Nútímavæðing nýfrjálshyggjunnar
Pistill
26.02.2020
Nýfrjálshyggjan stýrir nútímanum, hvort sem við viljum það eða skiljum það – eða ekki. Hin nýklassísku lögmál kapítalismans eru samgróin tilveru okkar og viðhalda sér í undirvitund hinnar alþjóðavæddu þjóðarsálar. Nýfrjálshyggjan stýrir okkur en stjórnar ekki enda felst stýringin í frelsinu sjálfu, eða öllu réttara sagt, í hugmyndinni um frelsið; í valfrelsinu. Frá degi til dags upplifa þegnar samfélagsins sig frjálsa þar sem þeir telja sig lifa lífinu á eigin forsendum; þeir velja sér starfsvettvang, maka, húsnæði, áhugamál, stjórnmálaflokk og sína uppáhalds bjórtegund en þeir geta ekki (svo auðveldlega) valið að velja ekki. Neysluhyggjan er líklega það sem nýfrjálshyggjan kemst næst því að kalla sjálfgengissamfélag þar sem neysluhringrásin viðheldur sjálfri sér í lífsgæðakapphlaupinu sem enginn á möguleika á að vinna. Framboðið réttlætir framleiðsluna með vísun í eftirspurnina sem myndast vegna aukins framboðs: Framboðið stýrir þannig eftirspurninni sem einnig stýrir framboðinu. En hver stýrir stýringunni? Út frá hugmyndum nýfrjálshyggjunnar þá erum það við sjálf.
Hér verður athyglinni beint að þeim áhrifaþáttum sem helst tilgreina nútímavæðingu nýfrjálshyggjunnar og virka þannig sem einskonar stýringartæki á þróun samfélagsins; viðhorf okkar og gildismat. Það eru einkum hinir ytri þættir hugmyndastefnunnar sem stýra innri þáttum hennar. Þótt ekki séu alltaf skýr mörk er gagnlegt að hafa í huga að hægt er að aðgreina áhrifaþættina með beinni og óbeinni stýringu. Þar er átt við muninn á augljósum áhrifaþáttum eins og auglýsingum (markaðshyggju) og síðan þeim sem eru okkur duldir eins og siðir, venjur, lífsmáti eða aðrir samfélagslegir þættir. Með nútímavæðingu er í fyrsta lagi átt við þá mynd nýfrjálshyggjunnar sem birtist í breyttum lifnaðarháttum okkar sem einstaklinga; áhrif tækninnar, markaðshyggju, breyttri samfélagsgerð og alþjóðavæðingu/hnattvæðingu svo eitthvað sé nefnt. Í öðru lagi beinist nútímavæðing nýfrjálshyggjunnar að viðskiptum; m.a. að fyrirtækjavæðingu, peningastefnu, einkavæðingu og alþjóðaviðskiptum; og í þriðja lagi er vert að beina athyglinni að breyttu landslagi stjórnmálanna og hvaða áhrif það hefur á hlutverk og vægi lýðræðisins.
(1) Einstaklingar: Ein af grunnstoðum kapítalískrar hugmyndafræði er einstaklingshyggja sem fer fram á frelsi einstaklingsins til að skapa og stjórna eigin lífi. En einstaklingshyggjan tilheyrir einnig þeirri hugsun og stefnu að hver einstaklingur eigi fyrst og fremst að sjá um sjálfan sig (og kannski sína nánustu) frekar en að einstaklingar og samfélag hafi gagnkvæmum og sameiginlegum skyldum að gegna eins og félagshyggja segir til um. Sú róttæka einstaklingsvæðing sem átt hefur sér stað með áherslum nýfrjálshyggjunnar síðustu áratugi er talin hafa leitt af sérumtalsverða breytingu á stöðu, hlutverk (ábyrgð) og sjálfsmynd einstaklingsins í samfélagi síðnútímans. Þessar flóknu hugmyndir um lífvald markaðshyggjunnar og kapítalisma sjálfsins eru þær sem telja að einstaklingshyggja leiði að öllu jöfnu af sér ákveðið félagslegt rof sem elur af sér ótta, óöryggi og jafnvel vanmátt gagnvart tilverunni. Það er því ekki ólíklegt að einstaklingshyggjan hreinlega ýti undir tómhyggju á borð við níhilisma og sældarhyggju, sem takmarkar öll sameiginleg gildi frekar en að upphefja einstaklinginn og veita honum frelsi og styrk til að móta hið góða líf.
Stýringarsamfélag nýfrjálshyggjunnar einkennist af upplausn samfélagslegra eininga þar sem hefðbundið hlutverk þegnanna; einstaklinganna, sjálfverunnar tekur breytingum. Hinir hefðbundnu einstaklingar ögunarsamfélagsins eru ekki lengur mæður, húsverðir eða borgarar heldur fyrst og fremst neytendur; tölfræðileg stærð og/eða númer (bankareikningur / kennitala), og stýringin einkennist af því: Markaðshyggjan stýrir lífsmynstri „staklinganna“ þar sem auglýsingar, áhrifavaldar (Instagram-snapparar), vinsældir og tíska tekur sífellt meira pláss í tilverunni með aðkomu snjallsíma og samfélagsmiðla. Stýringin er yfirþyrmandi og þverstæðukennd þar sem einstaklingsfrelsinu fylgir sú (stýrða) krafa að falla inn í hópinn. Neyslan felur í sér frelsi án ábyrgðar; skyndiánægju sem markaðsett er sem hamingja en er skammlíf og því tekur við næsta neysluhringrás framboðs og eftirspurnar. Kúgun hinnar kapítalísku stýringar felst ekki í útilokun frá velmeguninni heldur í hlutdeild okkar í henni. Einstaklingshyggja er hugmyndafræði og/eða viðhorf sem augljóslega ýtir undir samkeppniá kostnað samvinnu. Þannig erum við ekki bara neytendur heldur einnig keppendur í lífsgæðakapphlaupinu. Markaðssetning einkalífsins; ímynd einstaklingsins er augljós á samfélagsmiðlum eins og Facebook og Instagram. Þau gildi sem tilheyra viðskiptalífinu; eins og hagnaður, samkeppni, auður og vald persónugerast og stýra viðhorfum og gildismati nútímamannsins. Nýfrjálshyggjan er því eins konar efnahagsleg löghyggja þar sem lögmál og tengsl markaðarins stýra innri formgerð samfélagsins og eðli samskipta okkar og lífsviðhorfa innan þess. Slík krafa þykir sterk þar sem hún dregur fram skilyrðislaust orsakasamband milli efnahagslegra þátta í okkar hversdagslega lífi; eins og t.d. framleiðsluhátta, neyslu og lífsviðurværis og óefnahagslegra þátta; eins og t.d. félagslífs, stjórnmálaskoðana, menntunar og jafnvel trúarskoðana. Jafnvel þótt flest vestræn samfélög búi við blandað hagkerfi og tileinki sér þ.a.l. bæði stefnu einstaklingshyggjunnar og félagshyggjunnar er ljóst að í ákveðnum skilningi hefur kapítalisminn og einstaklingshyggjan sigrað. Ástæðan þarf ekki að vera sú að maðurinn sé í eðli sínu gráðugur og valdasjúkur heldur miklu fremur er hann trúgjarn og fylginn; hann er hjarðdýr sem auðvelt er að stjórna og stýra.
(2) Viðskiptalífið: Alþjóðaviðskipti nútímavæðingarinnar er flókinn heimur hugtaka, aðferða, og kenninga sem ómögulegt er að skýra hér á skilvirkan hátt. Það sem skiptir máli og einkennir einkum viðskiptaheim nýfrjálshyggjunnar er sú einfalda en skilyrðislausa krafa sem hluthafar og eigendur fyrirtækja setja stjórnendum sínum; hagnaður. Slík krafa er í sjálfu sér ekki óeðlileg, enda undarlegt markmið með viðskiptum að tapa peningum, en þegar krafan snýst nánast alfarið og undantekningalaust um að hámarka alltaf hagnaðinn frá ári til árs setur það ekki bara mark sitt á viðskiptalífið heldur einnig á þróun samfélagsins almennt.
Þessi mikla áhersla á hagnað leiðir til þess að hagnaðarhvatinn (m.ö.o. græðgin) verður allsráðandi; annars vegar hefur hann afgerandi áhrif á starf innan fyrirtækjanna; alla ákvarðanatöku, stefnumótun, umbunarkerfi og markmiðasetningu og hins vegar er hann notaður til að réttlæta aðgerðir og ákvarðanir í nafni hagnaðar: Hann er í senn markmiðið sjálft, leiðirnar að því og réttlætingin fyrir hvoru tveggja. Sem einn af aðal drifkröftum hagkerfisins birtist hagnaðarhvatinn einkum í markaðshyggjunni (að auka alla neyslu og stækka markaðslega hlutdeild), hagræðingu í framleiðslu (draga úr kostnaði; lækka laun, tæknivæðast, flytja framleiðsluna til fátækari landa, fjöldaframleiðsla, draga úr gæðum, ganga á náttúruauðlindir) og í hagrænni örvun (bónusagreiðslur, fjórðungsuppgjör og alls kyns árangursdrifnu mati). Birtingamynd hagnaðarhvata nýfrjálshyggjunnar einkennist einkum af skammtímasjónarmiðum, áhættusækni og/eða rekstri án ábyrgðar, forræðishyggju (ákvarðanir eru teknar út frá hagsmunum þeirra sem stjórna) og útþensluhneigð.
Afleiðing nýfrjálshyggjunnar birtist okkur einkum í yfirgengilegum efnahagslegum ójöfnuði þar sem framganga viðskiptalífsins er réttlæt með brauðmolakenningunni; þ.e. að ójöfnuðurinn skili samfélaginu öllu betri lífsafkomu en ella. Önnur réttlæting ofurframleiðslu og ofurhagnaðar beinist að samkeppni og þeirri staðhæfingu að markaðurinn endurspegli ákveðna eftirspurn; „þetta er það sem fólkið vill“ segja talsmenn stórfyrirtækja og varpa þannig ábyrgðinni á neytendur sem neyðast öllu jafnan að velja ódýrari kostinn þótt hann sé e.t.v. óhollur og/eða óumhverfisvænn. Þannig ráða fyrirtæki ferðinni. Þeirra hagsmunir yfirgnæfa hagsmuni þegnanna því þeir eru taldir mikilvægari fyrir hagvöxtinn og þ.a.l. velferð samfélagsins. Þannig öðlast fyrirtæki frelsi og réttindi sem áður tilheyrðu einungis borgurum samfélagsins. Persónugerving fyrirtækja í lagalegum skilningi er gott dæmi um þetta þar sem t.d. málfrelsi og skoðanafrelsi (og jafnvel trúfrelsi) tryggir fyrirtækjum ákveðinn rétt innan laganna og styrkir þannig stöðu þeirra innan kerfisins.
Hugmyndastefna nýfrjálshyggjunnar felur í sér óbeina og óopinbera hagsmunagæslu fyrir ríkustu stéttirnar sem gera allt sem í þeirra valdi stendur (og það er mikið vald) til að standa vörð um hagsmuni sína og að halda ástandinu óbreyttu. Áherslur hægri stjórnmálaafla á frelsi markaðsins eru augljóslega slíkum forréttindastéttum í hag þar sem slíkt efnahagslegt frelsi eru ákjósanlegar fyrir stjórnendur stórfyrirtækja til að auka hagnað fyrir hluthafa sína. Það er því ekki undarlegt að fylgismenn nýfrjálshyggjunnar beiti sér á hinum pólitíska vettvangi hvort sem það er hreinlega með beinni efnahagsráðgjöf eða óformlegum áhrifaþáttum á borð við lobbyisma. Þannig eru viðskipti og stjórnmál samofin hagsmunablanda þar sem regluverk ríkisvaldsins beygir sig og hneigir fyrir kröfum/áhrifamætti viðskiptalífsins, sem stuðlar að auknum hagvexti og leiðir þannig samfélögin (og hina kjörnu fulltrúa þeirra) í átt að aukinni hagsæld. Slíkur darraðadans er frekar undarlegur í ljósi kröfu nýfrjálshyggjunnar um lítil sem engin afskipti af hendi ríkisvaldsins. Þvert á móti virðist hugmyndastefnan bera með sér ákveðna pólitíska íhlutun þar sem beinum áhrifum er beitt til að ná fram stefnuþáttum hugmyndastefnunnar, t.d. einkavæðingu samfélagslegra stofnana, skattalækkunum (einkum á fyrirtæki) og fríverslunarsamningum. Vegna þessara auknu ítaka viðskiptalífsins í stjórnmálum er staðan orðin þannig að sumar af stærstu alþjóðlegu fyrirtækjasamsteypum veraldar eru (löngu) orðnar valdameiri en flest ríki heims.
(3) Vettvangur stjórnmálana: Eins og kom fram hér að ofan felur stefna nýfrjálshyggjunnar í sér pólitíska virkni með það markmið að framkalla nýja félagslega og pólitíska samfélagsgerð. Í bókinni The Birth of Biopolitics undirstrikar Michel Foucault, einn þekktasti heimspekingur nútímans, þessa áherslu á hina pólitísku stýringu nýfrjálshyggjunnar umfram hina efnahagslegu hugmyndastefnu: Hvernig hinar ríkjandi pólitísku stéttir geta tryggt sér völd með því að útfæra pólitískar aðgerðir sínar eftir grundvallarreglum markaðshagkerfisins. Þannig er ekki hægt að lýsa nýfrjálshyggjunni sem laushalastefnu (laissez-faire: afskiptaleysi stjórnvalda) heldur fremur sem fyrirhyggjusamri stefnu athafna og íhlutunar. En valdinu er ekki einungis stýrt með aðferðum markaðshyggjunnar heldur geta ríkjandi öfl einnig skapað þegna sína eftir eigin pólitískum stefnum. Slíkt hugstjórnarfar (e. governmentality) er flókin gerð valdastýringar sem beinist að fólksfjöldanum og beitir pólitískri efnahagslegri þekkingu og öryggi sem stjórnunartækjum. Hér er vissulega verið að nálgast ákveðna túlkun á hugmyndastefnu nýfrjálshyggjunnar út frá mjög fræðilegri greiningu en umræðan um breytt landslag stjórnmálanna er almenn og áberandi í nútíma samfélögum. Fólk er að átta sig á því að kosningar snúast ekki lengur um lýðræði; að lýðurinn velji sér fulltrúa sem berst fyrir og stendur vörð um hagsmuni hans. Völdum er náð með gífurlegu magni af peningum, spillingu og falsfréttum sem auðveldlega skiptir fólki í ólíkar fylkingar og ýtir þannig undir samfélagslega sundrungu. Fjölmiðlar eru flestir í einkaeigu og taka þátt í múgæsingunni því falsfréttirnar vekja athygli og athygli selur auglýsingar; allt eftir leiðum markaðshyggjunnar. Hinn almenni kjósandi, sem jafnan er ringlaður, illa upplýstur og uppfullur af reiði og/eða vanmáttarkennd, er búinn að missa trúna á atkvæði sitt; á sína lýðræðislegu ákvörðunartöku. Hann veit að hann hefur ekki lengur neitt vald því valdið er hjá þeim sem valdið hafa. Hann hættir því bara að velta þessu fyrir sér, opnar einn kaldan og kveikir á Netflix.
Ofangreindur pistill er kafli úr MA ritgerð höfundar „Fíllinn í stofunni – getur sjálfbærni þróast í kapítalísku samfélagi?“