Tekjur eiga að vera tryggar

Ritstjórn Áætlanir

Sósíalistar telja að í mörgum tilfellum sé þjónustu almennings betur borgið á vegum sveitarfélaga frekar en ríkisins. Til þess að slíkt virki þarf að stórauka tekjur þeirra. Allt of lengi hefur ríkisvaldið útvistað verkefnum til sveitarfélaganna án þess að nægilegt fjármagn eða tekjustofnar hafi fylgt. Sósíalistar vilja því að tekjustofnar sveitarfélaganna verði auknir og að aukið fjármagn fylgi verkefnum sem sett eru í hendur þeirra. Áhersla er lögð á að fjármagn verði veitt eftir því hvað raunverulega kostar að veita þjónustuna.

Skattleggja fjármagnseigendur

Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaganna. Í dag leggst útsvar einungis á launatekjur og bætur. Fjármagnstekjur bera aftur á móti ekkert útsvar. Tekjur hinna allra auðugustu eru að miklu leyti fjármagnstekjur og greiða þeir einstaklingar því ekki sama hlutfall af tekjum sínum til sveitarfélaganna og við hin. Fjármagnseigendur greiða því ekki sinn réttláta hlut í sameiginlegan sjóð borgar eða bæjar líkt og launafólk viðkomandi sveitarfélags.

Sósíalistar ætla að vinna gegn þessu ójafnvægi í skattlagningu og efla tekjustofna sveitarfélaganna með því að leggja útsvar á fjármagnstekjur. Þetta er mikilvægt til þess að sveitarfélögin hafi burði til að sinna öllum þeim verkefnum er koma inn á þeirra borð og til að tryggja að þau geti veitt sem besta þjónustu. Sveitarfélögin verða samanlagt af mörgum milljörðum á hverju ári vegna þess að fjármagnseigendur greiða ekki útsvar þó að þeir njóti sömu þjónustu og aðrir íbúar.

Útsvar er ekki lagt á fjármagnstekjur nema með lögum frá Alþingi og þess vegna er mikilvægt að sveitarfélögin sameinist í því að koma þeim lagabreytingum á. Fjármagnstekjur myndu hafa 300 þúsund króna frítekjumark eins og nú er þannig að útsvar greiðist aðeins af fjármagnstekjum yfir því marki. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem ætti 60 milljónir inni á bankabók myndi ekki greiða neinn fjármagnstekjuskatt af því.

Sósíalistar fara fram á það að fjármagnstekjur verði skattlagður eins og aðrar tekjur og að skatturinn verði þrepaskiptur. Einnig myndi vera 300 þúsund króna frítekjumark á skattinum eins og nú er. Í dag er jaðarskattur launatekna 46,25% á meðan að jaðarskattur fjármagnstekna er einungis 22%.

  • Útsvarstekjur til sveitarfélaganna hefðu numið rúmum 17 milljörðum árið 2020 ef fjármagnstekjur hefðu verið skattlagðar líkt og launatekjur.
  • Reykjavík hefði geta fengið tæpa 7 milljarða í útsvar af fjármagnstekjum árið 2020 og Akureyri yfir hálfan milljarð svo dæmi séu nefnd.
  • Augljóst er að sveitarfélögin myndu geta nýtt slíkt fjármagn til stórfelldrar uppbyggingar á þjónustu við íbúana.

Aðstöðugjöld á fyrirtæki

Sósíalistar fara fram á að sveitarfélögin í landinu myndi samstöðu um að beita sér fyrir því að aðstöðugjöld verði aftur lögð á fyrirtæki þannig að þau greiði fyrir þá innviði sem rekstur þeirra byggir á. Aðstöðugjöld voru veigamikill hluti af tekjustofni sveitarfélaganna og má líta á sem nokkurs konar útsvar á fyrirtæki og eðlilegt er að þau greiði slíkt í sameiginlega sjóði okkar íbúa.

Aðstöðugjaldið var veltutengdur skattur sem rann til sveitarfélaga. Nam hann 1,3% af veltu fyrirtækjanna. Fyrirtæki eru sjálfstæður skattaðili og eiga að greiða til síns nærumhverfis eins og einstaklingar, enda nota fyrirtæki innviði sveitarfélaga ekkert síður en einstaklingar; nota götur og veitur, hafa not af menntun starfsfólks og dagvist barna þess svo dæmi séu nefnd.  Fyrirtæki vaxa mest og dafna í vel skipulögðu samfélagi og þeim ber að greiða fyrir þann ávinning.

  • Aðstöðugjaldið verði þrepaskipt, þannig að smæstu fyrirtækin greiði lítið en hin allra stærstu mikið.
  • Nota má skattfrelsi frá aðstöðugjöldum til að örva nýsköpun, stofna sameignarfélög eða til að hvetja atvinnulaust fólk til að stofna eigin rekstur.
  • Stærð fyrirtækja endurspeglar aðstöðu þeirra í samfélaginu, því stærri sem þau eru því hagfelldari er aðstaða þeirra í samfélaginu og þá aðstöðu er eðlilegt að skattleggja.

Ríkisvaldið ákvarði aðstöðugjald svo að sveitarfélög fari ekki í skattasamkeppni um stærstu fyrirtækin og lokki þau til sín með því að fella burt aðstöðugjaldið eða lækka það umtalsvert. Skattasamkeppni milli sveitarfélaga og ríkja hefur grafið undan samfélögum í okkar heimshluta og hana ber að stöðva.

Fyrirtæki með starfsemi í mörgum sveitarfélögum, svo sem orkufyrirtæki, bankar, mörg ríkisfyrirtæki og sum stórfyrirtæki, greiði svokallað landsútsvar í stað aðstöðugjalds og útsvari þeirra verður dreift til sveitarfélaganna í takt við íbúafjölda og umfang rekstrar.

Áfengisgjald

Sveitarfélögin hefji viðræður við ríkið um að lágmarki 10% af áfengisgjaldi renni til sveitarfélaganna fyrir nauðsynlega þjónustu við þá sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda. Sveitarfélögin þurfa á auknu fjármagni að halda til að geta boðið upp á sem besta félagslega þjónustu fyrir þá einstaklinga og aðstandendur þeirra. Þar má m.a. nefna umsjón gistiskýla, skaðaminnkandi úrræði, heimili sem henta einstaklingum í mikilli áfengis- eða vímuefnaneyslu og heimili sem henta einstaklingum með tvígreiningu, þ.e.a.s. geð- og vímuefnavanda.

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram