Tekjur sveitarfélagana tryggðar

Ritstjórn Frétt

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Fjórða tilboð til kjósenda lagt fram um hvítasunnu:

SÓSÍALÍSK SKATTASTEFNA IV. HLUTI:
TEKJUR SVEITARFÉLAGA TRYGGÐAR

Veiking tekjustofna sveitarfélaganna á nýfrjálshyggjuárunum með aflagningar aðstöðugjalda á fyrirtæki og útsvars á fjármagnstekjur hefur skert sjálfstæði sveitarfélaga og hrakið þau í eignasölu til að bæta sér tekjutapið.

Lóðasala er eitt dæmi þessa. Lækkun skatta á hin auðugu hrakti sveitarfélög til að bjóða upp lóðir í stað þess að úthluta þeim. Afleiðing þess að selja hæstbjóðandi almannagæði varð varanleg hækkun íbúðaverðs sem í sumum sveitarfélögum gat numið allt að 10 m.kr. á hverja tveggja herbergja íbúð. Með þessu er kostnaðurinn vegna skattalækkana fyrirtækja og fjármagnseigenda varpað yfir á almenning.

Annað dæmi er hækkun fasteignagjalda. Eignaskattar sem voru felldir niður upp úr aldamótum voru lagðir á hreina eign, en fasteignagjöld, sem í dag eru stærri hluti tekna sveitarfélaga en á áratugunum fyrir nýfrjálshyggju, eru lögð á heildareignir án tillits til þess hversu mikið eigandinn skuldar. Fyrir hin verr settu eru fasteignagjöld því skattur á skuldir, sem er svívirðilega ósanngjarn skattur.

IV. Tekjur sveitarfélaga tryggðar:
Aðstöðugjald endurvakið (ath. skattfrelsi)

Sósíalistar leggja til að aðstöðugjald fyrirtækja verði aftur tekið upp, veltutengdur skattur sem rennur til sveitarfélaga. Fyrirtæki eru sjálfstæður skattaðili og eiga að greiða til síns nærumhverfis eins og einstaklingar, enda nota fyrirtæki innviði sveitarfélaga ekkert síður en einstaklingar; nota götur og veitur, hafa not af menntun starfsfólk og dagvist barna þess og umönnun foreldra og annarra skyldmenna. Fyrirtæki vaxa mest og dafna í vel skipulögðu samfélagi og þeim ber að greiða fyrir þann ávinning.

Lagt er til að aðstöðugjaldið verði þrepaskipt þannig að smæstu fyrirtækin greiði lítið en hin allra stærstu mikið. Nota má skattfrelsi frá aðstöðugjöldum til að örva nýsköpun, stofnun samfélaga eða til að hvetja atvinnulaust fólk til að stofna eigin rekstur. Stærð fyrirtækja endurspeglar aðstöðu þeirra í samfélaginu, því stærri sem þau eru því hagfelldari er aðstaða þeirra í samfélaginu og þá aðstöðu er eðlilegt að skattleggja.

Þá er lagt til að ríkisvaldið ákvarði aðstöðugjald svo sveitarfélög fari ekki í skattasamkeppni um stærstu fyrirtækin og lokki þau til sín með því að fella burt aðstöðugjaldið eða lækka það umtalsvert. Skattasamkeppni milli sveitarfélaga og ríkja hefur grafið undan samfélögum í okkar heimshluta og hana ber að stöðva.

Fyrirtæki með starfsemi í mörgum sveitarfélögum, svo sem orkufyrirtæki, bankar, mörg ríkisfyrirtæki og sum stórfyrirtæki, greiði svokallað landsútsvar í stað aðstöðugjalds og útsvari þeirra verður dreift til sveitarfélaganna í takt við íbúafjölda og umfang rekstrar.

IV. Tekjur sveitarfélaga tryggðar:
Útsvar á fjármagnstekjur

Þegar fjármagnstekjur voru aðgreindar skattalega frá öðrum tekjum var útsvar á þær fellt niður. Afleiðingin er sú að tekjuhæsta fólk landsins greiðir margt ekki krónu til sinna sveitarfélaga, eða sáralítið. Þetta er algjörlega tilgangslaus skattaafsláttur, að færa tekjur frá sveitarfélögum til hinna allra best settu, og ætti að afnema hið allra fyrsta.

Áður en nýfrjálshyggjan gróf undan skattkerfinu var útsvar í Reykjavík 6,7%. Það er í dag 14,52%. Að hluta til má skýra þessa miklu hækkun með tilflutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga. En skýringin er ekki síst sú að frá 1991 hafa tekjur sveitarfélaga af fyrirtækjum og fjármagni verið felldar niður. Launafólk og allur almenningur hefur verið látinn bera kostnaðinn af þessu með auknum álögum. Munurinn á útsvari í dag og árið 1991 eru tæplega 330 þús. kr. á ári af lágmarkslaunum og 650 þús. kr. á ári af meðallaunum. Það er gríðarleg blóðtaka fyrir íbúanna, byrðar sem lagðar voru á almenning kannski fyrst og fremst svo hægt væri að lækka álögur á fjármagns- og fyrirtækjaeigendur.

Þótt sósíalistar vilji fyrst og fremst tryggja tekjugrunn sveitarfélaganna svo þau geti veit íbúunum góða gjaldfrjálsa þjónustu og bætt þar með líf allra en mest lífskjör hinna tekjulægri, þá mun útsvar á fjármagnstekjur og aðstöðugjald á fyrirtæki opna möguleika á lækka almennt útsvar eða þrepaskipta því svo fólk með lægri meðaltekjur og þar undir greiði lægri skatta.

IV. Tekjur sveitarfélaga tryggðar:
Tilboð sósíalista

Fjórða tilboð sósíalista til kjósenda vegna kosninganna í haust um endurreisn tekjukerfis sveitarfélaganna snýst um að taka aftur upp aðstöðugjald á fyrirtæki en hafa það þrepaskipt svo minnstu fyrirtækin greiði hlutfallslega minnst en þau stóru mest, að endurvekja landsútsvar stórfyrirtækja sem rennur til sveitarfélaga og leggja útsvar á fjármagnstekjur en lækka almennt útsvar.

Sterkir og sjálfstæðir tekjustofnar sveitarfélaganna eru forsenda fyrir eðlilegri valddreifingu í samfélaginu, að sveitarfélögin hafi fjárhagslega burði til að móta stefnu í þeim málum sem heyra undir þau og leita leiða til að þjóna íbúunum sem best. Það er síðan grunnforsenda réttláts samfélags að fyrirtækja- og fjármagnseigendur greiði til síns nærumhverfis. Réttlátt samfélag byggir á því að þau sem eru helst aflögufær greiði til samfélagsins og þau sem þurfa helst á aðstoð að halda fái góða þjónustu og stuðning.

Og þá komum við að fimmta markmiði skattastefnu kærleikshagkerfisins og því mikilvægasta; að skattkerfið sé notað til að styðja við fólk og auka jöfnuð. Til þess þarf að vinda rækilega ofan af skattahækkunum nýfrjálshyggjuáranna sem hvolft var yfir allan almenning, einkum fólk með miðlungs og lægri tekjur.

Hér má lesa V. hluta tilboðsins:
Skattalækkanir til almennings

Samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokks Íslands laugardaginn fyrir hvítasunnu, 22. maí 2021

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram