Auðvaldið er óvinurinn – Sósíalísk kveðja á baráttudegi verkalýðsins

Kosningastjórn Pistill

Eitt af afmælisbörnum dagsins er Sósíalistaflokkur Íslands, sem var stofnaður 1. maí árið 2017. Sósíalistaflokkurinn er andsvar við kúgun kapítalismans og rödd fyrir hinar vinnandi stéttir og þau sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Sósíalistar vilja samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar og vita að þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu.

Í dag, á degi verkalýðsins, er okkur hugsað til þeirra vinnandi stétta sem hafa takmarkaða rödd í samfélaginu. Til þeirra mörgu verkamanna sem geta ekki kosið til þings, þrátt fyrir að hafa byggt upp margt sem landsmenn treysta á. Verkafólk af erlendum uppruna sem starfar, stritar og greiðir til samfélagsins en fær þó lítið um það að segja hver stýrir landinu. Á þessum degi er okkur hugsað til þeirra sem arðránsmaskínan hefur spýtt út úr sér; þeirra sem gefa og gefa af sér en fá ekkert að launum nema vanþakklæti og er gert að búa við örorku.

Á þessum degi er þó mikilvægt að staldra við og líta yfir farinn veg. Sósíalistaflokkur Íslands hefur stutt við verkalýðsbaráttuna og fagnar sigrum Eflingar undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur. Í gegnum skipulagða baráttu Eflingar hefur verkafólk sem skapar verðmætin lýst kjörum og kröfum sínum svo eftir því er tekið. Þökkum við Eflingu fyrir þeirra baráttu.

Hugtök líkt og auðvald og arðrán heyrast nú í íslensku samfélagi.

En hvað er auðvaldið? Auðvaldið á sér margar birtingarmyndir. Auðvaldið er það vald sem leitast við að stjórna samfélaginu í krafti auðs síns og kvartar sáran þegar það fær ekki að arðræna almenning í friði. Skilaboð þeirra eru að hinir ríkustu eigi að tróna yfir hinum. Að fátækir séu latir og með rotin gildi og geti sjálfum sér um kennt að þeir séu fátækir. Sósíalistar hafna þessu og hafna því að hinn kapítalíski markaður, sem hefur engin gildi önnur en að hámarka arðsemi á kostnað hinna vinnandi stétta, sé sá með mesta vitið.

Hugmyndir auðvaldsins eru að markaðsöflin, sem hafa enga samvisku og kæra sig kollóttann um að börn svelti, um að foreldrar þeirra þurfi að vera í þremur vinnum sem samt dugi ekki til að ná endum saman, eigi að leggja línurnar í stefnu íslenskra stjórnvalda. Þessu hafna Sósíalistar. Vandamálið við markaðinn er að hann er skammsýnn, hann sér ekki nógu langt fram í tímann. Mögulega er honum alveg sama, þar sem hámarksgróði á mettíma á kostnað verkafólks eru markmið hans.  Við í Sósíalistaflokknum horfum lengra. Við viljum byggja góða framtíð fyrir komandi kynslóðir þar sem framþróun samfélagsins stýrist af hagsmunum almennings.

Samstaða er það sem þarf til að byggja upp gott samfélag. Auðvaldið reynir að sundra okkur þegar það sér mögulegar glufur í samstöðunni. Því skiptir það máli að standa sameinuð með fókus á hver raunverulegi óvinurinn er. Á þessum degi vonar um betri tíð, liggur hugur okkar einnig  hjá hinsegin samfélaginu sem á nú í vök að verjast þar sem ráðist hefur verið á trans fólk og leitast við að mála upp mynd af þeim manneskjum sem einhverskonar ógn. Slíkt eitur þjónar þeim tilgangi einum að sundra okkur, hinum fjölmenna almenningi sem á miklu meira sameiginlegt en sem greinir okkur að.

Að deila og drottna er aldagömul aðferð. Það er lítið mál að slíta eitt strá í sundur en setjirðu þau þúsundum saman í eitt búnt verður það ómögulegt. Sósíalistaflokkur Íslands vill vera sá staður þar sem stráin geta komið saman og myndað órjúfanlega heild. Við berjumst fyrir réttlæti öllum til handa og til þess að slíkt verði að veruleika þarf að taka völdin af auðstéttinni. Misskiptingin í íslensku samfélagi er svívirðileg og til eru þau öfl sem vilja auka hana. Þessi öfl eru sterk og ofurefli ef við leyfum þeim að ráðast að okkur einu í einu, en sameinuð erum við ósigrandi.

Gleðilegan baráttudag!
Kveðja: Kosningastjórn Sósíalistaflokks Íslands

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram