Að selja beljuna fyrir fimm mjólkurfernur
Pistill
18.01.2021
Ríkið á náttúrulega ekki að standa í svona rekstri.“
Þetta var auðveldasta línan fyrir hægrimenn að komast upp með í upphafi aldarinnar í fjölmiðlaumræðum um einkavæðingu af því að hver sem andstæðingurinn var vaknaði aldrei nokkurn tíma spurningin: „Hvers vegna ekki?“
Hvers vegna í krókloppnum kjúkum Kölska á Kópaskeri ekki?!
Í þá daga var það auðveld klapplína að halda því fram að hin og þessi starfsemi ætti að vera í höndum einkaaðila. Þess vegna náði andstaðan gegn bankaeinkavæðingunni 2002 engu flugi. Nýfrjálshyggjan var alltumlykjandi og Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson fengu að fara í viðspyrnulausan Frúin í Hamborg-leik í sjónvarpsviðtölum um það hvað þeir ætluðu að gera fyrir peninginn sem fengist fyrir ríkisbankana. Og auðvitað Landssímann. Já, vel á minnst, Landssíminn.
Í þingumræðunni setti stjórnarandstaðan út á þau söluplön og þá kom aldeilis í ljós hvert viðhorf sjálfstæðismanna væri í garð þeirra sem gagnrýndu framkvæmdina. Sturla Böðvars sagði: „Þingmaðurinn gerir tilraun til þess að draga kjarkinn úr ríkisstjórninni og fullyrðir að mikil andstaða sé við sölu hlutabréfa Símans og það eigi að hætta við. Hann vill að við gefumst upp. Enda þótt um stund blási á móti, hv. þingmenn, í einkavæðingunni munum við halda okkar striki þrátt fyrir nöldur stjórnarandstöðunnar.“
Gagnrýnin var sem sagt nöldur.
Lýðræðið dauður bókstafur.
Þessi sami gorgeir gagnvart „mikilli andstöðu“ almennings er enn við lýði en almenningur er ekki eins sofandi yfir einkavæðingaráróðrinum. Í könnun sem var gerð í október 2018 í tengslum við Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið vildu aðeins um 14% landsmanna selja banka ríkisins til einkaaðila og 61% voru „jákvæðir gagnvart ríkinu sem eiganda banka“. Í könnun sem lýðræðisfélagið Alda lét gera í febrúar 2020 vildu svo eintóm 19% landsmanna einkavæðingu í bankakerfinu. Vilji þjóðarinnar er ljós; almenningur vill ekki að bankarnir verði færðir í hendur einkaaðila. Einhver ætti að segja Bjarna Benediktssyni það. Hann er nefnilega, eins og lýðum er kunnugt, harðákveðinn í að selja Íslandsbanka.
Steingrími J. Sigfússyni virðist sömuleiðis vera ókunnugt um vilja almennings í þessum efnum. Hann hefur nefnilega „engar áhyggjur“ af sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka þar sem það hafi ekki verið nein „sérstök stefna að ríkið ætti að eignast Íslandsbanka“ og að þar af leiddi að það ætti „ekki að vera einhver sérstök stefna að ríkið eigi að eiga hann áfram.“ Hann sér enga ástæðu fyrir því að hætta við þessa sölu.
Hann og Bjarni.
Enga ástæðu.
Þeim er sem sagt ekki kunnugt um vilja þjóðarinnar í þessum efnum.
Eða þá að þeir líti ekki á vilja þjóðarinnar sem ástæðu til að skipta um skoðun.
Ergo: þeir vinna ekki fyrir okkur.
Lýðræði er ekki eitthvert orð úr helgri bók sem við skellum upp á altaristöflu og jesúsum okkur fyrir framan á sunnudögum. Það er ekki heldur bara siðferðilega réttara fyrirkomulag að fólk fái að ráða sér sjálft en að fámennur hópur taki allar ákvarðanirnar. Það er líka langhentugasta stjórnkerfið vegna þess að í ólýðræðislegum samfélögum (og samfélögum sem eru lýðræðisleg að nafninu til en þjást af lýðræðishalla) freistast valdhafar til þess að raða í kringum sig já-fólki og klappstýrum og taka ákvarðanir af hégómagirnd, græðgi og skammsýni.
Svoleiðis gerast hrun.
Þegar ráðamenn geta látið sér andstöðu almennings gegn áformum sínum sem vind um eyru þjóta er ljóst að við búum við lýðræðishalla. Ekki er heldur heil brú í rökstuðningnum. Sem betur fer eru hægrimenn hættir að geta borið það á borð fyrir fólk að einkageirinn geri allt betur en ríkið.
Eins og Stefán Ólafsson bendir á þá er Landsbankinn rekinn betur en Arion-banki. En Stefán tekur líka fyrir þá röksemd að það þurfi að selja Íslandsbanka til að borga niður COVID-hallann. Að með því að eiga bankana áfram munum við geta notað arðinn til að greiða niður þessar skuldir á 7-10 árum í stað þess að selja þá undir raunvirði (sem er alltaf tilfellið í einkavæðingu) og sjá arðinn fara í vasa einhverra fjársterkra einkaaðila á meðan söluverðið hrekkur ekki einu sinni upp í skuldirnar.
Þessi hugmynd um að selja beljuna fyrir fimm mjólkurfernur er rökleysa sem hefur fengið að lifa alltof lengi. Ætlum við að láta mata okkur á þessum sveskjugraut endalaust? Eða erum við loksins komin á þann stað sem samfélag að við látum ekki auðkýfinga með fálkanælur á slifsinu ráðskast með eigur okkar eins og þeir séu keisarar á meðan rauðgrænir hirðþjónar þeirra lúta höfði og biðja okkur að gjöra slíkt hið sama? Drífa Snædal – ein þeirra sem hafði vit á að yfirgefa rauðgrænu hirðina fyrir fjórum árum – leggur til að í stað þess að fara út í enn eitt einkavæðingarævintýrið skoðum við alvarlega möguleikann á að gera Landsbankann að samfélagsbanka.
Hvernig væri það?
Að eiga einhvern tíma svo sem eina fjármálastofnun á Íslandi sem væri rekin í okkar þágu?