguna svo vel nú þegar – enda blaðsíðufjöldinn ekkert smáræði (hún er ein lengsta skáldsaga allra tíma). Það eru þó stór mistök þar sem verk Hugos býr yfir krafti sem þýðist ekki vel (eða jafnvel alls ekki!) yfir í kvikmyndir, sjónvarpsþætti eða aðrar listgreinar eða miðla. En þessi kraftur fór ekkert á milli mála á sínum tíma. Hann fór til dæmis ekki fram hjá Kaþólsku kirkjunni sem bannaði þessa „sósíalísku stefnuskrá“.
Þemu bókarinnar er endurlausn, ást, réttlæti, glæpur og refsing, siðfræði og ekki síst samstaða. Epíska frásögnin byrjar við endann á „hundrað dögum“ Napóleons, endurkomu hans úr útlegð á Elbu, og nær fram til Júlí byltingarinnar. Sagan er byggð upp í kringum tilraunir strokufangans Jean Valjean til að sleppa undan klóm lögreglumannsins Javert sem er með þráhyggju fyrir að koma honum aftur á bak við lás og slá.
Hugrekki og samúð hetjunnar Valjean, sem er fangi og því á botni samfélagsins, koma í ljós þegar hann stendur endurtekið frammi fyrir ótrúlegri grimmd, sorg og óréttlæti. Með því afhjúpar Hugo brenglunina á gildum – og ósamræmið milli laganna og réttlætis – í samfélagi þar sem gríðarlegur auður byggir á grunni fátæktar og óréttlætis. Í ferðalagi sínu fer Valjean frá ítrustu örvæntingu sem strokufangi til efri laga samfélagsins og þæginda sem bæjarstjóri í litlum bæ, og aftur til botnsins þegar hann er sendur í fangelsi á ný eftir að hafa afhjúpað hver hann er í raun. Hann finnur loks hamingjuna sem forráðamaður stúlkunnar Cosette, sem hann bjargar úr grimmum klóm Thernadier hjónanna – en bláfátæk og örvæntingarfull móðir hennar Fantine hafði skilið hana eftir í þeirra umsjá.
Verkið er þó alls ekki gallalaust. Skáldsagan er – og hefur verið alveg frá byrjun – þyrnir í augum margra bókmenntagagnrýnenda sem hafa keppst við að rífa hana (og lesendur hennar) í sig. Væmnin getur vissulega verið nokkuð yfirdrifin. Þá er fullt af löngum útúrdúrum, t.d. um sögu holræsakerfis Parísar, sem bæta litlu sem engu við frásögnina. Einnig reiðir plottið sig á svo ótrúlegar tilviljanir að lesandinn missir trúnna á heim skáldsögunnar, skáldskapareðlið kemur einum of berlega í ljós (eitthvað sem er þó algengt í nítjándu aldar skáldsögum og má einnig finna hjá Dickens).
En þegar kemur að einlægri samúð með hinum undirokuðu og lægst settu – sem Hugo skrifaði bókina fyrir og eru ástæðan fyrir ótrúlegri velgengni hennar – ásamt eldheitri reiði yfir félagslegu óréttlæti og byltingaranda, þá er fátt sem toppar Les Misérables Hugos. Eins og Hugo sagði sjálfur um bókina:
„Ég veit ekki hvort hún verði lesin af öllum, en hún er skrifuð handa öllum. Hún ávarpar England og Spán, Ítalíu og Frakkland, Þýskaland og Írland, ríki sem nýta sér þræla sem og heimsveldi með bændum í ánauð. Félagsleg vandamál hafa engin landamæri. Sár mannkynsins, sem finna má um heim allan, stöðvast ekki við bláar og rauðar línur á landakortum. Hvar sem menn fara um í fáfræði eða örvæntingu, hvar sem konur selja sig fyrir brauð, hvar sem börnum skortir bók til að lesa eða hlýjan samastað, bankar Les Misérables á dyrnar og segir: „opnaðu, ég er til staðar fyrir þig.“
Jóhann Helgi Heiðdal