Frelsi kvenna
Pistill
20.10.2017
(Ör-erindi flutt á fundi hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.)
Hæ og takk fyrir að bjóða mér. Ég trúði því lengi, þegar ég var yngri og saklausari, að allir væru femínistar. Af því mér fannst eitthvað svo ósiðlegt að vera það ekki. Hvernig gat nokkur vel meinandi og upplýst manneskja afneitað femínismanum þegar ekki þurfti nema smá gláp á samfélagið til að sjá hversu víða var brotið á konum?
Auðvitað eru ekki allir femínistar, þvílík fásinna. En það gerðist að allir fóru að kalla sig femínista. Í dag er ósmart að segjast ekki vera femínisti. Og við Íslendingar erum smart, fyrst og fremst. Og hvernig færðu einhverjar kellingar með smá vit til að kjósa þig ef þú viðurkennir að vera bara gamaldags karlremba? Meira segja íhald, auðvald og afturhald segjast nú aðhyllast frelsi kvenna.
En frelsi kvenna til hvers? Frelsi til að vera frjálsar eða frelsi til að græða, ríkja yfir og stýra, annars vegar og til að selja sig og vera til sölu, hins vegar.
Og það er það sem láglaunakonur, ófaglærðar konur, aðfluttar verkakonur, þurfa að gera. Við þurfum að selja aðgang að vinnuaflinu okkar í einni, tveimur, jafnvel þremur vinnum. Við þurfum að selja hendurnar okkar, hausinn og hjörtun.
Við vitum að auðvald, íhald og afturhald mun ekki berjast fyrir hagsmunum þessa hóps, heldur taka aktífan þátt í því að gera lífskjör þeirra sem tilheyra hópnum, verri, þrátt fyrir að vera tilbúin til að skreyta sig stolnum fjöðrum kvenfrelsisbaráttunnar. Við vitum að auðvald og frelsun fólks eru ósamrýmanleg.
En hverjar ætla að taka upp baráttuna fyrir velferð láglaunakvenna? Hverjar telja að láglaunakonur og þær konur sem hafa verið jaðarsettar í viðbjóðslegu samfélagi auðsöfnunar séu þess virði að vera settar í fyrsta sæti í pólitískri baráttu?
Það er mér satt best að segja óskiljanlegt að hagsmunir þessara kvenna og barna þeirra séu ekki í algjöru aðalhlutverki í allri pólitískri baráttu vinstrisins á Íslandi. Hvernig getur það verið að því sem næst aldrei er minnst á gríðarlega aukningu á fátækt meðal barna, sem er ein helsta afleiðing síðustu kreppu auðvaldsins, í pólitískri baráttu dagsins í dag? Hvernig getur það verið að vinstrið á Íslandi láti það algjörlega óáreitt að leikskólarnir séu reknir á vinnu kvenna sem geta ekki lifað af launum sínum? Hvernig getur það verið að vinstrið láti það óáreitt að þær sem skúra skólana okkar og spítalana vinni baki brotnu, vinni sig inní stoðkerfisvandamálin og örorkuna, á meðan auðvaldsfjölskyldurnar hagnast á vinnu þessara kvenna?
Nýfrjálshyggjan hefur hneppt okkur öll í hlekki. Okkur; hinar fátæku og blönku, geðveiku og fötluðu, aðfluttu og ómenntuðu, hefur hún hneppt í efnahagslega hlekki, okkur eru allar bjargir bannaðar, nema að bæta við okkur vinnum, selja stöðugt aðgang að vinnuaflinu okkar, selja frítímann okkar, frítímann sem formæður okkar, eftir að hafa verið notaðar sem vinnuhryssur öldum saman, börðust fyrir með hugrekki þeirra sem hafa engu að tapa nema hlekkjunum og heilan heim að vinna, okkur eru allar bjargir bannaðar nema að vera stöðugt á hlaupum, við þurfum að hlaupa hraðar og hraðar til þess eins að færast ekki úr stað, færast ekki enn neðar í kvalalostapíramídanum sem íslenskt samfélag er, og guð hjálpi þeim sem geta ekki selt aðgang að sér, geta ekki hlaupið, guð hjálpi þeim sem þurfa að leita á náðir kerfisins, guð hjálpi þeim sem þurfa að leita á náðir hinna skammarlegu mataúthlutuna-fyrirbæra, sem þrífast eins og nítjándu aldar martraðir Engels, ódrepandi uppvakningar sadismans sem kapítalisminn er, guð hjálpi þeim sem þurfa að leita á náðir Féló, sem þurfa að bíða í kvíðaröskunnar-þunglyndisbiðröðinni þar. Guð hjálpi þeim sem gefast upp í auðvaldssamfélaginu. Því hvað bíður þeirrar sem getur ekki meir?
Ykkur, sem tilheyrið menntuðu millistéttinni, hefur hún hneppt í hlekki hugmyndafræðilegrar hræðslu, hún hefur kennt ykkur að vera varkár og kurteis, prúð og guð hjálpi ykkur, aldrei reið eða æst. Sérstaklega ekki ef þið eruð konur. Hún hefur hneppt ykkur í hlekki samtalsins og sáttarinnar, sem er aldrei sátt eða samtal um neitt annað en útfærsluna á áframhaldandi arðráninu á vinnandi fólki.
Ég fullyrði; sannur femínismi og auðvaldssamfélagið eru ósamrýmanleg. Femínisminn er baráttan gegn kúgun, kapítalisminn er ekkert nema kúgun.
Í sögulegu samhengi er femínisminn stórkostlegt frelsunarverkefni, hvorki meira né minna. Hann snýst um að uppræta ójöfnuð og óréttlæti. Hann snýst að horfast í augu við margþætta kúgun samfélagsins, hann er jarðýtan sem veltir við steinum og neyðir okkur til að horfa á systur okkar sem þjást undir okinu sem kapítalískt feðraveldið hefur lagt á þær, hann er mussukerling, hann er lessa, tussa, hlussa, subba, ljót, frek, ógeðsleg, ofsafenginn og vægðarlaus, hann er gjallarhorn sögunnar, hann er ódrepandi uppvakningar hins sanna frelsis; frelsisins til að hætta að vera aðeins hræ tímans.
Ég hef engan áhuga á framgangi og frama þeirra sem hafa komið sér í framvarðarsveitir auðvaldsins. Ég er sósíalískur femínisti; ég hafna kapítalismanum og ég krefst uppreisnar; uppreisnar kvenna sem eiga ekkert nema líkama sinn, hjarta og haus, ég krefst þess að við umbyltum auðvaldsamfélaginu sem við höfum verið neyddar til að lifa inní, án þess að hafa nokkru sinni verið spurðar.
Ég hafna píkupólitík nýfrjálshyggjunnar, rétt eins og ég hafna þjóðernishyggjunni, ég hafna öllu því sem neitar að horfast í augu við þá staðreynd að stéttarstaða er miðpunkturinn í allri tilveru okkar, og ég umfaðma og treð mér svo inní hinn sósíalíska femínisma; frelsunarverkefni kvenna sem eiga ekkert nema sig sjálfar og samstöðuna og söguna um stórkostlega sigra.
Ég enda á að vitna í sósíalíska femínistann Barböru Ehrenreich og óska okkur góðs gengis með verkefnið:
We aim to transform not only the ownership of the means of production,
but the totality of social existence.
Takk fyrir.
Sólveig Anna Jónsdóttir