Lög

1. gr.
Félagið heitir Sósíalistaflokkur Íslands.

2. gr.
Heimili félagsins og varnarþing er að Bolholt 6, 105 Reykjavík.

3. gr.
Tilgangur félagsins er að starfrækja sósíalísk stjórnmálasamtök sem vinna að því að almenningur nái yfirráðum yfir öllum meginstofnunum samfélagsins, að bæta lífskjör launafólks og lífeyrisþega, að efla frelsi, jöfnuð, jafnrétti, mannhelgi og samkennd í samfélaginu og að rækja ábyrgð gagnvart vistkerfi og auðlindum jarðar sem falla í skaut komandi kynslóða.

4. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að efla sósíalíska vitund og umræðu, starfa með undirokuðum hópum almennings og leita áhrifa innan stofnana samfélagsins eftir því sem kostur er.

5. gr.
Öllum landsmönnum er velkomið að ganga til liðs við flokkinn, óháð kyni, uppruna, trú eða kynhneigð, með fyrirvara um heimild Samvisku til brottvísunar úr flokknum sem nánar er kveðið á um í Skipulagi.

6. gr.
Æðsta vald Sósíalistaflokks Íslands í mótun og framkvæmd pólitískrar stefnu er Sósíalistaþing, sem nánar er kveðið á um í Skipulagi.

7. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á Aðalfundi, sem haldin er árlega á Sósíalistaþingi, skal gera upp árangur liðins árs.

Sósíalistaþingi er heimilt að efna til Aukaaðalfundar samkvæmt ákvæðum í Skipulagi og hefur hann sama vald og Aðalfundur.

8. gr.
Aðalfundur skal haldinn ár hvert og skal boðað til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað.

Aðeins félagsmenn hafa þátttökurétt í störfum Aðalfundar. Einfaldur meirihluti viðstaddra félagsmanna ræður úrslitum mála.

Dagskrá Aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla Framkvæmdastjórnar lögð fram.
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
4. Lagabreytingar.
5. Ákvörðun félagsgjalds.
6. Kosning Framkvæmdastjórnar og annarra stjórna sem kveðið er á um í Skipulagi.
7. Önnur mál.

9. gr.
Framkvæmdastjórn skal skipuð 9 manns og 4 til vara. Skiptir framkvæmdastjórn með sér verkum og skal velja úr sínum röðum formann, varaformann, ritara og gjaldkera. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

Boðun og skipulag Aðalfundar er á ábyrgð Framkvæmdastjórnar. Framkvæmdastjórn, líkt og aðrar stofnanir flokksins, starfar í umboði Sósíalistaþings hvað viðkemur mótun og framkvæmd pólitískar stefnu.

Framkvæmdastjórn ábyrgist daglegan rekstur flokksins, hefur umsjón með heimasíðu og kynningarmálum, sér um fjármál flokksins, heldur utan um félagaskrá og skal safna saman fundargerðum og öðrum heimildum um ákvarðanir og starfsemi flokksins milli Aðalfunda. Framkvæmdastjórn er heimilt að kalla eftir aðstoð félagsmanna og annarra við úrlausn einstakra verkefna eftir þörfum.

Framkvæmdastjórn er ábyrg fyrir að starfsemi flokksins sé í samræmi við Lög og Skipulag og er heimilt að skera úr um ágreining um ákvarðanir annarra stofnana flokksins (sem lýst er í Skipulagi) í samræmi við Lög og Skipulag. Ætíð má skjóta ákvörðunum Framkvæmdastjórnar til Samvisku svo sem kveðið er á um í Skipulagi.

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram