Dómsmál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

-Að dómskerfið byggi á réttlæti og sanngirni og að allir hafi jafnan aðgang að því á öllum dómstigum óháð fjárhag og félagslegri stöðu.

01

-Að gjafsókn verði öllum fær undir hátekjuviðmiðum.

02

-Að sakamál og dómsmál, sér í lagi kynferðisbrotamál verði sett í gagngera endurskoðun svo réttarvörslukerfið verði þolendavænna á allan mögulegan máta.

03

-Að barnaverndarmál verði sett í gagngera endurskoðun og hagsmunir barna séu ávallt hafðir í fyrirrúmi og settir í samhengi við velferð foreldra.

04

-Að þolendur allra ofbeldismála fái úthlutaðan réttindagæslumann/talsmann sér að kostnaðarlausu óski þeir þess og þróun mála og upplýsingagjöf verið ávallt í eðlilegu ferli.

05

-Að fólki bjóðist áfallahjálp verði það fyrir slysi, ofbeldisglæp eða skyndilegum missi en tapi ekki réttindum sínum vegna mögulegs vinnutaps og veikinda af þeim völdum.

06

-Að refsirammi sé í meira samræmi milli alvarleika og eðli brota svo sem í kynferðis- og barnaverndarmálum andstætt málum sem innihalda minni miska fyrir einstaklinga og almenning.

07

-Að kennitöluflakk og skattaskjól verði gerð ólögleg.

08

-Að ríkið gangist í ábyrgð á greiðslum miska- og skaðabóta og greiðslum vegna launaþjófnaðar.

09

-Að hegningarlög fari í gagngera endurskoðun með það að markmiði að stuðla að betrunarstefnu og skilvirkni fyrir samfélagið í stað refsistefnu.

10

-Að endurskoða umgjörð og vinnulag við skipun dómara.

11

-Að sektir verði tekjutengdar svo þær hafi eðlilegt forvarnargildi.

12

-Að ekki sé hægt að sækja fólk til saka fyrir að brjóta af sér sökum sannanlegrar neyðar eða sem nemur miska ákveðinnar upphæðar.

13

-Að aðkoma almennings að dómskerfinu verði aukin á lýðræðislegum forsendum.

14

-Að ferli dómsmála innan dómskerfisins sé skoðað, áfrýjunarréttur ávallt tryggður auk þess að tryggja að öll fordæmisgefandi mál geti ratað fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

15

-Að hælisleitendur, flóttafólk og fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd fái skjóta, efnislega og mannúðlega málsmeðferð svo það geti leitað réttar síns og fengið frestun réttaráhrifa á meðan mál eru í vinnslu.

16

-Að enginn geti verið skilgreindur ólöglegur sem slíkur í landinu.

17

-Að stefna í innflytjendamálum verði mótuð frá grunni og réttindi innflytjenda verði endurskoðuð og þeir fái fyrr kosningarétt og önnur samfélagsleg réttindi.

18

-Að skilja að ríki og kirkju.

19

-Að dómsmál taki tillit til ólíkra fjölskylduforma og viðurkenni þau óháð kynferði, kyngervi, kynhneigð, fötlun, trúarbrögðum eða uppruna.

20

-Að tvöfalt lögheimili barna verði mögulegt eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins um jafnréttismál.

21

-Að 19. grein lögreglulaga verði breytt svo komið verði í veg fyrir alræðisvald lögreglu með tilliti til borgaralegra réttinda og réttinn til að mótmæla friðsamlega. Þá geti aðeins „lögmæt“ tilmæli lögreglu gert fólki skylt að hlýða.

22

-Að ríkið beri ábyrgð á allri upplýsingagjöf er varða réttindi og skyldur almennings.

23

Ítarefni:

Sósíalistaflokkur Íslands vill að dómskerfi landsins byggi á réttlæti og sanngirni. Allir hafi jafnan aðgang að dómskerfinu á öllum dómstigum, óháð fjárhag og félagslegri stöðu, uppruna, kynferði, kyngervi, kynhneigð, fötlun eða trúarbrögðum. Gjafsókn verði öllum fær sem ekki eru skilgreind sem hátekjufólk og endurskoða þarf viðmiðin reglulega. Þannig leiki aldrei vafi á að allir þegnar samfélagsins séu jafnir fyrir dómstólum. Þá veiti ríkið efnalitlu fólki aðstoð t.d í formi lögfræðikostnaðar sem og áfallahjálpar og annarrar sálrænnar aðstoðar ef það þarf að glíma við dómskerfið.

Sakamál og dómsmál þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar sér í lagi kynferðisbrotamál og barnaverndarmál. Þolandi skal til dæmis vera málsaðili að eigin máli og fá að sitja öll réttarhöld sín ef viðkomandi kýs svo en einnig ætti að vera auðvelt fyrir brotaþola að fá upplýsingar um mál sitt, bæði á rannsóknarstigi sem og á dómsstigi og á máli sem er auðskiljanlegt. Til þess skal skipa þolendum ofbeldis sem það kjósa réttindagæslumann eða talsmann.

Í kynferðisbrotamálum skal viðhafa sérstaka nærgætni í hvívetna og ef mál eru felld niður sé fólki ekki tilkynnt það bréfleiðis, með tölvupósti eða með símtali heldur skal þolandi boðaður í viðtal þar sem ítrustu nærgætni er gætt.

Sálfræðimat þolenda ætti að fá meira vægi og refsirammi ætti að vera í mun meira samræmi milli alvarleika og eðli brota út frá þeim miska sem þau valda. Þá skal útvega fólki áfallahjálp þegar þörf er á.

Auðgunar- og efnahagsbrot þarf að skoða í breiðara samhengi og koma í veg fyrir að þeir sem fremji slík brot geti viðhaldið þeim símleiðis eða í gegnum tölvutækni á meðan dómur er afplánaður. Þá verði kennitöluflakk og launaþjófnaður gerður ólöglegur eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins um vinnumarkaðsmál sem og skattaskjól og unnið að því hér heima sem og á alþjóðlegum vettvangi að útrýma þeim.

Ríkið skal gangast í ábyrgð á eðlilegum greiðslum miska- og skaðabóta hvers konar og greiðslum vegna launaþjófnaðar og innheimta þær greiðslur á viðeigandi stöðum svo almenningur þurfi ekki að verða fyrir efnahagslegu tjóni á meðan mál eru í vinnslu.

Málefni fanga þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Tekin skal upp betrunarstefna í stað refsistefnu með möguleika á opnum fangelsum þar sem hægt er að stunda nám og vinna í þágu samfélagsins. Föngum á að vera gert kleift að stunda viðeigandi meðferð og betrun. Þá skal vera markviss eftirfylgni samkvæmt þörfum hvers og eins, eins lengi og þurfa þykir.

Þeir sem hljóta dóm ættu ekki að þurfa að bíða lengi eftir að sitja hann af sér. Fjölbreyttari afplánun ætti einnig að vera í boði fyrir vægari brot svo sem samfélagsþjónusta, heimafangelsi, val um tiltekna meðferð í stað frelsissviptingar. Það er ekki endilega alltaf best til árangurs að loka fólk inni, sér í lagi ef langur tími er liðinn frá broti.

Það þurfa að vera til fjölbreytt úrræði og betrun til að takast á við brotamenn í ofbeldismálum þannig að hægt sé að vernda þá sem fyrir því verða eða hótunum um það. Þannig sé brugðist hratt við málum áður en þau leiða af sér sakamál.

Mikilvægt er að dómstólar séu skipaðir fjölbreyttari hópi fólks og að dómarar séu með fjölbreyttan bakgrunn og ólíka reynslu, sérþekkingu, menntun og skilning á mismunandi málaflokkum og leiti til sérfróðra aðila.

Taka skal tillit til aðstæðumunar sakborninga þannig að litið sé til heilsufars, félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna. Tryggt sé að að fólki sé ekki refsað fyrir utanaðkomandi aðstæður sem þeir hafa enga stjórn á og hefðu ekki geta fyrirbyggt. Þannig skal ekki dæma fólk sem veldur eignartjóni innans ákveðinnar upphæðar hafi það til dæmis stolið vegna hungurs eða neyðar. Þá þurfa sektir að vera tekjutengdar svo þær hafi eðlilegt forvarnargildi.

Endurskoða þarf einnig umgjörð og vinnulag varðandi skipun dómara. Það þarf að vera lýðræðislegri aðkoma að slíkri skipan og einum aðila ekki gert mögulegt að velja dómara þvert á meðmæli ráðgefandi nefndar eða alþjóðlegra dóma. Skipaðir verða meðdómendur sem eru sérfræðingar, menntaðir eða með reynslu í málaflokknum.

Ferli innan dómsstiga þarf að endurskoða og möguleikinn til áfrýjunar til mannréttindadómstóls Evrópu þarf að vera skýr. Eftir að kerfinu var breytt og landsdómstóll tók við áfrýjun frá Héraðsdómum er það í flestum tilfellum endanleg niðurstaða. Ekki er nema í einstaka málum hægt að áfrýja til Hæstaréttar og þá aðeins ef mál eru þess eðlis að ekkert fordæmi sé fyrir hendi. Það er því verkefni Hæstaréttar að taka slík mál fyrir til að dómur verði fordæmisgefandi. En túlkun laga er í eðli sínu Hæstaréttar að sinna.

Dómstólar þurfa að geta gefið upp rökstuðning fyrir dómum sínum og eða frávísunum og báðir hlutaðeigendur sá sem sækir og sá sem er saksóttur þurfa að geta átt áfrýjunarrétt í öllum málum hvort heldur að áfrýjunarfjárhæð eða lágmarksrefsingu sé náð.

Þá skal ríkið viðurkenna alþjóðlega mannréttindadóma og virða lög annarra ríkja og umráðarétt og eignir þeirra á auðlindum.

Stefna ríkisins í innflytjendamálum skal endurskoðuð frá grunn en hún skal einkennast af mannúð. Á Íslandi skal hætta að vísa til Dyflinnarreglugerðarinnar við málsmeðferð flóttafólks. Enginn skal vera ólöglegur í landinu. Það þarf að flýta fyrir málum, þannig að fólk geti ekki verið í landinu án afgreiðslu mála sinna svo árum skiptir. Ómannúðlegt er að láta fólk bíða lengi eftir afgreiðslu sinna mála sem og að vísa börnum úr landi sem hér hafa búið langdvölum og þekkja jafnvel ekkert annað.

Þó innflytjendur á Íslandi séu ekki með íslenskan ríkisborgararétt ættu þeir að hafa rétt á að hafa eitthvað um stjórnarfar sitt að segja mun fyrr og því skal endurskoða kosningalög er snúa að þeim.

Á Íslandi er trúfrelsi. Miklar breytingar hafa orðið á viðhorfi til trúar og hlutverki hennar í nútímasamfélagi, ekki síst tengslin við ríkisvaldið og jafnræði milli trúfélaga, lífsskoðunarfélaga og þeirra sem kjósa að standa utan slíkra félaga. Því þarf fullan aðskilnað ríkis og kirkju að lögum bæði að formi, efni og fjárhag og setja heildstæða löggjöf um öll trú- og lífsskoðunarfélög. Hlutlaus trúarbragðakennsla í skólum eykur auk þess samstöðu í þjóðfélaginu.

Borgaralegra réttinda skal ávallt vera gætt og þau útfærð í takt við samfélagslega þróun. Þannig þarf kerfið að gera ráð fyrir flóknara fjölskyldumunstri og kynja, -kynhneigðar og -kyngervi, trúarbrögðum, fötlun og eða uppruna foreldra. Lög skulu ávallt hafa hagsmuni barna í fyrirrúmi sem settir séu í samhengi við velferð foreldra og forráðamanna. Þá sé börnum gefinn kostur á að hafa tvöfalt lögheimili eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins um jafnréttismál.

Í ljósi borgaralegra réttinda er einnig mikilvægt að breyta 19. grein lögreglulaga sem gerir almenningi skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til að halda uppi lögum og reglum á almannafæri en eins og hún er framsett núna gefur hún lögreglunni alræðisvald sem hún á ekki að hafa. Í dag sjáum við dóma falla yfir fólki sem mótmælti friðsamlega en hlýddi ekki lögreglu um að færa sig þrátt fyrir að skaða engann. Þessi lagagrein er dæmi um ólög sem þarf að breyta sökum þess að vera í eðli sínu ólýðræðisleg og brjóta á borgaralegum rétti fólks.

Stjórnvald sinni eðlilegri upplýsingaskyldu sinn en upplýsi fólk einnig skilyrðislaust um þann rétt sem það hefur ef það telur brotið á sér. Ef fólk telur sig ekki hafa notið réttlætis vegna efnahags eða félagslegrar stöðu hafi það aðgang að kerfi sem tekur það til skoðunar og úrbóta.

 

Stefna samþykkt 12.12.2020

Önnur stefnumál

Taktu þátt

Byltingin verður ekki án þín! Skráðu þig í flokkinn og taktu þátt í baráttunni.

Skráning

Deila share

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram