Ríkisfjármál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
-Að áhersla ríkisfjármála landsins sé á velferð og jöfnuð.
01-Endurskoða skal fjármálastefnu landsins og innleiða skal aðferðafræði eins og MMT (eða Modern Monetary Theory) sem er ein leið út úr höftum nýfrjálshyggjunnar.
02-Að ríkið sinni þörfum landsmanna, fjármagni og reki grunn innviði landsins svo sem skólakerfi, heilbrigðiskerfi, bankakerfi, samgöngukerfi, velferðarkerfi, orkuveitur og fleira.
03-Að innheimt verði fullt gjald fyrir nýtingu auðlinda í þjóðareign þannig að auðlindarentan myndi einn helsta tekjustofn ríkissjóðs.
04-Að hæstu laun séu aldrei hærri en þreföld lægstu laun innan hins opinbera og að það sem sé greitt umfram það innan einkarekinna fyrirtækja sé skattlagt sem hagnaður eigenda.
05-Að laun, lífeyrisgreiðslur og bætur sem fólki ber að lifa af séu aldrei svo lág eða skert að þau dansi á mörkum alþjóðlegra og innlendra viðmiða um fátæktarmörk.
06-Að skattleysismörk verði hækkuð verulega og fylgi vísitölu.
07-Að skattkerfið sé notað til tekjujöfnunar með hátekjuskatti og fleiri skattþrepum.
08-Að fjármagnstekjur leggist saman við aðrar tekjur svo auðmenn komi sér ekki hjá tekjuskatti.
09-Að lögum um einkahlutafélög sé breytt þannig að ekki sé hægt að fela tekjur eða eignir í þeim tilgangi að forðast eðlilega skatta eða útsvarsgreiðslur.
10-Að virðisaukaskattskerfiið sé endurskoðað og virðisauki á nauðsynlegar grunnvörur verði afnuminn.
11-Að sjálfvirkni- og róbótavæðing verði skattlögð og eyrnamerkt almannatryggingakerfinu.
12-Að börn fái ekki á sig skattaálagningu innan 18 ára aldurs, mörk séu sett á eignir þeirra svo ekki sé hægt að misnota kennitölur þeirra í fjárhagslegum tilgangi.
13-Að komið verði á fót samfélagsbanka.
14-Að verðtrygging verði afnumin.
15-Að bundinn sé endir á fullkomna bankaleynd svo hægt sé að rekja skattaskjól og koma í veg fyrir notkun þeirra.
16-Að ríkið reki virka atvinnustefnu og sé mótandi í þróun hennar með rannsóknum og beinni þátttöku, hvetji til hlutastarfa og bjóði upp á atvinnuframboðstryggingu.
17-Að sprotafyrirtæki/nýsköpun og ný og lítil fyrirtæki njóti aukins stuðnings og skattkerfið taki mið af stærð fyrirtækja með þrepaskiptingu á tekjuskatti þeirra.
18-Að stórfyrirtæki séu lýðræðisvædd.
19-Að fólk sem hefur of mikil tengsl við stórfyrirtæki eða fjármagn hafi ekki aðgang að þingsetu/ráðherrastól svo það sé óumdeilt að þingmenn vinni fyrir almannahag.
20-Að þingið og fjármálaráðuneytið leiti virkrar samvinnu við almenning þegar kemur að stefnumótun í fjármálum svo þau endurspegli vilja fólks og raunveruleg lífsskilyrði í landinu.
21Ítarefni:
Sósíalistaflokkur Íslands vill að öll áhersla í ríkisfjármálum sé á velferð og jöfnuð, fólk fái það sem það þarf frá ríkinu og greiði það sem það geti til samneyslunnar. Þá séu helstu innviðir landsins samfélagslega reknir svo sem skólakerfi, heilbrigðiskerfi, bankakerfi, samgöngukerfi, velferðarkerfi, orkuveitur og fleira og séð til þess að ríkið útvisti ekki verkefnum þeim tengdum og sé fyrirmynd í heiðarlegum viðskiptaháttum. Þjónusta í heilbrigðis-, mennta-, og almenningssamgöngukerfinu sé þá íbúum að kostnaðarlaus utan skattkerfisins eins og fram kemur í stefnum flokksins um menntamál, heilbrigðis- og samgöngumál.
Undanfarna áratugi hefur stefna ríkisins í fjármálum leitt til aukins kostnaðar almennings í þjónustu hvort heldur heilbrigðis-, mennta- eða annarri grunnþjónustu t.d. með allskyns greiðsluþátttökukerfum. Nýfrjálshyggjan og dekstur hins opinbera við fjármagnseigendur og stórfyrirtæki hefur leitt af sér aukna misskiptingu í samfélaginu og er bilið á milli auðugra og þeirra sem búa við fátækt sístækkandi. Örfáar fjölskyldur á íslandi eiga mest af auðnum og í nafni stöðugleika er tekjulágt fólk, eldri borgarar, öryrkjar og atvinnulausir gerðir ábyrgir fyrir niðurskurði ríkisins.
Sósíalistaflokkur Íslands vill að brugðist sé strax við þeirri niðurskurðarstefnu velferðar sem ráðið hefur ríkjum í nafni nýfrjálshyggjunnar með gagngerri uppstokkun á fjármálakerfinu. Þessari þróun í formi blóðtöku kerfisins af fjölskyldum og atvinnurekstri og sífelldu kröfu um banni við halla þannig að skuldir megi ekki vera meiri en 30% af gdp má snúa við með innleiðingu aðferða eins og MMT (eða Modern Monetary Theory) þar sem hægt er að stýra betur flæði fjármagns, halda vöxtum lágum og stýra okkur út úr höftum nýfrjálshyggjunnar.
Auðlindir landsins hvort heldur fiskurinn í sjónum, vötn, fossar, jarðhiti, skóglendi, jarðnæði, ferðamannaperlur og fleira séu sjálfbærar og þeim haldið í þjóðareign. Auðlindaskattur sé hækkaður og honum tryggt að bæta grunn fjármagnsstofn þjóðarinnar en auðlindir séu ekki gjafavara auðmanna sem hægt sé að framselja, erfa og braska með.
Áherslan í ríkisfjármálum landsins skal ávallt vera á velferð og jöfnuð almennings þannig að öll kerfin okkar styðji við þá lægra settu og það fólk og fyrirtæki sem séu betur sett láti meira af hendi rakna í sameiginlega sjóði. Launakerfi sé gert réttlátara þannig að launamunur sé eðlilegri bæði innan ríkisins og einkageirans með því að miða hæstu laun við hið mesta þreföld lægstu laun og að það sem sé greitt umfram þreföld lægstu laun innan fyrirtækja sé ekki skrifað sem kostnaður á fyrirtækið heldur yrði skattlagt sem hagnaður eigenda.
Skattkerfið sé þá nýtt á allan máta sem raunverulegt tekjujöfnunartæki og persónuafsláttur hækkaður verulega og leiðréttur miðað við verðlagsbreytingar síðustu ára, skattþrepum fjölgað og hátekjuskattur innheimtur svo hér sé lagður fullur auðlegðarskattur.
Þá sé komið í veg fyrir að hægt sé að nýta einkahlutafélög og dótturfélög þeirra til að fela tekjur auk þess sem fjármagnstekjur séu lagðar saman við launatekjur þannig að auðmenn komist ekki hjá því að greiða af tekjum sínum eðlilega skatta eins og verkafólk.
Skattrannsóknum skal sinnt sem skyldi með það fyrir augum að þær skili tilætluðum árangri en séu ekki að elta ólar við fátækt fólk, öryrkja og einyrkja heldur sé horft til hátekjufólks og stórfyrirtækja sem mögulega koma fjármagni undan skatti.
Skattkerfið verður að taka inn í myndina þær samfélagsbreytingar sem róbótavæðingin endurspeglar. Mörg störf tapast í þeirri iðnbyltingu sem við horfum upp á og það þarf að ávarpa með skattheimtu sem er eyrnamerkt velferðarkerfinu eða almannatryggingum.
Börn skulu ekki vera skattlögð innan 18 ára aldurs en sett viðmið á hversu háa upphæð þau mega eiga á reikning svo ekki sé hægt að misnota reikninga þeirra. Endurskoða þarf virðisaukaskattskerfið og leggja niður skattheimtu á nauðsynlega grunn-vöru, lyf, -öryggis og barnavöru og fjölga virðisaukaskattsþrepum.
Bankakerfið á íslandi þarf að taka til ítarlegrar endurskoðunar hvað varðar gildi og hlutverk. Stofnaður verði samfélagsbanki sem mun m.a. geta breytt landslaginu á húsnæðismarkaðnum. Þá verði verðtryggingin afnumin og bundinn endir á fullkomna bankaleynd svo hægt sé að rekja skattaskjól og koma í veg fyrir notkun þeirra.
Sjaldan hefur verið jafn mikil þörf fyrir nýsköpun og samvinnurekin lítil fyrirtæki. Skattkerfið skal taka mið af stærð fyrirtækja og stórfyrirtæki skulu lýðræðisvædd að hluta en einnig skal skattkerfið innihalda þrep í tekjuskatti fyrirtækja eins og þekkist víða erlendis og kemur í veg fyrir að stærri fyrirtæki hafa meiri möguleika til að draga úr skattgreiðslum en hin smærri.
Þá skal ríkið reka virka atvinnumálastefnu og sinna rannsóknum og vera mótandi í þróun hennar, bjóða upp á atvinnuframboðstryggingu til að bregðast við sveiflum í hagkerfinu en einnig skal hið opinbera bjóða upp á hlutastörf í auknum mæli og byggja inn í kerfið hvata svo einkafyrirtækin geri slíkt hið sama.
Um hagsmunaskráningu þingmanna skulu gilda skýrari reglur og skulu einstaklingar sem hafa of mikil tengsl við stórfyrirtæki eða fjármagn ekki hafa aðgang að þingsetu/ráðherrastól svo það sé óumdeilt að þingmenn vinni fyrir almannahag.
Þingið og fjármálaráðuneytið skal leita virkrar samvinnu við almenning þegar kemur að stefnumótun í fjármálum svo þau endurspegli vilja fólks og raunveruleg lífsskilyrði í