Tilboð Sósíalista til kjósenda í Norðvesturkjördæmi

Ritstjórn Áætlanir

Tilboð Sósíalista til kjósenda í Norðvestur kjördæmi:

TRYGGJUM BÚSETU OG JÖFNUM LÍFSKJÖR
– UPPBYGGING Á FORSENDUM ALMANNAHAGS Í STAÐ SÉRHAGSMUNA

Húsnæðismál

Ríki og sveitarfélög verða nú þegar að grípa til ráðstafana til að tryggja að lítið framboð af leiguhúsnæði standi ekki byggðum í kjördæminu fyrir þrifum.

Nægilegt framboð af húsnæði á sanngjörnu verði og af leiguhúsnæði fyrir hóflega leigu er forsenda þess að fólk og alveg sérstaklega efnalítið fólk geti notið þeirra mikilvægu réttinda að eiga öruggt heimili fyrir sig og fjölskyldur sínar. Skortur á hentugu húsnæði leiðir til þess að fólk neyðist til að flytjast úr byggðarlögum þar sem það helst vill búa og starfa og sviptir það réttinum til að ráða búsetu sinni. Húsnæðisskortur er líka mikil ógn við atvinnulífið og fyrirtæki sem vantar starfsfólk til að starfa og dafna og margvísleg tækifæri til atvinnusköpunar glatast vegna þessa.

Við ætlum því að berjast af alefli fyrir því að ríki og sveitarfélög standi við þá mikilvægu skyldu sína að tryggja fólki tækifæri til að eignast eða leigja húsnæði þar sem það helst vill búa og starfa.

Atvinnumál

Sósíalistar leggja áherslu á umhverfisvæna atvinnustefnu og mótun heildstæðrar umhverfisstefnu í fiskeldi til framtíðar. Fiskveiðistjórnunarkerfið verður að nýta til að tryggja byggðirnar og tryggja afkomuöryggi sjómanna, -kvenna og fiskvinnslufólks á svæðinu. Til uppbyggingar minni sjávarplássa þarf að auka verulega við krókaveiðar án áhrifa á aðrar veiðiheimildir. Tryggja þarf gott netsamband á svæðinu og hvetja til fjölgunar starfa í fjarvinnu í opinbera geiranum.

Tryggt afhendingaröryggi raforku

Til að tryggja öryggi fólks og stöðugs atvinnulífs þarf að tryggja afhendingaröryggi orku og jafna orkukostnað landsmanna. Það er forgangsmál að bæta úr afhendingaröryggi orku á Vestfjörðum svo Vestfirðingar sitji við sama borð og aðrir landsmenn í orkumálum.

Heilbrigðis- og velferðarþjónusta

Aðgengi fólks á landsbyggðinni að heilbrigðisþjónustu er óviðunandi og verður að bæta. Ríki og sveitarfélögum er skylt að veita öllu fólki góða velferðarþjónustu, burtséð frá því hvar það kýs að búa. Fatlað fólk, aldraðir, innflytjendur og fleiri hópar fólks standa oft höllum fæti og þurfa því á stuðningi samfélagsins að halda og eiga samkvæmt lögum og mannréttindasamningum skýlausan rétt á honum. Ef fólk fær ekki þann stuðning í heimabyggð og þar sem það helst vill búa neyðist það oft til að flytjast þangað þar sem stuðningurinn er meiri og betri.

Við ætlum því að berjast af alefli fyrir því að ríki og sveitarfélög tryggi öllum sem á því þurfa að halda örugga og góða velferðarþjónustu, burtséð frá því hvar fólk kýs að búa. Þetta er bæði byggða- og mannréttindamál.

Samgöngubætur

Bæta þarf uppbyggingu innviða ferðaþjónustu um dreifðar byggðir og tryggt aðgengi að þeim með áframhaldandi vegabótum í jaðarbyggðum og á þjóðvegum. Núverandi staða vegakerfisins er ógn við öryggi fólks og atvinnuöryggi á svæðinu.

Umhverfisvernd

Sósíalistar styðja stofnun þjóðgarðs í kjördæminu og vilja að náttúrunni verði ekki fórnað með skammtímasjónarmiðum í uppbyggingu.

Menning og listir

Sósíalistar vilja efla menningarstarfsemi sem vaxandi atvinnugrein og að opinber framlög til lista og menninga verði einnig beitt sem jöfnunartæki til starfs og búsetu.

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram