Listi Sósíalista í Norðvestri
Frétt
14.08.2021
„Græðgi, taumlaus neysla og virðingarleysi við móðir jörð er á góðri leið með að útrýma öllu lífi á jörðinni,“ segir Helga Thorberg, sem leiðir lista Sósíalista í Norðvesturkjördæmi. „Það er á ábyrgð stjórnvalda að grípa til aðgerða til að sporna við eyðileggingunni. Það er hins vegar okkar ábyrgð að velja þá sem fara með valdið. Þess vegna þurfum við stjórnvöld sem eru tilbúin til að fara í þær róttæku breytingar, stjórnvöld sem eru ekki að þjóna auðvaldinu heldur almenningi. Með því að fylkja okkur um stefnu Sósíalistaflokksins, veljum við efnahagskerfi sem byggir á lífvænlegum gildum fyrir fjöldann – en ekki sérhagsmunum fárra. Róttækra aðgerða er þörf – ég ætla að leggja því lið.“
„Það er okkar að tryggja að börnin okkar og barnabörn eigi lífvænlega framtíð. Það verður að grípa til róttækra aðgerða til að koma í veg fyrir hörmulegar afleiðingar af þeim lífsmáta sem kapítalisminn hefur leitt yfir heimsbyggðina og birtast okkur í fréttum á hverjum degi,“ segir Helga. „Ég hef tíma, brennandi áhuga og baráttuvilja.“
Listanum er stillt upp af slembivöldum hópi meðal félaga flokksins sem unnið hefur hörðum höndum að því að endurspegla sem skýrast vilja grasrótar flokksins og teljum við það skila mun betri árangri en hefðbundnar leiðir við uppröðun á lista sem oftar en ekki gefa skakka mynd.
„Tækifærin í samfélaginu okkar eiga að vera jöfn samkvæmt lagabókstafnum en þau eru það bara alls ekki í raun“ segir Árni Múli Jónasson, sem er í öðru sæti listans. „Allt of margir, stórir hópar fólks, þurfa að þola margs konar og mikla mismunun og hafa mjög skert tækifæri á flestum sviðum. Þessari mismunun og ójöfnuði sem af henni leiðir fylgir síðan virðingarleysi og ömurlegt og niðurlægjandi valdleysi fólks sem hefur ekkert til saka unnið annað en að vera fatlað eða fátækt eða af erlendum uppruna eða bara af einhverjum ástæðum ekki í náðinni hjá sem valdið hafa í krafti pólitísks valds og/eða auðs. Við bara verðum að breyta þessu og hafa jöfn tækifæri allra, mannréttindi og hagsmuni alls almennings ávallt að leiðarljósi og snúa af braut misskiptingar og sérhagsmunagæslu, með allri þeirri spillingu sem hún þrífst á og elur af sér.“
„Á hinum Norðurlöndunum er samfélagsmódel sem tryggir fólki bestu lífskjör sem þekkjast á jörðinni og það er sósíalisma að stórum hluta að þakka,“ segir Sigurður Jón Hreinsson, sem er í þriðja sæti. „Okkar samfélag hefur á liðnum árum færst til hægri frá þessu norræna módeli og þeirri þróun vill ég snúa við.“
„Einstein sagði að heimurinn er viðsjárverður,“ segir Aldís Schram, sem er í fjórða sætinu, „ekki vegna þeirra sem illvirki fremja, heldur hinna sem láta þau viðgangast. Þetta er vandi mannkyns í hnotskurn. Ofbeldi, mismunun og fátækt þrífast svo lengi sem við sem sjáum, heyrum og skynjum, aðhöfumst ekkert. Lausnin er samkennd í verki. Þess vegna býð ég mig fram fyrir Sósíalistaflokkinn, málsvara almennings. Til að þjóna þeim sem enga rödd hafa.“
„Vinnumarkaðsmál og málefni þeirra sem eru að verða undir í samfélaginu eru mín helstu málefni. Það eru forréttindi að fá að vinna við að hjálpa fólki sem á undir högg að sækja.“ segir Bergvin Eyþórsson, sem er í fimmta sætinu. „Atvinnurekendur eru í mikilli yfirburðastöðu gagnvart launafólki og við verðum að gera vinnumarkaðinn manneskjulegri.“
Samhliða birtingu listans leggur Sósíalistaflokkurinn fram tilboð til kjósenda í Norðvesturkjördæmi. Sjá tilboðið hér: Tryggjum búsetu og jöfnum lífskjör
Í fyrsta sæti er Helga Thorberg, menntuð leikkona og garðyrkjufræðingur. Hún hefur starfað við leiklist sem höfundur og þáttagerðarkona í mörg ár en kvennabaráttan og kvennapólitíkin hafa einnig verið hennar hjartans mál. Hún gekk til liðs við Kvennaframboðið og Kvennalistann en ekki verið virk í pólitík fyrr en núna er hún gekk til liðs við Sósíalistaflokkinn fyrir 2 árum. Auk margra annara starfa þá hefur Helga stundað eigin blómabúðarekstur í miðbænum, veitingarekstur á Spáni og blómaskreytir í Noregi. Hún hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi í gegnum árin, Áhugahópi um bætta umferðarmenningu, Hlaðvarpann, félags- og menningarhús í eigu kvenna, Leiklistarkonur 50 plús og Rjúkanda, samtök um verndun umhverfis, náttúru og menningarminja í Árneshreppi.
Í öðru sæti er Árni Múli Jónasson, sem alinn er upp í Reykholtsdal í Borgarfirði og hefur mikil tengsl við þá góðu og fallegu sveit, ekki síst vegna þess Arnheiður Helgadóttir, eiginkona hans, ólst einnig upp í Reykholtsdal. Þau bjuggu líka með börnum sínum fjórum á Akranesi um níu ára skeið og þykir þeim öllum mjög vænt um Skagann eftir það og allar góðu minningarnar sem honum tengjast. Árni er mannréttindalögfræðingur og starfar sem framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar. Hann hefur víðtæka reynslu sem stjórnandi hjá ríki og sveitarfélögum og hefur unnið að mannréttindamálum fyrir Amnesty International, Rauða krossinn og Þroskahjálp.
Í þriðja sæti er Sigurður Jón Hreinsson, vélahönnuður og bæjarfulltrúi. Sigurður er alin upp í Arnarfirði en sótti nám í Neskaupstað og á Ísafjörð. Hann býr nú á Ísafirði ásamt konu og þremur börnum. Sigurður hefur meðal annars starfað við margskonar störf tengd sjávarútvegi, t.d. fiskvinnslu og beitningu og var um nokkurra ára skeið sjómaður en hefur síðustu rúma tvo áratugina starfað við smíði og hönnun á tækjum fyrir sjávarútveg. Sigurður hefur verið viðloðandi margvísleg félagasamtök í gegnum tíðina. Hann sat í stjórn Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði og hefur verið í formaður eða í stjórn blakdeildar Vestra svo til óslitið frá árinu 2008. Sigurður hefur lengi haft áhuga á pólitík, hefur verið á lista í síðustu fjórum bæjarstjórnarkosningum í Ísafjarðarbæ og verið bæjarfulltrúi frá árinu 2014 fyrir Í-listann.
Í fjórða sæti er Aldís Schram lögfræðingur, sem síðastliðin fjórtán ár hefur meðal annars sinnt íslenskukennslu fyrir þá sem eru af erlendu bergi brotnir og dundað við skrif, laga- og textasmíðar í frístundum, jafnframt því sem hún veitir kynferðisbrotaþolum (ókeypis) lögfræðiráðgjöf.
Í fimmta sæti er Bergvin Eyþórsson, varaformaður og skrifstofustjóri hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Bergvin er Ísfirðingur og mikill fjölskyldumaður, búsettur í Hnífsdal. Hann hefur lagt stund á nám í kennslu- og viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri og vinnur að vinnumarkaðsmálum hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga í dag. Áður vann Bergvin að mestu við sjómennsku og verslunarstjórn.
Í sjötta sæti er Guðni Hannesson ljósmyndari, sem starfar á Landmælingum Íslands. Guðni er faðir þriggja barna og afi þriggja. Hann er fæddur og uppalinn á Akranesi og býr þar ásamt eiginkonu sinn. Guðni er sósíalisti og því höfða áherslur flokksins til hans, áherslur sem hægt er að framfylgja með meiri jöfnuði.
Í sjöunda sæti er Ágústa Anna Ómarsdóttir, lyfjatæknir og sjúkraliðanemi. Ágústa vinnur við umönnun heldri borgara hjá Stykkishólmsbæ. Hún ólst upp í Breiðholti á frumbýlingsárum þess, gekk í Fellaskóla þegar hann var að verða til. Ágústa hefur alltaf verið baráttukona, barist gegn óréttlæti og fæddist sem jafnréttissinni. Þess vegna segist hún vera í Sósíalistaflokknum, til að vinna að framtíð þar sem allir eru jafnréttháir, þar sem er manneskjulegt umhverfi fyrir alla. Ekki bara suma.
Listi Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi:
- Helga Thorberg, leikkona og garðyrkjufræðingur
- Árni Múli Jónasson, mannréttindalögfræðingur og framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
- Sigurður Jón Hreinsson, véliðnfræðingur og bæjarfulltrúi
- Aldís Schram, lögfræðingur og kennari
- Bergvin Eyþórsson, þjónustufulltrúi og varaformaður Verkalýðsfélags Vestfjarða
- Guðni Hannesson, ljósmyndari
- Ágústa Anna Ómarsdóttir, lyfjatæknir
- Sigurbjörg Magnúsdottir, eftirlaunakona
- Jónas Þorvaldsson, sjómaður
- Valdimar Anderssen Arnþórsson, heimavinnandi húsfaðir
- Guðrún Bergmann Leifsdóttir, listakona
- Magnús A. Sigurðsson, minjavörður vesturlands
- Dröfn Guðmundsdóttir, kennari
- Indriði Aðalsteinsson, bóndi
- Fjóla Heiðdal Steinarsdóttir, háskólanemi
- Finnur Torfi Hjörleifsson, lögfræðingur, eftirlaunamaður