Allt sem þú hélst að þú vissir um popúlisma
Pistill
27.01.2021
Ókei, ég ætla að taka þennan slag einu sinni enn.
Ég verð.
Hættum að nota orðið popúlisti sem samheiti yfir nýfasíska leiðtoga eða fylgismenn þeirra.
Í alvöru.
Hættum þessari vitleysu.
Ég er að horfa á þig, Eiríkur Bergmann.
Þessi hugmynd um að popúlismi feli alltaf í sér útlendingahatur, fjárhagslega einangrunarstefnu og leiðtogadýrkun er ekki aðeins tilbúningur heldur snýr hún benlínis sannleikanum á haus. Bandaríski popúlistaflokkurinn (sem kom fyrstur fram með hugtakið í stjórnmálum) var í sinni tíð (frá 1892 til 1909) eini flokkurinn sem barðist fyrir réttindum innflytjenda og raunverulegu viðskiptafrelsi og helsti löstur flokksins var hversu illa forkólfum innan hans gekk að halda aga innan sinna raða — andstæðan við leiðtogadýrkun.
Flokkur fólksins (The People’s Party á frummálinu) var byggður fyrst og fremst á þeim frelsisgildum bandarísks almennings sem Tom Paine og Thomas Jefferson aðhylltust í skrifum sínum — andúð á arístókratíu og snobbi, lýðræðisást og kalli eftir jafnrétti og jöfnuði. Og já, þetta voru og eru gildi sem eru höfð í heiðri á meðal bandarísks almennings en þau hafa ekki haft neinn málsvara í þarlendum stjórnmálum síðan popúlistaflokkurinn gaf upp öndina.
Hann tapaði meginhluta skriðþunga síns eftir að hafa gengið í kosningabandalag með demókrötum árið 1896 til að koma William Jennings Bryan í embætti gegn því að demókratar beittu sér fyrir kosningu frambjóðenda popúlista í ýmsum kjördæmum. Demókratar gengu á bak orða sinna í þeim efnum og blaðra popúlistaflokksins sprakk. Meðlimirnir gengu margir hverjir ýmist í demókrataflokkinn eða sósíalistaflokkinn en orðið popúlisti hefur æ síðan verið notað af andstæðingum umbótastefnu vinstrimanna sem ódýrt köpuryrði í garð allra þeirra sem halda því fram að stjórnvöld eigi að starfa í þágu almennings. Áhrifarík leið til að grauta saman samtökum félagshyggjusinna og fylkingum fasista.
Popúlistum hefur alltaf verið borið á brýn að þeir séu á móti menntun eða sérþekkingu en það hefur aldrei verið tilfellið heldur. Lýðskrumarar eins og sjónvarpsprédikarar og appelsínugulir auðmenn flagga slíku hatri en hið eina sem popúlistar hafa við menntunarelítisma í stjórnkerfinu að athuga er að slík hugsun búi til óhagganlega forréttindablindu og flokki venjulegt fólk sem burðarklára sem eigi að halda kjafti og hlýða og láta sér betra fólk um að móta opinbera stefnu. Almenningur veit hvað almenningur þarf. Það er hin popúlíska afstaða. Ekki að Trump viti hvað almenningur þarf.
Menntunarfordómar eru skilgetið afkvæmi trúarofstækis, ekki popúlisma. Nú er ljóst að tungumál er í stöðugri þróun og enginn þekkir það betur en Íslendingar. Fornt orð yfir snúru er notað fyrir tæki sem er aðeins tengt við snúru meðan það er í hleðslu og tölva er sambræðingur sem á að tákna töluvölvu. En í stjórnmálum er þetta ekki eins. Til hvers að leyfa orðinu popúlisti að bastardiserast niður í að þýða ráðríkur leiðtogi með heilalaus hjörð biturra forréttindapésa í eftirdragi þegar til eru mikið meira lýsandi orð yfir þá; lýðskrumari, múgæsingarmaður, öfgahægrimaður eða jafnvel fasisti?
Þessi misnotkun orðsins er nefnilega viljaverknaður þeirra sem réttast er að kalla andpopúlista; þeirra sem vilja að við tortryggjum allar sjálfsprottnar fjöldahreyfingar og felum teknókrötum nýfrjálshyggjunnar traust okkar. Andpopúlismi á sér nefnilega jafnlanga sögu og popúlisminn. Allt frá Grikklandi til forna hafa andpopúlistar verið til staðar — voru þá anddemókratar —besserwisserar sem tala um lýðræði sem skrílræði og hafa háleitar hugmyndir um eigin yfirburði á sviði tilfinningalega yfirvegaðrar rökhugsunar.
Strámenn þeirra er víða að finna í menningunni. Man einhver eftir persónunni Homer Stokes í O, Brother, Where Art Thou? Hann geystist fram á sviðið með kúst í hönd til að tákna þá pólitísku hreingerningu sem þurfi að eiga sér stað í stjórnkerfinu og og dverg sér við hlið til að tákna tryggðarbönd sín við „litla manninn.“ Allt sem hann segir um spillingu andstæðingsins, Pappy O’Daniel, er augljóslega satt og málflutningurinn fellur í kramið hjá öllum viðstöddum. Leikrænir tilburðir hans lykta þó af óeinlægni og á endanum komumst við að því (höskuldarviðvörun) að helvítis maðurinn var meðlimur Ku-klux-klan og reyndi að koma hörundsdökkum félaga aðalpersónanna þriggja í snöruna. Hann er klassískt dæmi um gervipopúlista; mann sem nýtir sér orðfæri popúlismans til að vinna afturhaldshugmyndum sínum fylgi. Trump var ekki fyrsti gervipopúlistinn.
Cohen-bræður eru þarna að leika sér að bandarískum menningarminnum og þessi afbakaða mynd af hinum bandarísku popúlistum sem felurasistum er mun lífsseigari en sannleikurinn um þá. Ef popúlista hefði ekki notið við í kreppunni hefði Franklin Roosevelt ekki stjórnað sem popúlisti og umbætur hans hefðu ekki orðið að veruleika. Popúlismi er ekkert frekar tengdur kynþáttaandúð en aðrar stjórnmálanálganir og hreyfingar popúlista í gegnum söguna hafa, ef eitthvað er, verið hallari undir jafnrétti en andstæðingar þeirra.
Í myndinni A Game Change er sagt að í kosningabaráttu sinni árið 2008 hafi John McCain verið hikandi við að vekja máls á ummælum svarts prests um ameríska heimsveldið í kirkju Baracks Obama af hættu við að vekja til lífsins „skuggahlið amerísks popúlisma“, þ.e.a.s. þann rasisma sem gaus á endanum upp í tengslum við framboð McCain og Palin (í hvert sinn sem frambjóðendurnir nefndu Obama á nafn æpti einhver að hann væri sósíalisti eða múslimi eða skellti fram n-orðinu).
Hægt væri auðvitað að nefna fleiri dæmi um popúlistastrámenn (Bane í The Dark Knight Rises talar t.d. um að færa Gotham-borg aftur í hendur fólksins) en andpopúlismi er það kunnuglegur að tæmandi úttekt á öllum dæmunum um hann ætti að vera óþörf. Sannleikurinn um áhrifamátt popúlismans er líka augljós. Barack Obama náði kjöri með því að tala eins og popúlisti en stjórnaði svo landinu eins og hægrimaður. Það að höfða til hagsmuna fólks er ekki lágkúrulegt eða hættulegt heldur lýðræðislegt og réttlátt. Hættum að tala eins og þrælaeigendur í Grikklandi til forna.
Réttið upp hönd sem eru lýðræðissinnar!
Ókei, allir sem réttu upp hönd eru popúlistar.
Hinir eru annað hvort á móti lýðræði eða fannst skrítið að rétta upp hönd fyrir framan tölvuna sína.