Sanngjörn skattheimta, fallegt samfélag
Pistill
14.12.2020
Fyrir okkur Sönnu er fátt sem minnir jafn mikið á að jólin séu að koma og síðari umræða fjárhagsáætlunar. Ekki svo mikið vegna þess að þetta tilefni sé eitthvað svo hátíðlegt heldur eins og með jólin þá er fátt sem sýnir á jafn svart á hvítu misskiptingu auðs í samfélaginu okkar. Í fjármálaáætlun meirihlutans eru fjölmargar litlar tilfærslur, hagræðingarkröfur og vissulega einhverjir ágætir hlutir en það sem okkur sósíalistum finnst vanta eru stórhuga áætlanir hvernig við getum bætt líf allra og það sem skortir algjörlega í borginni er einhver lobbýismi gagnvart ríkinu um réttlátari skattinnheimtu. Fyrst langar mig að ræða aðeins tekjuöflun. Tölurnar sem ég set fram hérna á eftir eru settar fram eins og þær myndu dreifast eftir fólksfjölda. Ef sveitafélögin fengu nú leyfi til þess að setja útsvar á fjármagnstekjur, setja skatt á fólkið sem borgar einna minnst til samneyslunnar, mætti gera ráð fyrir því að tekjur Reykjavíkur myndu hækka um rúma 7 milljarða sé miðað við hámarks útsvar.
Til þess að setja þessar risa tölu í samhengi að þá myndu þessir milljarðar duga til þess að gera skólakerfi Reykjavíkur gjaldfrjálst og þá er ég að tala um leikskóla, grunnskóla, skólamáltíðir og frístundaheimili. Ekki nóg með að þetta myndi duga fyrir þessu öllu heldur myndu 7 milljarðar geta borgað fyrir þetta tvisvar. Annar liður í tekjuöflun sveitarfélaga sem vantar algjörlega að tala um eru aðstöðugjöld á fyrirtæki. Það var skattur sem lagður var á án tillits til rekstrarhagnaðar sem auðvelt er – og algengt er – að sé falinn í bókhaldi og frádráttarheimildum, þess í stað var þetta skattur á veltu.
Ein rök fyrir aðstöðugjaldi er að fyrirtæki nýta innviði og þjónustu sem sveitarfélögin leggja til og almenningur kostar en þessi gjöld voru lögð af áramótin 1992-1993. Þetta var 1-1,3% af veltu fyrirtækja og gróflega reiknað, miðað við tölur hagstofunnar, myndi þetta skila Reykjavík varlega áætlað kannski 15 milljörðum. Sósíalistar í borginni hafa lagt það til að borgin krefji ríkið um það að setja þessa tvo skatta á og það er nokkuð ljóst að auka 22 milljarðar gætu breytt ýmsu þegar kemur að jöfnuði í borginni.
Þá ætla ég að vinda mér að breytingatillögum sósíalista við fjárhagsáætlun meirihlutans í Reykjavík. Fyrst vil ég nefna þá tillögu sósíalista að hækka grunnupphæð fjárhagsaðstoðar upp í lágmarkslaun. Þetta er að okkar mati nauðsynleg aðgerð vegna þess að það er ekki hægt að ætlast til þess að nokkur lifi mannsæmandi lífi og standist skil á skuldbindingum sínum fyrir 212.000 kr á mánuði. Þetta myndi kosta borgina u.þ.b. 3,5 milljarða og ef allir greiddu sinn skerf til samfélagsins væru þá 18,5 eftir.
Næst höfum við lagt til að allir sem hljóta fjárhagsaðstoð fái desemberuppbót en nánast allir aðrir í samfélaginu fá slíkt og það er nokkuð ljóst að ef stjórnvöld vilja dæla peningum í hagkerfið er best að láta verst setta fólkið fá þá því þau eyða honum um leið í þjónustu og vörur. Þetta myndi kosta um 14 milljónir sem er dropi í hafið fyrir borgina en gæti skipt sköpum fyrir margar fjölskyldur, 18,5 milljarðar eftir. Þá leggja sósíalistar það til að leigjendur Félagsbústaða þurfi ekki að greiða leigu fyrir desember. Aftur þá erum við að leita leiða til að örva hagkerfið en á sama tíma veita fólki aðeins minna áhyggjuleysi. Þetta myndi kosta um 300 milljónir, 18,2 milljarðar eftir.
Við erum einnig með tillögu um það að þeir sem þurfa að nýta sér akstursþjónustu fatlaðs fólks geti keypt árskort í stað þess að greiða fyrir hverja ferð en sumir eru að borga um 100.000 kr á ári. Þessi tillaga myndi kosta borgina um 35 milljónir, 18,2 milljarðar eftir. Sósíalistar í borginni leggja einnig til að skólakerfið verði gjaldfrjálst að öllu leyti þ.m.t. leikskólar, skólamáltíðir og frístundaheimili. Það ætti að vera öllum ljóst að það að greiða fyrir leikskóla, frístund og skólamáltíðir er í raun fáránlegt og er það skoðun okkar sósíalista að þegar kemur að börnum á hugmyndin alltaf að vera engar tekjur, engin gjöld. Þessi aðgerð myndi kosta borgina 3,5 milljarða, 14,7 milljarðar eftir.
Þá ætlum við að leggja til að borgin veiti öllum þeim sem hafa fengið samþykktan NPA samning fjármagnið sem þau þurfa og að borgin rukki síðan ríkið eftir á því að það á aldrei að vera kvóti á mannréttindi. Að lokum munum við leggja það til að borgin fari í stórt og metnaðarfullt átak í uppbyggingu félagslegs húsnæðis sem miðar að því að eyða með öllu biðlistum hjá Félagsbústöðum en velferðarsvið reiknar að það ætti að kosta um 21 milljarð en þar sem leiga er greidd af þessum íbúðum er kostnaðurinn í raun mun lægri.
Það er ljóst að ef allir greiða réttlátan hlut til samfélagsins er hægt að breyta miklu, bæta mörg líf og ráðast í alvöru stórhuga breytingar. Vissulega er ástandið öðruvísi núna en í fyrra og ef skattleysismörk væru reiknuð inn í myndina myndu upphæðirnar allar breytast eitthvað en staðreyndin er samt sem áður sú að ef fyrirtæki og fjármagnseigendur greiddu sinn hlut til samneyslunnar væri hægt að búa til fallegt og gott samfélag fyrir alla.