DAGUR og sósíalistarnir
Pistill
31.05.2018
Sú ákvörðun Sósíalistaflokksins að lýsa yfir áhugaleysi á að starfa í borgarstjórnarmeirihluta með Samfylkingu, VG, Pírötum og Viðreisn hefur vakið nokkra athygli. Ýmsir gegnir vinstri menn eru hissa á þessu, jafnvel talsvert óhressir. Sumir segja að Sósíalistar séu að gefa frá sér tækifæri til að hafa áhrif, aðrir draga upp hliðstæðu við örlög Kvennalistans sem bauðst ríkisstjórnarþátttaka á 9. áratugnum en hafnaði boðinu.
Ef til vill er við hæfi að skoða nánar meirihlutann, eins og hann var á síðasta kjörtímabili, rætur þessa meirihluta og sögu hans. Ég vil nefna þetta fyrirbæri DAG. Það á sér rætur í Reykjavíkurlistanum, sem náði völdum í borginni 1994 eftir áratuga setu Sjálfstæðisflokksins á valdastóli, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sagnfræðings sem einmitt kom úr Kvennalistanum. Eftir skammvinnt tímabil upplausnar 2006-2010 endurnýjaði vinstri meirihlutinn sig undir forystu Jóns Gnarr borgarstjóra, sem hafði við hlið sér forseta borgarstjórnar. Það var Dagur Eggertsson, sem svo var borgarstjóri 2014-2018.
Reykjavíkurlistinn var í rauninni nýfrjálshyggjuvæðing vinstri flokkanna. Sú nýfrjálshyggjuvæðing gerðist undir fánum „sjálfsmyndarstjórnmála“ þar sem ákveðin tegund af kvenfrelsisstefnu lék stórt hlutverk. Frelsishreyfingar kvenna, homma og lesbía og annarra kynferðis- og kynþáttaminnihluta fengu að leika lausum hala á forsendum nýfrjálshyggjunnar, nánar tiltekið þeirrar útgáfu sem kallast Washington Consensus og felst í alþjóðavæðingu, einkavæðingu og fjármálavæðingu undir stjórn Bandaríkjanna, AGS og Alþjóðabankans. Einnig Evrópusambandsins. Hugmyndin var svo að ganga í Evrópusambandið og náði sú hugmynd svo langt að „vinstri“ stjórnin svokallaða 2009-2013 leit á það sem hlutverk sitt að sækja um aðild Íslands að Evrópusambandinu í miðju hruni. Það var vægast sagt afar óviðeigandi, hefur mér alltaf fundist.
Við hlið „sjálfsmyndarstjórnmála“ varð hipster-kúltúrinn mikilvægur þáttur í áframhaldandi tilvist þessa fyrirbæris, Reykjavíkurlistans-Besta flokksins-DAGS. Iceland Airwaves, Björk, Sigur Rós, Kex hostel, Harpa voru birtingarmyndir þessarar hliðar hinnar ofursvölu Reykjavíkur. Þessi þáttur bættist við og endurnýjaði upphaflega bandalagið milli nýfrjálshyggjunnar og sjálfsmyndarhreyfinganna. Hipsterar eru besta fólk í sjálfu sér og ekkert að því að búa til góða tónlist, þannig séð.
Það má svo benda á þriðju rótina að DEGI, og hana er að finna einhvers staðar í ólgu búsáhaldabyltingarinnar veturinn 2008-2009. Sú mikla alþýðuuppreisn fann sér ýmsa farvegi og er enn að því. Einn slíkur farvegur var grínframboð Jóns Gnarrs, Besti flokkurinn, sem leiddi ólgu búsáhaldabyltingarinnar inn á tiltölulega hættulausar brautir (fyrir yfirstéttina) í stjórn Reykjavíkurborgar. Besti flokkurinn rann svo hljóðlega saman við Samfylkinguna í kosningunum 2014 og DAGUR var orðinn fullmótaður. Hann stjórnaði borginni næstu fjögur ár.
Þessi útgáfa af Washington Consensus öfgamiðjustjórnmálum lítur svo á (eins og allar fyrri útgáfur) að MBA-samfélagið sé besta samfélag allra samfélaga. Sem allra flestir skuli læra Master of Business Administration, en þó ekki allir, því einhverjir verða að vera á svæðinu til að stjórna. Það er lágstéttin, erlent verkafólk, fátækar einstæðar mæður, verkafólk af öðru tagi, oftast konur, fólk sem hefur ekki komist í MBA nám í Háskólanum í Reykjavík. Í MBA samfélaginu er best að sem allra stærstur hluti af vinnuaflinu komi frá starfsmannaleigum, og þeir sem ekki koma frá þeim skuli vera „sjálfstætt starfandi“, á verktakalaunum sem gera að verkum að viðkomandi losna að verulegu leyti úr tengslum við það öryggisnet sem launþegar búa við í gegnum verkalýðsfélög. Þetta fólk hefur laun sem ekki duga til framfærslu, og dregur fram lífið hér og þar innan um samfélagsrústirnar. Síðan hefur orðið mikill hvalreki, ferðamannaiðnaðurinn hefur tekið upp slakann sem skapaðist í hruninu og allir atvinnulausu menntamennirnir hafa fengið atvinnu sem leiðsögumenn erlendra ferðamanna — en þá verða þeir að taka meirapróf. Ferðamannaiðnaðurinn hefur líka leitt til þess að fátæka fólkið er ofurselt skelfilegum húsnæðismarkaði sem DAGUR hefur ekkert gert til að ráða bót á. Fólk er látið borga 240.000 krónur fyrir þriggja herbergja leiguíbúð í Reykjavík. Venjuleg laun starfsfólks á leikskólum eru einmitt um 240.000 krónur, þannig að hjá fólki sem vinnur á leikskólum, er einstæðar mæður og býr í Reykjavík fara allar tekjurnar í að greiða leigu af húsnæði.
DAGUR er því eins konar afturganga Reykjavíkurlistans, blairismi á tíma þegar hann liggur jafnvel steindauður í upprunalandinu og alvöru sósíalisti er meira að segja kominn með völdin í vöggu blairismans, breska Verkamannaflokknum. Það er Jeremy Corbyn. DAGUR er tímaskekkja, misskilningur sem hefur orðið til fyrir tilviljun og hefur ekkert að gera með vinstri stefnu.
Það er löngu kominn tími til að setja þetta fyrirbæri á safn, t.d. Árbæjarsafnið. Nú virðist hafa orðið sú vending að Samtök atvinnurekenda (undir heitinu „Viðreisn“) eru komin til liðs við DAG, og getur það ekki orðið annað en til bölvunar. Hvar annars staðar er MBA-samfélagið í hærra gengi en í Samtökum atvinnurekenda? Hafa þau samtök áhuga á því hvernig einstæðar mæður í fokdýrum leiguíbúðum hafa það? Nei, og það er áhugavert að DAGUR skuli vilja endurnýja sig með þessum liðsauka, en samt alveg fullkomlega í samræmi við uppruna og verufræði fyrirbærisins. Hitt er undarlegra að Píratapartíið og VG, sem er nokkuð róttækur flokkur (alla vega í Reykjavík og líka víða úti á landi nema helst á Gunnarsstöðum í Þistilfirði), skuli, eftir allt umrót síðustu tíu ára, láta hafa sig út í nýtt DAGS tímabil.
Erlenda verkafólkið, einstæðu mæðurnar og láglaunastéttir sem skipaðar eru konum að miklu leyti hafa nú fengið rödd. Sú rödd heitir Sósíalistaflokkur Íslands. Meðlimir þessa flokks hafa boðið fram, t.d. í stjórn verkalýðsfélagsins Eflingar, þar sem meðlimur Sósíalistaflokksins situr nú í formannssæti, og í borgarstjórn og fengið þar fulltrúa. Einhverjir furða sig á því að Sósíalistaflokkurinn skuli ekki vilja ganga til liðs við DAG. Í ljósi sögu þessa fyrirbæris (DAGS) er mjög undarlegt að nokkur vinstri maður skuli vilja ljá máls á því að halda því við völd. DAGUR og Sósíalistaflokkurinn eru eins og olía og vatn. Þessi fyrirbæri geta ekki blandast, og stafar það af sögu þeirra. DAGUR er eins og áður segir afturganga nýfrjálshyggjunnar, en Sósíalistaflokkurinn er nýjasta og þróaðasta birtingarmynd þeirrar róttækni sem varð til í búsáhaldabyltingunni.
Almenningur hefur lært talsvert á síðustu tíu árum. Menn hafa reynt ýmislegt, rekið sig á, gert mistök, gert ýmislegt rétt líka, og niðurstaðan er núna sú að róttæk vinstri stefna er að sækja í sig veðrið. Marx gamli er kominn á kreik á ný. Sú staðreynd að róttækni búsáhaldabyltingarinnar skuli nú hafa fundið sér farveg í Sósíalistaflokknum, í róttækum fronti í verkalýðshreyfingunni og sigri Sósíalistaflokksins í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík veldur skelfingu hjá Samtökum atvinnurekenda (varaformanni „Viðreisnar“), og hjá fulltrúum þeirra í Ríkisútvarpinu. Slík skelfing er alveg eðlileg, þetta er skelfileg þróun, út frá sjónarhóli Samtaka atvinnurekenda séð.
Skelfingin vex eftir því sem Sósíalistaflokknum vex ásmegin. Það er ýmislegt reynt til að sporna við þessari þróun og vinsælast hefur verið að benda á þann hræðilega Gunnar Smára Egilsson, sem hafi skilið eftir sig slóð gjaldþrota og örvæntingarfulls launafólks án atvinnu og launa. Alltaf gleymist að benda á annan ritstjóra sem er svo skelfilegur, í alvörunni, að það þyrfti helst að minna á það daglega í löngu máli í mörgum blaðagreinum, og í öllum fréttum Ríkisútvarpsins, alla daga ársins, bæði sjö- og tíufréttum. Sá ritstjóri var eitt sinn forsætisráðherra og svo Seðlabankastjóri og á sök á hruninu í október 2008, hvorki meira né minna. Núna er líka orðið vinsælt að benda á hversu ömurlegt það sé að Sósíalistaflokkurinn skuli rjúfa samstöðuna sem skapaðist meðal vinstri manna gegn Sjálfstæðisflokknum í borginni 1994, samstöðuna sem Ingibjörg Sólrún leiddi. Það verður sjálfsagt endurtekið æ ofan í æ á næstu mánuðum og árum, og Sanna Magdalena verður útmáluð sem skelfileg persóna hvað eftir annað, en það mun hafa alveg jafn mikil áhrif og tilraunin til að gera skrímsli úr Gunnari Smára (þ.e. engin). Sanna Magdalena er líka einhvern veginn frekar lítið skelfileg, það sjá allir og heyra, þannig að þetta mun kannski ekki virka svo vel. Það ætti frekar að benda á afturgönguna DAG, og helst mjög oft á dag, þangað til öllum er orðið ljóst að DAGUR er tímaskekkja og ekki upp á hann púkkandi, ekki ef menn vilja láta telja sig alvöru vinstri menn. En við sitjum víst uppi með þetta fyrirbæri í Ráðhúsinu næstu fjögur árin.
Árni Daníel Júlíusson