Góð borg skilur engan eftir
Pistill
03.11.2021
Fyrri umræða fjárhagsáætlunar fór fram í borgarstjórn 2. nóvember en síðari umræða og afgreiðsla fer fram 7. desember. Fjárhagsáætlun er leið til þess að setja fram hvernig við sjáum fram á að skipta fjármunum borgarinnar og hvernig við öflum tekna. Við þurfum að skapa borg sem er fyrir okkur öll, þar sem enginn er skilinn eftir.
Hættum að skattleggja fátækt
Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga. Skatturinn sem íbúar greiða af tekjum sínum, svo að hér sé hægt að byggja upp öfluga og góða þjónustu. Í samtölum mínum við aðra hefur það stundum komið þeim á óvart að allra tekjulægsta fólkið þurfi að greiða skatt. Sú var tíðin að slíkt átti ekki við og árið 1991 var enginn skattur greiddur af lægstu launum.
Í dag er lægstu laun 351 þúsund kr. á mánuði. Af þeim borgar fólk tæpar 60 þúsund kr. í skatt eða um 17%. Fólk sem er með lægstu tekjur örorkulífeyris greiðir skatt og fólk sem er með tekjur fjárhagsaðstoðar greiðir líka skatt. Þau sem ná ekki að kaupa mat út mánuðinn og treysta á góðagerðafélög greiða til samfélagsins en samfélagið stendur ekki við bakið á þeim. Manneskja með tæpar 213 þúsund kr. á mánuði sem er grunnfjárhæð Reykjavíkurborgar til framfærslu greiðir af því um 16 þúsund krónur í skatt. Skatturinn sem er greiddur í sameiginlega sjóði, á tryggja góða velferðarþjónsutu, að hér þurfi enginn að treysta á matarúthlutanir. Enginn á að þurfa að telja niður dagana í útborgunardag til að geta keypt mat eða nauðsynlega þjónustu.
Misskipting auðs og gæða
Misskipting fer vaxandi og sumir eru miklu betur settir en aðrir. Við höfum ekki tekið umræðu um launastefnu innan Reykjavíkurborgar. Hvað teljum við ásættanlegt að hæstu laun verði og hver er eðlilegur munur á milli hæstu og lægstu tekna?
Hærri launum fylgja fleiri valmöguleikar. Mikið er t.d. talað um rafbíla fyrir vistvænna umhverfi en það er ekki í boði fyrir fólk sem á engan pening. Þess vegna verðum við að hafa hér öflugar almenningssamgöngur. Fyrir þau sem vilja ekki rafbíla og þau sem geta ekki keypt slíka. Við getum ekki eingöngu treyst á lausnir sem koma í framtíðinni heldur þurfum við áreiðinlegar lausnir núna.
Tekjum er misskipt í samfélaginu og gæðum er misskipt. Við sem samfélag erum að taka pening af fólki sem nær ekki að framfleyta sér á meðan að fólkið sem á mikinn pening greiðir ekki til sveitarfélagsins sem það býr í. Tekjuhæsta eina prósentið á Íslandi samanstendur af rúmlega 3.000 einstaklingum. Sex prósent af þeim hafa mjög litlar eða nánast engar launatekjur heldur eingöngu fjármagsntekjur. Um þetta var meðal annars fjallað í Tekjulista Stundarinnar í ágúst 2021 sem fjallar um tekjuárið 2020.
Tekjuhæsta eina prósentið á Íslandi var samanlagt með 142 milljarða í tekjur og greiddi 37 milljarða í skatta. Fjármagnstekjur vega þungt í innkomu þeirra þar sem ríkasta eina prósentið var með 58 milljarða í fjármagnstekjur, það er 44,5% af fjármagnstekjum allra landsmanna. (Nánar má lesa um þetta í Tíund, fréttablaði RSK.)
Fjármagnstekjur bera ekkert útsvar. Þetta þýðir að ef þú ert ríkur og færð bara inn fjármagnstekjur eða að stórum hluta inn fjármagnstekjur, þá ertu ekki að borga skatta til sveitarfélagsins (útsvarið). Þá greiðir þú ekki til sveitarfélagsins eins og launafólk eða fátækasta fólkið sem er á fjárhagsaðstoð, örorkulífeyri eða atvinnuleysisbótum. Þetta þarf að leiðrétta.
Ef við ætlum ekki að sækja fram og leitast við að fá stuðning hinna sveitarfélaga við að koma útsvari á fjármagnstekjur þá verðum við að létta skattbyrði af hinum tekjulægstu. Eins og við sósíalistar höfum lagt til í borgarstjórn. Ég sé þetta þannig að borgin hafi orðið að mörgum milljörðum því ríkt fólk er undanþegið því að greiða útsvar af fjármagnstekjum. Sé litið til fjármagnstekna innan Reykjavíkurborgar á síðasta ári, þá hefði borgin geta aflað sér um 7 milljarða. Þetta er gróflegur útreikningur og miðast við upphæðir fengnar af vef Hagstofunnar.
Byrðin á ekki að lenda á þeim sem síst geta borið hana. Í þessu samhengi má benda á breytingar á uppruna útsvarstekna. Í greinargerð með fjárhagsáætlun kemur fram að árið 2018 hafi hlutfall launagreiðslna af staðgreiðsluskyldum tekjum verið um 80,4% af heildinni og hlutfall atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar aðeins um 1,2%. Árið 2021 eru hlutfall launagreiðslna um 75% af staðgreiðsluskyldum tekjum á meðan atvinnuleysisbætur og fjárhagsaðstoð eru 4,6% af heildinni fyrstu 7 mánuði ársins. Þetta sýnir að fjöldi þeirra sem greiðir útsvar til sveitarfélagsins á svo lágum tekjum, eykst.
Fátæktarbyrðin
Innheimtufyrirtæki er það sem borgin styðst síðan við til að ná fjármagninu frá þeim sem geta ekki greitt reikninga sína. Hérna vil ég staldra við og spyrja hvernig metum við árangur? Metum við það í því hvort borgin spari, eða út frá því hvaða áhrif þessar aðgerðir hafa á borgarbúa? Með því að leyfa innheimtufyrirtækjum að hagnast á fólki í efnahagslegum vanda, þá eru það borgarbúar í verstu fjárhagslegu stöðunni sem þurfa að gjalda fyrir það.
Kynjuð starfs- og fjárhagsáætlun hefur það að markmiði að stuðla að auknu jafnrétti með því að greina áhrif opinbers fjármagns og verklags á íbúa. Hér bendi ég á að það er ákvörðun að semja við innheimtufyrirtæki. Það er ákvörðun að segja að ef fátækt fólk geti ekki greitt reikninga að þá skuli það sent til lögheimtu. Það er ákvörðun sem hægt er að breyta. Þetta eru allt ákvarðanir sem eru teknar í borgarstjórn og hægt er að taka aðrar sem koma í veg fyrir að efnalítið fólk upplifi þetta óöryggi.
Markmiðið með innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg er að samþætta mannréttindastefnu og fjármálastefnu borgarinnar. Þar sem stefnt er að réttlátri dreifingu fjármuna og gæða með tilliti til mismunandi þarfa borgarbúa. Út frá því hafa þjónustuþættir verið greindir en við þurfum líka að greina hvernig stefnumótun borgarinnar bitnar á ákveðnum tekjuhópum. þ.e.a.s. hvaða tekjuhópar eru líklegastir til þess að þurfa að eiga við innheimtufyrirtæki? Eru ákveðin kyn sem verða þar undir og eru einhverjir hópar að verða af þjónustu vegna stefnu sem borgin hefur ákveðið að taka?
Skilyrði fyrir leikskóladvöl eru t.a.m. þau að foreldrar barnsins séu ekki í vanskilum við skóla- og frístundasvið vegna leikskólagjalda. Þetta er með því fyrsta sem blasir við á vefsvæði borgarinnar undir liðnum um leikskóla. Fyrir einhverju síðan fór fram umræða um þetta og þá kom fram að engu barni hafi verið vísað frá og að alltaf væri leitað leiða með foreldrum og forráðamönnum að lausn. Staðan var samt sem áður sú að vistunarsamningar barna voru í uppnámi vegna vanskila. Það á aldrei að bitna á börnum ef að foreldrar geta ekki greitt fyrir þjónustu. Það er oft talað um að það verði leitað allra leiða að lausn en það vita það ekkert allir. Það eru ekki allir sem treysta sér til þess að leita strax eftir hjálp.
Kærleikshagkerfi er það sem á að einkenna það hvernig við nálgumst málefnin og það vantar miklu meira af því. Það er mín skoðun og stefna okkar sósíalista að gjald eigi ekki að vera fyrir grunnþjónustu barna og að skólar eigi að vera gjaldfrjálsir. Nú á slíkt bara við um námsgögn en börn þurfa meira en bækur og blýanta þegar þau eru í skólanum. Eins og einstæðir foreldrar hafa bent á sem eiga eitt barn, þá hækkar mánaðargjald sem þau greiða þegar barnið þeirra fer úr leikskóla og yfir í grunnskóla. Þá er greitt fyrir skólamáltíðir og svo í frístund að skóladegi loknum. Við þetta eykst greiðsla um 10 þúsund aukalega á mánuði.
Léttum af gjaldtökunni
Þess vegna lagði ég til í gær að sá afsláttur sem er á leikskólagjöldum eigi einnig við um gjöld á frístundaheimilum. Þetta er afsláttur sem námsmenn, einstæðir foreldrar og öryrkjar geta fengið af leikskólagjöldum barna sinna. Kostnaðarauki vegna tillögunnar nemur samtals 55,7 m.kr.
Forsendur fjárhagsáætlunar byggja á ákveðnum viðmiðum, gjaldskrár hækka og flest allt hækkar. Það er verið að segja að hlutirnir kosta meira og borgarbúar þurfi að greiða fyrir það. Samt sem áður stendur sumt alltaf í stað, líkt og upphæð frístundakortsins. Á vefsíðu borgarinnar kemur fram að markmið þess sé að auka jöfnuð og leitast við að tryggja að börn og unglingar geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð félagslegum aðstæðum eða efnahag. Nú er ég ekki sammála því að þetta sé besta leiðin til þess en ef við skoðum gjaldskrárnar og allt er að hækka og ef við skoðum stöðuna í samfélaginu í heild, af hverju hækkar frístundakortið þá ekki líka í takt við það? Það er verið að segja að borgarbúar þurfi að greiða meira vegna þjónustunnar en á sama tíma kemur ekki árleg hækkun á þá þætti sem er ætlað að stuðla að jöfnuði.
Börn hafa engar tekjur og það er því nauðsynlegt að endurskoða þetta kerfi í heild sinni og byggja það þannig upp að þessi gjaldtaka sé ekki svona rosaleg í frístundastarfi. Gjaldtaka á ekki að vera til staðar í skólastarfi né í þjónustu borgarinnar sem tengist börnum. Ef við skoðum gjaldskrárnar sem eru lagðar fram með fjárhagsáætluninni þá er verið að leggja til hækkun á liði sem tengjast börnum. Ég lagði til að borgarstjórn samþykki að falla frá öllum fyrirhuguðum gjaldskrárhækkunum fyrir árið 2022 á þjónustu sem viðkemur börnum. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs yrðu hækkaðar um 131.627 þ.kr. og fjárheimildir íþrótta- og tómstundasviðs yrðu hækkaðar um 3.000 þ.kr. til að mæta þessu.
Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að gjaldskrár vegna þjónustugjalda hækki í samræmi við verðlagsforsendur fjárhagsáætlunar um 4,1%. í samræmi við verðbólguspá Hagstofu Íslands. Dæmi eru um liði þar sem lagt er til að hækkunin séu umfram 4,1%. Börn hafa engar tekjur og ættu því ekki að greiða fyrir þá þjónustu sem borgin býður upp á en tillagan fól í sér að gjöld yrðu ekki hækkuð á þjónustu sem viðkemur börnum. Svo eru hópar í samfélaginu sem fá ekki þessa tekjuhækkun upp á 4,1% en er svo ætlað að standa undir hærri kostnaði við þjónustuveitingu.
Gjaldtakan sem fatlað fólk mætir við það að nota samgöngur í borginni er gríðarleg og því snéri þriðja breytingartillaga sósíalista um árskort fyrir notendur akstursþjónustu. Þar var lagt til að Reykjavíkurborg bjóði upp á árskort fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólk líkt og á við um fyrir öryrkja og eldri borgara í Strætó bs. þar sem árskort kostar 25.000 kr. Fyrirkomulag varðandi akstursþjónustu fyrir fatlað fólk er þannig að greitt er fyrir hverja ferð 245 kr. og einungis notendur í framhaldsnámi (framhaldsskólum og háskólum) geta keypt ungmenna- eða nemakort Strætó sem er áskriftarkort og gildir í eitt ár. Fjölmargt fólk hefur verið að greiða yfir 100.000 á ári í akstursþjónustu því þeim stendur ekki til boða að fá tímabilskort.
Fjórða breytingartillaga sósíalista sem ég lagði fram snýr að því að gjaldskrá endurspegli þá samþykkt sem var í velferðarráði um að öryrkjar fái gjaldfrjáls meningarkort. Hér má lesa nánar um allar breytingartillögurnar.
Í síðari umræðu mun ég leggja fram fleiri tillögur sósíalista sem snúa m.a. að húsnæði en það gengur ekki að það sé innbyggt inn í kerfið okkar að það sé litið á það sem eðlilegt að einhver sé alltaf skilinn eftir. Mér finnst það ekki í lagi og þannig á það ekki að vera.