Skipulag

Sósíalistaflokkur Íslands ætlar sér að vera öflug fjöldahreyfing almennings og taka virkan þátt í baráttu hans fyrir frelsi, jöfnuði, jafnrétti og mannhelgi á öllum sviðum samfélagsins. Tilgangur eftirfarandi Skipulags er að stuðla að lýðræði, gagnsæi og valddreifingu í starfi flokksins enda verði það þannig bæði öflugt og verðugt markmiðum hans. Engin stjórnmálahreyfing er ónæm fyrir vandamálum á borð við klíkumyndun, leyndarhyggju og samþjöppun valds og er Skipulaginu jafnframt ætlað að setja þeim hömlur.

Ávallt skal hafa jafnrétti að leiðarljósi í störfum flokksins, hvort sem er í starfi stjórna eða við framkvæmd slembivals, en slembivaldir hópar skulu skipaðir kynjum jafnt. Skipulagið hefur stöðu flokkslaga.

Sósíalistaþing

Sósíalistaþing markar pólitíska stefnu Sósíalistaflokks Íslands út frá tillögum Málefnahópa og þiggja aðrar stofnanir flokksins umboð sitt frá því varðandi mótun og framkvæmd stefnu. Meirihluti greiddra atkvæða á Sósíalistaþingi ræður úrslitum mála, en atkvæðisrétt hafa viðstaddir félagsmenn.

Sósíalistaþing skal haldið minnst árlega og er um leið vettvangur árlegs Aðalfundar, eins og honum er lýst í Lögum. Sósíalistaþing getur tekið ákvörðun um að fresta framhaldi aðalfundarstarfa fram að tiltekinni dagsetningu á starfsárinu eins oft og þurfa þykir.

Sósíalistaþingi er heimilt að efna til opinnar dagskrár, bjóða ræðumönnum utan flokksins að taka til máls og nýta önnur tækifæri til að gera Sósíalistaþing að opinberum viðburði sem veki athygli á starfsemi Sósíalistaflokksins.

Að jafnaði skal Framkvæmdastjórn annast framkvæmd Sósíalistaþings (boðun, kynningu, útvegun húsnæðis, uppsetningu dagskrár o.s.frv.) en Málefnastjórn, Stjórnaráð, Félagastjórn, Baráttustjórn og Samvisku er einnig heimilt að boða til Sósíalistaþings af sjálfsdáðum þyki tilefni til og skal þá Framkvæmdastjórn vera þeim til liðsinnis.

Svo sem tilgreint er í lögum getur Sósíalistaþing boðað til Aukaaðalfundar, og gilda þá reglur Aðalfundar um hann.

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn heldur utan um lög, skipulag og uppbyggingu flokksins og sér um öll málefni flokksins sem ekki er tekið fram í lögum, skipulagi eða samþykktum Sósíalistaþing að sé hlutverk annarra stjórna eða hópa innan flokksins. Framkvæmdastjórn heldur utan um slembival Kjörnefndar og Samvisku og styður við starf þessara hópa. Framkvæmdastjórn hefur eftirlit með uppbyggingu starfs innan flokksins og grípur inn í ef stjórnir verða óstarfhæfar og hefur eftirlit með að starf þeirra séu samkvæmt lögum flokksins, skipulagi og samþykktum Sósíalistaþings.

Framkvæmdastjórn heldur utan um starf samstarfshópa á borð við Umsjónarnefnd Sósíalistaþings, þar sem formenn og ritarar allra stjórna eiga sæti; Laga- og gagnanefnd þar sem ritarar allra stjórna sitja; og Fjárhagsráðs sem allir gjaldkerar skipa auk fólks sem sér um fjáraflanir.

Málefnahópar og Málefnastjórn

Til að styðja við stefnumótun flokksins starfar Málefnastjórn, en hún annast framkvæmd stefnumótunarvinnu á milli Sósíalistaþinga og í umboði þess. Málefnastjórn skipar slembivalda hópa félagsmanna („Málefnahópa“) sem vinna stefnudrög í einstökum málaflokkum. Málefnastjórn skal styðja við vinnu Málefnahópa með ráðum og dáð og leitast við að tryggja góð vinnubrögð og vandaða útkomu úr starfi þeirra.

Kosning Málefnastjórnar fer fram á Sósíalistaþingi. Skal hún skipuð 9 aðalmönnum og 4 til vara. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum, og skal skipa formann, varaformann og ritara. Formaður boðar til funda. Framkvæmdastjórn skal vera Málefnastjórn til aðstoðar eftir því sem þörf krefur en hlutast ekki til um starf hennar umfram það sem samþykkt er á Sósíalistaþingi.

Kosningastjórn

Kosningastjórn heldur utan um framboð Sósíalistaflokksins til Alþingis og sveitastjórna og sér um val á framboðslista með aðferðum sem samþykktar hafa verið á aðalfundi eða félagsfundi, mótar kosningastefnu byggða á stefnum flokksins og rekur kosningabaráttu til þings og sveitarstjórna.

Framboðslistar skulu samþykktir af sósíalistaþingi eða félagsfundi og kosningastefna af sameiginlegum fundi allra stjórna flokksins. Kosningastjórn getur myndað undirhópa og -stjórnir til að sinna kosningaeftirliti, kosningastjórn í einstökum kjördæmum og sveitarfélögum og aðra hópa ef þurfa þykir.

Kosningastjórn skal halda utan um stjórnmálaumræðu á vef flokksins, þjálfa upp talsfólk flokksins, efna til stjórnmálafunda og sinna umræðu um stefnu og áherslur Sósíalistaflokksins á breiðum vettvangi.

Kosningastjórn er kjörin á Sósíalistaþingi og skal skipuð 9 aðalmönnum og 4 til vara. Hún skiptir sjálf með sér verkum en skal hafa innanborðs formann, varaformann, ritara og gjaldkera.

Við mótun kosningastjórnar er heimilt að kjósa stjórn til bráðabirgða á aðalfundi 2024 sem falið er að móta starfið og leggja fram tillögur um form á vali á lista fyrir félagsfund um vorið. Aðalfundur 2024 mun skilgreina umboð bráðabirgðastjórnar við kjör hennar.

Sellur og Félagastjórn

Sósíalistaflokkur Íslands leitast við að halda sem öflugustum tengslum við félagsmenn sína og styðja þá í reglulegri virkni og ábyrgðarstörfum innan flokksins. Til að anna þessu hlutverki skipar Sósíalistaþing Félagastjórn.

Félagastjórn starfrækir „Sellur“ sem félagsmenn á tilteknu búsetusvæði tilheyra sjálfkrafa. Félagastjórn virkjar, styður og mótar starf Sellanna eftir þörfum. Sellurnar efla tengsl flokksins við félagsmenn og nærsamfélög þeirra og skulu leitast við að halda reglulega fundi og bjóða þar nýja félagsmenn sérstaklega velkomna. Sellur skulu einnig leita leiða til að afla nýrra félagsmanna.

Heimilt er að varpa spurningum sem varða ákvarðanir flokksins til Sellanna.

Framkvæmdastjórn skal veita Félagastjórn aðgang að félagaskrá og upplýsa hana reglulega um skráningu nýrra félagsmanna.

Félagastjórn er kjörin á Sósíalistaþingi og skal skipuð 9 aðalmönnum og 4 til vara. Hún skiptir sjálf með sér verkum en skal hafa innanborðs formann, varaformann og ritara. Sósíalistaþing getur tekið ákvörðun um að úthluta fé til Félagastjórnar til að standa straum af kostnaði á borð við leigu fundarhúsnæðis og kaffiveitingar. Skal þá Félagastjórn skipa sér gjaldkera, sem stendur skil á fjárhagsuppgjöri til gjaldkera Framkvæmdastjórnar.

Baráttuhópar og baráttustjórn

Félögum í Sósíalistaflokknum er heimilt að stofna sjálfstæða baráttuhópa á borð við Unga sósíalista, Sósíalíska femínista, Meistaradeild, Verkalýðsráð, Innflytjendaráð og Öryrkjaráð. Þessir hópar eru sjálfstæðir og starfa eftir eigin stefnuyfirlýsingum, geta ályktað í eigin nafni en ekki í nafni flokksins sjálfs.

Öllum er heimilt að stofna baráttuhópa en sækja þarf um heimild til framkvæmdastjórnar um stofnun þeirra. Hver hópur þarf að skipa fimm manna stjórn hið minnsta og skulu félagar í Sósíalistaflokknum sitja í stjórninni. Hana skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi eða meðstjórnendur og skulu þessi hlutverk tengjast inn í baráttustjórn flokksins (formaður, varaformaður), fjárhagsráð flokksins (gjaldkeri) og laganefnd flokksins (ritari).

Baráttustjórn flokksins er tengiliður baráttuhópanna við Sósíalistaþing og aðrar stjórnir flokksins og styður baráttuhópanna í starfi sínu og uppbyggingu. Í Baráttustjórn sitja formenn og varaformenn allra baráttuhópa sem hafa fengið heimild til starfa og kjósa stjórnarmenn sér formann, varaformann og ritara. Baráttustjórnin er sjálfstæð og heyrir ekki undir aðrar stjórnir flokksins en ber ábyrgð gagnvart grasótinni á Sósíalistaþingi.

Samviska

Sósíalistaþing skal skipa slembivalda nefnd félagsmanna, Samvisku, sem hefur það hlutverk með höndum að efla umræðu og vitund um réttindi og skyldur félagsmanna, vandaða starfshætti, góð samskipti, virðingu fyrir persónum og jafnrétti milli einstaklinga í starfi flokksins auk þess að skera úr um ágreiningsmál sem þar geta komið upp og falla utan verksviðs Framkvæmdastjórnar. Slík mál geta t.d. varðað meint afglöp stjórnarmanna í embætti eða meinta ósæmilega framkomu félagsmanns við aðra félagsmenn eða á opinberum vettvangi. Erindi til Samvisku skal senda á póstfangið: samviska@sosialistaflokkurinn.is

Samvisku er heimilt að eiga frumkvæði að samtali við félagsmenn um störf hennar, tilgang og viðmið og getur lagt fram drög að Siðareglum til samþykkis á Sósíalistaþingi. Að öðrum kosti skal Samviska hafa Lög, Skipulag og aðrar skriflegar samþykktir flokksins til viðmiðunar í ákvörðunum sínum en skal jafnframt hafa sanngirni, meðalhóf og skynsemi að leiðarljósi. Ákvarðanir hennar skulu studdar málefnalegum sjónarmiðum.

Samvisku er heimilt að sækja álit hjá sérfróðum einstaklingum og leita fyrirmynda annars staðar frá um hvernig best megi ná markmiðum hennar og tryggja farsælar úrlausnir ágreiningsmála.

Samviska getur, eftir atvikum, beitt eftirfarandi úrræðum:

Gagnvart meðlimum Framkvæmdastjórnar, Málefnastjórnar, Málefnahópa, Félagastjórnar og Kjörnefndar: Veitt skriflega áminningu, vikið úr embætti, og/eða vikið úr flokknum.
Gagnvart félagsmönnum: Veitt skriflega áminningu og/eða vikið úr flokknum.
Að jafnaði skal félagsmönnum ekki vikið úr flokknum nema að veittri a.m.k. einni áminningu.

Í Samvisku skal velja 30 nefndarmenn og teljast fundir hennar löglegir að viðstöddum 10 þeirra.

Kjörgengi til stjórnarsetu

Félagsmaður getur á hverjum tíma aðeins setið í einni kjörinni stjórn (Framkvæmdastjórn, Félagastjórn, Baráttustjórn, Málefnastjórn eða Kosningastjórn). Seta félagsmanns í kjörinni stjórn útilokar hann ekki frá setu í slembivalinni stjórn (til að mynda Samvisku, Kjörnefnd eða Málefnahópum) eða í einstökum verkefnastjórnum sem heyra undir stjórnir. Né heldur útilokar seta í einni slembivalinni nefnd setu í annarri slembivalinni nefnd. Þó skal nefndarmaður í Samvisku segja sig frá umfjöllun um ágreiningsmál sem hann er sjálfur aðili að, og skal Samviskan ákveða hvort nauðsynlegt sé að viðkomandi víki alfarið úr nefndinni. Kjörinn stjórnarmaður í einni stjórn getur setið fundið í öðrum stjórnum sem áheyrnarfulltrúi.

Hver félagsmaður skal ekki sitja sem aðalmaður og varamaður lengur en tólf ár í hverri stjórn og ekki gegna formennsku í hverri nefnd lengur en átta ár. Félagsmaður sem er ekki kjörgengur í eina stjórn af þessum sökum er áfram kjörgengur í aðrar nefndir.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram