Stefnan
Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu.
Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og handbendi þess. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu.
Í starfi sínu leggur Sósíalistaflokkur Íslands áherslu á það sem sameinar fólkið í landinu; óréttlætið sem það mætir og viljann til að losna undan því. Öllum landsmönnum er velkomið að ganga til liðs við flokkinn, óháð kyni, uppruna, trú eða kynhneigð.
Sósíalistaflokkur Íslands vill að framþróun samfélagsins stýrist af hagsmunum almennings. Þess vegna þarf almenningur að ná völdum, ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn, hverfið, sveitarfélagið, þorpið – öll þessi svið eiga að vera undir valddreifðri stjórn þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi.
Húsnæðismál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að húsnæðisöryggi sé tryggt á öllu landinu. Öruggt húsnæði er ein grunnforsenda velferðar.
01Að tekin verði tafarlaust upp langtíma húsnæðisstefna til að mæta þeim gríðarlega skorti á húsnæði sem íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir.
02Byggðar verði fjögur þúsund íbúðir á ári á næstu þremur árum og eftirleiðis nægilegt byggingarmagn á ári í kjölfarið í hlutfalli við íbúafjölda og þarfir á hverjum tíma.
03Að byggðar verði 30 þúsund félagslegar íbúðir á næstu tíu árum
04Að húsnæðiskerfið verði afmarkaðsvætt og hætti að vera leikvöllur braskara.
05Að lögum verði breytt svo hægt sé að stofna nýjan húsnæðissjóð almennings. Slíkur íbúðasjóður byggir og leigir óhagnaðardrifið húsnæði til félagslega og samvinnufélagslega rekinna leigufélaga almennings svo sem leigufélaga sveitarfélaga, námsmannafélaga, félaga fatlaðs fólks, aldraðra, einstæðra foreldra eða hvers kyns almannasamtaka.
06Að tryggt sé fjármagn í að félagslega rekin leigufélög verði að lágmarki 25% af húsnæðismarkaðnum eftir 20 ár.
07Að réttindi leigjenda skuli tryggð og stuðlað sé að traustum leigumarkaði með langtímaleigusamningum, reglum um þak á leiguverði og viðhaldsskyldu. Leiga verði góður kostur en ekki kvöð.
08Að vísitölubreyting á húsaleigu sé aðeins gerð einu sinni á ári og tryggt sé að fólk greiði ekki meira en fjórðung ráðstöfunartekna sinna í húsaleigu.
09Að settar verði ríkari hömlur á skammtímaleigu til ferðamanna (Airbnb) svo leigumarkaðurinn verði ekki markaðsöflum að bráð í tengslum við ferðamannastrauminn og þar með ófyrirsjáanlegur.
10Að heimilisleysi verði útrýmt og ólöglegt verði fyrir hið opinbrera að vísa nauðstöddu fólki á götuna, hvenær sólarhrings sem er. Gistiskýli verði þar með ekki rekin sem nætur-úrræði eingöngu.
11Að námsmönnum í háskóla- eða framhaldsskólanámi svo sem iðn- og eða sérskólanámi og námsmönnum af landsbyggðinni verði tryggt húsnæði á nemendagörðum í gegnum félagslega rekin og óhagnaðardrifin húsnæðisfélög.
12Að fötluðu fólki og öldruðum verði tryggt húsnæði í gegnum félagslega rekin og óhagnaðardrifin húsnæðisfélög.
13Að lög um samvinnufélög verði endurskoðuð með það að markmiði að hægt sé að stofna leigufélög og annarskonar samvinnufélög á gerlegan máta.
14Að tryggt sé að eitt löggjafarþing geti ekki afnumið félagslega eða samvinnufélagslega rekin húsnæðiskerfi og sjóði.
15Ítarefni:
Húsnæði fólks á ekki að vera leikvöllur braskara. Eðlilegt er að stór hluti uppbyggingar húsnæðis sé óhagnaðardrifinn. Biðlistar eftir húsnæði hjá hinu opinbera eða félagasamtökum eru óásættanlegir. Lágtekjufólk á leigumarkaði er núna flest klemmt á milli lágra tekna og okurleigu.
Til að vernda þetta fólk þarf uppbyggingu félagslegs húsnæðis sem hefur áhrif á leigumarkaðinn og getur lækkað leiguverð varanlega. Einnig þarf að hækka húsnæðisstuðning svo að enginn greiði meira en fjórðung tekna sinna í húsnæðiskostnað.
Húsnæðisöryggi er ein af grunnforsendum velferðar í landinu og aðgangur að húsnæði eru sjálfsögð mannréttindi. (“25.grein mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir: 1. Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg…)
Langtímaáætlun í húsnæðismálum er afar nauðsynleg svo ekki safnist upp gríðarlegur húsnæðisskortur eins og raungerst hefur í dag. Við skipulagningu á nýjum byggðum og endurskipulagningu á eldri hverfum skal gera ráð fyrir því að hæfilegt hlutfall af lóðum sé úthlutað undir samvinnubyggingarfélög og félagslegt húsnæði. Þannig verði búsetufrelsi einstaklinga og fjölskyldna tryggt óháð efnahag. Með búsetufrelsi er átt við að fólk geti valið sér staðsetningu og gerð húsnæðis með tilliti til aðstæðna hverju sinni.
Ódýrt og öruggt húsnæði er forsenda allrar velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Grunnforsenda þess að hér verði byggt upp öflugt velferðarkerfi, sem er forsenda þess að fátækt verði upprætt, er stórátak í uppbyggingu félagslegs húsnæðis.
Sósíalistaflokkurinn leggur til húsnæðisumbyltingu þar sem 30 þúsund félagslegar íbúðir verði byggðar um allt land á næstu tíu árum en að auki verði byggt ríflega næstu þrjú árin til að mæta uppsafnaðri þörf.
Ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóðir þurfa að starfa saman að þessari uppbyggingu sem lagt er til að verði gert með eftirfarandi hætti: Húsnæðissjóður almennings verður stofnaður sem mun afla 70% nauðsynlegs fjármagns með útgáfu skuldabréfa sem seld verða lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum. Tryggingar skuldabréfanna eru öruggar, því íbúðarhúsnæðið verður í öruggri langtímaleigu, og munu skuldabréfin því bera sambærilega vexti og ríkisskuldabréf. Um 13% kostnaðarins munu sveitarfélög og ríki leggja til í formi lóða og 17% kemur sem lán frá ríkissjóði á lægstu vöxtum, lán sem greiðist til baka á endingartíma íbúðanna. Fjármagnskostnaður verður því eins lítill og mögulegt er í dag.
Húsnæðissjóður almennings mun síðan leigja húsnæði til Leigufélaga almennings, sem geta verið ýmiss konar: Leigufélög sveitarfélaga, námsmannafélaga, félaga öryrkja, aldraðra, einstæðra foreldra eða hvers kyns almannasamtaka með sameiginlega hagsmuni. Mögulegt verður jafnframt fyrir einstaklinga og/eða hópa, að velja sér búsetu í smáhýsabyggð eða húsum á hjólum. Ennfremur verður búið svo um að byggingasamvinnufélög og leigufélög rekin af íbúunum sjálfum, fái blómstrað. Þá verði skilyrði til leigu á félagslegu húsnæði rýmkuð og jaðarsetningu þar með útrýmt.
Bygginga- og borgarskipulag þarf að bæta til að koma í veg fyrir byggðir á hættusvæðum svo sem eldfjalla- eða snjóflóðahættusvæðum. Gera skal ráð fyrir góðri innviðauppbyggingu í nýjum hverfum allra sveitarfélaga svo ekki komi til heitavatnsskortur, rafmagnsleysi eða aðrar hindranir.
Einnig þarf að koma í veg fyrir að matvælaframleiðsla lokist inni á afmörkuðum landssvæðum vegna skemmda á innviðum við náttúruhamfarir. Nægilegt rekstrarfé verði sett í viðhald opinberra bygginga til að fyrirbyggja raka- og mygluvandamál.
Leigjendur eiga ekki að lifa í óvissu um leiguverð vegna vaxtabreytinga árið um kring heldur verði vaxtastigið ákvarðað einu sinni á ári út frá meðaltali, líkt og tíðkast víðast hvar í Evrópu og N-Ameríku. Mikilvægt er að leigjendur séu tryggðir gegn ofur leiguverði og að hagstæðara verði að leigja en kaupa og því eðlilegt að halda afborgunum húsaleigu undir lánaafborgunarverði.
Hér á landi hefur þessu verið öfugt farið en á sama tíma hefur fólk ekki fengið greiðslumat til íbúðarkaupa hjá bönkum þar sem tillit er tekið til þess hversu háa húsaleigu það hefur greitt, einungis horft á hversu mikið ráðstöfunaré það hefur á milli handanna.
Auk þess að fjölga verulega félagslega reknu húsnæði, verður að setja þak á leiguverð, tryggja réttarstöðu þeirra og að þeir hafi í sig og á.
Styrkja þarf stöðu leigjenda með eflingu leigjendasamtakanna en einnig má beita skattalegum úrræðum, til dæmis með því að auka skattlagningu á húsnæði án fastrar búsetu, hækka fjármagnstekjuskatt og fleira til að bæta stöðu þessa hóps.
Tryggja skal aðgengi alls almennings að húsnæði og sjá til þess að neyðarhúsnæði sé til staðar í öllum sveitarfélögum til að mæta bráðavanda. Fólk sé ekki vistað í neyðarskýlum þar sem það er úti í kuldann á daginn heldur verði mannsæmandi neyðarúrræði í boði hvort sem um er að ræða fjölskyldu á vergangi, flóttafólk eða fólk sem glímir við fjölþættan vanda.
Til að mæta núverandi húsnæðisvanda er einnig lagt til að mótaðar verði lausnir sem nú þegar eru til í nágrannalöndunum. Hafist verði strax handa við þróun nýs húsnæðissjóðs almennings og lagabreytingar honum tengdum og gert ráð fyrir að innleiðing á nýju kerfi taki ekki lengri tíma en þrjá mánuði.
Heilbrigðismál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að á Íslandi verði gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta rekin af skattfé borgaranna.
01Að unnið verði gegn allri markaðsvæðingu í heilbrigðisþjónustu og jafnvægi komið á þjónustuna miðað við þarfagreiningu.
02Að unnið verði markvisst að eflingu heilsugæslunnar.
03Að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði samþykktur.
04Að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði notuð á markvissan hátt við þjónustu við fatlaða.
05Að skýrsla Sameinuðu þjóðanna um geðheilbrigði (júní 2017) verði virt.
06Að unnið verði samkvæmt langtímamarkmiðum í heilbrigðisþjónustu og fjármagn til heilbrigðismála og reksturs Landspítala Háskólasjúkrahúss verði í samræmi við kröfur um nútímavædda heilbrigðisþjónustu.
07Að lyfjakostnaður verði að fullu niðurgreiddur og lyfjaverslun almennings sett á fót, með sterku gæðaeftirliti og bestu lyfjum sem völ er á.
08Að forvarnir og lýðheilsa verði efld og stuðlað að því að ríkið veiti þá þjónustu.
09Að komið verði á fót embætti umboðsmanns sjúklinga.
10Að geðsvið Landsspítala Háskólasjúkrahúss, sem og Barna- og unglingageðdeild verði efld og geti sinnt eðlilegri neyðarþjónustu.
11Að endurhæfing sé ávallt í boði fyrir langveika, sem vilja bæta heilsu sína og lífsskilyrði.
12Að öldruðum sé tryggð þjónusta við hæfi hvort heldur með heimahjúkrun, plássi á hjúkrunarheimili eða sjúkrastofnun.
13Að heilsugæsla og sjúkrahúsþjónusta á landsbyggðinni verði efld og þau sjúkrarými, tæki og búnaður sem þar er til staðar verði nýttur sem kostur er og að fjarlækningar verði efldar.
14Að starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna verði bætt og teymisvinna efld.
15Að grundvöllur velferðar og heilbrigðis sé einnig tryggður með öðrum nauðsynlegum umhverfisþáttum svo sem réttlátu og góðu húsnæðiskerfi, menntakerfi, atvinnulífi og launastefnu sem og almannatryggingakerfi.
16Ítarefni
Heilbrigðisþjónusta tekur til allra þátta heilbrigðis: líkamlegs, tilfinningalegs og geðræns. Þar með talið tannlækningar og tannéttingar, sálfræðiþjónusta, sjúkra-og iðjuþjálfun sem og þjónusta talmeinafræðinga, áfengis- og fíkniefnameðferðir auk ráðgjafar og stuðnings fyrir fólk sem orðið hefur fyrir ofbeldi og öðrum áföllum.
Heilsugæslan verði efld og að heilbrigðisstarfsfólk nálgist lækningar í heildrænu ljósi með tilliti til félags-og umhverfisþátta. Einnig skulu heilsugæslur bjóða uppá þjónustu fagfólks sem halda utan um réttindamál og aðstoða fólk við að sækja rétt sinn og vísa því veginn innan heilbrigðis- og almannatryggingakerfisins.
Samhliða því að Ísland setur sér langtímamarkmið, sem nær til lengri tíma en eins kjörtímabils, skal sinna þarfagreiningu, gæðamati og samkeppnishæfni við önnur lönd. Eftirlit skal vera í höndum óháðs aðila en ekki landlæknisembættisins.
Geðheilbrigðisþjónustu þarf að efla innan spítala og á heilsugæslu sem og neyðarúrræði fyrir börn og unglinga með geðrænan vanda. Rannsóknir sýna að því fyrr sem brugðist er við þroskaröskunum eða geðröskunum því meiri líkur eru á að koma megi í veg fyrir alvarlegri afleiðingar síðar. Skólar á öllum menntastigum skulu hafa aðgang að geðheilbrigðisstarfsfólki í gegnum heilsugæsluna.
Setja þarf hömlur á fjárveitingar ríkisins til einkarekinna aðila og kanna hvort Sjúkratryggingar Íslands verði aftur sameinaðar Tryggingastofnun ríkisins eða búið til nýtt kerfi af velvirkandi fyrirmynd. Stýra þarf fjárúthlutunum út frá þarfagreiningum og forgangsröðun hverju sinni og að gæðaeftirlit tryggi að komið verði í veg fyrir að fé renni úr ríkissjóði til einkageirans að ástæðulausu. Heilbrigðisþjónusta verði ekki rekin í arðsemisskyni og jafnvægi verði komið á innan þjónustunnar svo ekki skapist tækifæri til oflækninga né að stíflur myndist eða langir biðlistar.
Lyfjaverslun í almannaþágu mun hafa það að markmiði að kaupa lyf á sem hagstæðustu kjörum t.d. með lyfjainnkaupum í samvinnu við nágrannalöndin og bjóða upp á bestu lyf sem völ er á í samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Þá verði kostnaður vítamína og næringadrykkja einnig niðurgreiddur þar sem það á við.
Forvarnir og lýðheilsa verði ávallt í forgrunni og notast verði við stefnu sem skilgreinir ítarlega hlutverk hvers aðila sem að málum kemur hverju sinni. Þannig má koma í veg fyrir tvíverknað innan kerfisins.
Hægt verði að leita til Umboðsmanns sjúklinga með mál er varða öngstræti innan kerfisins eða þegar einstaklingur telur á sér brotið á einhvern hátt. Umboðsmaður sjúklinga muni hafa tilskipunarvald.
Efla skal endurhæfingu á vegum heilbrigðisþjónustunnar. Langveikir ættu ávallt að eiga greiðan aðgang að endurhæfingu til að koma í veg fyrir hnignun á heilsufari sínu óháð því hvort þeir stefni út á vinnumarkaðinn eða ekki.
Að endurhæfingastofnanir í einkarekstri eða reknar af frjálsum félögum lúti eðlilegri eftirlitsskyldu sem vel er sinnt.
Eldri borgarar skulu njóta efri áranna með reisn og fá þá þjónustu sem þeir þurfa án þess að vera hegnt fyrir það að fjölskyldumeðlimir sinni þeim. Í því ljósi þarf að fjölga opinberum hjúkrunar- og elliheimilum og efla heimaþjónustu.
Með bættu starfsumhverfi innan heilbrigðisþjónustunnar verður meðal annars komið í veg fyrir að hjúkrunarfólk hvort heldur er á sjúkrastofnunum eða við heimaþjónustu þurfi að taka óeðlilega margar vaktir til að halda mannsæmandi launum.
Öflugar göngudeildir verði byggðar upp innan Landsspítala þar sem markmiðið er að ráða ekki lækna í hlutastörf heldur tryggja að starfskraftar þeirra og þekking nýtist sem best bæði hvað varðar kennslu innan Háskólasjúkrahússins sem og í þágu sjúklinga.
Fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni taki mið af þeim fjölda sem þarf að sinna þar með talið ferðamönnum og fólki í orlofshúsum. Sjúkraflutningar verði skoðaðir í samræmi við byggingu nýs Landspítala.
Lýðræðismál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að jöfnuður sé hornsteinn lýðræðis.
01Að réttlátt kosningakerfi verði tryggt með jöfnu vægi atkvæða óháð búsetu.
02Að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna séu ávallt virtar.
03Að ný stjórnarskrá taki gildi hið fyrsta.
04Að lýðræðismál séu hluti af grunnmenntun.
05Að aðgengi almennings að áreiðanlegum og réttum upplýsingum verði tryggt.
06Að lýðræðisvæða verkalýðsfélög og lífeyrissjóði.
07Að rekstrargrundvöllur öflugra félaga í þágu almannahagsmuna, svo sem samtökum neytenda af hvaða tagi sem er, verði tryggður.
08Að náttúruauðlindir verði ávallt í eigu þjóðarinnar.
09Að lýðræðisvæða vinnustaði og stjórn fyrirtækja.
10Ítarefni
Þar sem jöfnuður er lykillinn að lýðræðislegu samfélagi skal ríkið tryggja borgurum sínum viðunandi lífsskilyrði, kjör, menntun og heilbrigðisþjónustu. Þannig ber einnig að tryggja jöfn atkvæði í alþingiskosningum óháð búsetu.
Þjóðaratkvæðagreiðslur ber að nýta í mikilvægum málum er varða almannaheill og skal Alþingi virða þær eins og krafist er í nýrri stjórnarskrá. Ný stjórnarskrá skal taka gildi strax samkvæmt því ferli sem hófst með kosningu til stjórnlagaráðs árið 2010, sem lagði fram drög sem kosið var um og samþykkt með 66.9% greiddra atkvæða. Þá ber í framhaldinu að virða stjórnarskrána en jafnframt að umgangast hana sem lifandi samfélagssáttmála, sem getur tekið breytingu með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Til að auka lýðræðislega þátttöku og skilning fólks á mikilvægi þess, þarf skólakerfið að veita nemendum strax í grunnskóla fræðslu og þjálfun í verki við lýðræðislega stjórnarhætti og vinnubrögð.
Ríkisútvarpið gegni lykilhlutverki í því að tryggja það að upplýsingar séu sem áreiðanlegastar og öllum landsmönnum aðgengilegar. Rannsóknarblaðamennska verði efld og njóti lagaverndar.
Mikilvægt er að lýðræðisvæða verkalýðsfélög og lífeyrissjóði svo sérhagsmunir stýri ekki fjármagnssteymi og framkvæmdum. Efla þarf þessi félög svo þau vinni í þágu launþeganna og standi vörð um þeirra hagsmuni. Embættisseta verði takmörkuð (t.d. að hámarki 8 ár) og félagsmenn kjósi sér forystu með beinum hætti. Slembival verði einnig notað í auknum mæli innan slíkra félaga en slembival er áhrifaríkt vopn gegn spillingu og gefur almenningi tækifæri til að hafa bein áhrif.
Með því að tryggja rekstrargrundvöll félaga sem vinna að almannahagsmunum svo sem félag neytenda, félag leigjenda, öryrkjabandalags og fleiri aðila, má efla jöfnuð og lýðræði og stuðla að samfélagi sem styður við almannahagsmuni fremur en sérhagsmuni. Það er gríðarlegt hagsmunamál að almenningur eigi sér talsmenn á sem flestum sviðum sem viðkemur lífi og lýðheilsu.
Arður af auðlindum renni til sameiginlegra sjóða allra landsmanna. Réttur komandi kynslóða til auðlindanna verði tryggður.
Sameiginlegir sjóðir
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að sameina hin sundurleitu kerfi bóta og lífeyris í eitt almennt tryggingakerfi svo tryggja megi öllum mannsæmandi líf.
01Að einfalda tryggingakerfið.
02Að námsstyrkir komi í stað lána.
03Að skattrannsóknir og opinbert eftirlit á fjármálakerfinu verði eflt og beint í auknum mæli að fjársterkum aðilum og stórfyrirtækjum.
04Að skattkerfið verði nýtt sem jöfnunartæki.
05Að stutt verði betur við barnafjölskyldur með hærri barnabótum.
06Að gjöld fyrir opinbera grunnþjónustu verði afnumin.
07Að arðurinn af auðlindum verði þjóðnýttur.
08Ítarefni
Sameiginlegir sjóðir og arður af sameiginlegum auðlindum eiga að stuðla að félagslegu réttlæti og öryggi fyrir alla, með mannhelgi að leiðarljósi svo veita megi öllum gott líf í réttlátu samfélagi.
Lífeyrisgreiðslur, sem skyldugreiðslur launþega má einnig kalla dulda skattheimtu á launafólk. Lífeyrissjóðakerfið og almannatryggingakerfið lúta ekki sömu lögmálum og mismuna fólki verulega þegar kemur að tryggingum. Kerfin eru sundurleit og ógagnsæ og erfiðust fyrir þá sem þurfa mest á þeim að halda. Í stað áhættufjárfestinga og gríðarlegra launagreiðslna æðstu stjórnenda, sem í dag sitja á fjármagni lífeyrissjóðanna, mætti með sameiningu þessara kerfa nýta það fjármagn í þágu velferðar.
Skattkerfið eins og það er í dag er hannað í þágu hinna efnameiri með lögleiddum skattsvikum stórfyrirtækja eða skattaundanskotum og líður almenningur og samneyslan fyrir. Vald og auður hafa safnast á hendur fárra aðila og auðlindarenta hefur verið einkavædd. Barnafjölskyldur sjá litlar sem engar barnabætur lengur nema vera langt undir fátæktarmörkum. Gróðasjónarmið ráða fjárfestingu, frekar en manngildi og sköpun góðs samfélags. Þennan vaxandi ójöfnuð þarf að rjúfa með réttlátu skattkerfi og eflingu opinberra eftirlitskerfa um skattrannsóknir og fjármagn.
Gjöld eru innheimt fyrir heilbrigðisþjónustu, menntun, bankaþjónustu og samgöngur og gjöldin eru þau sömu óháð tekjum. Með eðlilegum auðlindagjöldum og sameiningu lífeyrissjóða við ríkissjóð á þjóðfélagið að geta staðið undir allri grunnþjónustu án sérstakra gjalda á almenning.
Menntamál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að menntun barna og ungmenna sé með öllu gjaldfrjáls sem og háskóla- og framhaldsnám á vegum hins opinbera.
01Að skólamáltíðir á grunn- og framhaldsskólastigi séu gjaldfrjálsar.
02Að komið sé í veg fyrir stéttskiptingu milli skóla og innan þeirra með aðgerðum til jöfnuðar.
03Að skólinn stuðli að vellíðan nemenda og starfsfólks með því að draga úr samkeppni innan skólaumhverfisins og tryggja smærri hópa í námi.
04Að allir skólar bjóði upp á þann stuðning sem nemendur þurfa á að halda óháð biðlistum og greiningum.
05Að börnum og ungmennum séu tryggðar gjaldfrjálsar tómstundir og að þær séu færðar inní skólahúsnæðið eins og kostur er og metnar til náms.
06Að innflytjendum á öllum aldri sé tryggð íslenskukennsla og innflytjendabörnum einnig móðurmálskennsla.
07Að börnum á flótta sé tryggð menntun til jafns við önnur börn.
08Að lýðræðisvitund nemenda og starfsfólks á öllum skólastigum sé virkjuð.
09Að störf kennara séu metin að verðleikum og gerð eftirsóknarverð.
10Að öll tengsl menntunar og vinnumarkaðar séu í samstarfi við verkalýðsfélög.
11Að auka verk-, tækni- og listnám á öllum skólastigum.
12Að tekið verði upp námsstyrkjakerfi.
13Að tryggja virkt rannsókna-, vísinda- og fræðaumhverfi á Íslandi.
14Ítarefni
Skólakerfið skal rekið af hinu opinbera og nægt fjármagn tryggt til allra menntastofnana í opinberum rekstri. Allar fjárveitingar miðist við raunverulegar þarfir út frá faglegri þarfagreiningu. Gjaldfrjáls grunnskóli felur m.a. í sér námsgögn, næringarríkan mat, frístundaheimili ásamt ferðalögum og skemmtunum, foreldrum skólabarna að kostnaðarlausu. Þá skal skólinn opna aðstöðu sína og húsnæði fyrir borgarana án endurgjalds. Framhaldsskólinn skal einnig vera gjaldfrjáls og bjóða nemendum uppá einfaldan morgun- og hádegismat nemendum að kostnaðarlausu. Háskólar í opinberum rekstri skulu einnig vera reknir nemendum að kostnaðarlausu og skulu aðrir háskólar eða sérskólar gæta hófs við innheimtu gjalda.
Skólinn skal vera stéttlaus og tryggja verður að þeir efnaminni hafi sömu tækifæri og aðrir á öllum skólastigum. Þá sé spornað gegn allri aðgreiningu sem leitt geti til jaðarsetningar svo sem aðgreiningu fátækra og ríkra, fólks af ólíkum uppruna, á grundvelli fötlunar, aldurs eða kyngervis. Þá er mikilvægt að minnka aðstöðumun þeirra sem búa á landsbyggðinni til að stunda t.d. iðn- og verknám sem eingöngu er kennt á höfuðborgarsvæðinu með framboði á heimavist eða námsíbúðum. Þá skal einnig tryggja fullorðnu fólki sem ekki hefur klárað framhaldsskólanám á tilsettum tíma skólavist og auka námsúrræði fyrir þann hóp.
Minni hópar eru forsenda einstaklingsmiðaðra námsskráa. Leggja þarf meiri áhersla á samkennd, vellíðan og samvinnu en minni á samkeppni. Þá skulu samræmd próf gerð valkvæð í grunnskólum. Ennfremur er þarft að takmarka heimanám. Mikilvægt er að áfallateymi sé ávallt til staðar og bregðist við af festu þegar áföll verða í fjölskyldum eða meðal kennara. Sömuleiðis þurfa að vera starfandi sálfræðingar innan allra skóla og að nemendur geti leitað til þeirra milliliðalaust.
Öll börn eiga rétt á stuðningi og aðstoð í skóla óháð því hvort þau eru á biðlista eftir greiningu eða ekki. Þarft er að öll stuðnings- og aukakennsla sé á vegum skólanna svo foreldrar þurfi ekki sjálfir að koma börnum sínum til og frá fagaðila á skóla/vinnutíma.
Innflytjendabörn skulu eiga rétt á íslenskukennslu sem og móðurmálskennslu og fólk af erlendum uppruna komið af skólaskyldualdri skal einnig eiga rétt á íslenskukennslu á öllum námsstigum. Þá skuli börn og ungmenni innflytjenda fá stuðning á öllum skólastigum, ekki síst framhaldsskólastigi. Þá þarf túlkaþjónusta að vera tryggð af hinu opinbera.
Börn á flótta skulu eiga rétt á námi á sama hátt og önnur börn á landinu og séu þeim búnar viðunandi aðstæður til að stunda nám í venjulegum hverfisskóla svo í kringum þau myndist eðlilegt tengslanet.
Lýðræðisvæðing skólakerfisins er mikilvæg, ekki hvað síst til að venja börn við lýðræði og efla sjálfstæða hugsun. Vert er að leyfa nemendum að hafa meira um námið að segja auk þess sem gagnkvæm virðing verði höfð að leiðarljósi í öllu skólastarfi. Val á skólastjórnendum þarf einnig að vera lýðræðislegt ferli sem vinnur gegn pólitískum ráðningum og spillingu.
Menntun kennara er afar mikilvæg enda sinna þeir einu ábyrgðarmesta starfi samfélagsins. Því ber að styðja við nám þeirra með öflugum hætti. Símenntun þarf að vera eðlilegur hluti af starfinu og þurfa kennarar tíma til að sinna henni. Fjölga þarf námsleyfum og veita þau fyrr á starfsferlinum en nú er gert. Þá þarf að tryggja eðlilega nýliðun háskólakennara og bæta launakjör og stöðu stundakennara. Námsefnisgerð og þýðing á námsefni verði tekin alvarlega meðal skólayfirvalda og metin til launa.
Efla skal tengsl menntunar og vinnumarkaðs í nánu samstarfi við verkalýðsfélögin og ASÍ. Þá skal huga sérstaklega vel að iðngreinum og mismuna ekki námsgreinum út frá kostnaði. Mikilvægt er að auka við nýsköpun í skólastarfi; auka list- og verknám strax á grunnskólastigi og leggja meiri áherslu á iðn- og verkgreinar á framhaldsskólastigi. Þá verði lýðháskólar raunhæfur valkostur. Raunfærnimat skal viðhaft svo að fólk með reynslu eða menntun erlendis frá fái þekkingu sína metna.
Huga þarf að orsökum brottfalls úr skóla og að framhaldsskólanemendum standi til boða að taka styttri brautir sem skili þeim prófgráðu en þeir geti einnig tekið lengra nám sem skili þeim stúdentsprófi. Ennfremur er mikilvægt að öll skólastig vinni betur saman; að nám í gegnum leik haldi áfram upp í grunnskóla og að aukin áhersla verði lögð á rökhugsun, gagnrýna hugsun, sköpun, samkennd og vellíðan. Stytting framhaldsskólans verði endurskoðuð með tilliti til líðan og streitu nemenda.
Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) taki upp styrkjakerfi og kerfið sé gert manneskjulegra þar sem allir hafi færi á að mennta sig hvort heldur er á iðn-, tækni-, háskóla- eða sérskólastigi. Endurskoða þarf gamla námslánakerfið með leiðréttingu í huga og gera fólki kleift að gera upp lánin sín með eðlilegri greiðslubyrði og fella þau niður þegar við á.
Mikilvægt er að styðja í auknum mæli við rannsóknir og stofnun nýrra námsbrauta einkum í grunnnámi á háskólastigi til að búa okkur undir framtíðina. Þá verði boðið upp á fjölbreytt framhaldsnám á háskólastigi og tryggt að ný þekking berist til landsins.
Tryggja þarf sjálfstæða rannsóknarsjóði og koma í veg fyrir að hægt sé að greiða arð úr þeim. Endurskoða skal ráðningarferli háskólakennara og tryggja nægilegt fjármagn fyrir lausráðið akademískt starfsfólk. Þá skal auka og efla styrki til rannsóknar- og doktorsverkefna.
Sveitastjórnarmál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að tryggja að grunnþörfum allra íbúa sveitarfélaga sé mætt, almenn velferð verði að veruleika fyrir alla, að allir lifi með reisn og önnur mannréttindi séu virt í takt við fremstu ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga. Sérstaklega sé öryggi barna tryggt og að ákvarðanir séu teknar í samræmi við velferð þeirra.
01Að sveitarfélög vinni í þágu einstaklinga og fjölskyldna og hlúi sérstaklega að velferð þeirra sem eru í veikri aðstöðu og hafa færri úrræði í lífinu eins og öryrkjar, eldra fólk, innflytjendur og láglaunafólk.
02Að yngstu börnunum séu búnar aðstæður til þess að þroskast og dafna með fjölskyldu sinni og síðar með jafnöldrum og félögum.
03Að börnum og ungmennum sé tryggð menntun við hæfi og tryggt verði fjármagn til að skólinn og námsgögn nemenda séu gjaldfrjáls. Framfylgja þarf ítrustu kröfum um jafnrétti í skólastarfi, heilbrigði og velferð barna, læsi og sköpun og kröfur um lýðræði og mannréttindi þeirra virtar til fulls.
04Að sveitarfélög útbúi raunhæf framfærsluviðmið fyrir þá sem þurfa framfærslu og stuðning frá sveitafélögum þannig að einstaklingum og fjölskyldum sé tryggð örugg framfærsla.
05Að setja þarfir og rödd notenda félagsþjónustu í fyrsta sæti og auka alla aðgengilega velferðarþjónustu.
06Að allir eigi rétt á góðu húsnæði. Sveitarfélögunum verði skylt að mæta þörfum íbúa fyrir félagslegt húsnæði. Félagslega rekin leigufélög og einstaklingar gangi fyrir í úthlutun lóða og sveitarfélögin styðji íbúðauppbyggingu á félagslegum forsendum. Að búsetumöguleikum innan sveitarfélaga verði fjölgað og settar verði strangar reglur um starfsemi leigufélaga. Þak verði sett á leiguverð.
07Að allir eigi rödd sem skiptir máli í samfélaginu. Að íbúar sveitarfélaga verði efldir til að hafa meiri áhrif. Að boðið verði upp á samráðshópa sveitarstjórna með slembivöldum einstaklingum. Sérstaklega verði hugað að sjálfræði íbúa í hverfum stórra sveitarfélaga.
08Að sveitarfélög hverfi frá láglaunastefnu sinni, útrými henni alveg og verði leiðandi fyrirmynd á vinnumarkaði hvað varðar laun, vinnutíma og önnur kjör starfsfólks.
09Að tryggja réttindi íbúa til heilsusamlegs umhverfis og efla umhverfisvitund.
10Að samgöngur miði að því að þjóna íbúum sveitarfélaga og ekki síst þeim tekjulægri. Horfið verði frá því eins og mögulegt er að höfuðborgarsvæðið og stærri sveitarfélög verði áfram bílaborgir. Nýjum hverfum fylgi góðar almenningssamgöngur, það er hluti af innviðum.
11Að standa vörð um fyrirtæki í eigu sveitarfélaga; að fyrirtæki sem þjóna íbúum sveitarfélaganna verði ekki seld, aðhald og gengsæi verði aukið í stjórnsýslu og rekstri fyrirtækja í eigu sveitarfélaga.
12Að öll sveitarfélög taki sameiginlega ábyrgð í málefnum fólks í landinu og tryggi jöfnuð íbúa, sveitarfélaga og landshluta. Samvinna sveitarfélaga verði aukin og samræmi verði í gjaldtöku þeirra þannig að ekki myndist „skattaparadísir“.
13Að sveitarfélögin geri átak í innleiðingu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga í starfsemi sinni og auki gegnsæi starfa sinna. Sveitar- og bæjarstjórar og borgarstjóri verði fagmenn en ekki pólitískir foringjar. Leitað verði leiða til þess að tryggja lýðræðislega aðkomu íbúa og eðlilega ábyrgðarkeðju og gegnsæi í starfi fyrirtækja í eigu sveitarfélaga; jafnvel með stofnun nýs stjórnsýslustigs.
14Vinnumarkaðsmál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að gætt sé að manngildi, reisn og öryggi á vinnumarkaði með mannsæmandi kjörum og vinnuaðstæðum.
01Að grunntaxti lágmarkslauna og skattleysismörk séu aldrei undir opinberu framfærsluviðmiði.
02Að ríki og sveitarfélög séu ekki leiðandi í láglaunastefnu.
03Að dregið verði úr mun hæstu og lægstu launa.
04Að útvistun starfa á vegum hins opinbera verði hætt.
05Að jafnréttis sé gætt á vinnumarkaði og að ólíkir hópar njóti sömu kjara fyrir sömu vinnu.
06Að sérstaklega sé gætt að því að erlent starfsfólk njóti sömu kjara og réttinda og íslenskt starfsfólk og hafi gott að aðgengi að upplýsingum um vinnulöggjöf og kjarasaminga.
07Að skýr aðgerðaáætlun fari í gang þegar mansal uppgötvast og að fylgst sé sérstaklega vel með því að starfsmannaleigur fylgi lögum og reglum ellegar sæti viðurlögum.
08Að komið verði í veg fyrir óeðlilega tengingu milli vinnuveitanda og leigusala.
09Að komið sé í veg fyrir kennitöluflakk og launaþjófnað með öflugri lagasetningu og viðurlögum.
10Að atvinnuþátttaka skerði ekki framfærslu lífeyrisþega eða annarra sem reiða sig á tekjur frá hinu opinbera.
11Að tekið sé undir kröfur ÖBÍ um að starfsgetumati sé hafnað og krónu-á-móti-krónu-skerðing lífeyrisþega verði hætt.
12Að fæðingarorlof verði lengt í 18 mánuði.
13Að stuðlað sé að auknu lýðræði á vinnustöðum.
14Að stuðlað sé að stofnun samvinnufélaga í formi lýðræðislegra fyrirtækja í eigu starfsfólks.
15Að efla manneskjuvænna samfélag með 32 stunda vinnuviku.
16Að standa vörð um lýðræði í stéttarfélögum.
17Ítarefni
Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Fólk skal njóta virðingar, mannsæmandi kjara, góðra vinnuaðstæðna og öryggis á vinnustað. Styrkur launafólks felst í einingu þess í gegnum sterk verkalýðs- og stéttarfélög.
Aðilar vinnumarkaðarins, opinberir eða almennir skulu ætíð hafa viðurkennda opinbera framfærslu að viðmiði í lægstu grunntöxtum. Skattleysismörk skulu hækkuð svo lægstu laun séu sldrei skattlögð. Lág laun skaða samfélagið þar sem þau leggja gífurlegt álag á láglaunafólk, oft með þeim afleiðingum að það dettur út af vinnumarkaði fyrir aldur fram. Hækka skal því lægstu laun og jafnframt stefnt að því að hæstu laun hjá ríki og sveitarfélögum verði ekki nema í mesta lagi þreföld á við þau. Þá verði dregið úr hvata til að borga ofurlaun með skattkerfi og lagasetningu.
Koma skal í veg fyrir að ríki og sveitafélög útvisti tilteknum starfssviðum (t.d. þrifum og mötuneyti) innan vinnustaða sinna og ráði þess í stað starfsfólk til langtíma, sem sinni þessum störfum á sömu kjörum og með sömu réttindi og aðrir opinberir starfsmenn.
Þá skal gætt að jafnrétti á vinnustöðum og tryggt að ekki sé brotið á rétti fólks út frá kyni, uppruna, trú, fötlun eða aldri.
Mótuð skal stefna um hvernig sé tekið á móti erlendu starfsfólki svo það þekki réttindi sín og skyldur og að innviðir samfélagsins geti tekið á móti því, t.d. Þegar kemur að húsnæði, velferðarþjónustu, eftirliti með vinnustöðum og íslenskukennslu. Þá sé haft eftirlit með því að erlent starfsfólk sem ekki þekkir til íslensks vinnumarkaðar sé ekki sjálfkrafa sett á lægsta taxta og menntun þess og reynsla ekki metin til launa. Einnig skal setja skýrar reglur um sjálfboðavinnu svo hún gangi ekki gegn kjarabaráttu launafólks.
Verkalýðshreyfingin í samvinnu við yfirvöld og atvinnurekendur skulu sjá til þess að öll upplýsingagjöf um kjarasamninga sé aðgengileg á ýmsum tungumálum og fólk hvort sem er íslenskt eða erlent, ungmenni eða fatlað starfsfólk sé betur varið fyrir því að verða hlunnfarið af vinnuveitendum. Þá skal fólk hafa eignarrétt á vinnuframlagi sínu og lög sem hefta almennan verkfallsrétt afnumin.
Lífeyrisþegar og aðrir þeir, sem vilja og geta unnið hlutastörf eiga ekki að horfa fram á lakari kjör fyrir vinnuframlag sitt, hvorki í formi launa né krónu-á-móti-krónu-skerðingum svo koma megi í veg fyrir að fólk lendi í fátækrargildru. Þá skal unnið að útrýmingu fötlunarfórdóma á vinnustöðum og aðgengismál tekin fastari tökum.
Auka verður aðkomu starfsfólks að ákvörðunartöku fyrirtækja og gefa því aukna hlutdeild í arði þeirra. Leitast skal við að starfsfólk eigi fulltrúa í stjórn vinnustaða sinna og stefnt að stofnun samvinnufélaga í formi lýðræðislegra fyrirtækja í eigu starfsfólks. Við eignarskipti eða gjaldþrot fyrirtækja, hafi starfsfólk ávallt forkaupsrétt á því.
Stofnun lýðræðislegra fyrirtækja verði auðvelduð m.a. Með skattaívilnunum og hagstæðum rekstrarlánum. Hlutafélögum verði jafnframt gefinn kostur á að breyta sér í samvinnufélög og fá þá aðgang að sömu ívilnunum og lánum. Við stofnun samvinnufélaga þurfi aðeins tvo stofnfélaga.
Standa skal vörð um lýðræði í stéttafélögum m.a. með ákvæðum um hámarkstíma stjórnar- og nefndasetu og með því að efla virkni félaga.
Stjórnir lífeyrissjóða skuli ávallt vera skipaðar sjóðsfélögum, sem í þá greiða eða hafa greitt í þá og unnið sér réttindi og engum öðrum.
Velferðarmál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að hér á landi sé rekið velferðarsamfélag þar sem unnið er markvisst að réttlátri skiptingu gæða og útrýmingu fátæktar.
01Að öllum sé tryggður aðgangur að velferðarkerfi með lögum án tillits til greiðslugetu, óháð kyni, uppruna, trú, fötlun, aldri, eða kynverund.
02Að velferðarþjónusta sé ekki rekin í hagnaðarskyni.
03Að notendur komi að stjórnun velferðarmála, hafi rétt á að kjósa sér fulltrúa og sitja í nefndum og stjórnum sem hið opinbera setur á stofn.
04Að enginn verði framfærslulaus og skal íslenska ríkið tryggja lífeyrisþegum, öldruðum, atvinnulausum og öðrum sem þess þurfa öruggt lífsviðurværi.
05Að ríkið sem og stærri sveitarfélög setji fram framfærsluviðmið sem taki mið af launaþróun, húsaleigu og öðrum sveiflum í kostnaði.
06Að tryggja greiðan aðgang að öllum réttindum í velferðarkerfinu í gegnum þjónustufulltrúa sem veitir aðstoð sem og umboðsmann velferðarmála sem hægt er að leita til ef brotið er á rétti einstaklings.
07Að fólk haldi réttindum sínum innan velferðarkerfisins þrátt fyrir að flytjast milli sveitarfélaga eða til annarra landa til tímabundinnar dvalar.
08Að félagsleg úrræði séu óháð búsetu og fólki því ekki mismunað milli sveitarfélaga.
09Að börn og barnafjölskyldur njóti sérstakrar verndar og að öll börn sitji ætíð við sama borð efnahagslega.
10Að þjónusta við langveik börn og réttindi þeirra rofni ekki við sjálfræðisaldur.
11Að öllum sé tryggð búseta við hæfi samanber stefnu sósíalista í húsnæðismálum.
12Að örorkulífeyriskerfið verði eflt en starfsgetumati hafnað í samræmi við vilja ÖBÍ og krónu-á-móti-krónu-skerðingum hætt.
13Að eldri borgurum sé tryggð þjónusta við hæfi hvort sem um heimaþjónustu eða þjónustu á hjúkrunar- eða sjúkrastofnunum sé að ræða eða aðra félagslega þjónustu.
14Að sérstaklega sé hugað að velferð ýmissa viðkvæmra hópa og jaðarsettra.
15Að fíknisjúkdómurinn sé afglæpavæddur og tekið á honum sem heilbrigðisvanda.
16Ítarefni
Á Íslandi er velferð lögbundin og skal vera aðgengileg öllum án skilyrða, óháð kyni, uppruna, aldri, trú, fötlun eða kynhneigð einnig þeim sem hingað koma vegalausir. Velferðarkerfið snýst um að skapa þær aðstæður sem þarf til að fólk finni til öryggis og líði vel, tryggja að grunnþörfum allra sé mætt svo fólk geti lifað með reisn og notið almennra mannréttinda í samræmi við ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga.
Tryggja skal samstarf milli ríkis og sveitarfélaga svo grunnþjónusta velferðarmála sé ávallt áreiðanleg. Þá skal vera lögbundið að sveitarfélög veiti þjónustu í velferðarmálum hvort heldur er um húsnæði eða aðra grunnþjónustu að ræða. Þá skal ríkið sem og sveitarfélög reikna út og birta raunhæf neysluviðmið sem opinberar stofnanir og aðrir geta notast við í útreikningum sínum.
Opinberar stofnanir í þjónustu almennings skal ekki einkavæða og skal ríkið ekki styrkja hagnaðardrifna velferðarþjónustu. Þá skulu gilda ströng lög um hvaða eignar- og rekstrarform verði heimilt að nota í slíkri þjónustu og eftirlit haft þar með.
Notendur eiga að hafa virka og gilda aðild að stjórn velferðarkerfis í gegnum hagsmunahópa notenda. Þá sé hlustað á kröfur og ályktanir slíkra hópa en einnig sé hlustað á þarfir og vilja barna og í tilfelli barnaverndar sé einnig hlustað á fólk sem hafði reynslu af kerfinu á barnsaldri.
Velferðarkerfið á að stuðla að góðri andlegri sem líkamlegri heilsu og styðja þá sem missa færni og framfærslutekjur. Kerfið á að gagnast notendum vafningalaust. Þá skal tryggja betri samfellu í stefnumótun þess og undirstrika mannhelgi og velferð í íslensku samfélagi.
Ríkið á að sjá íbúum hvers sveitarfélags fyrir þjónustufulltrúa velferðarmála sem veitir að fyrra bragði upplýsingar um réttindi fólks og tryggir þannig upplýsingaflæði þegar aðstoðar er þörf. Fólk á ekki að þurfa að bíða í óvissu með framfærslu og sanna fyrir stofnunum á hvers hendi það sé að greiða; sveitarfélagsins, ríkisins, stéttafélagsins eða annarra. Þannig er mikilvægt að starfsmenn velferðarkerfisins skapi einstaklingnum ekki meira óöryggi en hann stendur frammi fyrir þegar neyðin kallar. Þá skal ríkið skipa umboðsmann velferðarmála til að gæta réttaröryggis fólks í tengslum við stjórnsýsluframkvæmdir, kæruleiðir og fleira. Til að tryggja hlutleysi í málum skal slíkt umboðsmannsstarf vera kostað af ríki en ekki sveitarfélagi svo hagsmunagæsla byggðarlags ráði ekki för.
Tryggja skal að réttindi séu virt og að íbúar mismunandi sveitarfélaga sitji við sama borð þegar kemur að þjónustu og velferð. Þannig skal efla samstarf ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að þjónustustig félagslegrar þjónustu sveitarfélaga sé hátt og að þau geti ekki firrt sig ábyrgð þegar kemur að velferð. Þá sé aðstöðumun fólks sem býr á landsbyggðinni eytt þegar kemur að kostnaði við að sækja sér þjónustu á vegum ríkisins.
Tryggja skal að fólk missi ekki réttindi sín við flutninga hvort heldur sé milli sveitarfélaga eða tímabundið til útlanda. Langveik börn missi ekki réttindi og þjónustu við sjálfræðisaldur og þörfum barnafjölskyldna sé sérstaklega mætt svo öll börn sitji við sama borð. Tryggja skal sérstaklega réttindi fatlaðra barna með tvöfalda búsetu. Þá skulu öll opinber úrræði fyrir börn svo sem skólar og heilbrigðisþjónusta ætíð vera gjaldfrjáls.
Vikið sé frá hugmyndinni um starfsgetumat í stað örorkumats en endurhæfing og möguleikar til atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega efldir og unnið gegn fordómum gegn fötlun á vinnumarkaði. Jafnframt sé afnumin krónu-á-móti-krónu-skerðing.
Mikilvægt er að málefni eldri borgara séu tekin föstum tökum og unnið markvisst að því að útrýma fátækt og biðlistum eftir viðunandi úrræðum. Þá verði persónulegt og félagslegt tengslanet fólks eflt og unnið gegn einmanaleika. Það verði meðal annars gert með nýjungum í hönnun sambýlishúsa fyrir eldri borgara. Þá skal hverfisbundin félagsþjónusta efld og sveitarfélög sem og hverfamiðstöðvar sporna gegn einangrun og einmanaleika í gegnum félagsleg úrræði og iðju sem efla tengslanet fólks.
Lífeyrisþegar, atvinnulausir og aðrir sem reiða sig á velferðarkerfið geti ávallt sótt sér endurhæfingu og virkni sér að kostnaðarlausu til að efla lífsgæði sín. Þá skal markvisst barist gegn fordómum gegn þeim sem þurfa að þiggja félagslega aðstoð eða framfærslu.
Fíknisjúkdómurinn skal vera afglæpavæddur en tekið á þeim vanda sem fíkniefnaneysla skapar sérstaklega innan heilbrigðisþjónustunnar og félagsþjónustunnar og úrræði fíknimeðferða stórlega efld. Sérstaklega verði hugað að forvörnum og taki þær mið af gagnreyndri þekkingu á þeim áhættuþáttum sem leiða til upphafs fíkniefnaneyslu.
Jafnréttismál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að allir skulu vera jafnir fyrir lögum samfélagsins óháð efnahag, félagslegri stöðu, uppruna eða líkamlegu atgervi.
01Að efnahagsleg forréttindi ráði ekki stefnu eða lögum landsins.
02Að slagorðið „Ekkert um okkur án okkar“ sé ávalt haft í heiðri í öllum stjórnvaldsákvörðunum og alltaf leitað samvinnu við þá sem málin varða.
03Að skattheimta sé réttlát og nýtt til fulls sem jöfnunartæki.
04Að upplýsingar til almennings séu ávallt fullnægjandi og vel aðgengilegar, þýddar eða hljóðsettar.
05Að vægi atkvæða til kosninga sé jafnt og óháð búsetu þegar kemur að kosningum til alþingis.
06Að lýðræðið sé virt og að þjóðaratkvæðagreiðsla sé bindandi gagnvart ríkjandi valdhöfum hverju sinni.
07Að sett sé nægilegt fjármagn í alla heilbrigðis og velferðarþjónustu svo tryggt sé að fólk fái lifað með reisn.
08Að bráðaúrræði séu ávallt opin almenningi og fíknimeðferðarúrræðum fjölgað á landsvísu.
09Að aðgengismál fatlaðs fólks séu ávallt í lagi af hendi hins opinbera og mannréttindi þeirra virt sem slík.
10Að unnið sé markvisst að fullum mannréttindum hinsegin fólks.
11Að börn njóti sérstakrar verndar þegar kemur að kynrænu sjálfræði, aðgerðir séu ekki gerðar á börnum undir lögaldri.
12Að öll lögbundin þjónusta við börn sé með öllu gjaldfrjáls og sérstaklega sé hugað að þörfum, réttindum og vernd barna.
13Að í skólum og á vinnumarkaði sé jafnrétti virt í hvívetna óháð stétt, uppruna, fötlun, kyni, kynverund, aldri eða skertri starfsorku, og sömu laun greidd fyrir sömu vinnu.
14Að unnið sé markvisst gegn láglaunastefnu ríkis og borgar og á almennum vinnumarkaði sérstaklega þegar kemur að hefðbundnum „kvennastörfum“.
15Að unnið sé markvisst gegn kynbundnu ofbeldi innan lands og utan.
16Að unnið sé gegn hvers kyns ofsóknum, hatursorðræðu og heimilisofbeldi, ofbeldi gegn fólki af ákveðnu kyni, uppruna, fötluðu fólki og hinsegin fólki.
17Að innan stjórnsýslunnar og stjórnkerfisins sé sérstakur gaumur gefinn að margfaldri mismunun.
18Að sjálfsákvörðunarréttur fólks sé fyllilega virtur þegar kemur að þungunarrofi, ófrjósemisaðgerðum eða öðrum inngripum sem tengjast líkama þess og eða kyni.
19Að allir séu jafnir í alþjóðlegu samhengi og ber að virða mannréttindi þeirra sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd. Veita skal þeim réttláta og mannúðlega málsmeðferð en ekki mismuna fólki sem hingað leitar vegalaust.
20Að við berum siðferðilega ábyrgð gagnvart alþjóðasamfélaginu og að yfirvöld vinni markvisst gegn mannréttindabrotum á alþjóðavísu og styðji ekki við framleiðslu eða verslun þar sem brotið er á fólki.
21Ítarefni:
Sósíalistaflokkur Íslands tekur undir jafnræðisreglu nýju stjórnarskrárinnar og ítrekar mikilvægi þess að hún verði tekin upp. Félagsleg staða, kyn, uppruni, kynferði, kynverund, fátækt eða fötlun skal heldur ekki skerða réttindi fólks að nokkru leyti og að sá stuðningur félags- eða heilbrigðisþjónusta sem langveikir eða fatlað fólk þarf að nýta sér til að sitja við sama borð og aðrir séu mannréttindi sem beri að virða samanber samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samning sameinuðu þjóðanna um réttindi geðfatlaðra sem ríkisstjórn Íslands ber að samþykkja og staðfesta. Þá skal virða allar alþjóðlegar mannréttindastefnur sem Ísland er aðili að og samþykkja hina ýmsu viðauka sem gerir yfirvöld raunverulega ábyrg og skyldar þau til að bregðast við óréttlæti svo sem húsnæðisleysi eða órétti á vinnumarkaði.
Hafna skal hugmyndum kapítalismans um nýfrjálshyggju sem ráðið hefur lögum og lofum í samfélaginu og ber hinu opinbera að tryggja almenningi þá stöðu að hafa tíma og fjárráð til að taka þátt í mótun samfélagsins. Þá skal einkavæðingu og útvistun á innri kerfum hætt og keðjuábyrgð er varðar brot á vinnumarkaði virt bæði í einka- sem og í opinbera geiranum.
Til að tryggja að ekki sé troðið á mannréttindum fólks í hverslags aðgerðum og reglum af hendi hins opinbera skal taka upp samvinnu við alla minnihluta- og eða notendahópa og miða alla áætlanagerð ríkis og sveitarfélaga útfrá stéttavinkli og fjölbreytileika en ekki einungis út frá kynjum. Þar er mikilvægt að skoða hvernig þættir eins og efnahagsleg staða , uppruni, hinseginleiki eða fötlun móta veruleika fólks. Með samvinnu er átt við að þeir einstaklingar sem hafa reynslu af því sem um er að ræða fái að koma sameiginlega að ráðagerð með valdhöfum.
Með réttlátri skattheimtu skal jafna kjör fólks og tryggja að þeir efnameiri greiði sanngjarnt hlutfall af sinni innkomu, launa eða fjármagnstekna til samfélagsins. Þannig skal ekki bara innheimta útsvar af þeim sem skráðir eru launþegar heldur einnig þeim efnameiri sem reikna sér lágar tekjur en eru með háar fjármagnstekjur. Þá er mikilvægt að jafna tekjur með innheimtu hátekjuskatts og hærri auðlindagjalda. Þeir lægst launuðustu skulu vera skattfrjálsir og barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar skulu njóta sérstaks stuðnings af hendi hins opinbera hvort er ríkis eða sveitarfélaga.
Upplýsingar um hvers kyns réttindi og skyldur skulu ávalt liggja fyrir og vera auðsóttar af almenningi en ef upp koma veikindi, slys eða annað sem veikir einstaklinginn til upplýsingaleitar skulu yfirvöld hafa frumkvæði að því að veita upplýsingar um réttindi. Þá skulu hvers kyns upplýsingar liggja fyrir sem ýta undur gegnsæi stjórnsýslunnar en á sama tíma skal standa vörð um réttindi almennings svo sem friðhelgi einkalífsins. Skal sú friðhelgi ná yfir lífeyrisþega einnig.
Vægi atkvæða skal endurspegla þá kröfu að allir komi að borðinu jafnir óháð búsetu. Þannig sé kosningakerfið til alþingiskosninga endurskoðað og lagfært í þágu fólksins. Reikniaðferðir á sveitastjórnarstigi verði einnig endurskoðaðar í þeim tilgangi að endurspegla jafnt vægi atkvæða.
Lýðræðið sé aukið með ýmsum leiðum svo sem slembivali og fleiri þjóðaratkvæðagreiðslum í stærri málum. Þjóðaratkvæðagreiðslur eins og atkvæðagreiðslan um nýja stjórnarskrá skulu virtar í hvívetna og þingmenn skuldbinda sig til að hlíta vilja þjóðarinnar.
Velferðar- og heilbrigðiskerfinu skal tryggt nægilegt fjármagn svo að enginn mæti lokuðum dyrum þar. Þá skal sérstaklega huga að þörfum aldraðra, fatlaðra og langveikra innan velferðar- og heilbrigðiskerfisins, svo að þeir geti lifað með reisn og að sú þjónusta sem þeim ber sé skilgreind sem mannréttindi og jafnræði á við rétt annarra en ekki sem ölmusa. Þá sé tryggt að bráðadeild geðdeildar sé opin allan sólarhringinn hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni og viðeigandi úrbætur gerðar þar sem þörf er á, til að tryggja að þjónustan sé í nærumhverfi íbúa. Einng skal fjölga fíknimeðferðarúrræðum um allt land.
Aðgengismál skulu vera í lagi í öllum byggingum yfirvalda svo sem skrifstofum, sjúkra- og greiningastofnunum skólum og sundlaugum.og skulu sveitafélög taka meiri ábyrgð á aðgengismálum í sínu byggðarlagi og aðstoða aðrar stofnanir samfélagsins eins og hægt er við að lagfæra aðgengismál og upplýsa fatlaða um hvar þau séu í lagi og hvar ekki.
Réttindi hinsegin fólks sem hafa áunnist skulu varin og unnið að fullu jafnrétti þeim til handa í samræmi við regnbogakort ILGA Europe sem eru Evrópsk regnhlífasamtök hinsegin fólks. Kyn skulu ekki sjálfkrafa álitin aðeins tvö heldur geti fólk verið skráð hán eða milli kynja. Þá megi samkynhneigðir karlar gefa blóð eins og aðrir og samkynhneigðum foreldrum gert jafn hátt undir höfði þegar kemur að skráningu og forræði barna sinna og öðrum foreldrum. Kynrænt sjálfræði intersex einstaklinga skal einnig staðfest og lagt bann við því að setja börn í óþarfar skurðaðgerðir á kynfærum ytri eða innri.
Þá skal fólk ráða nafni sínu og barna sinna en mannanafnanefnd lögð niður. Aldrei skal þvinga innflytjendur til að taka upp íslensk nöfn og biðja þá sem þess þurftu á sínum tíma afsökunar í nafni íslenska ríkisins.
Öll þjónusta við börn skal vera með öllu gjaldfrjáls svo sem skólaganga, dagvistun, frístund og heilbrigðisþjónusta. Þá skulu börn hafa rétt til að vera í samskiptum við báða foreldra eða forráðamenn sína ef ekkert mælir gegn því og öryggi þeirra sé fullnægt.
Ef börn búa sannanlega á tveimur heimilum og öryggi þeirra er tryggt geti þau haft tvöfalt lögheimili og réttur foreldra eða forráðamanna þeirra til að sækja um þann leikskóla og eða skóla sem hentar best og tómstundir sé þá til staðar auk annara þátta sem falla þar undir. Foreldrar eða forráðamenn fatlaðra barna geti þá sótt um hjálpartæki fyrir bæði heimili barnsins.
Jafnrétti skal vera til náms óháð efnahag, kyni, uppruna, kynverund, aldri og hvers kyns félagslegum þáttum og skal fólk hafa frelsi til að mennta sig á þeim tíma sem það hentar þeim að skyldunámi loknu. Þannig verði aftur sett fjármagn í rekstur öldungadeilda og fjarnáms. Einnig skulu allir sitja við sama borð þegar kemur að námslánum og skal fella út eldri ábyrgðarmenn lána. Þá skal lánasjóðurinn (LÍN) endurskoðaður með tilliti til styrkjakerfis eins og fram kemur í menntastefnu Sósíalistaflokksins.
Jafnrétti á vinnumarkaði og í skóla skal virt óháð uppruna, tungumáli, aldri, kynverund, fötlun skertri starfsorku eða öðrum félagslegum þáttum sem geta haft áhrif. Þá séu sömu laun greidd fyrir sömu vinnu og starfsgetumati hafnað í samræmi við vilja ÖBÍ og fólk ekki þvingað til vinnu ef það treystir sér ekki til. Einnig skal standa vörð um sigra verkalýðsbaráttunnar svo sem styttingu vinnuvikunnar og vökulögin og virk viðurlög vera við brotum á þeim.
Einnig skal barist af krafti gegn láglaunastefnu ríkis og borgar og á almennum vinnumarkaði þegar kemur að svokölluðum “kvennastörfum” auk öðrum störfum sem fólki er gert að lifa af undir fátækramörkum eða eru janvel með öllu ógreidd svo sem umönnun aldraðra eða ungra ættingja.
Vinna skal gegn kynbundnu ofbeldi, kynferðis- og heimilisofbeldi og þrýsta á að réttarkerfið þjóni fórnarlömbum ofbeldisins betur með því til dæmis að endurskilgreina sönnunarbyrði og refsirammann í slíkum málum. Þá skal unnið að feminískum sósíalisma undir formerkjum 99% mannkyns en ekki 1% eða þeirrra sem eiga mestan auð heimsins. Berjast skal fyrir efnahagslegu réttlæti og jafnrétti kynja óháð uppruna, réttindum hinsegin fólks, fatlaðs fólks, fólks á flótta og almennt styðja þá valdalausu. Regnhlíf sósíalískt femínisma nær einnig yfir baráttuna fyrir náttúrunni og loftslaginu og að heimurinn fái að dafna án kapítalískrar eyðileggingar í skjóli friðar og jafnréttis.
Þá skal einnig vinna gegn ofsóknum og kynbundnu ofbeldi á heimsvísu og vinna gegn hvers kyns mansali svo sem vinnumansali, kynferðisþrælkun eða þvingaðri staðgöngumæðrun.
Kynrænt sjálfstæði skal virt og skal fólk ekki þvingað til að ganga með barn, fara í þungunarrof eða ófrjósemisaðgerð.
Unnið skal gegn hatursorðræðu og staðið gegn hvers kyns útvíkkun á henni í íslenskum lögum.
Þá sé tjáningarfrelsi og frelsi einstaklingsins í heiðri haft þar til það fer að meiða náungann en ávallt skal gæta að valdajafnvægi í opinberri orðræðu. Þá skal einnig auka rétt og vernd uppljóstrara.
Við sem ein af fullvalda þjóðum heimsins berum siðferðilega ábyrgð á mannréttindum í alþjóðlegu samhengi og eigum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að berjast fyrir þeim í víðu samhengi.
Móttöku flóttafólks skal sinna af alúð og veita fólki hraða og mannúðlega málsmeðferð. Endurskoða þarf þau lög sem við störfum eftir svo sem þeim sem kveða á um svokölluð örugg ríki en virða skal lög sem ríkið hefur sett sér þegar kemur að vernd barna og fólks í viðkvæmri stöðu.
Þá þarf að eiga sér stað gagnkvæm aðlögun þ.e. móttökuríkið þarf einnig að aðlaga sig að fjölbreytileika, t.d. mismunandi trúar og hefða. Þá þarf ríkari áhersla að vera lögð á þvermenningu, samtali á milli ólíkra menningarheima innanlands.
Þá skulu yfirvöld ekki eiga viðskipti við fyrirtæki sem brjóta á mannréttindum fólks hvar sem er í heiminum eða grunur liggi fyrir um slíkt. Einnig skulu yfirvöld tjá sig opinberlega um hverskyns misrétti í alþjóðasamfélaginu til að undirstrika ábyrgð sína.
Umhverfis- og loftslagsmál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að litið sé á umhverfis- og loftslagsmál sem mannúðarmál er varðar réttindi komandi kynslóða til lífs. Það skal því vera skylda stjórnvalda að vernda náttúru og lífríki og löggjafinn nýttur til þessa í hvívetna.
01Að lýst sé yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og skulu íslensk yfirvöld bregðast við þeim vanda hratt og örugglega og í samvinnu við umheiminn.
02Að horfið sé frá kapítalísku hagkerfi og leiðum nýfrjálshyggjunnar til að takast á við umhverfismál og að fundnar verði heildrænar lausnir þar sem ábyrgðin og áherslan er fyrst og fremst sett á ríki, sveitarfélög og fyrirtæki.
03Að náttúran og lífríki hennar sé ávalt í fyrirrúmi í öllum ákvarðanatökum sem hana varða og að réttur komandi kynslóða til heilsusamlegs lífs sé ávalt sett ofar sjónarmiðum um fjárhagslegan gróða einstaklinga og fyrirtækja.
04Að öllum íbúum landsins sé gert kleift að lifa umhverfisvænu lífi óháð efnahagslegri stöðu og búsetu. Þá skal aukin almenn og aðgengileg fræðsla til almennings um umhverfisvæna og sjálfbæra lifnaðarhætti.
05Að styðja við matvælaframleiðslu í nærumhverfinu með niðurgreiðslu á raforku til gróðurhúsaræktunar og stefnt að staðbundnum lifnaðarháttum samfélagsins.
06Að róttæk skref séu tekin til að hætta notkun á einnota plasti og koma í veg fyrir plastmengun og ofpökkun með öllum tiltækum ráðum.
07Að sveitarfélög axli ábyrgð og komi upp flokkunarkerfi sem auðveldar íbúum að flokka sorp við heimili sín, sér að kostnaðarlausu.
08Að litið sé á tíðar og öflugar almenningssamgöngur sem lið í umhverfisvernd og sjálfsagða þjónustu við íbúa alls landsins.
09Að endurskoða flugsamgöngur og skipaferðir við landið út frá umhverfissjónarmiðum.
10Að stöðva frekari stóriðju og auka eftirlit með þeim stórfyrirtækjum sem fyrir eru með því markmiði að draga úr mengun.
11Að græða landið, endurheimta votlendið og auka trjárækt til kolefnisjöfnunar landsins.
12Að leggja kvaðir á fyrirtæki og stofnanir til að koma í veg fyrir sóun á mat og öðrum nýtanlegum varningi og draga úr urðun.
13Að gera róttækar breytingar á notkun eldsneytis og koma í veg fyrir losun svartolíu við strendur landsins.
14Að auka möguleika fólks til að eignast eða breyta farartækjum sínum í umhverfisvænni farkosti.
15Að takmarka notkun nagladekkja svo framarlega sem kostur er og takmarka alla mögulega orsakavalda svifryks.
16Að standa vörð um lífríki sjávar með verndun tegunda og banni við ofveiði og brottkasti.
17Að aðhald verði aukið í nýtingu vatns og að affallsvatn sé nýtt þar sem við á. Jafnframt að fyrirtæki greiði viðunandi gjald fyrir nýtingu vatns í formi auðlindargjalds, enda er vatnið ein verðmætasta auðlind framtíðarinnar.
18Að öll uppbygging mannvirkja sé gerð með umhverfisvænum hætti allt í senn með tilliti til hönnunar, efnisnotkunar og framkvæmda.
19Að litið sé á umhverfismál sem sameiginlega hagsmuni allra jarðarbúa með því að skoða og taka tillit til hnattrænna vistspora og raunverulegs kostnaðar framleiðslu og áhrif hennar á fólk og lífríki fjarlægari landa ekki síður en nærumhverfis.
20Ítarefni:
Umhverfis og loftslagsmál eru siðferðis- og mannúðarmál sem snerta alla og ber okkur að taka skýra afstöðu til þeirra. Sú hnattræna hlýnun sem við horfum fram á kallar á að lýst sé yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og brugðist við með byltingarkenndum kerfisbreytingum.
Kapitalískt markaðshagkerfi, sem hvetur til hámarks framleiðslu og hámarks gróða, er stærsti óvinur vistkerfisins og stærsti orsakaþáttur þeirra loftlagsbreytinga sem við stöndum frammi fyrir. Framleiðsluhættir stórfyrirtækja og neysluhættir fólks í dag ganga óhjákvæmilega á náttúruna og bregðast þarf við þessu með viðurlögum og öflugum eftirlitsstofnunum. Lausnir svokallaðs “græns kapítalisma” og einstaklingsmiðaðrar nálgunar í anda nýfrjálshyggju virka ekki til þess að berjast gegn loftslagsvandanum. Það er mikilvægt að vekja almenning til meðvitundar um að draga úr neyslu, nýta og endurnvinna en raunverulegi vandinn liggur í framleiðsluenda vörunnar. Áhersla regluverksins þarf að vera á framleiðslu og innflutningi en síður á að „refsa” neytandanum fyrir að neyta þess er þegar hefur verið framleitt.
Efla skal innlenda framleiðslu og stefna að sjálfbærara samfélagi. Hætta innflutningi á vörum sem hægt er að framleiða við innlend skilyrði. Efla skal innlenda grænmetis- og ávaxtaræktun sem og baunaræktun og korn með niðurgreiðslu hins opinbera á grænni orku. Reynt verði að fækka milligönguliðum eins og kostur er og gefa neytanda greiðan aðgang að framleiðanda matarins. Að njóta hollra, lífrænna matvæla hefur ekki verið efnahagslega á færi allra. Mikilvægt er að tækifærin til að lifa heilbrigðu lífi sem og að stunda náttúruvernd fari ekki eftir stétt eða stöðu fólks í samfélaginu.
Eftirlitsstofnanir skulu sinna sínu hlutverki og lög og viðurlög virk og virt. Efla þarf Umhverfisstofnun, samræma eftirlit og tryggja að verkferli sé skýrt og gagnsætt. Vinna skal gegn “grænþvotti” fyrirtækja og tryggja að kolefnisjöfnun sé ekki unnin á röngum forsendum. Efla þarf upplýsingastreymi og koma í veg fyrir að fjárhagslegir hagsmunir stýri umræðunni. Einnig skal efla aðgengi fólks til þátttöku í umhverfismálum og gera stefnumótun og ákvarðanir lýðræðislegri.
Ríki og sveitarfélög eiga að sjá til þess að íbúar geti sinnt ábyrgri sorplosun. Flokkunartunnur og moltukassar þurfa að vera við hvert hús í nánustu framtíð.
Vinnsla á plasti gengur á jarðefnaforða okkar og mengar lífríkið. Breyta þarf neysluvenjum og hætta einnota neyslu sem fyrst. Taka skal aftur upp notkun á glerflöskum og öðrum endurnýtanlegum efnum.
Setja þarf lög sem hamla stórmörkuðum, stofnunum og fyrirtækjum að urða matvæli sem ganga af og koma upp kerfi sem skilar sér í nýtingu þessara matvæla þar sem þeirra er þörf og komið í veg fyrir offramleiðslu og ofskömmtun. Auðvelda skal allt rekstrarumhverfi í kringum endurnýtingu og viðgerðir svo draga megi úr offramleiðslu á vörum svo sem raftækjum og fatnaði og auka neytendavernd þegar kemur að endingu og gæðum vöru. Þannig skal stuðlað að betri nýtingu og minni urðun.
Almenningssamgöngur þarf að stórbæta og reka þær með því sjónarmiði að þær séu sjálfsögð þjónusta við íbúa alls landsins og lykillinn að því að draga úr mengun en ekki með því markmiði að rekstur þeirra standi undir sér eða skili hagnaði. Olíuframleiðsla er stórt vandamál og framleiðsla rafknúinna ökutækja er einnig mengandi og gengur hratt á auðlindir jarðar. Arðrán og eyðilegging vistkerfa er óhjákvæmilegur fylgifiskur þessarar framleiðslu og erfitt er að skorast undan því að hugsa þessi mál á hnattræna vegu. Það að skipta út orkugjöfum, eða skipta yfir í rafbíla er því ekki heildarlausn, heldur þarf að hugsa heildrænt og gera almenningssamgöngur að betri kosti og einkabílinn óþarfan fyrir flesta en þó má einnig auðvelda fólki að breyta farartækjum sínum og gera þau náttúruvænni svo sem með metani.
Það er mikilvægt markmið að draga úr flugi, enda er hér um mjög mengandi samgöngumáta að ræða. Þó ber að hafa í huga að við búum á eyju í talsverðri fjarlægð frá flestum áfangastöðum og hætt er við að takmörkun á flugferðum í formi kvóta og skatta bitni verst á hinum efnaminni sem þegar eiga erfiðast með að nýta sér flugferðir. Alla takmörkun á flugi þarf að skoða með þetta í huga og beina sjónum að þeim flugfélögum sem hingað fljúga og horfa til nýtingar ferða. Sérstaklega þarf að takmarka umferð herflugvéla, einkaflugvéla, útsýnisflugvéla og flugumferðar sem mengar hlutfallslega mikið miðað við fjölda farþega.
„Svartolía“ er samheiti yfir þungar og seigar olíur sem geta innihaldið hátt hlutfall brennisteins og er svartolía m.a. notuð í skipasiglingum. Hún mengar meira en annað eldsneyti og losarr mikið af sóti út í andrúmsloftið er hún brennur. Flest skemmtiferðaskip brenna svartolíu en við bruna hennar losnar mikið magn sótagna út í andrúmsloftið. Slíkar agnir eru skaðlegar heilsu manna og er loftmengun af þessu tagi talin ábyrg fyrir dauða milljóna manna um allan heim árlega. Hægt er að rækta repju í framleiðslu á lífdísli og nota hann á skipaflotann okkar. Við höfum landsvæðið til þess og kunnáttuna til að vinna lífdísil. Repjan auk þess kolefnisjafnar tvisvar sinnum meira en það sem verður til við brunann á lífdísli.
Arðrán og eyðilegging vistkerfa í „hinu hnattræna suðri“ eru samhangandi hnattvæddum kapítalisma, loftslagsvandanum og umhverfis- og auðlindavandanum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Arðrán fyrri kynslóða hefur aukið velmegun Vesturlandabúa og á meðan verða fátækustu löndin oftast verst úti. Ofræktun og útrýming skóga í þeim tilgangi að skapa ræktarland undir sérstakar tegundir grænmetis fyrir neytendur á Vesturlöndum hefur raskað lífi og fæðuöryggi fólks um allan heim. Útrýming skóganna veldur loftslagsbreytingum sem koma fram i þurrkum, flóðum, mengun og röskun á vistkerfinu sem aftur orsakar fólksflótta frá þeim svæðum sem ekki lengur eru byggileg. Það er því ekki einungis okkar samfélag sem við þurfum að horfa til, heldur þarf að rýna í framleiðslukeðjuna og huga að öllu fólki sem kemur að henni og þann fórnarkostnað sem hún ber með sér. Þessi málefni þurfa alltaf að vera hugsuð í hnattrænu samhengi og okkur ber að átta okkur á forréttindastöðu okkar og sýna fulla samstöðu með fólki í öðrum löndum.
Samgöngumál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að samgöngumannvirki og rekstur þeirra séu í eigu þjóðarinnar.
01Að jarðgöng, brýr og vegir séu öllum aðgengilegir án gjaldtöku og veggjöldum verið alfarið hafnað.
02Að tryggð sé nægileg fjármögnun til viðhalds og reksturs samgöngumannvirkja og vegakerfis.
03Að vinna markvisst að umhverfisvænum lausnum í samgöngumálum svo sem með aukinni notkun rafvæddra ökutækja, strætó/borgarlínu og að hvetja til samnýtingar á bílum.
04Að styrkja nýsköpun í útfærslu nýrra farartækja.
05Að byggja upp innviði fyrir fjölbreyttar samgöngur um land allt þar sem tenging milli staða á landi, lofti og sjó sé tryggð.
06Að almannavarnir séu hafðar í fyrirrúmi á öllu landinu og flóttaleiðir tryggðar ef náttúruhamfarir eru yfirvofandi.
07Að flugvellir og hafnir séu í þjóðareign og þær reknar af hinu opinbera.
08Að ferðaþjónusta fatlaðra sé sjálfsögð mannréttindi og ávallt rekin samkvæmt lögum, hún sé gjaldfrjáls og gerð aðgengilegri.
09Að sjúkraflutningar, ferðaþjónusta fatlaðra og önnur sjálfsögð akstursþjónusta sé í almannaeigu en ekki einkarekin eða henni útvistað.
10Að gjaldfrjálst verði í strætó/borgarlínu.
11Að almenningssamgöngur séu efldar innan höfuðborgarsvæðisins með því að þjóna betur úthverfum og vera aðgengilegri fyrir alla hópa.
12Að launakjör og starfsumhverfi starfsmanna í almenningssamgöngum séu bætt.
13Að þjónusta fólks í nærumhverfi sínu sé bætt þannig að hægt sé að draga úr löngum akstursleiðum sér í lagi á landsbyggðinni.
14Að almenningur geti tekið þátt í uppbyggingu samgangna í sínu nærumhverfi og lagt til lausnir að betri hverfum með samvinnu við stjórnvöld.
15Að Internetið sé hluti af samgöngumálum og innviðir fjarskipta séu í almannaeigu.
16Að strandflutningar verði efldir og að þungaflutningar fari sjóleiðina eftir því sem kostur er og hafnir rafvæddar en daglegar nauðsynjavörur fari landleiðina.
17Ítarefni:
Samgöngur eru grunnþjónusta sem allir eiga að hafa góðan aðgang að hvort heldur landfræðilega eða efnahagslega svo fólk komist leiðar sinnar innan lands, innan borgar, bæja og á landsbyggðinni.
Sósíalistaflokkur Íslands vill að öll helstu samgöngumannvirki á landinu séu í eigu þjóðarinnar en ekki einkarekin eða rekstri þeirra útvistað. Þannig skal vegagerðin sem slík vera í eigu almennings og fjármögnun vega og allra samgöngumannvirkja ávallt vera í lagi. Þá sé tryggt að skattar sem eyrnamerktir eru vegagerðinni skili sér í þann málaflokk og ekki lögð veggjöld eða önnur gjöld á göng eða brýr.
Samgöngukerfið skal byggt upp með samgönguöryggi allra að leiðarljósi hvort sem er með hjólastígum, göngustígum, eða sérakreinum fyrir strætó og aðra sérumferð innan borgar, bæja eða milli staða á landsbyggðinni. Þá sé hugað að almannavörnum um allt land og öllum gefinn kostur á gjaldfrjálsum öryggisbúnaði eins og endurskinsmerkjum eða borðum.
Þá sé mismunandi samgöngum ekki stillt upp sem andstæðum pólum heldur hafi fólk frelsi til að velja sér samgöngumáta innan þeirra marka sem samfélagið setur sér þegar kemur að umhverfisvernd og loftslagsmálum. Stefnt sé markvisst að umhverfisvænum lausnum eins og stefna sósíalista í umhverfis- og loftslagsmálum segir til um en einnig skal stefnt að því að jafna kjör fólks þegar kemur að samgöngum með tilliti til búsetu og eða möguleikum á að nota umhverfisvænan samgöngumáta.
Rekstur flugvalla, hafna og annarra samgöngumannvirkja skal endurskilgreindur og þeirri einkavæðingu og útvistun sem orðið hefur á þeim snúið við. Þá skulu samgöngumöguleikar fólks auknir en einnig skal tryggja fólki betri þjónustu í nærumhverfi sínu, sér í lagi á landsbyggðinni.
Strætó/borgarlína og önnur sjálfsögð akstursþjónusta svo sem sjúkrabílar og akstursþjónusta fatlaðra skal vera gjaldfrjáls með öllu og skal slíkur akstur ekki einkavæddur eða honum útvistað á nokkurn hátt heldur haldið í almannaeigu og þjónustan bætt í samvinnu við notendur hennar.
Þá skal skoða öll samgöngumál með almannahagsmuni að leiðarljósi og gefa íbúum kost á að taka þátt í mótun umhverfisins sem þeir búa í hvort heldur er í borg, bæjum eða í dreifbýli. Þannig er hægt að byggja upp betri samgöngur á lýðræðislegan máta.
Internetið skal vera hluti af samgöngumálum og innviðir fjarskipta vera í almannaeigu en þannig skal koma í veg fyrir sóun og verri þjónustu sem fylgir því að mörg fyrirtæki byggi hliðstæð kerfi.
Auðlindamál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að auðlindir í náttúru Íslands séu sameiginleg og ævarandi sameign þjóðarinnar og vernd náttúrunnar verði ávallt höfð í fyrirrúmi.
01Að auðlindir í þjóðareign séu meðal annars öll náttúrugæði landsins, vistkerfi og nytjastofnar, vatn, jarðhiti, rafmagn, sjór, sjávarnytjar og andrúmsloft við land- og lofthelgi landsins.
02Að leyfi til auðlindanýtingar eða nýtingar á öðrum almannagæðum sé aðeins veitt að undangengnu ströngu umhverfismati og að almannahagur og sjálfbærni sé ávallt höfð að leiðarljósi.
03Að jafnræðissjónarmið séu ætíð virt við framkvæmd leyfisveitinga á nýtingarrétti á auðlindum í gagnsæju ferli.
04Að óháð eftirlit með nýtingarrétti auðlinda sé bundið í lög og að þeir aðilar sem hafa nýtingarrétt hvort sem það eru stjórnvöld eða einstaklingar, beri ávallt ábyrgð á verndun auðlindanna og viðhaldi lífríkja þeim tengdum.
05Að allt eftirlit með auðlindanýtingu sé stóraukið og að upplýsingar um það liggi ávallt fyrir.
06Að rannsóknir og mælingar á gæðum auðlinda, lands og sjávar, séu stórauknar og vel fjármagnaðar.
07Að leyfi til auðlindanýtingar leiði aldrei til eignarréttar af nokkru tagi né annarskonar óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
08Að fiskveiðistjórnunarkerfið í núverandi mynd sé afnumið og undið ofan af þeim ójöfnuði og spillingu sem það hefur valdið. Allur kvóti verði innkallaður og nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi sett á laggirnar.
09Að leyfi til fiskveiða og nýtingar sjávarnytja innan íslenskrar lögsögu séu veitt tímabundið, til hóflegs tíma í senn, gegn gjaldi svo þjóðinni sé tryggt sanngjarnt verð fyrir auðlindina.
10Að auðlindanýting fiskveiða og annarra sjávarnytja sé háð leyfum sem skulu vera skilyrt staðbundið til að viðhalda byggð um landið og þau ekki framseljanleg.
11Að landbúnaðarkerfið sé endurskoðað í fullri samvinnu við bændur og búaliðs og með tilliti til sjálfbærni lands og matvælaöryggis.
12Að nýting jarðnæðis, bújarða og landbúnaðar sé háð skilyrðum og til tiltekins tíma í senn og að enginn einstaklingur eða fyrirtæki geti safnað upp jörðum.
13Að andrúmsloftið sem meginundirstaða lífs á jörðinni sé verndað sem frekast er unnt og að iðnaður á Íslandi fylgi ávallt ítrustu kröfum er varðar útblástur, svifryk og loftgæði.
14Að orkuframleiðsla landsins verði ekki aukin að óþörfu umfram orkuþörf almennings, með tilheyrandi náttúruspjöllum og jarðraski.
15Að einkavæðing í orkuframleiðslu landsins verði lögð af með öllu. Gripið sé til ráðstafana svo að sú orkuframleiðsla sem nú er í einkaeigu sé færð í eigu þjóðarinnar.
16Að yfirvöld tryggi að orkuveita um landið allt sé í lagi og skilgreini raforku sem grunnþörf til búsetu á Íslandi.
17Að ferðaþjónustan beri ábyrgð á þeim auðlindum sem hún nýtir og stuðli að sjálfbærni og góðri umgjörð á útsýnis- og útivistarsvæðum, með sérstöku auðlindagjaldi.
18Auðlindir annara ríkja skal umgangast af virðingu og skal það varða ströngum viðurlögum að spilla eða misnota þær.
19Ítarefni:
Vistkerfi náttúrunnar eru undirstaða alls lífs á jörðinni og skal nýting þeirra ávallt taka mið af sjálfbærni. Þannig skal náttúran og vistkerfi hennar ávallt eiga sér sjálfstæða tilvist og hafa gildi í sjálfu sér burt séð frá verðmætamati og nýtingarhugmyndum manna. Sósíalistaflokkur Íslands vill því að auðlindir landsins séu ávallt í þjóðareign og nýttar af virðingu gegn sanngjörnu gjald en ekki gefnar góðvinum ráðamanna eða þær framseldar til gróðabrasks.
Til auðlinda á Íslandi má telja öll náttúrugæði landsins og vistkerfi svo sem sjó, nytjastofna í sjó, vötnum og ám auk hafsbotn, uppsprettur, vatnsföll, jarðhita, námur, land, landdýr, námasvæði, sanda jökla, fjöll og gróðurlendi sem og andrúmsloft og vinda. Óspillt náttúra, víðerni með sínum fjöllum og jöklum og vatn bæði heitt og kalt eins og finna má á Íslandi er að verða dýrmætasta auðlind þjóða og skal vernda skilyrðislaust. Öll löggjöf yfirvalda á Íslandi þessu tengd skal miða að verndun og sjálfbærni náttúruauðlinda.
Hugtakið sjálfbærni vísar til þess að ekki megi ganga óhóflega á forða náttúrunnar heldur verði að nýta auðlindir hennar á þann hátt að þær nái að endurnýja sig. Einnig að nýting náttúruauðlinda feli ekki í sér mengun lofts, lands eða hafs eða leiði af sér önnur umhverfisspjöll. Sjálfbær þróun er því þróun sem fullnægir þörfum samtímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til lífs.
Reglur um leyfi til nýtingar auðlinda skulu bundin í lög og ekki veitt nema að undangenginni ítarlegri rannsóknarvinnu og ströngu umhverfismati hvort heldur á við um fiskveiðar, auðlindir í sjó, á landi, í lofti eða vatn og jarðhita. Slík leyfi skulu aðeins veitt til hóflegs tíma í senn og með ítarlegum skilyrðum svo sem að sjálfbærni sé virt til fulls og að einnig sé sett þak á magn svo sem afla í sjó eða stærð jarðnæðis. Eðlilegt gjald skal tekið fyrir veitt leyfi svo þjóðin njóti góðs af nýtingunni en ekki einstaklingar og eða fyrirtæki eingöngu. Þá skal nýting auðlinda aldrei leiða til eignarréttar af nokkru tagi né annarskonar óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Leggja skal niður kvótakerfið í núverandi mynd enda hefur það kerfi leitt til misskiptingar og spillingar innan lands og utan. Sjávarnytjum eða fiskveiðiheimildum, skal úthluta á ný með það í huga að fiskveiðar hafa í aldanna rás verið tilvistargrundvöllur byggða í kringum landið. Úthlutun þeirra skal því miðast við viðhald byggða um allt land og vinna í samvinnu við sveitarfélög og önnur byggðarlög landsins. Þar skal taka mið af jafnræði og gagnsæi auk þess sem rannsóknir á sjávarnytjum hvers svæðis þurfa að styðja við framkvæmdir. Nýti handhafi aflaheimilda ekki hlut sinn er honum óheimilt að framselja hann.
Afnema skal alla einkavæðingu á jarðhita og vatnsaflsvirkjunum landsins og skulu hagsmunir náttúrunnar alltaf vera í fyrirrúmi þegar kemur að nýtingu orkunnar. Yfirvöld skulu meta reglulega orkuþörf landsins og sjá til þess að umfram orkuframleiðsla sem ekki lýtur almannahagsmunum sé stöðvuð. Þá geti yfirvöld selt fyrirtækjum í matvælaframleiðslu svo sem gróðurhúsabændum orkuna með afslætti en ekki alþjóðafyrirtækjum í stóriðju sem hingað leita með tilheyrandi mengun og jarðraski. Þannig skal huga að sjálfbærni samfélagsins sem og sjálfbærni á heimsvísu. Nýting uppsprettuvatns, vatnsfalla og jarðhita skal almennt vera til almannanota og skulu virkjanir og vatnsveitur vera í almannaeigu og reknar án hagnaðarsjónarmiða.
Endurskoða þarf landbúnaðarkerfið enda ofbeit og offramleiðsla á kjöti og öðrum dýraafurðum. Þá er viðhaldi og sjálfbærni lands ekki alltaf sinnt sem skyldi. Skoða skal landbúnaðarkerfið í fullri samvinnu við bændur og búalið og nýta það mikla hugvit sem býr meðal þeirra. Þannig má fjölga tækifærum við matvælaframleiðslu og auka hana með fyrrgreindum markmiðum. Matvælaöryggi landsins hvílir á fjölbreyttri og skipulegri landnýtingu og kerfisbreytinga er þörf sem tryggir bændum atvinnu- og afkomuöryggi samhliða því að gera þeim kleift að framleiða fleiri tegundir matvæla með nýjum og lífrænni aðferðum en nú er hefð fyrir. Þannig mætti nýta styrki til bænda mun betur og gefa þeim færi á að bæta landnýtingu og framleiða hagkvæmari, hollari og vistvænni matvæli. Slíkt myndi gefa bændum möguleika á eigin frumkvæði í þeim efnum, án þess að þurfa að setja sig og bújarðir sínar í fjárhagslega hættu.
Nytjastofnar í ám og vötnum og nýting á þeim skulu teljast utan við hefðbundinn landbúnað. Nýting laxa- og silungsstofna skal byggja á sjálfbærni, jafnræði og gagnsæi.
Endurheimt vistkerfa landsins skal vera forgangsmál þegar kemur að landnotkun. Þá sé einnig hugað að almennri náttúruvernd með því að endurheimta votlendi og vernda þjóðlendur og víðerni landsins eins og frekast er kostur. Rask á landi með námavinnslu og vegagerð skal einnig lúta almannahagsmunum og umhverfismati.
Þá skal ferðaþjónustan bera ábyrgð á og spyrna gegn ágangi á útsýnis- og útivistarsvæði, með auðlinda- og eða gistigjaldi. Þannig má byggja upp góða umgjörð svo hægt sé að viðhalda sjálfbærni þegar kemur að vinsælum ferðamannastöðum á landinu. Þessi gjöld skulu einnig vera tengd þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem mestur gestagangur er svo hægt sé að bæta vegagerð og löggæslu samhliða viðhaldi og sjálfbærni lands. Þá sé einnig gætt að því að ekki sé vegið að almannarétti.
Auðlindir annara ríkja skal einnig umgangast af virðingu og skal það varða ströngum viðurlögum að spilla eða misnota þær. Þannig skulu alþjóðasáttmálar að fullu virtir þegar kemur að verndun landa og landsvæða og endurheimt landa að auðlindum sínum.
Byggðamál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að íslensk náttúra gangi óspillt til næstu kynslóða og þjóðgörðum verði stjórnað í almannaþágu en ekki í þágu atvinnugreina eða einstakra fyrirtækja.
01Að öllum byggðarlögum sé gert jafn hátt undir höfði með félagslegum stjórnunarháttum og réttlátri valddreifingu.
02Að allri opinberri þjónustu fylgi eðlilegt fjármagn um landið allt og að allir íbúar landsins búi við sem líkust skilyrði og geti sótt sér alla nauðsynlega opinbera þjónustu í heimabyggð.
03Að félagsleg réttindi þ.m.t. til framfærslu, húsnæðisbóta og annarrar þjónustu verði samræmd um allt land.
04Að tekið verði upp þriðja stjórnsýslustigið með stækkun sveitarfélaga í landshlutastjórnvaldseiningar.
05Að hver landsfjórðungur búi yfir kjarna innviðum svo sem vel búnum og mönnuðum sjúkrastofnunum og heilsugæslu, sem sinni íbúum án komugjalda eða annars kostnaðar, og tækjum svo sem sjúkraþyrlu, snjóplógum o.fl.
06Að öryggismál á landsbyggðinni séu tryggð með nauðsynlegum orkuverum, fjarskiptabúnaði, snjóflóðavörnum og annarri nauðsynlegri þjónustu og að rafmagn og varaaflsstöðvar séu til staðar í öllum byggðum.
07Að vegakerfi landsbyggðarinnar verði bætt án veggjalda og að almenningssamgöngur verði á samfélagslegum forsendum, niðurgreiddar og stórbættar út frá hverjum landshluta fyrir sig.
08Að fiskveiðistjórnunarkerfið verði stokkað upp svo að þau byggðarlög sem þurfa að treysta á gjöful fiskimið geti dafnað og byggðir landsins njóti góðs af auðlindum sínum.
09Að sjálfbærni landsins verði aukin með því t.d. að fullvinna afurðir svo sem fisk og önnur matvæli innanlands og í heimabyggð.
10Að nýsköpun verði aukin til muna á öllu landinu í öllum greinum svo komið sé til móts við tækniframfarir og sveiflur í stökum greinum.
11Að listir og menning verði efld á landsbyggðinni með nýju skapandi starfi og hlúð verði að eldri menningararfi.
12Að innan hvers landshluta eða fjórðungs verði hægt að reka tækniskóla og háskóla auk annarra sérskóla á framhalds- og háskólastigi og að endurmenntun verði kostur allsstaðar.
13Að opinberar stofnanir og stórfyrirtæki taki í auknum mæli upp fjarvinnu eða störf án staðsetningar.
14Að auka skuli eftirlit með ferðaþjónustu og vernda náttúruperlur og víðerni eins og kostur er og sjá til þess að ferðaþjónustu fylgi það fjármagn sem þarf í innviði og viðhald.
15Að óspillt víðerni, hálendið og fleiri svæði verði skilgreind sem þjóðgarðar og varið fyrir ágangi manna og dýra.
16Að nýting bújarða verði eins og segir í auðlindastefnu Sósíalistaflokksins háð skilyrðum svo sem búsetuskilyrðum og til tiltekins tíma í senn svo að enginn einstaklingur eða fyrirtæki geti safnað upp jörðum.
17Ítarefni
Sósíalistaflokkur Íslands vill vernda byggðina um landið, varðveita náttúruna og tryggja að landið gangi óspillt til næstu kynslóða. Þjóðgörðum þarf að stjórna í almannaþágu en ekki í þágu atvinnugreina eða einstakra fyrirtækja og alla stjórnsýslu skal nálgast á samfélagslegan máta. Takmarkanir skulu settar á eignarhald jarða enda landið ekki venjuleg markaðsvara heldur grundvöllur þjóðríkisins. Þá skal fiskveiðikvóti endurheimtur þar sem við á og byggðum sem áður blómstruðu en hafa orðið fyrir tjóni vegna kvótaframsals braskara verði bætt það upp. Þannig skal tengja fiskveiðistjórnunarkerfið byggðunum um landið eins og við á og í samræmi við stefnu Sósíalistaflokksins í auðlindamálum.
Með því að taka upp þriðja stjórnsýslustigið með stækkun sveitarfélaga í landshlutastjórnvaldseiningar verði hægt að auka valddreifingu og halda stjórnkerfi og þjónustu í minni þéttbýliskjörnum og sveitum (staðbundin stjórnvöld). Þá sé lögð áhersla á mjög góðar samgöngur innan hvers sveitarfélags þannig að allir íbúar þess geti notið þjónustu innan þess án mikils kostnaðar og fyrirhafnar – og taki skipting landsins í sveitarfélög mið af samgöngum. Þá skal styrkja alla innviði svo hver landsfjórðungur verði sjálfbær og ekki þurfi að sækja mikilvæga þjónustu annað.
Sósíalistaflokkurinn stefnir að því að allir íbúar landsins búi við sem líkust skilyrði frá opinberri hálfu og geti sótt sér þjónustu í heimabyggð. Þannig verði opinber þjónusta veitt af sveitarfélögum og staðbundnum stjórnvöldum og þjónustu sem ríkið veitir verði einnig dreift um landið. Heilbrigðisþjónusta verði fyrir hendi í sveitarfélögum, en ekki sé byggt á farlæknum. Fjórðungssjúkrahúsin verði stórstyrkt og tryggja skal öryggi íbúa landsbyggðarinnar með uppbyggingu þeirra innviða sem þarf svo sem með betri heilbrigðisþjónustu svo að hver fjórðungur sé til þess bær að sinna lækningum, endurhæfingu og almennri heilsu íbúanna með sjúkrahúsum og heilsugæslum og hjúkrunarrýmum íbúum að kostnaðarlausu eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins um heilbrigðismál. Þá þarf að tryggja raforku, bæði tveggja og þriggja fasa, varaaflsstöðvar og fjarskipti auk þess að viðhalda snjóflóðavarnargörðum. Þá þurfa að liggja fyrir skýrar og þekktar viðbragðsáætlanir með rýmingaráætlunum þar sem hætta er á eldgosum eða öðrum náttúruhamförum.
Til að varðveita byggðina í kringum landið og sér í lagi brothættar byggðir skal auka við alla nýsköpun. Þá er átt við aukna nýsköpun af öllu tagi, bæði sem kemur sér vel fyrir grunnatvinnuvegina; ferðaþjónustu, landbúnað, orkufrekan iðnað og sjávarútveg, nýsköpun í annarri tækni, en síðast en ekki síst í listum og menningu. Þær greinar hafa bein áhrif á fýsileika búsetu og möguleika í ferðaþjónustu. Í þessu skyni verði tækifæri til endurmenntunar stóraukin í héraði.
Þá renni hagnaðurinn af auðlindum ekki síst til þeirra samfélagslegu verkefna sem hér er lagt til að verði unnin á landsbyggðinni, þ.e. til nýsköpunar, endurmenntunar og enduruppbyggingar atvinnutækifæra. Efla skal menningu og listir og kennslu á háskólastigi. Annars vegar verði hlúð að eldri menningararfi og hann gerður sýnilegur og einnig stuðlað að því að ný list og nýjar listgreinar og annað skapandi starf fái sprottið upp í frjóu umhverfi, m.a. í skólum og í nýsköpunar- og listasmiðjum.
Sósíalistaflokkurinn vill auk þess að sveitarfélögunum verði gert kleift að reka tækniskóla, háskóla og aðra sérskóla á framhalds- og háskólastigi og hafi sveitarfélög þannig tækifæri til að sérhæfa sig svo að ekki sé endilega það sama kennt alls staðar. Skilyrði er að heimavistir og stúdentaíbúðir verði reknar í tengslum við skólahald. Menntun og endurmenntun er lykillinn að nýsköpun og alþjóðleg og innlend reynsla sýnir að skólahald á landsbyggðinni leiðir til þess að nemendur setjast að í byggðarlaginu og skapa sér tækifæri þar. Auk þess er lagt til að allir framhaldsskólar og háskólar í landinu gefi kost á fjarnámi.
Opinberar stofnanir og fyrirtæki, ekki síst stórfyrirtæki taki í stórauknum mæli upp störf án staðsetningar. Þannig fái ungt fólk tækifæri til að ala börn sín upp við heilbrigðar aðstæður úti á landi í litlum samfélögum sem oft hafa mikinn félagsauð og samhjálp.
Sósíalistaflokkurinn vill aukna friðun íslenskrar náttúru og leggur áherslu á frumkvæði heimamanna í því efni. Landsbyggðin hefur yfir um 40% af ósnortnum víðernum Evrópu að ráða og nýta á þau með sjálfbærum hætti þannig að landið gangi óspillt til næstu kynslóða. Flokkurinn leggur áherslu á að óspillt víðerni, hálendið og fleiri svæði verði skilgreind sem þjóðgarðar og varið fyrir ágangi manna og dýra.
Þá skal ferðaþjónustan greiða fyrir nýtingu sameiginlegra innviða lands og þjóðar og séð verði til þess að þessi atvinnugrein spilli ekki ásýnd náttúru og víðerna. Í því skyni þarf að sinna sérstöku eftirliti með ferðaþjónustu og viðhalda eðlilegri uppbyggingu hennar, sjá til þess að ágangur ferðamanna spilli ekki náttúrunni svo sem innan þjóðgarða með utanvegaakstri o.fl. og að ferðaþjónustan taki þátt í eðlilegum kostnaði innviða.
Landbúnaðar- og matvælamál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að leitað verði þjóðarsáttar um landbúnað.
01Að gert sé vistkort eða rammaáætlun um landbúnað og landnýtingu frá fjöru til fjalls um allt land.
02Að áhersla verði lögð á styttri virðiskeðju, umhverfisvernd, dýravernd, sjálfbærni og lífræna ræktun í öllum landbúnaði.
03Að fæðuöryggi sé tryggt á Íslandi með stöðugri og aukinni innlendri fæðuframleiðslu og eðlilegu matvælaverði.
04Að bændum séu tryggð mannsæmandi kjör og starfsskilyrði.
05Að auknir nýsköpunarstyrkir verði veittir í landbúnaði með áherslu á lífræna ræktun og bændum bjóðist hagstæð lán til framkvæmda.
06Að landbúnaðarkerfið sé gert sanngjarnara og sveigjanlegra svo möguleikar lítilla framleiðslueininga til reksturs séu auknir.
07Við endurskoðun landbúnaðarkerfisins skal ávallt hafa dýravernd í hávegum og tryggja að Ísland sé þar í fremstu röð.
08Að myndaður verði hvati til að stofna samvinnufélög og pöntunarfélög þar sem hægt verði að kaupa beint frá býli eða að bændur geti sameinast um fóður- og verkfærakaup.
09Að auðvelda aðgengi að kaupum og sölu á matvöru og annarri framleiðslu bænda í nærumhverfi neytenda.
10Að kvótakerfi landbúnaðar verði endurskoðað og tryggt að það leiði aldrei af sér framsal heldur sé kvótinn háður búsetu og skuldbindingu um framleiðslu.
11Að auka eftirlit með innfluttri matvöru og tryggja þannig samkeppnishæfni innlendrar vöru við innflutta. Þá skal tryggja matvælaöryggi með virku eftirliti og fræðslu.
12Að veittur verði afsláttur af raforku til gróðurhúsaræktunar.
13Að komið sé í veg fyrir að fólk og fyrirtæki geti safnað að sér bújörðum og öðru landi til eignar með því að setja á búskildu eða aðrar takmarkanir.
14Að lausaganga búfjár verði skilyrt og sú landeyðing sem hún hefur í för með sér stöðvuð.
15Að skógrækt og landgræðsla verði aukin verulega og færð á fleiri hendur.
16Að eiturefnanotkun og notkun útsæðis sem háð er einkaleyfum í landbúnaði og vegagerð sé alfarið óheimil og eftirliti með plöntu- og dýraheilbrigði sé ávallt sinnt vel svo matvælaöryggi sé tryggt.
17Ítarefni
Sósíalistaflokkur Íslands vill að landbúnaður verði endurskilgreindur og leitað verði þjóðarsáttar um hvað í honum felst og virði greinarinnar fyrir sjálfbærni landsins. Sú vinna verði unnin í náinni samvinnu við bændur sem og ábúendur jarða þar sem búskapur af einhverju tagi er stundaður. Búskapur merkir, auk dýrahalds og jarðræktar; verndun og ræktun dýra og plantna, framleiðsla og úrvinnsla matvæla og ástundun fjölda annarra tengdra greina svo sem landgræðsla, trjárækt, nýting vatna, villtra jurta og dýra.
Við endurskoðun landbúnaðarkerfisins verði unnið eftir vistkorti eða rammaáætlun sem einnig byggir á deiliskipulagi og aðalskipulagi hvers sveitarfélags og í samstarfi við það. Þá sé einnig horft til staðsetningar varðandi fæðuöryggi bæði hvað varðar náttúrugæði, auðlindir og sjálfbærni landsins við fæðuöflun og framleiðslu. Ef einn landshluti lokast af vegna hamfara verður að vera hægt að afla nauðsynlegrar fæðu annarstaðar. Þá verði matvælaverð viðráðanlegt almenningi.
Áhersla í landbúnaði verði ávallt lögð á lífræna ræktun til að tryggja heilbrigði manna og dýra og styttri virðiskeðju með tilliti til þess að minnka kolefnisspor. Huga skal einnig vel að eftirliti með dýravernd, halda allri lyfja- og efnanotkun í lágmarki og stytta vegalengdir sem farnar eru með dýr til slátrunar eins og kostur er, til dæmis með færanlegum sláturhúsum.
Bæta skal kjör bænda og þeir viðurkenndir sem sá mikilvægi hluti framvarðarsveitar landsmanna sem þeir eru í raun svo tryggja megi fæðuöryggi og sjálfbærni. Þá séu nýsköpunarstyrkir til bænda auknir og einnig verði boðið uppá hagstæð lán til framkvæmda, nýsköpunar og nýliðunar.
Stuðla á að gagnkvæmri virðingu milli framleiðanda/bænda og notenda/neytenda m.a. með því að auka almenna þekkingu á gildi góðra matvæla. Þá skal tryggja góðar innihaldslýsingar á allri fæðu og auka möguleika á lífrænni framleiðslu. Til að tryggja matvælaöryggi skulu framleiðendur og flutningsaðilar hafa aðgang að góðri fræðslu og skulu vörur ávallt vera merktar greinargóðum innihaldslýsingum og fyrningardegi gæða.
Þá sé landbúnaðarkerfið gert sanngjarnara og sveigjanlegra hvað varðar gjöld á vottorðum svo sem við slátrun og annað svo að litlar framleiðslueiningar eða hið hefðbundna „fjölskyldubú“ geti lifað af. Framleiðslueiningar verði endurskoðaðar með tilliti til umhverfisverndar og dregið verði úr hvatanum til að búin verði of stór. Stutt sé við rekstrarumhverfi fyrir félagsbú tveggja eða fleiri einstaklinga og tekið verði mið af umfangi meðalstórs smáfyrirtækis eða fjölskyldubús
Bæta skal lagaumhverfið í kringum stofnun samvinnufélaga svo að hvatinn til stofnunar slíkra félaga verði meiri. Þannig geti bændur mögulega dregið úr áhrifum milliliða á verðmyndun og aukið samvinnu sína. Ekki skal gera arðsemiskröfu í rekstri samvinnu- eða pöntunarfélaga.
Framsalskerfið með kvóta skal afnumið og skal kvóti vera tengdur búsetu eða skuldbindingu til framleiðslu en ekki verslunarvara sem hægt er að braska með.
Innflutt matvæli skulu lúta sömu reglum og innlendar hvað varðar matvælaöryggi og dýravernd og þar með samkeppnishæfni með virku eftirliti og fræðslu, svo að ekki sé grafið undan innlendri framleiðslu og afsláttur gefinn af öryggi og gæðum matvæla.
Til að auka fjölbreytni í matvælaframleiðslu og veita bændum fleiri möguleika til þess skal niðurgreiða raforku til ylræktar þar sem nóg er af rafmagni. Auk þess skal tryggja öllum landshlutum fullnægjandi raforku svo sem þriggja fasa rafmagn og varaaflsstöðvar. Leita á leiða fyrir ábúendur jarða til að auka nýtingu á öllum tegundum af vistvænni orku úr straumvötnum, stöðuvötnum og í sjó við bújarðir.
Koma skal í veg fyrir að einstaklingar eða fyrirtæki geti safnað að sér bújörðum og öðru landi til eignar. Til þess skal beita takmörkunum svo sem búsetuskilyrðum og fjölda- og stærðartakmörkunum á jörðum og landsvæðum.
Draga á úr lausagöngu búfjár, m.a. vegna hættu á landeyðingu og fella úr gildi beitarrétt á ónýtum löndum. Þá skall einnig draga úr lausagöngu búfjár við þjóvegi þar sem því verður við komið til að vinna gegn slysahættu og auka merkingar við akvegi í því skyni.
Bændum sé gert kleift að stunda búskap með önnur eða fleiri viðfangsefni en þau hefðbundnu svo sem landgræðslu, skógrækt, gistisölu, veitingasölu, fræðslu- og skemmtanastarf á borð við dýragarðsrekstur, veiði- og vinnslu vatna- og sjávarfangs þar sem það á við og nýtingu villtra plantna og dýra.
Þá sé dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og votlendi endurheimt um allt land og skógrækt aukin í samræmi við umhverfis- og loftslagsstefnu Sósíalistaflokksins. Leitað verði allra leiða til að hringrás vistkerfisins og hringrásarkerfið virki sem best svo sem með nýtingu jarðvegs úr metangarði Sorpu en stefna skal að slíkri úrvinnslu um allt land.
Stefna hreins og heilbrigðs umhverfis á að gegna lykilhlutverki í landbúnaðarmálum í anda hringrásarhugsunar. Meðal annars skal leitast við að gera framleiðendum kleift að framleiða innlendan lífrænan áburð og draga úr innflutningi á tilbúnum áburði. Einnig skal auka möguleika á að framleiða innlent kjarnfóður og draga úr innflutningi á fóðri.
Dómsmál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
-Að dómskerfið byggi á réttlæti og sanngirni og að allir hafi jafnan aðgang að því á öllum dómstigum óháð fjárhag og félagslegri stöðu.
01-Að gjafsókn verði öllum fær undir hátekjuviðmiðum.
02-Að sakamál og dómsmál, sér í lagi kynferðisbrotamál verði sett í gagngera endurskoðun svo réttarvörslukerfið verði þolendavænna á allan mögulegan máta.
03-Að barnaverndarmál verði sett í gagngera endurskoðun og hagsmunir barna séu ávallt hafðir í fyrirrúmi og settir í samhengi við velferð foreldra.
04-Að þolendur allra ofbeldismála fái úthlutaðan réttindagæslumann/talsmann sér að kostnaðarlausu óski þeir þess og þróun mála og upplýsingagjöf verið ávallt í eðlilegu ferli.
05-Að fólki bjóðist áfallahjálp verði það fyrir slysi, ofbeldisglæp eða skyndilegum missi en tapi ekki réttindum sínum vegna mögulegs vinnutaps og veikinda af þeim völdum.
06-Að refsirammi sé í meira samræmi milli alvarleika og eðli brota svo sem í kynferðis- og barnaverndarmálum andstætt málum sem innihalda minni miska fyrir einstaklinga og almenning.
07-Að kennitöluflakk og skattaskjól verði gerð ólögleg.
08-Að ríkið gangist í ábyrgð á greiðslum miska- og skaðabóta og greiðslum vegna launaþjófnaðar.
09-Að hegningarlög fari í gagngera endurskoðun með það að markmiði að stuðla að betrunarstefnu og skilvirkni fyrir samfélagið í stað refsistefnu.
10-Að endurskoða umgjörð og vinnulag við skipun dómara.
11-Að sektir verði tekjutengdar svo þær hafi eðlilegt forvarnargildi.
12-Að ekki sé hægt að sækja fólk til saka fyrir að brjóta af sér sökum sannanlegrar neyðar eða sem nemur miska ákveðinnar upphæðar.
13-Að aðkoma almennings að dómskerfinu verði aukin á lýðræðislegum forsendum.
14-Að ferli dómsmála innan dómskerfisins sé skoðað, áfrýjunarréttur ávallt tryggður auk þess að tryggja að öll fordæmisgefandi mál geti ratað fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
15-Að hælisleitendur, flóttafólk og fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd fái skjóta, efnislega og mannúðlega málsmeðferð svo það geti leitað réttar síns og fengið frestun réttaráhrifa á meðan mál eru í vinnslu.
16-Að enginn geti verið skilgreindur ólöglegur sem slíkur í landinu.
17-Að stefna í innflytjendamálum verði mótuð frá grunni og réttindi innflytjenda verði endurskoðuð og þeir fái fyrr kosningarétt og önnur samfélagsleg réttindi.
18-Að skilja að ríki og kirkju.
19-Að dómsmál taki tillit til ólíkra fjölskylduforma og viðurkenni þau óháð kynferði, kyngervi, kynhneigð, fötlun, trúarbrögðum eða uppruna.
20-Að tvöfalt lögheimili barna verði mögulegt eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins um jafnréttismál.
21-Að 19. grein lögreglulaga verði breytt svo komið verði í veg fyrir alræðisvald lögreglu með tilliti til borgaralegra réttinda og réttinn til að mótmæla friðsamlega. Þá geti aðeins „lögmæt“ tilmæli lögreglu gert fólki skylt að hlýða.
22-Að ríkið beri ábyrgð á allri upplýsingagjöf er varða réttindi og skyldur almennings.
23Ítarefni:
Sósíalistaflokkur Íslands vill að dómskerfi landsins byggi á réttlæti og sanngirni. Allir hafi jafnan aðgang að dómskerfinu á öllum dómstigum, óháð fjárhag og félagslegri stöðu, uppruna, kynferði, kyngervi, kynhneigð, fötlun eða trúarbrögðum. Gjafsókn verði öllum fær sem ekki eru skilgreind sem hátekjufólk og endurskoða þarf viðmiðin reglulega. Þannig leiki aldrei vafi á að allir þegnar samfélagsins séu jafnir fyrir dómstólum. Þá veiti ríkið efnalitlu fólki aðstoð t.d í formi lögfræðikostnaðar sem og áfallahjálpar og annarrar sálrænnar aðstoðar ef það þarf að glíma við dómskerfið.
Sakamál og dómsmál þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar sér í lagi kynferðisbrotamál og barnaverndarmál. Þolandi skal til dæmis vera málsaðili að eigin máli og fá að sitja öll réttarhöld sín ef viðkomandi kýs svo en einnig ætti að vera auðvelt fyrir brotaþola að fá upplýsingar um mál sitt, bæði á rannsóknarstigi sem og á dómsstigi og á máli sem er auðskiljanlegt. Til þess skal skipa þolendum ofbeldis sem það kjósa réttindagæslumann eða talsmann.
Í kynferðisbrotamálum skal viðhafa sérstaka nærgætni í hvívetna og ef mál eru felld niður sé fólki ekki tilkynnt það bréfleiðis, með tölvupósti eða með símtali heldur skal þolandi boðaður í viðtal þar sem ítrustu nærgætni er gætt.
Sálfræðimat þolenda ætti að fá meira vægi og refsirammi ætti að vera í mun meira samræmi milli alvarleika og eðli brota út frá þeim miska sem þau valda. Þá skal útvega fólki áfallahjálp þegar þörf er á.
Auðgunar- og efnahagsbrot þarf að skoða í breiðara samhengi og koma í veg fyrir að þeir sem fremji slík brot geti viðhaldið þeim símleiðis eða í gegnum tölvutækni á meðan dómur er afplánaður. Þá verði kennitöluflakk og launaþjófnaður gerður ólöglegur eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins um vinnumarkaðsmál sem og skattaskjól og unnið að því hér heima sem og á alþjóðlegum vettvangi að útrýma þeim.
Ríkið skal gangast í ábyrgð á eðlilegum greiðslum miska- og skaðabóta hvers konar og greiðslum vegna launaþjófnaðar og innheimta þær greiðslur á viðeigandi stöðum svo almenningur þurfi ekki að verða fyrir efnahagslegu tjóni á meðan mál eru í vinnslu.
Málefni fanga þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Tekin skal upp betrunarstefna í stað refsistefnu með möguleika á opnum fangelsum þar sem hægt er að stunda nám og vinna í þágu samfélagsins. Föngum á að vera gert kleift að stunda viðeigandi meðferð og betrun. Þá skal vera markviss eftirfylgni samkvæmt þörfum hvers og eins, eins lengi og þurfa þykir.
Þeir sem hljóta dóm ættu ekki að þurfa að bíða lengi eftir að sitja hann af sér. Fjölbreyttari afplánun ætti einnig að vera í boði fyrir vægari brot svo sem samfélagsþjónusta, heimafangelsi, val um tiltekna meðferð í stað frelsissviptingar. Það er ekki endilega alltaf best til árangurs að loka fólk inni, sér í lagi ef langur tími er liðinn frá broti.
Það þurfa að vera til fjölbreytt úrræði og betrun til að takast á við brotamenn í ofbeldismálum þannig að hægt sé að vernda þá sem fyrir því verða eða hótunum um það. Þannig sé brugðist hratt við málum áður en þau leiða af sér sakamál.
Mikilvægt er að dómstólar séu skipaðir fjölbreyttari hópi fólks og að dómarar séu með fjölbreyttan bakgrunn og ólíka reynslu, sérþekkingu, menntun og skilning á mismunandi málaflokkum og leiti til sérfróðra aðila.
Taka skal tillit til aðstæðumunar sakborninga þannig að litið sé til heilsufars, félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna. Tryggt sé að að fólki sé ekki refsað fyrir utanaðkomandi aðstæður sem þeir hafa enga stjórn á og hefðu ekki geta fyrirbyggt. Þannig skal ekki dæma fólk sem veldur eignartjóni innans ákveðinnar upphæðar hafi það til dæmis stolið vegna hungurs eða neyðar. Þá þurfa sektir að vera tekjutengdar svo þær hafi eðlilegt forvarnargildi.
Endurskoða þarf einnig umgjörð og vinnulag varðandi skipun dómara. Það þarf að vera lýðræðislegri aðkoma að slíkri skipan og einum aðila ekki gert mögulegt að velja dómara þvert á meðmæli ráðgefandi nefndar eða alþjóðlegra dóma. Skipaðir verða meðdómendur sem eru sérfræðingar, menntaðir eða með reynslu í málaflokknum.
Ferli innan dómsstiga þarf að endurskoða og möguleikinn til áfrýjunar til mannréttindadómstóls Evrópu þarf að vera skýr. Eftir að kerfinu var breytt og landsdómstóll tók við áfrýjun frá Héraðsdómum er það í flestum tilfellum endanleg niðurstaða. Ekki er nema í einstaka málum hægt að áfrýja til Hæstaréttar og þá aðeins ef mál eru þess eðlis að ekkert fordæmi sé fyrir hendi. Það er því verkefni Hæstaréttar að taka slík mál fyrir til að dómur verði fordæmisgefandi. En túlkun laga er í eðli sínu Hæstaréttar að sinna.
Dómstólar þurfa að geta gefið upp rökstuðning fyrir dómum sínum og eða frávísunum og báðir hlutaðeigendur sá sem sækir og sá sem er saksóttur þurfa að geta átt áfrýjunarrétt í öllum málum hvort heldur að áfrýjunarfjárhæð eða lágmarksrefsingu sé náð.
Þá skal ríkið viðurkenna alþjóðlega mannréttindadóma og virða lög annarra ríkja og umráðarétt og eignir þeirra á auðlindum.
Stefna ríkisins í innflytjendamálum skal endurskoðuð frá grunn en hún skal einkennast af mannúð. Á Íslandi skal hætta að vísa til Dyflinnarreglugerðarinnar við málsmeðferð flóttafólks. Enginn skal vera ólöglegur í landinu. Það þarf að flýta fyrir málum, þannig að fólk geti ekki verið í landinu án afgreiðslu mála sinna svo árum skiptir. Ómannúðlegt er að láta fólk bíða lengi eftir afgreiðslu sinna mála sem og að vísa börnum úr landi sem hér hafa búið langdvölum og þekkja jafnvel ekkert annað.
Þó innflytjendur á Íslandi séu ekki með íslenskan ríkisborgararétt ættu þeir að hafa rétt á að hafa eitthvað um stjórnarfar sitt að segja mun fyrr og því skal endurskoða kosningalög er snúa að þeim.
Á Íslandi er trúfrelsi. Miklar breytingar hafa orðið á viðhorfi til trúar og hlutverki hennar í nútímasamfélagi, ekki síst tengslin við ríkisvaldið og jafnræði milli trúfélaga, lífsskoðunarfélaga og þeirra sem kjósa að standa utan slíkra félaga. Því þarf fullan aðskilnað ríkis og kirkju að lögum bæði að formi, efni og fjárhag og setja heildstæða löggjöf um öll trú- og lífsskoðunarfélög. Hlutlaus trúarbragðakennsla í skólum eykur auk þess samstöðu í þjóðfélaginu.
Borgaralegra réttinda skal ávallt vera gætt og þau útfærð í takt við samfélagslega þróun. Þannig þarf kerfið að gera ráð fyrir flóknara fjölskyldumunstri og kynja, -kynhneigðar og -kyngervi, trúarbrögðum, fötlun og eða uppruna foreldra. Lög skulu ávallt hafa hagsmuni barna í fyrirrúmi sem settir séu í samhengi við velferð foreldra og forráðamanna. Þá sé börnum gefinn kostur á að hafa tvöfalt lögheimili eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins um jafnréttismál.
Í ljósi borgaralegra réttinda er einnig mikilvægt að breyta 19. grein lögreglulaga sem gerir almenningi skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til að halda uppi lögum og reglum á almannafæri en eins og hún er framsett núna gefur hún lögreglunni alræðisvald sem hún á ekki að hafa. Í dag sjáum við dóma falla yfir fólki sem mótmælti friðsamlega en hlýddi ekki lögreglu um að færa sig þrátt fyrir að skaða engann. Þessi lagagrein er dæmi um ólög sem þarf að breyta sökum þess að vera í eðli sínu ólýðræðisleg og brjóta á borgaralegum rétti fólks.
Stjórnvald sinni eðlilegri upplýsingaskyldu sinn en upplýsi fólk einnig skilyrðislaust um þann rétt sem það hefur ef það telur brotið á sér. Ef fólk telur sig ekki hafa notið réttlætis vegna efnahags eða félagslegrar stöðu hafi það aðgang að kerfi sem tekur það til skoðunar og úrbóta.
Ríkisfjármál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
-Að áhersla ríkisfjármála landsins sé á velferð og jöfnuð.
01-Endurskoða skal fjármálastefnu landsins og innleiða skal aðferðafræði eins og MMT (eða Modern Monetary Theory) sem er ein leið út úr höftum nýfrjálshyggjunnar.
02-Að ríkið sinni þörfum landsmanna, fjármagni og reki grunn innviði landsins svo sem skólakerfi, heilbrigðiskerfi, bankakerfi, samgöngukerfi, velferðarkerfi, orkuveitur og fleira.
03-Að innheimt verði fullt gjald fyrir nýtingu auðlinda í þjóðareign þannig að auðlindarentan myndi einn helsta tekjustofn ríkissjóðs.
04-Að hæstu laun séu aldrei hærri en þreföld lægstu laun innan hins opinbera og að það sem sé greitt umfram það innan einkarekinna fyrirtækja sé skattlagt sem hagnaður eigenda.
05-Að laun, lífeyrisgreiðslur og bætur sem fólki ber að lifa af séu aldrei svo lág eða skert að þau dansi á mörkum alþjóðlegra og innlendra viðmiða um fátæktarmörk.
06-Að skattleysismörk verði hækkuð verulega og fylgi vísitölu.
07-Að skattkerfið sé notað til tekjujöfnunar með hátekjuskatti og fleiri skattþrepum.
08-Að fjármagnstekjur leggist saman við aðrar tekjur svo auðmenn komi sér ekki hjá tekjuskatti.
09-Að lögum um einkahlutafélög sé breytt þannig að ekki sé hægt að fela tekjur eða eignir í þeim tilgangi að forðast eðlilega skatta eða útsvarsgreiðslur.
10-Að virðisaukaskattskerfiið sé endurskoðað og virðisauki á nauðsynlegar grunnvörur verði afnuminn.
11-Að sjálfvirkni- og róbótavæðing verði skattlögð og eyrnamerkt almannatryggingakerfinu.
12-Að börn fái ekki á sig skattaálagningu innan 18 ára aldurs, mörk séu sett á eignir þeirra svo ekki sé hægt að misnota kennitölur þeirra í fjárhagslegum tilgangi.
13-Að komið verði á fót samfélagsbanka.
14-Að verðtrygging verði afnumin.
15-Að bundinn sé endir á fullkomna bankaleynd svo hægt sé að rekja skattaskjól og koma í veg fyrir notkun þeirra.
16-Að ríkið reki virka atvinnustefnu og sé mótandi í þróun hennar með rannsóknum og beinni þátttöku, hvetji til hlutastarfa og bjóði upp á atvinnuframboðstryggingu.
17-Að sprotafyrirtæki/nýsköpun og ný og lítil fyrirtæki njóti aukins stuðnings og skattkerfið taki mið af stærð fyrirtækja með þrepaskiptingu á tekjuskatti þeirra.
18-Að stórfyrirtæki séu lýðræðisvædd.
19-Að fólk sem hefur of mikil tengsl við stórfyrirtæki eða fjármagn hafi ekki aðgang að þingsetu/ráðherrastól svo það sé óumdeilt að þingmenn vinni fyrir almannahag.
20-Að þingið og fjármálaráðuneytið leiti virkrar samvinnu við almenning þegar kemur að stefnumótun í fjármálum svo þau endurspegli vilja fólks og raunveruleg lífsskilyrði í landinu.
21Ítarefni:
Sósíalistaflokkur Íslands vill að öll áhersla í ríkisfjármálum sé á velferð og jöfnuð, fólk fái það sem það þarf frá ríkinu og greiði það sem það geti til samneyslunnar. Þá séu helstu innviðir landsins samfélagslega reknir svo sem skólakerfi, heilbrigðiskerfi, bankakerfi, samgöngukerfi, velferðarkerfi, orkuveitur og fleira og séð til þess að ríkið útvisti ekki verkefnum þeim tengdum og sé fyrirmynd í heiðarlegum viðskiptaháttum. Þjónusta í heilbrigðis-, mennta-, og almenningssamgöngukerfinu sé þá íbúum að kostnaðarlaus utan skattkerfisins eins og fram kemur í stefnum flokksins um menntamál, heilbrigðis- og samgöngumál.
Undanfarna áratugi hefur stefna ríkisins í fjármálum leitt til aukins kostnaðar almennings í þjónustu hvort heldur heilbrigðis-, mennta- eða annarri grunnþjónustu t.d. með allskyns greiðsluþátttökukerfum. Nýfrjálshyggjan og dekstur hins opinbera við fjármagnseigendur og stórfyrirtæki hefur leitt af sér aukna misskiptingu í samfélaginu og er bilið á milli auðugra og þeirra sem búa við fátækt sístækkandi. Örfáar fjölskyldur á íslandi eiga mest af auðnum og í nafni stöðugleika er tekjulágt fólk, eldri borgarar, öryrkjar og atvinnulausir gerðir ábyrgir fyrir niðurskurði ríkisins.
Sósíalistaflokkur Íslands vill að brugðist sé strax við þeirri niðurskurðarstefnu velferðar sem ráðið hefur ríkjum í nafni nýfrjálshyggjunnar með gagngerri uppstokkun á fjármálakerfinu. Þessari þróun í formi blóðtöku kerfisins af fjölskyldum og atvinnurekstri og sífelldu kröfu um banni við halla þannig að skuldir megi ekki vera meiri en 30% af gdp má snúa við með innleiðingu aðferða eins og MMT (eða Modern Monetary Theory) þar sem hægt er að stýra betur flæði fjármagns, halda vöxtum lágum og stýra okkur út úr höftum nýfrjálshyggjunnar.
Auðlindir landsins hvort heldur fiskurinn í sjónum, vötn, fossar, jarðhiti, skóglendi, jarðnæði, ferðamannaperlur og fleira séu sjálfbærar og þeim haldið í þjóðareign. Auðlindaskattur sé hækkaður og honum tryggt að bæta grunn fjármagnsstofn þjóðarinnar en auðlindir séu ekki gjafavara auðmanna sem hægt sé að framselja, erfa og braska með.
Áherslan í ríkisfjármálum landsins skal ávallt vera á velferð og jöfnuð almennings þannig að öll kerfin okkar styðji við þá lægra settu og það fólk og fyrirtæki sem séu betur sett láti meira af hendi rakna í sameiginlega sjóði. Launakerfi sé gert réttlátara þannig að launamunur sé eðlilegri bæði innan ríkisins og einkageirans með því að miða hæstu laun við hið mesta þreföld lægstu laun og að það sem sé greitt umfram þreföld lægstu laun innan fyrirtækja sé ekki skrifað sem kostnaður á fyrirtækið heldur yrði skattlagt sem hagnaður eigenda.
Skattkerfið sé þá nýtt á allan máta sem raunverulegt tekjujöfnunartæki og persónuafsláttur hækkaður verulega og leiðréttur miðað við verðlagsbreytingar síðustu ára, skattþrepum fjölgað og hátekjuskattur innheimtur svo hér sé lagður fullur auðlegðarskattur.
Þá sé komið í veg fyrir að hægt sé að nýta einkahlutafélög og dótturfélög þeirra til að fela tekjur auk þess sem fjármagnstekjur séu lagðar saman við launatekjur þannig að auðmenn komist ekki hjá því að greiða af tekjum sínum eðlilega skatta eins og verkafólk.
Skattrannsóknum skal sinnt sem skyldi með það fyrir augum að þær skili tilætluðum árangri en séu ekki að elta ólar við fátækt fólk, öryrkja og einyrkja heldur sé horft til hátekjufólks og stórfyrirtækja sem mögulega koma fjármagni undan skatti.
Skattkerfið verður að taka inn í myndina þær samfélagsbreytingar sem róbótavæðingin endurspeglar. Mörg störf tapast í þeirri iðnbyltingu sem við horfum upp á og það þarf að ávarpa með skattheimtu sem er eyrnamerkt velferðarkerfinu eða almannatryggingum.
Börn skulu ekki vera skattlögð innan 18 ára aldurs en sett viðmið á hversu háa upphæð þau mega eiga á reikning svo ekki sé hægt að misnota reikninga þeirra. Endurskoða þarf virðisaukaskattskerfið og leggja niður skattheimtu á nauðsynlega grunn-vöru, lyf, -öryggis og barnavöru og fjölga virðisaukaskattsþrepum.
Bankakerfið á íslandi þarf að taka til ítarlegrar endurskoðunar hvað varðar gildi og hlutverk. Stofnaður verði samfélagsbanki sem mun m.a. geta breytt landslaginu á húsnæðismarkaðnum. Þá verði verðtryggingin afnumin og bundinn endir á fullkomna bankaleynd svo hægt sé að rekja skattaskjól og koma í veg fyrir notkun þeirra.
Sjaldan hefur verið jafn mikil þörf fyrir nýsköpun og samvinnurekin lítil fyrirtæki. Skattkerfið skal taka mið af stærð fyrirtækja og stórfyrirtæki skulu lýðræðisvædd að hluta en einnig skal skattkerfið innihalda þrep í tekjuskatti fyrirtækja eins og þekkist víða erlendis og kemur í veg fyrir að stærri fyrirtæki hafa meiri möguleika til að draga úr skattgreiðslum en hin smærri.
Þá skal ríkið reka virka atvinnumálastefnu og sinna rannsóknum og vera mótandi í þróun hennar, bjóða upp á atvinnuframboðstryggingu til að bregðast við sveiflum í hagkerfinu en einnig skal hið opinbera bjóða upp á hlutastörf í auknum mæli og byggja inn í kerfið hvata svo einkafyrirtækin geri slíkt hið sama.
Um hagsmunaskráningu þingmanna skulu gilda skýrari reglur og skulu einstaklingar sem hafa of mikil tengsl við stórfyrirtæki eða fjármagn ekki hafa aðgang að þingsetu/ráðherrastól svo það sé óumdeilt að þingmenn vinni fyrir almannahag.
Þingið og fjármálaráðuneytið skal leita virkrar samvinnu við almenning þegar kemur að stefnumótun í fjármálum svo þau endurspegli vilja fólks og raunveruleg lífsskilyrði í
Utanríkismál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að hagsmuni landsins beri að meta út frá því að Ísland sé smáríki og samfélag fólks af ólíkum uppruna.
01Að Ísland sýni samstöðu með hinum smáu og undirokuðu sem þrá frelsi og sjálfstæði hvar sem þá er að finna í heiminum.
02Að landið tryggi tengsl við næstu nágrannaþjóðir, auki samskipti við aðrar smáþjóðir og vinni að því að koma á stofnun friðarbandalags meðal þjóða í stað hernaðarbandalags.
03Að staðið sé með lýðræði og mannréttindum hvar sem er og baráttunni gegn auðvaldi og kúgun á alþjóðavettvangi.
04Að Ísland sé herlaust land, fari aldrei með ófriði á hendur öðrum ríkjum né styðji slíkar aðgerðir heldur vinni að friðsælum lausnum deilumála.
05Að landið sé með öllu vopnalaust og vopna- og kjarnorkuflutningar inn í íslenska landhelgi og lofthelgi sé með öllu óheimil.
06Að auka lýðræðislega aðkomu almennings að ákvarðanatöku varðandi veigamestu þætti heildstæðrar utanríkisstefnu og allar stærri ákvarðanir sem komi til álita og varða alþjóðlegt samráð og þátttöku í stærri bandalögum verði settar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
07Að styðja við alþjóðasamvinnu en hafna alþjóðavæðingu á forsendum auðvaldsins.
08Að fátækt verði útrýmt á heimsvísu og að grunnmannréttindi allra jarðarbúa séu virt.
09Að þróunarsammvinnuverkefni Íslands skulu miða að sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti og jöfnuði í þeim ríkjum sem um ræðir.
10Að styðja við verkalýðsbaráttu um allan heim og samvinnu verkalýðshreyfingarinnar milli landa, vinna gegn mansali og kúgun verkafólks.
11Að styðja alla jafnréttisbaráttu á alþjóðavísu á grundvelli stétta, uppruna, ríkisfangs, trúar, tungumálakunnáttu, menntunar, kyns, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar, húðlitar, getu, líkamlegs eða andlegs atgerfis og holdarfars.
12Að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og vinna með öðrum ríkjum að því að afstýra loftslagshamförum og eyðileggingu vistkerfa.
13Að komið verði á alþjóðlegum dómstól sem tekur á auðlindaráni sem og umhverfis- og efnahagsglæpum sem glæpum gegn mannkyni
14Að stuðla að því að sett verði ströng alþjóðleg viðurlög við því að einstaklingar eða fyrirtæki misnoti auðlindir annarra þjóða. Komi upp grunur um slíkt sé því vísað til alþjóðadómstóls.
15Að alþjóðasamningar séu gegnsæir og gerðir án leyndarhyggju með velferð fólks og umhverfis að leiðarljósi.
16Að útlendingalög landsins verði endurskoðuð frá grunni með mannúð og mannréttindi í öndvegi.
17Að Ísland vinni með öðrum smáþjóðum að því að alþjóðasamfélagið standi saman að friðarsáttmála til að leita lausna á flóttamannavanda heimsins.
18Ítarefni:
Ísland er smáþjóð sem hefur þurft að berjast fyrir fullveldi í tímans rás en hefur þrátt fyrir smæð sína náð að öðlast sjálfstæði frá nýlenduríkjunum. Þá dýrmætu reynslu ber að virða og ber okkur skylda til standa með öðrum undirokuðum þjóðum í svipuðum sporum. Í því samhengi má nefna grannþjóðir okkar eins og Grænlendinga og Færeyinga sem og fjarlægar og stríðshrjáðar þjóðir eins og Palestínumenn og Kúrda.
Í stað þess að vera máttlaus smáþjóð innan hernaðarbandalags viljum að þjóðin styrki samband sitt og samvinnu við nágrannaþjóðirnar og aðrar smáþjóðir og komi á friðarbandalagi. Slíkt bandalag verði valkostur á móti núverandi veru landsins í Nató. Á sínum tíma var innganga í Nató ekki borin undir þjóðina. Það ætti að gera sem fyrst. Á þann hátt má vinna betur að mannréttindum og lýðræðislegri stjórnskipan innan heimsins gegn auðvaldi og kúgun stærri ríkja gegn smærri. Þá skal Ísland ævinlega vera herlaust og vopnlaust. Við fordæmum allt ofbeldi og styðjum á engan hátt stríðsátök eða kúgun eins ríkis gegn öðru. Við viljum hvorki heimila vopnaflutninga né millilendingar með vopn, þar með talin kjarnavopn, inn í okkar land- eða lofthelgi, ekki heldur fangaflutninga þar sem fólk er flutt milli landa undir óeðlilegu yfirskini.
Lýðræði þjóða er mikilvægur þáttur þegar kemur að því að búa í réttlátu og mannúðlegu samfélagi. Það skiptir máli að auka lýðræðislega aðkomu almennings að öllum stofnunum samfélagsins sem og að stærri ákvörðunum þegar kemur að þróun heildstæðrar utanríkisstefnu og alþjóðlegri samvinnu. Mikilvægt er að skapa samráðsvettvang til dæmis í formi slembivalinna hópa svo kjörnir fulltrúar hafi stuðning grasrótar landsmanna og beint samráð við veigamiklar ákvarðanir.Þá þarf almenningur að geta kosið um stærri og umdeildari mál í þjóðaratkvæðisgreiðslu.
Ójöfnuður fer vaxandi í heiminum og ríkasta eina prósentið verður æ ríkara og valdameiri á meðan almenningur verður valdalausari. Þannig hefur kapítalisminn og græðgisvæðing heimsins náð undirtökunum í gegnum stórfyrirtækin, sem stjórnvöld einstakra ríkja og alþjóðlegar stofnanir þjóna. Afleiðingin er niðurbrot samfélaga og lýðræðis, náttúrugæða og loftslags. Vinnuvernd og sú verkalýðsbaráttu, sem víða var byggð upp á síðustu öld, hefur verið veikt og almenn grunnmannréttindi og velferð lúta í lægra haldi. Við stöndum frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar þar sem fólk flýr heimalönd sín vegna, lífsgæða, loftslagsvár eða styrjalda. Sósíalistaflokkurinn hafnar því alþjóðavæðingu hins fjármálavædda kapítalisma en styður alþjóðlega samvinnu sem hefur það að markmiði að vinna gegn auðvaldi og kúgun.
Fátækt á alheimsvísu verður ekki útrýmt nema með samhentum aðgerðum þjóða, leiddum af smærri þjóðum en ekki risaveldunum. Markmið slíkrar samvinnu á að vera að tryggja öllum jarðarbúum viðundandi lífsviðurværi og aðgengi að grunnþörfum á borð við þak yfir höfuðið, fæðu og lágmarks framfærslu. Þá eiga allir að geta lifað með mannlegri reisn, hvort heldur þeir geta unnið eða standi utan vinnumarkaðar, fatlaðir eða veikir eða falla ekki inn í skilyrt hefðbundið mót.
Ísland er ríkt samfélag og skal taka ríkulegan þátt í þróunarsamvinnuverkefnum, huga sérstaklega að félagslegri uppbyggingu, réttindabaráttu hinna kúguðu og stuðning við hina fátækustu samhliða stuðningi varðandi tækni og nýsköpun. Markmið Íslands í utanríkismálum á að snúast um að gera heiminn allan að betri stað.
Sífellt eru fleiri dæmi þess að lýðræði, lífskjör og völd almennings molni niður vegna ágangs kapítalismans, borgarleg réttindi víkja fyrir valdi hins svokallaða markaðar og bitnar það harðast á veikstæðustu hópunum sem eru háðust lýðræðislegri uppbyggingu samfélagsins og virkri hagsmunabaráttu almennings; fátækara fólki og jaðarhópum, konum, hinsegin fólki og öðrum minnihlutahópum.
Réttur almennings er ávallt meiri en réttur stórfyrirtækja og þurfum við að endurskoða margt hvað varðar aðkomu fyrirtækja og auðugra fjarmagnseigenda að samfélögum. Velmegun okkar Íslendinga má að hluta til rekja til þess að við erum þátttakendur í því að misnota veika stöðu annarra þjóðir þar sem framleiddar eru helstu neysluvörur vesturlanda af verkafólki sem vinnur jafnan við slæm kjör og vondan aðbúnað. Framleiðsluaðferðir valda oft mengandi úrgangi sem í dag er orðinn óásættanlegur fylgifiskur þeirra. Þessu þurfum við að taka ábyrgð á. Íslensk stjórnvöld í samvinnu við önnur ríki þurfa að taka umhverfis- og loftslagsmálin mun fastari tökum á alþjóðavettvangi, en einnig misnotkun kapítalismans á fátækari samfélögum og fólki. Það er óboðlegt að stórfyrirtæki, einnig íslensk, arðræni aðrar þjóðir af auðlindum sínum, sigli undir hentifánum og skilji eftir sig sviðna jörð. Til þess að sporna við slíku alþjóðlegu ofbeldi er þörf á því að víkka út svið Alþjóðaglæpadómstólsins eða stofna nýjan dómstól sem tekur á mútum, auðlindaráni og umhverfisglæpum.
Í dag stendur heimsbyggðin frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar og flóttamenn hafa ekki verið fleiri síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta er afleiðing styrjaldja og valdabaráttu, efnahagslegs vanda veikstæðra þjóða í alþjóðavæddum kapítalisma og loftslagsbreytingar. Gera þarf ráð fyrir því að flóttafólki muni fjölga verulega á næstu árum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Allar þjóðir heimsins þurfa að axla ábyrgð á þessum vanda og til að mæta honum þurfum við að endurskoða útlendingalögin sem við störfum eftir í dag. Innflytjendum mun fjölga á næstu ár og áratugi og styrkja íslenskt samfélag, rétta við óhagstæða aldursamsetningu og tryggja okkur aukið afl til að standa undir velferð og réttlæti innan samfélagsins. Hagmunir okkar fara því saman með fólkinu sem hrakið hefur verið á flótta og leitar sé að nýju heimili þar sem það getur tryggt sér og sínum öryggi, frið og þokkalega afkomu. Taka verður á móti flóttafólki með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi og hafa það í huga að við erum öll íbúar á sömu jörð.
Menningarmál og listir
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að allir geti notið menningar og lista óháð efnahag, stétt eða stöðu.
01Að veitt sé fjármagn til sem fjölbreyttastra menningarkima svo sem allra listgreina, safna og listhúsa,þjóðmenningar,fræðastarfa,fjölmiðlunar og bókasafna, sundlauga og annara félagsrýma.
02Að menning allra samfélagshópa sé í hávegum höfð og henni ásamt ólíkum listgreinum gert jafn hátt undir höfði.
03Að efla menningu og listir jaðarhópa svo sem með útgáfu miðla, farandsýningum, tónleikum eða listsmiðjum þeim til hagsbóta og heilsueflingar.
04Að tryggja rekstur bókasafna og menningarmiðstöðva um allt land ásamt virknimiðstöðva með félagseldhúsum sem eru aðgengilegar öllum og skilgreina hlutverk þeirra og samfélagslegt mikilvægi.
05Að gera úttekt á rekstri og stefnu Hörpu tónleikahúss og efla menningu og líf í öllu húsinu.
06Að þjóðarópera verði stofnuð og henni fundinn staður í lögum um sviðslistir með sama hætti og Þjóðleikhúsið.
07Að danshúsi verði komið á fót í samstarfi ríkis og sveitarfélaga með þátttöku fagfélaga dansara og danshöfunda.
08Að íslensk kvikmyndagerð sé stórefld með sterkara sjóðakerfi sem styður við fjölbreyttari kvikmyndaverk auk þess að búa í haginn fyrir þróun íslenskrar streymisveitu.
09Að sjálfstæði fjölmiðla verði tryggt og útgáfa þeirra fjölmiðla efld sem byggja á heilbrigðri gagnrýni og leitast við að greina alla stéttavinkla samfélagsins.
10Að fjölga sjálfstætt starfandi fræðimönnum og tryggja þeim afkomuöryggi.
11Að lögfest verði höfundarréttarstefna í samræmi við gildandi hugverkastefnu
12Að tryggja aðgengi allra að listnámi óháð efnahag með afnámi skólagjalda.
13Að efla þátttöku innflytjenda í listnám og aðgengi að menningarlífi með sérstöku átaki.
14Að erlendum listamönnum sé veittur aðgangur að menningarrýminu og að erlendir listamenn utan Evrópusambandsins fái landvistarleyfi til að vinna að list sinni
15Að starfslaunasjóðir listamanna verði efldir til muna, launþegum fjölgað og tími starfslauna lengdur ásamt fjölgun verkefnastyrkja.
16Að tryggja réttindi listamanna og kjör hjá stofnunum sem njóta opinberra styrkja.
17Að menning og menningariðnaður hafi ávallt umhverfisvæn viðmið og unnið sé samkvæmt ítrustu kröfum í loftslagsmálum.
18Að menningarmálaráðuneyti verði stofnað til að tryggja listum og menningu brautargengi innan stjórnsýslunnar sem og innan samfélagsins.
19Ítarefni:
SóÍsíalistaflokkur Íslands vill stuðla að menningu sem leysir af hólmi þá neikvæðu menningu, einstaklingshyggju, græðgi og ofurneyslu sem fylgir nýfrjálshyggjunni.
Þessi óheillamenning hefur ríkt undanfarin 30 ár í öllum heimshornum og
hefur gegnsýrt samfélögin með sínum neikvæðu gildum og ógnar nú
lífsskilyrðum okkar og plánetunnar. Menningin hvort heldur alþýðumenning eða listir ætti að taka tillit til manneskjunnar og náttúrunnar og vera í þágu allra, en ekki aðeins hinna fáu og valdamiklu, með sýn á framtíðina, ungu kynslóðirnar og með samhygð og mennsku að leiðarljósi.
Til þess að allir geti notið menningar og lista óháð efnahag, stétt eða stöðu er mikilvægt að fella niður almennan aðgangseyris að menninga- og listastofnunum í opinberum rekstri en einnig stuðla að öflugri undirstöðu lista- og menningarlífs með menntun í skapandi greinum. Stafræn menning skal einnig studd af ríkinu og gerð aðgengileg öllum skólum og menntastofnunum.
Efla skal allt menningarstarf á Íslandi og gera sérstakt átak í að efla sjálfstæði, sjálfsmynd, auka sýnileika og hvetja til þátttöku jaðarsetta hópa svo sem fanga og fólks á sjúkrastofnunum en einnig innflytjenda og fólks af öðrum þjóðarbrotum.
Mikilvægt er að framlög frá ríkinu taki mið af fjölbreytileika íslenskrar menningar á 21. öld og fjölmenningu sem hluta af íslensku samfélagi. Þannig skulu framlög ríkisins einnig vera tæki til jöfnuðar þegar kemur að sköpun og aðgengi að menningu allra sem búa á Íslandi. Fjárframlög ríkisins í hvaða formi sem er verði því einnig metin af þverfagaðilum á sviði lista og menningar en einnig á sviði félagsvísinda. Þá sé stuðlað að samvinnu menningarstofnana um allt land svo að fjármunir nýtist hinni faglegu starfsemi með besta móti.
Til að efla menningu jaðarhópa er mikilvægt að rödd þeirra heyrist, svo sem með útgáfu miðla eða götublaða, farandsýningum, tónleikum og fleiru þeim til hagsbóta en einnig verði hægt að nota listsmiðjur og aðra menningu sem heilbrigðisúrræði og forvarnir til dæmis fyrir fatlað fólk og aldraða.
Bókasöfn og menningarmiðstöðvar um allt land verði endurskilgreind frá grunni ásamt sundlaugum og öðru félagsrými og hverfamenning í borg og bæjum tendruð með virknimiðstöðvum aðgengilegar öllum og sem innihalda félagseldhús. Einnig skal endurskoða hlutverk trúarstofnana sem félagsrýmis með opinn faðm.
Skapandi greinar eru einnig iðnaður sem ríkinu ber að rækta og styðja við líkt og annan iðnað í landinu.
Mikilvægt er að reka tónlistarhús, þjóðaróperu og danshúss ásamt stóru leikhúsunum en þá er einnig mikilvægt að húsin þjóni listinni og fólkinu en ekki öfugt. Því skal gera úttekt á rekstri og stefnu Hörpu tónleikahúss og efla menningu og líf í öllu húsinu.
Íslensk kvikmyndagerð skal stórefld með sterkara sjóðakerfi sem styður við fjölbreyttari kvikmyndaverk auk þess að búa í haginn fyrir þróun íslenskrar streymisveitu.
Það er mikilvægt að endurskoða tilgang og rekstur fjölmiðla en rannsóknarblaðamennska njóti friðhelgi sem greinandi afl í samfélaginu. Þá yrði stofnaður rannsóknarblaðamannasjóður til styrktar blaðamönnum sem þurfa rými og fé til þess að sinna rannsóknarvinnu til lengri tíma.
Einnig þarf að tryggja skoðanafrelsi hjá ríkisútvarpinu, og að öllum röddum af öllum stéttum sé útvarpað. Þannig sé til dæmis aukin þáttur innflytjenda og verkafólks að efnistökum þáttagerðar ríkisútvarpsins og sýnd rétt mynd af íslensku samfélagi.
Þá sé sjálfstætt starfandi fræðimönnum tryggð afkoma, sér í lagi ef þeir víkka út sjónarsviðið með áherslu á hina raddlausu og fátæku.
Mikilvægt er að menntamálin ýti undir skapandi greinar og tryggi aðgengi allra að listnámi með afnámi skólagjalda og sér átaki varðandi jaðarhópa og þá er sýna sig að skili sér síður í listnám.
Þá vill Sósíalistaflokkurinn tryggja listafólki efnahagslegt öryggi til þess að starfa sjálfstætt að list sinni óháð væringum markaðarins og útilokunar klíkusamfélagsins.
Kjör listafólks skulu tryggð betur með því að fjölga starfslaunum og lengja þann tíma sem þau eru veitt ásamt fjölgun vekefnastyrkja en einnig að tryggja réttindi og kjör þeirra listamanna sem starfa við stofnanir sem njóta opinberra styrkja. Þá eru starfslaunasjóðir sviðslistafólks aðkallandi þegar oft er hlé á milli verkefna og mörg þeirra sjálfstætt starfandi allan sinn feril. Mikilvægt er einnig að erlendum listamönnum sé veittur aðgangur að menningarrýminu og að listamenn utan Evrópusambandsins fái landvistarleyfi til að vinna að list sinni
Menning og menningariðnaður mun og þarf ávallt að hafa í huga kyn, uppruna og stétt við stefnumótun og útfærslu á efni sínu og gera öllum jafnt undir höfði. Stefna skal að því að gera menningartengd störf fjölskylduvæn en einnig að menningariðnaður hafi ávallt umhverfisvæn viðmið og unnið sé samkvæmt ítrustu kröfum í loftslagsmálum.
Þá skal menningarmálaráðuneyti stofnað til að tryggja listum og menningu brautargengi innan stjórnsýslunnar sem og innan samfélagsins alls.