Húsnæðismál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að húsnæðisöryggi sé tryggt á öllu landinu. Öruggt húsnæði er ein grunnforsenda velferðar.

01

Að tekin verði upp langtíma húsnæðisstefna og nýtt húsnæðiskerfi sem tekur mið af ólíkum þörfum mismunandi þjóðfélagshópa. Hafist verði handa við mótun þeirra strax.

02

Að sett verði á laggirnar nútíma verkamannabústaðakerfi, samvinnufélög um húsnæðisbyggingar og rekstur þeirra sem og opinber leigufélög sem ekki eru hagnaðardrifin.

03

Að réttindi leigjenda séu tryggð og stuðlað að traustum leigumarkaði með langtímaleigusamningum og reglum um þak á leiguverði.

04

Að námsmönnum í háskóla-eða fagnámi verði tryggt húsnæði á nemendagörðum.

05

Að skylda öll sveitarfélög til að tryggja lágmarksfjölda félagslegra íbúða miðað við íbúafjölda auk þess að mæta bráðavanda.

06

Að byggingareglugerðum verði breytt í samræmi við ný og fjölbreytt búsetuform (samvinnubústaði, smáhýsi og nýjar útfærslur á búsetuformum).

07

Ítarefni

Húsnæðisöryggi er ein grunnforsenda velferðar í landinu og er aðgangur að húsnæði sjálfsögð mannréttindi. Húsnæðisöryggi felur meðal annars í sér að tekjulágir og tekjulausir eigi ávallt að njóta forgangs við ráðstöfun húsnæðis og að hagsmunir barna og fjölskyldna séu hafðir að leiðarljósi.  Til að svo megi verða þá þarf að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði um land allt.

Við skipulagningu nýrra byggða og endurskipulagningu eldri hverfa skal gert ráð fyrir að hæfilegu  hlutfalli lóða sé úthlutað undir samvinnubyggingarfélög og félagshúsnæðis innan hvers hverfis/byggðar.  Þannig verði búsetufrelsi einstaklinga og fjölskyldna tryggt óháð efnahag. Með búsetufrelsi er átt við að fólk geti valið sér staðsetningu og gerð húsnæðis m.t.t. aðstæðna hverju sinni.

Stofnframlög til nýrra húsnæðiskerfa skuli koma frá ríki og sveitarfélögum en stofna skal nýjan íbúðalánasjóð sem hefur það hlutverk að tryggja öllum öruggt og sómasamlegt húsnæði á hagstæðum kjörum. Nýr íbúðalánasjóður verði fjármagnaður af Seðlabanka Íslands með vaxtalausum lánum. Íbúðalánasjóður veitir síðan hagstæð lán til húsnæðisfélaga til bygginga á nýjum íbúðum.  Tryggt verði að íbúðir fjármagnaðar af hinum nýja íbúðalánasjóði verði ekki seldar á hinum almenna markaði. Verð íbúða taki mið af byggingavísitölu og húsnæðisfélög hafi forkaupsrétt á íbúðir sem seldar eru innan kerfisins.

Með því að setja þak á leiguverð má tryggja ákveðin réttindi leigjenda en einnig skal auka rétt leigjenda með eflingu leigjendasamtaka og beita skattalegum úrræðum til þess að ná jafnvægi á leigumarkaði t.d. með því að auka skattlagningu á húsnæði án fastrar búsetu.

Með nýrri lagasetningu er hægt að skylda öll sveitarfélög til að tryggja lágmarksfjölda félagsbyggðra íbúða miðað við íbúafjölda.

Tryggja skal aðgengi allra hópa að húsnæði og sjá til þess að neyðarhúsnæði sé til staðar í öllum sveitarfélögum til að mæta bráðavanda.

Til að mæta núverandi húsnæðisvanda er lagt til að félagsbyggingar verði mótaðar eftir lausnum sem nú þegar eru til í nágrannalöndunum. Hafist verði strax handa við þróun nýs íbúðalánasjóðar og ekki gert ráð fyrir að innleiðing á nýju kerfi taki lengri tíma en 3 mánuði.

Stefna samþykkt 21.01.2018

Önnur stefnumál

Taktu þátt

Byltingin verður ekki án þín! Skráðu þig í flokkinn og taktu þátt í baráttunni.

Skráning

Deila share

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram