Skattalækkanir til smærri fyrirtækja

Ritstjórn Frétt

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Fjórða tilboð til kjósenda lagt fram um hvítasunnu:

SÓSÍALÍSK SKATTASTEFNA VI. HLUTI:
SKATTALÆKKUN TIL SMÆRRI FYRIRTÆKJA

Skattlagningu fyrirtækja og fjármagns á nýfrjálshyggjutímanum var breytt þannig að hún þjónaði fyrst og fremst auðugustu fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum. Tekjuskattar fyrirtækja voru lækkaðir svo eigendur gátu greitt sér meiri arð, sem aftur var skattlagður minna með lækkun fjármagnstekjuskatts. Með skattaumhverfi eignarhaldsfélaga gátu eigendurnir síðan frestað skattgreiðslum von úr viti og á endanum komist hjá þeim. Á sama tíma var skattlagning á launagreiðslur hækkaðar, en launakostnaður er alla jafnan hærra hlutfall útgjalda hjá smærri fyrirtækjum en stærri.

Í smæstu fyrirtækjunum sækjast eigendur fyrst og fremst eftir öruggu starfi og því að þurfa ekki að vinna hjá öðrum, vera lausir við að lifa undir verkstjórn annarra. Markmið eigenda smáfyrirtækja er fyrst og fremst að geta greitt sér sæmileg laun og hafa trygga atvinnu. Skattabreytingar nýfrjálshyggjuáranna unnu því gegn hagsmunum eigenda smærri fyrirtækja, þeirra sem unnu innan eigin fyrirtækja. Eigendur hlutabréfa í stærri fyrirtækjum sem unnu ekki venjulega vinnu heldur létu auðinn vinna fyrir sig og arðrændu þá sem unnu vinnuna, þeir voru verðlaunaðir með skattalækkunum.

Það skekkti síðan stöðuna enn frekar smáfyrirtækjum í óhag að stórfyrirtæki og eignarhaldsfélög gátu komist hjá skattgreiðslum með ýmsum hætti, klækjum sem endurskoðendur og lögfræðingar þessara fyrirtækja skipulögðu. Við þetta skekkist samkeppnisstaða smærri fyrirtækja, þau greiddu hlutfallslega hærri skatta og stóðu því verr að vígi í samkeppni en stórfyrirtækin sem höfðu bolmagn til að finna leiðir til undanskota frá skatti.

Ofan á þetta bætist síðan að allt reglugerðaumhverfi atvinnulífsins er aðlagað að þörfum og kröfum stærri fyrirtækja sem áttu auðvelt með að standa undir miklum kröfum frá hinu opinbera. Þungt reglugerða- og eftirlitskerfi hins opinbera þjónaði stærri fyrirtækjunum sem vörn gegn samkeppni frá smærri fyrirtækjum, sem höfðu síður bolmagn til að mæta kröfum hins opinbera.

Hagsmunasamtök fjármagns- og fyrirtækjaeigenda eru fyrst og fremst hagsmunagæsla fyrir auðugustu fjármagnseigendurna og allra stærstu eigendur allra stærstu fyrirtækjanna. Atkvæðamagn í Samtökum atvinnulífsins og undirfélögum þess, Viðskiptaráði og öðrum slíkum áróðursmaskínum, ræðst af stærð fyrirtækja og veltu. Það eru því allra fjársterkustu aðilarnir sem mynda meirihluta í þessum félögum og ráða alfarið ferðinni. Þessar maskínur eru þannig ekki lýðræðislegur vettvangur fyrirtækjaeigenda heldur eru þær tæki hinna stærstu og sterkustu til að aðlaga afrekstrarumhverfið sínum þörfum.

Þessi hagsmunasamtök hafa haft mótandi áhrif á liðnum áratugum á skattaumhverfi fyrirtækja og alla þá umgjörð sem ríkisvaldið markar atvinnulífinu. Þessi umgjörð er eins og stórfyrirtækin og eigendur þeirra vilja hafa hana. Og umgjörðin er þannig smíðuð að hún er erfið fyrir smá og meðalstór fyrirtæki, veikir þau svo að þau ógni ekki stærri fyrirtækjunum og séu auðveld bráð hinna stærri ef þau girnast rekstur þeirra eða markað.

Af þessum sökum hefur þróun atvinnulífsins á nýfrjálshyggjuárunum einkennst af gríðarlegri samþjöppun þar sem stærri fyrirtæki hafa ýmist gleypt hin smærri eða lagt þau í ójafnri samkeppni. Fákeppni stórfyrirtækja einkennir nú nánast alla geira atvinnulífsins, nýliðun er lítil og smærri fyrirtæki og meðalstór standa veikt. Sem er stór alvarlegt mál, því nýsköpun atvinnulífsins og fjölgun starfa er lang mest meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Stærri fyrirtæki fækka störfum, kaupa upp smærri fyrirtæki og sameina reksturinn inn í það sem fyrir var; fyrst og fremst með það að markmiði að fækka störfum og draga með því úr launakostnaði, sem auka á hagnað og þar með arðgreiðslur til hluthafa.

Samþjöppun í atvinnulífinu á nýfrjálshyggjuárunum er mein sem ríkisvaldið á að vinna gegn. Atvinnulíf sem byggir á fjölbreyttum fyrirtækjum og ólíkum stendur betur af sér áföll, ýtir undir nýsköpun og þjónar betur launafólki, viðskiptavinum og almenningi. Skattastefnan á því að ýta undir smárekstur og skattleggja fyrirtæki eftir stærð, ýta undir ráðningu starfsfólks og stofnun smárra fyrirtækja og samvinnufyrirtækja og stoppa upp í göt sem stórfyrirtæki hafa notað til lækkunar skattgreiðslna.

VI. Skattalækkanir til smáfyrirtækja: Þrepaskiptur tekjuskattur og aðstöðugjöld

Stærð fyrirtækja á markaði er aðstaða sem rétt er að skattleggja sérstaklega. Í geirum þar sem eru tvö til fjögur fyrirtæki í fákeppni er ávinningur þeirra af þessari aðstöðu augljós, í krafti stærðar sinnar drottna fyrirtækin yfir viðkomandi markaði og blóðmjólka hann. Markaðsstaða er þannig eins og ígildi eignar eða hlunninda sem eðlilegt er að skattleggja.

Í kaflanum um aðstöðugjöld fyrirtækja til sveitarfélaga var lagt til að þau gjöld væru þrepaskipt þannig að smæstu fyrirtækin borguðu ekkert, meðalstór fyrirtæki eitthvað en þau allra stærstu mest. Sama kerfi má viðhafa varðandi tekjuskatt fyrirtækja, bæði til að gæta réttlætis og til að vinna gegn varanlegri yfirburðastöðu þeirra fyrirtækja sem ná að brjóta undir sig markaðinn og ná yfirburðarstöðu í samkeppni við önnur fyrirtæki.

VI. Skattalækkanir til smáfyrirtækja: Lækkun tryggingargjalds á fyrsta starfsfólk

Tryggingargjald er launaskattur sem í reynd er skattur á launafólk. Gjaldið leggst þyngra á smá fyrirtæki og meðalstór þar sem launakostnaður er almennt hlutfallslega stærri hluti útgjalda þeirra en hjá stórfyrirtækjum. Til að ýta undir sköpun starfa er skynsamlegt að lækka mjög tryggingargjald hjá fyrstu starfsmönnum hvers fyrirtækis, en flest ný störf verða til hjá litlum fyrirtækjum. Slík ráðstöfun væri í reynd nýsköpunarframlag til smárra fyrirtækja og hvati til einstaklinga um að stofna sín eigin fyrirtæki.

VI. Skattalækkanir til smáfyrirtækja: Ýtt undir stofnun samvinnufyrirtækja

Það styrkir atvinnulífið og eykur seiglu þess að fjölga samvinnufyrirtækjum í eigu starfsfólks eða almennings. Samvinnufyrirtæki með samfélagsleg markmið styrkja samfélög og tryggja atvinnu. Og þar sem þau eru óhagnaðardrifin skilja þau meiri verðmæti eftir í samfélaginu en hagnaðardrifin einkafyrirtæki.

Samvinnufyrirtæki í eigu starfsfólks auka lýðræði í atvinnulífinu og eru farvegur fyrir nýsköpun í stjórnun fyrirtækja, réttindum starfsfólks og starfsumhverfi. Og þar sem slík fyrirtæki eru í eðli sínu skyld smáfyrirtækjum, þar sem eigendurnir sjálfir vinna verkin, er rétt að samvinnufyrirtækin njóti skattaumhverfis smáfyrirtækja.

VI. Skattalækkanir til smáfyrirtækja: Öflugra skatteftirlit

Byggja þarf upp öfluga skattrannsóknardeild sem ræður við eftirlit með stórfyrirtækjum og auðugustu fjármagnseigendunum. Virkt eftirlit er forsenda þess að skattkerfið sé réttlátt og réttlætið er forsenda þess að almenningur líti svo á að skattkerfið þjóni samfélaginu.

En réttlætið þarf líka að ná til smærri aðila. Vinna verður gegn misnotkun á einkahlutafélögum þar sem einkaneysla er skráð á rekstur. Slíkt veldur mismunum milli borgara og ójafnrar stöðu gagnvart skattlagningu. Enginn skattalegur munur á að vera á milli þeirra sem stunda rekstur á eigin kennitölu og þeirra sem eru með reksturinn í einkahlutafélagi. Fjöldi einkahlutafélaga á Íslandi er óeðlilegur, ein af afleiðingum breytinga á skattkerfinu á nýfrjálshyggjuárunum þar sem skattbyrði var létt af fyrirtækjum og hún flutt yfir á einstaklinga.

Tiltekt í skattkerfinu og aukið skatteftirlit á að verða átak sem þjóðin fylgst með og tekur þátt í. Markmið eiga að vera skýr og árangsmæling opinber. Almenningur á að geta fylgst með því hvernig skattgreiðslur hans lækka eftir því sem betri árangur næst í að girða fyrir skattsvik og skattaundanskot.

VI. Skattalækkanir til smáfyrirtækja: Einfaldari reglugerðir og eftirlit

Allar eftirlitsstofnanir ríkisvaldsins ber að aðlaga að smærri fyrirtækjum þannig að smæstu fyrirtækin geti staðið undir eftirlitinu. Kostnaður við eftirlitið þarf að sækja í almenna skattheimtu af fyrirtækjum en ekki í gjaldtöku af hverju fyrirtæki né með því að varpa kostnaði yfir á þau í formi vinnu. Stór fyrirtæki ráða auðveldlega við þennan kostnað en smærri fyrirtæki síður. Eftirlitið má því ekki verða sem aðgangshindrun smárra fyrirtækja á markað og samkeppnisvörn fyrir stærri fyrirtæki. Og álagið af eftirlitinu fyrir smærri fyrirtækin má ekki verða réttlæting til að falla frá eftirliti með stórfyrirtækjunum.

Á sama hátt og fyrirtæki dreifa með þessum hætti kostnaðinum af eftirlitinu má byggja upp sjóði fyrirtækja sem dreifa álagi af ýmsum réttindum launafólks, svo sem fæðingarorlofi, veikindalaunum og öðru slíku, kostnaði sem getur haft tímabundið mikil áhrif á smæstu vinnustaði.

VI. Skattalækkanir til smáfyrirtækja: Tilboð sósíalista

Fjórða tilboð sósíalista til kjósenda vegna kosninganna í haust um skattalækkun til smáfyrirtækja fellst í því að stærð fyrirtækja verði skattlögð, að ýtt verði undir stofnun smáfyrirtækja og samvinnufyrirtækja, að rekstrarumhverfi smárra fyrirtækja verði einfaldað, að stoppað verði í göt í skattkerfinu sem stærri fyrirtæki nýta sér og að tryggingargjald á fyrstu ráðningar verði lækkað umtalsvert.

Markmið þessa tilboðs er að eyða samkeppnisforskoti stórfyrirtækja og vernda smærri fyrirtæki fyrir ásælni þeirra. Það er mikilvægt að atvinnulífið hafi seiglu og hana má byggja upp með styrkingu smárra fyrirtækja og fjölgun samvinnufyrirtækja.

Þetta er síðasti hluti tilboðs sósíalista í skattamálum. Sá fyrsti fjallaði um skattahækkanir á hin ríku, sá næsti um hert skatteftirlit, sá þriðji um nýtingu auðlinda í þágu samfélagsins, sá fjórði um endurreisn tekjuöflunarkerfis sveitarfélaga, sá fimmti um skattalækkanir til almennings og loks þessi síðasti um skattalækkanir til smáfyrirtækja.

Samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokks Íslands laugardaginn 12. maí 2021

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram