Skattalækkanir til almennings

Ritstjórn Áætlanir

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Fjórða tilboð til kjósenda lagt fram um hvítasunnu:

SÓSÍALÍSK SKATTASTEFNA V. HLUTI:
SKATTALÆKKUN TIL ALMENNINGS

Skilgreina má þróun ríkisfjármála undir nýfrjálshyggjunni í nokkrum þrepum. Fyrst voru skattar á fjármagnseigendur og stórfyrirtæki lækkaðir með loforði um að þetta myndi ekki leiða til tekjumissis fyrir opinbera sjóði því lækkun skatta myndu örva svo atvinnulífið að fjármagnseigendur og stórfyrirtæki myndu í raun borga hærri skatta þótt skattprósentan yrði lækkuð. Auk þess myndi lækkun skatta á fjármagns- og fyrirtækjaeigendur draga úr skattsvikum og skattaundanskotum.

Þetta gekk auðvitað ekki eftir. Í fyrstu var opinber þjónusta ekki skorin niður heldur skuldum safnað í trausti þess að bráðum myndu skatttekjurnar hækka. Þegar það gerðist ekki var lagt til að eignir ríkissjóðs yrðu seldar auðfólkinu til að draga úr vaxtakostnaði og minnka skuldirnar. Auðfólkinu var sem sagt boðið að kaupa eigur almennings með sömu peningunum og það fékk vegna skattalækkana, og markmiðið var að fjármagna skattalækkanirnar. 

En þetta lagfærði auðvitað ekki rekstrarstöðu ríkissjóðs. Það var enn gat eftir skattalækkanirnar til auðfólksins. Ríkissjóður eyddi meira en hann aflaði vegna þess að aflinn hafði verið skertur. Þá var gripið til þess ráðs að rukka fyrir þjónustu sem áður var gjaldfrjáls, þjónustu sem litið hafði verið svo á að fólk greiddi fyrir með sköttunum. Þetta átti við um heilbrigðisþjónustu, menntakerfið og síðan nánast alla opinbera þjónustu.

Með því að innleiða greiðslur inn í opinbera þjónustu var stigið skref í átt að markaðsvæðingu hennar og einkavæðing undirbúin. Ef þjónustan var ekki hluti af samtryggingunni sem við greiðum fyrir með sköttunum okkar, ef hún er eins og hver önnur þjónusta sem við greiðum fyrir; skiptir þá nokkru máli hver rekur þjónustuna? var spurt. Og auðfólkið, sem áður hafði einkum verið í atvinnulífinu, færði sig í auknu mæli inn á svið sem áður höfðu tilheyrt samfélagslegum vettvangi.

Einkavæðing dró ekki úr kostnaði ríkissjóðs, þvert á móti bættist við arður til eigenda þeirra fyrirtækja sem tóku yfir opinberan rekstur. Ríkissjóður stóð því jafn illa eftir skattalækkun til hinna ríku þrátt fyrir sölu eigna, gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu og einkavæðingu. Þá var ekkert eftir en að hækka skatta á almenning, láta hann fjármagna skattalækkun til hinna ríku með aukinni skattbyrði.

Þetta er söguþráður ríkisfjármála nýfrjálshyggjuáranna. Þetta gerðist ekki nákvæmlega í þessari röð; skattahækkanir á almennings byrjuðu fljótlega og áður en einkavæðingin var komin á fulla ferð; en þetta lýsir vel hvernig tannhjól nýfrjálshyggjunnar virkaði.

Sósíalistar ætla sér að snúa þróun nýfrjálshyggjunnar við, endurheimta völd almennings úr höndum auðstéttarinnar, fjármuni, eignir og auðlindir, og endurbyggja opinbera þjónustu. En hér viljum skýra út hvernig sósíalistar ætla að létta skattbyrði nýfrjálshyggjuáranna af almenningi.

V. Skattalækkanir til almennings: Fátækt skal ekki skattlögð

Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp greiddi fólk á lágmarkslaunum enga skatta og þar með eftirlaunafólk, öryrkjar, námsfólk og fólk hafði lægri tekjur en lágmarkslaun. Í dag greiða þau sem eru á lágmarkslaunum um 17% af tekjum sínum í skatt, rúmar 55 þúsund krónur. Samt er vitað að fólk á lágmarkslaunum á í miklum erfiðleikum með að láta enda ná saman.

Fólk á lægstu örorkubótum, 240 þús. kr. á mánuði, greiðir tæpar 25 þús. kr. af þeim í skatt. Fólk sem er á framfærslu sveitarfélaga fær tæpar 213 þús. kr. á mánuði og borgar af því rúmar 16 þús. kr. í skatt. Þetta er með öllu óverjandi. 

Fyrir tíma nýfrjálshyggjunnar borgaði ekkert af þessu fólki skatta. Það er siðlaust að fjármálaráðherra gangi að allra fátækasta fólkinu, fólki sem á ekki fyrir mat út mánuðinn, og taki af því fé til að reka ríkissjóð. Ríkissjóður sem er byggður á slíku óréttlæti er siðlaus í grunninn.

Sósíalistar hafna því alfarið að fátækt sé skattlögð með þessum hætti. Setja ber í lög að óheimilt sé að innheimta tekjuskatt eða útsvar hjá fólki sem er með lægri tekjur en sem nemur eðlilegum framfærslukostnaði. Breyta þarf skattkerfinu með því að lækka lægsta skattþrepið og hækka persónuafslátt en hækka skattprósentuna í efri þrepum á móti svo skattalækkun til fólks undir fátæktarmörkum lækki ekki skattbyrðina upp eftir öllum skattstiganum.

V. Skattalækkanir til almennings: Skattar á miðlungs og lægri tekjur lækkaðir

Tekjuskattur á allan almenning var hækkaður stórkostlega á nýfrjálshyggjuárunum. Það sést til dæmis á því að í fjárlögum fyrir árið 1991 var gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga yrði um 12,8 milljarðar króna eða 42,9 milljarðar króna á núvirði. Í fjárlögum fyrir árið 2021 er hins vegar gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga skili 186,6 milljörðum króna í ríkissjóð.

Laun hafa auðvitað hækkað á leiðinni, en ekki svona mikið. Ef tekjuskatturinn hefði fylgt launaþróun ætti hann að vera um 83,5 milljarðar króna í ár. Mismunurinn er meira en hundrað milljarðar, 103,1 milljarður króna, sem ríkið innheimtir meira af launafólki í dag en fyrir þrjátíu árum. Þetta sýnir glöggt hver það voru sem borguðu fyrir skattalækkanir fjármagns- og fyrirtækjaeigenda. Og það voru engar smá upphæðir sem voru fluttar á milli.

Önnur leið til að draga þetta fram er að benda á árið 1991 var gert ráð fyrir 12,6 prósent af tekjum ríkissjóðs kæmu frá tekjuskatti einstaklinga. Í dag er þetta hlutfall 24,1% þrátt fyrir að fjármagnstekjur hafi verið teknar frá öðrum tekjum. Á þessum mælikvarða hefur skattheimtan farið út 97,5 milljörðum króna í 186,6 milljarða króna. Tekjuskattur einstaklinga var 3,2% af landsframleiðslu 1991 en verður í ár um 6,0%. Það er sama hvaða mælikvarði er notaður, skattheimta af almenningi í gegnum tekjuskatt einstaklinga hefur svo gott sem tvöfaldast á nýfrjálshyggjuárunum, árunum sem Sjálfstæðisflokksfólk segist hafa lækkað skatta.

Hlutfall tekna ríkissjóðs af landsframleiðslu var í fjárlögunum 1991 25,3% en í ár er gert ráð fyrir að það verði 24,7%. Mismunurinn er sáralítill, 18,8 milljarðar króna. Meginþráður ríkisfjármála á nýfrjálshyggjuárunum var tilfærsla á skattbyrði frá hinum ríku yfir á almenning. Skattalækkanirnar voru allar til hinna ríku. Almenningur fékk aðeins skattahækkanir. 

Ef við færum sjónarhornið að einstaklingunum þá voru skattleysismörk árið 1991 192 þús. kr. á núvirði en þau eru í dag tæplega 162 þús. kr. Á þessum þrjátíu árum hafa laun hins vegar hækkað umtalsvert umfram verðlag. Sé miðað við launavísitölu þá voru skattleysismörkin rúmlega 374 þús. kr. árið 1991 en eru sem fyrr segir tæplega 162 þús. kr. í dag. Munurinn er sláandi, óhugnanlegur.

Í dag eru lægstu laun 351 þús. kr. á mánuði. Af þeim borgar fólk tæpar 60 þús. kr. í skatt eða um 17%. Árið 1991 var enginn skattur greiddur af lægstu launum, 0%. Lágtekjufólkið hefur misst 720 þús. kr. á ári í skattinn umfram það sem það borgaði fyrir nýfrjálshyggju.

Í dag eru miðgildi heildarlauna um 750 þús. kr. á mánuði. Af þeim greiðir fólk um 211 þús. kr. í skatt eða 28,2%. Ef við færum þessi laun aftur til 1991 með launavísitölunni og leggjum á þau skatt samkvæmt þágildandi skattalögum þá væri skatthlutfallið 19,9%. Miðlungsfólkið hefur misst 747 þús. kr. á ári í skattinn umfram það sem hann borgaði fyrir nýfrjálshyggju.

Tilboð sósíalista er að vinda ofan af skattabreytingum nýfrjálshyggjuáranna og lækka skattbyrði tekjuskatts á miðlungs og lægri tekna um 700 þús. kr. á ári. Þetta er ekki byltingarkenndari hugmynd en svo, að hún myndi aðeins færa okkur til þess réttlætis sem ríkti fyrir þrjátíu árum og hafði ríkt þá áratugum saman. 

V. Skattalækkanir til almennings: Barnabætur hækkaðar

Eitt af einkennum nýfrjálshyggjuáranna er niðurbrot barnabóta. Og það helst í hendur við veikari efnahagslega stöðu ungs fólks, sem er aftur afleiðing af braskvæðingar alls húsnæðiskerfsins og veikari stöðu launafólks á vinnumarkaði. Þetta hefur grafið undan lífskjörum ungs fólks sem margt hvert er á jaðri húsnæðismarkaðar þar sem húsnæðiskostnaður er hár og á jaðri vinnumarkaðar þar sem laun eru lág og atvinna ótrygg. Ungt fólk á minni eignir en skuldar samt gjarnan mikið, til dæmis námslán. Og unga fólkið hefur þyngri framfærslubyrði vegna barna.

Í þessu ljósi mætti ætla að barnabætur hefðu verið auknar ríflega á nýfrjálshyggjutímanum. En því var alls ekki að heilsa. Þvert á móti voru barnabætur skornar rækilega niður.

Samkvæmt fjárlögum fyrir 2021 á að verja rétt tæpum 14 milljörðum króna í barnabætur í ár. Það eru um 161 þús. kr. á barn. Árið 1991, áður en nýfrjálshyggjan byrjaði að hola skattkerfið að innan voru barnabætur rúmir 16 milljarðar á núvirði eða tæplega 224 þús. kr. á hvert barn, en þá var sjálfræðisaldurinn 16 ár en ekki 18. 

En það er eðlilegra að miða þessar stærðir við veltu hagkerfisins en verðlagsbreytingar. Barnabæturnar voru 1,2% af landsframleiðslu árið 1991 en eru í ár aðeins rúmlega 0,4%. Til að hækka barnabætur svo þær verði sama hlutfall af landsframleiðslu í ár og 1991 þyrfti að greiða börnum 37,5 milljarða króna í ár. Barnabætur hafa því í reynd lækkað um 23,5 milljarða króna á þessu þrjátíu ára tímabili, meðal annars til að fjármagna skattalækkanir fjármagns- og fyrirtækjaeigenda.

Til samanburðar myndi það kosta um 52,9 milljarða króna að veita öllum börnum á landinu persónuafslátt sem væri útgreiðanlegur ef foreldrarnir nýttu hann ekki. Þangað eigum við að stefna í fáum öruggum skrefum svo öll börn fái barnabætur upp á rúmlega 50 þús. kr. á mánuði, sömu upphæð og fullorðnir fá í persónuafslátt. Að hluta til yrði hækkunin fjármögnuð með brattari skattstiga og hátekjuþrepum, svo að foreldrar með tekjur í þriðja skattþrepi væru jafnsett á eftir en allar barnafjölskyldur með góðar miðlungstekjur og þar undir væru mun betur settar.

V. Skattalækkanir til almennings: Húsnæðisbætur hækkaðar

Húsnæðisstuðningur lækkaði einnig á nýfrjálshyggjuárunum, en ekki eins mikið og barnabætur. Vaxtabætur voru 0,63 prósent af landsframleiðslu 1991 en húsnæðisstuðningur er nú 0,44 prósent af landsframleiðslu. Munurinn jafngildir því að ríkissjóður ætti að greiða út 19,7 milljarða króna í húsnæðisstuðning, 6 milljörðum krónum meira en raunin er.

Munurinn er hins vegar sá að síðustu ár hefur geisað grimmari húsnæðiskreppa en sést hefur frá stríðslokum. Hækkun húsnæðiskostnaðar hefur gengið frá heimilisbókhaldi tug þúsunda heimila með miðlungs og lægri tekjur. Þeim, sem klemmd eru milli lágra tekna og hárrar húsaleigu, hefur verið þrýst niður í djúpa fátækt eða taumlausa vinnuþrælkun. Fjölmargir eru í tveimur, jafnvel þremur vinnum til að eiga fyrir húsaleigu og mat út mánuðinn fyrir sig og börnin sín. Það ríkir neyðarástand á mörgum heimilum. Og því verður að mæta með neyðaraðgerðum.

Auðvitað ber ríkinu að leysa húsnæðiskreppuna. Annars vegar með því að byggja 30 þúsund félagslegar íbúðir á tíu árum, eins og sósíalistar hafa lagt til, og hins vegar með aðgerðum til að hemja leigumarkaðinn, eins og sósíalistar munu leggja til í tilboði sínu til leigjenda. En þar til þessar aðgerðir slá á húsnæðisekluna og stjórnleysið á leigumarkaði ber ríkissjóði að bæta þeim skaðann sem verða fyrir barðinu á hinum óhefta húsnæðismarkaði.

Enginn ætti að þurfa að borga meira en fjórðung af tekjum sínum í húsnæðiskostnað. það merkir að láglaunafólk með 351 þús. kr. á mánuði og tæpar 282 þús. kr. útborgaðar miðað við núgildandi skattareglur ætti ekki að greiða meira en rúmlega 70 þús. kr. í húsaleigu. Ef ástandið á leigumarkaði er slíkt, vegna aðgerðarleysis yfirvalda, að fólk með þessar tekjur þarf að leigja litla íbúð fyrir 230 þús. kr., eins og algengt er í dag, þá þarf ríkissjóður að veita þessu fólki 160 þús. kr. í húsnæðisstyrk. Hámarksstyrkur í dag upp á rúmar 32 þús. kr. kemst ekki nærri því að leysa vanda þessa fólks.

Svona hár húsnæðisstyrkur sem rennur frá ríkinu í gegnum leigjendur til leigusala eru hálfgerðir blóðpeningar. Þeir eru eins og lausnargjald greitt bröskurum til að frelsa leigjendur frá hungurmörkum. Það væri auðvitað heillavænlegra að ríkið stæði fyrir byggingu húsnæðis til að létta á húsnæðiskreppunni og frelsa fólk og setti á leiguþak til að vernda leigjendur fyrir okurleigu. En þar til það hefur verið gert verður að styðja leigjendur upp úr fátækt. Það er ekki sök leigjenda að húsnæðismaðurinn er eins og hann er; leigjendur eru fólkið sem verður fyrir markaðnum, ber kostnaðinn af braskvæðingu hans án þess að bera neina sök á ástandinu.

Sósíalistar munu sækja kostnaðinum af hruni húsnæðismarkaðarins til þeirra sem bera ábyrgðina, fólksins sem hefur braskvætt allt húsnæðiskerfið, og færa féð til leigjenda sem hafa þurft að þola afleiðingarnar af gjörðum braskarana.

V. Skattalækkanir til almennings: Gjaldtöku hætt

Gjaldtaka fyrir opinbera þjónustu er eitt af tækjum nýfrjálshyggjunnar til að færa völd og auð til hinna ríku. Gjaldtakan hefur þann tilgang að markaðsvæða þjónustu sem áður var utan markaðar, venja fólk við að greiða fyrir menntun og heilsugæslu eins og hverja aðra þjónustu.

Gjaldtakan hefur líka þann tilgang að gera stærri hluta íbúann fráhverfan sköttum. Hin allra ríkustu telja sig tapa á því að borga skatta, þau borga meira inn í ríkissjóð en þau fá til baka. Á eftirstríðsárunum átti þetta við innan við 1% landsmanna. En með tekjutengingum og gjaldtöku hefur stærri hópur reiknað sig niður á sömu niðurstöðu, að það borgi meira til ríkisins en það fær til baka. Oftast er þetta misreiknað, þar sem fólk freistast til að gleyma því að það getur misst heilsuna vegna sjúkdóma, slysa eða aldurs og vanmetur stuðning samfélagsins sem oft er ill greinanlegur í einföldu reikningsdæmi. En nýfrjálshyggjan hefur náð árangri, fleiri fólk metur það svo í dag að hagur þess batni meira við lækkun skatta en aukna opinbera þjónustu.

Gjaldtakan er þannig fyrst og fremst pólitísk, liður í áróðursstríði, og hefur engan samfélagslega tilgang. Heilsugæsla sem innheimtir komugjöld verður ekki betur rekin fyrir það. Og opinber þjónusta, fyrst og fremst læknisþjónusta og menntun, er ekki þess eðlis að klókt sé að stýri eftirspurninni með verði. Það er sáralítið hætta á að fólk ofnoti þessa þjónustu, miklu meiri hætta á að fólk vannoti hana. 

Og það er einmitt niðurstaða nýfrjálshyggjuáranna. Hin efnaminni neita sér um heilbrigðisþjónustu og menntun vegna gjaldtökunnar. Kerfin sem við byggðum upp á síðustu öld einmitt til að auka jöfnuð milli fólks ýta undir ójöfnuðinn í dag.

Ríkisvaldið og sameiginlegir sjóðir okkar eru sameign okkar. Með opinberri þjónustu virkar þetta sem samtrygging fyrir íbúana og fyrir samfélagið í heild. Það er betra fyrir alla ef við greiðum fyrir læknishjálpina meðan við erum fullfrísk á vinnumarkaði. Það er algjörlega galin hugmynd að rukka fólk þegar það er orðið veikt og á í nægum vanda með líf sitt vegna veikinda og afleiðinga þess, meðal annars tekjufall vegna minni vinnu.

Sama á við um menntun og aðra opinbera þjónustu. Það er eðlilegt að við greiðum fyrir menntun þegar við höfum notið hennar, eftir að við komum út á vinnumarkaðinn, fremur en þegar við sitjum tekjulítil í skóla.

Forsendur öflugs samfélags er gjaldfrjáls opinber þjónusta og innviðir. Það bætir lífskjör alls almennings og mest þeirra sem hafa minnstar tekjur, virkar þannig sem jöfnunartæki. Og jöfnuður er mikilvægasta markmiðið ef við viljum byggja upp traust, samkennd og kærleika innan samfélagsins. 

En gjaldfrjálsir innviðir eru líka mikilvægir fyrir atvinnulífið. Þeir ýta undir samkeppni með því að lækka stofnkostnað fyrirtækja, þar sem öll fyrirtæki hafa jafnt aðgengi að innviðum. Gjaldfrjáls opinber þjónusta útvegar fyrirtækjum menntaðra og heilsubetra starfsfólk og gætir barnanna meðan foreldrarnir eru við vinnu. Það var reynsla allra landa í okkar heimshluta að kröftug uppbygging gjaldfrjálsra opinberra innviða og þjónustu var forsenda aukinnar velmegunar. Niðurbrot þessara innviða á tímabili nýfrjálshyggjunnar er ógn við samfélagið.

Sósíalistar hafna því alfarið öllum hugmyndum um markaðs- og einkavæðingar innviða og grunnkerfa samfélagsins og eru andsnúnir allri gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu. Þess í stað eigum við að hefja stórfellda uppbyggingu opinberra innviða til að mæta áskorunum framtíðar til að efla hér atvinnulíf og almenna velsæld. Það verður aðeins gert með samfélagsleg markmið að leiðarljósi.

Fyrstu skrefin á þessari leið væri að gera gjaldfrjálsa notkun tekjulægstu hópanna á heilbrigðisþjónustu, menntun og öðrum grunnkerfum opinberrar þjónustu; barna, námsfólks, öryrkja, eftirlaunafólks og fólks á framfærslu sveitarfélaganna. Og taka síðan næstu skref með það að markmiði að gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu verði alfarið hætt.

V. Skattalækkanir til almennings: Tilboð sósíalista

Fjórða tilboð sósíalista til kjósenda vegna kosninganna í haust um skattalækkun til almennings fellst í mikilli lækkun tekjuskatts á miðlungstekjur og þar undir, stöðva skattlagningu á fátækt, hækka umtalsvert persónuafslátt, barnabætur og húsnæðisbætur og vinda ofan af gjaldtöku nýfrjálshyggjuáranna fyrir opinbera þjónustu og innviði.

Forsendur þess að hægt sé að byggja upp réttlátt samfélag á Íslandi er skattbyrðinni verði létt af almenningi og hún færð þangað sem hún á heima. Það er jafn aðkallandi verkefni að byggja upp að nýju stuðningskerfin innan skattkerfisins, barna- og húsnæðisbætur. Slík kerfi eru forsenda aukins jöfnuðar og þess að allir íbúar landsins fái að blómstra.

En skattatilfærslan frá hinum auðugu yfir á almenning var ekki sú eina á nýfrjálshyggjuárunum. Á sama tíma var skattaumhverfi fyrirtækja breytt svo það þjónaði best auðugustu fjármagnseigendunum og allra stærstu fyrirtækjunum en miklu síður einyrkjum, smáfyrirtækjum og meðalstórum fyrirtækjum. Skattkerfinu var í reynd beitt að vernda stórfyrirtækin fyrir samkeppni frá þeim smærri og til að draga úr nýliðun í öllum atvinnugreinum. Afleiðing varð fjármálavæðing atvinnulífsins sem dró afl úr framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum. Um þetta fjallar sjötti kaflinn í tilboði sósíalista til kjósenda um skattastefnu kærleikshagkerfisins, um hvernig lækka má skatta á smáfyrirtæki og efla atvinnulífið að neðan.

Hér má lesa V. hluta tilboðsins:
Skattalækkanir til smærri fyrirtækja

Samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokks Íslands laugardaginn fyrir hvítasunnu, 22. maí 2021

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram