Þegar stundin rennur upp: Corbyn og íslenska vinstri hreyfingin

Árni Daníel Júlíusson Pistill

Unga fólkið, stúdentarnir og verkafólkið styður hann, fjölmiðlarnir hata hann, þingflokkur hans eigin flokks líka og auðvitað fína fólkið í Íhaldsflokknum. Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins er oft nefndur í sömu andrá og Bernie Sanders í Bandaríkjunum, maðurinn sem kom umræðu um sósíalisma á dagskrá í Bandaríkjunum. Jeremy Corbyn gerði það sama í Bretlandi.

Það tók talsverðan tíma, en það tókst að lokum: Að endurreisa vinstri hreyfinguna á Vesturlöndum. Fyrsta skrefið hefur meira að segja verið tekið hér á landi með stofnun Sósíalistaflokks Íslands. Smiðshöggið var rekið í hinum ótrúlegu þingkosningum í Bretlandi nýverið. Theresa May boðaði til þingkosninga í fullri vissu um að þær væru formsatriði, eftir þær yrði Verkamannaflokkurinn í rúst, formannstíð Corbyns á enda og sjálf myndi hún tróna óumdeild á valdastóli. Hana grunaði ekki hvað í vændum væri. Stund sósíalismans var í nánd.

Val Verkamannaflokksins á Jeremy Corbyn sem leiðtoga 2015 kom fjölmiðlum, álitsgjöfum og stjórnmálaelítunni á óvart. Fjöldi nýrra félagsmanna flykktust í flokkinn til að styðja þennan mann, sem hafði haldið á lofti klassískum sósíalískum baráttumálum og sjónarmiðum friðarsinna þegar Tony Blair og Gordon Brown höfðu keyrt flokkinn langt til hægri. Kjör Corbyn endurnýjaði því ekki aðeins stefnu flokksins og forystu heldur baklandið einnig.

Þegar Jeremy Corbyn var kjörinn formaður Verkamannaflokksins fyrir tveimur árum síðan ætluðu menn ekki að trúa sínum eigin augum. Óþekktur róttæklingur úr vinstra armi Verkamannaflokksins fékk um 60% atkvæða, út á það sem fjölmiðlar þreyttust ekki á að kalla gamaldags vinstri pólitík. Gamaldags pólitík sem gekk út á að höfða til verkalýðsstéttarinnar, stéttar sem löngu var hætt að taka alvarlega sem pólitískt afl, hætt að tala um og búið að afskrifa á svo margan hátt. Bretland hefði misst megnið af iðnaði sínum, hann hefði verið fluttur til annarra landa, og það sem eftir er af iðnaði væri mannað með ódýru vinnuafli frá löndum Austur-Evrópu, sögðu fjölmiðlar og þeir sem Corbyn kallar „commentariat“. Commentariat hefur orðið skammaryrði í munni Corbyns og þeirra sem styðja hann. Það er fólk sem hefur það að iðju að skrifa í fjölmiðla greiningu á stöðunni í stjórnmálum. Þetta er yfirleitt fólk nærri miðju stjórnmálanna, oft Blairistar af einhverju tagi, sem taka nýfrjálshyggju sem sjálfsagðan hlut og álíta að alþjóðavæðing, skerðing á réttindum verkafólks og „hagræðing“ í velferðarkerfinu sé óhjákvæmleg, til að efla samkeppnisgetu Bretlands. Þau töluðu öll illa um Corbyn, alveg fram til 8. júní, (en síðan hefur komið svolítið annað hljóð í strokkinn hjá sumum a.m.k.). Hér var kominn maður sem leyfði sér að tala um verkafólk, krefjast aukinna réttinda þess, betra húsnæðis fyrir almenning, hærri skatta á auðmenn, niðurfellingu á himinháum skólagjöldum, og þar fram eftir götunum. Þetta var svo gamaldags. Þetta myndi aldrei ganga. Verkamannaflokkurinn myndi fá 25% atkvæða og kannski 100 þingmenn.

Æpandi viðbjóður

Þingflokkur Verkamannaflokksins snérist nær allur þegar í stað gegn Corbyn af mikilli grimmd og ákveðni. Það yrði að koma þessum manni frá. Í þessum þingflokki er fjöldi fólks sem á frama sinn að þakka Tony Blair. Tony Blair varð forsætisráðherra út á áform sín um að láta Verkamannaflokkinn og bresku verkalýðsstéttina samþykkja nýfrjálshyggju Margaret Thatcher. Það væri eina leiðin fyrir Verkamannaflokkinn til að ná völdum á ný. Vissulega náði Verkamannaflokkurinn völdum á ný 1997, en það var holur hljómur í þeim sigri. Holhljómurinn varð að æpandi viðbjóði þegar Tony Blair studdi herferð Bandaríkjanna til Íraks árið 2003. Hér á landi fylgdi Samfylkingin (og raunar VG líka, bara á annan hátt) í fótspor Blairs. Það var hætt að tala um stéttabaráttu og alþjóðavæðingin hafin til skýjanna. Hér kom fram fjölmennur hópur menntamanna sem kom oft fram í fjölmiðlum, hafði þar greiðan aðgang, og talaði fjálglega um dásemdir alþjóðavæðingarinnar – eins og hún kæmi á einhvern hátt í stað allra þeirra réttinda sem verkafólk tapaði og tapar stöðugt, einmitt vegna hennar. Hið íslenska kommentaríat, eða álitsgjafar. Við nefnum engin nöfn.

Eftir Brexit-kosningarnar í fyrra var gerð alvarleg tilraun til að koma Corbyn úr formannsstóli Verkamannaflokksins á þeim grundvelli að hann hefði ekki barist nógu harkalega fyrir áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu. Það tókst alls ekki, Corbyn var kjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins á ný með miklum meirihluta, en fjölmiðlar, skoðanakannanir og álitsgjafarnir voru allir sammála um að staða Corbyns væri veik og hann yrði ekki lengi formaður Verkamannaflokksins. Flokkurinn hafði lítið fylgi í skoðanakönnunum, það er rétt. En Corbyn og samtök fylgismanna hans, sem kölluð eru Momentum, héldu stöðu sinni í Verkamannaflokknum. Kjör Corbyns sem formanns var svo aðeins fyrsta þrepið í þeirri tveggja – og mögulega þriggja – þrepa eldflaug sem var komin á loft. Annað þrepið var síðan ótrúlegur árangur Verkamannaflokksins í þingkosningunum um daginn. Það þriðja verður vonandi valdataka Verkamannaflokksins.

Hrunið kom hreyfingunni af stað

Þau umskipti sem orðið hafa í breskum stjórnmálum má rekja til hrunsins 2008. Stjórnvöld björguðu breskum bönkum frá gjaldþroti með háum fjárhæðum, sem teknar voru úr vasa almennings. Verkamannaflokknum var kennt um hvernig farið hefði og hann lenti í djúpri kreppu. Árið 2010 náði Íhaldsflokkurinn völdum með stuðningi Frálslynda flokksins og boðaði þegar í stað til víðtæks og harkalegs niðurskurðar á ríkisútgjöldum. Þannig skyldi ráða bót á kreppunni. Víðtæk og harkaleg mótmæli almennings brutust þá út, fyrst í nóvember og desember 2010 þegar stúdentar mótmæltu hækkun á skólagjöldum. Árið 2011 urðu enn meiri og víðtækari mótmæli gegn niðurskurði. Fólki sveið í augu að bankar og fjármálaauðvald væru ekki látnir bera ábyrgð á kreppunni. Í stað þess voru lífskjör og réttindi almennings skert stórkostlega, fólk sem enga ábyrgð bar á óstjórninni. Þetta grófa óréttlæti var það sem kom af stað hreyfingunni sem leiddi til kjörs Corbyns sem formanns Verkamannaflokksins.

Útlitið var samt ekki gott fyrir þessa hreyfingu þegar Theresa May forsætisráðherra boðaði óvænt til kosninga í Bretlandi í apríl. Verkamannaflokkurinn fékk um 25% stuðning í skoðanakönnunum og Íhaldsflokkurinn hafði nærri helmingi meiri stuðning. May var miklu vinsælli en Corbyn í sömu skoðanakönnunum.

Stefnuskrá Verkamannaflokksins „For the many – not the few“ umbreytti kosningabaráttunni. Róttækur klassískur sósíalismi reyndist hafa mikinn hljómgrunn og kosningabaráttan snerist eftir það um samfélagslegar umbætur en hvorki um Brexit né sterka og stöðuga forystu Íhaldsflokksins.

Svo rann stundin upp. Þann 10. maí var stefnuskrá Verkamannaflokksins lekið og hún birt í blöðunum Daily Mirror og Daily Telegraph. Í henni voru loforð um að þjóðnýta á ný breska raforkukerfið, járnbrautakerfið, vatnsveitukerfið og póstinn. Þessa starfsemi hafði Margaret Thatcher einkavætt á sínum tíma. Einnig skyldi stofna orkufyrirtæki í eigu almennings, réttindi verkafólks skyldu efld og aukin, skólagjöld í háskólum felld niður og ein milljón nýrra íbúða skyldi reist á fimm árum. Efla skyldi leikskólastarfsemi og hún gerð ókeypis. Fjárframlög til menntakerfisins skyldu aukin stórkostlega. Fjármagn til þessara aðgerða yrði meðal annars aflað með því að hækka skatt á tekjur fyrirtækja úr 19% í 26%. Einnig skyldi hækka skatta á hátekjufólk og fjármagnstekjur.

Anti-Thatcher

Hér er á ferðinni ekkert minna en anti-Thatcher stefnuskrá, stefnuskrá sem hefur sem grunnstef endurreisn þeirra samfélagsgæða sem járnfrúin svipti almenning á sínum tíma. Það á að skattleggja auðmagnið til að endurreisa velferðarkerfið.

Þegar stefnuskráin var síðan lögð fram opinberlega þann 16. maí kom í ljós að breytingar höfðu orðið. Ekki til að draga úr róttækninni, þvert á móti. Sérstaklega hafði afstaðan gegn mögulegri notkun kjarnorkuvopna harðnað, hnykkt á gagnrýni á meðferð Ísraelsmanna á Palestínumönnum og fleiri atriði tengd utanríkismálum höfðu fengið róttækri áherslu. Kosningabaráttan snérist eftir þetta um hina róttæku stefnuskrá Verkamannaflokksins, og Íhaldsflokkurinn komst í vörn. Hann uppskar nú það sem hann sáði með niðurskurðinum árið 2010. Þegar talið var upp úr kjörkössunum að kvöldi dags þann 8. júní og nóttina eftir var það staðfest sem kom fram í frægri útgönguspá: Verkamannaflokkurinn fengi 40% atkvæða, ekki 25% eins og spáð hafði verið í apríl, og Íhaldsflokkurinn missti meirihluta á þingi, nokkuð sem álitsgjafar höfðu talið óhugsandi. Álitsgjafarnir stóðu frammi fyrir því að fjöldahreyfing almennings hafði gert uppreisn gegn linnulausum áróðri þeirra og fjölmiðla um að niðurskurður á ríkisútgjöldum og áframhaldandi alþjóðavæðing væri hið eina rétta.

Meginþáttur í hreyfingunni sem lyfti Verkamannaflokknum til kosningasigurs er bandalag verkalýðsstéttarinnar og ungs menntafólks. Sem dæmi má nefna að Verkamannaflokkurinn sigraði í háskólabænum Canterbury, höfuðstöðvum ensku kirkjunnar, þar sem Íhaldsmenn höfðu alltaf haft meirihluta fram að því. Grime-tónlistarmenn og rapparar hafa líka stutt Corbyn með ráðum og dáð.

Jeremy Corbyn var fagnað sem stórstjörnu þegar hann ávarpaði gesti tónlistarhátíðarinnar í Glastonbury. Honum hefur ekki aðeins tekist að gera Verkamannaflokkinn spennandi á ný og endurvakið sósíalisma í stjórnmálaumræðunni heldur hefur að gert pólitíska virkni að sómasamlegu vali fyrir ungt fólk.

Saga Corbyns er mögnuð. Hún er sagan af manninum sem reis gegn óréttlætinu og sigraði með stuðningi fjöldans, þrátt fyrir gríðarlega mótspyrnu. Öllum ráðum var beitt, en Jeremy Corbyn gerði það sem átti ekki að vera hægt: að endurreisa róttæka endurbótastefnu af því tagi sem var meginstraumur í stjórnmálum Evrópu 1945-1975, sósíaldemókratíska stefnu sem lagði áherslu á eflingu velferðarkerfisins, ókeypis heilbrigðiskerfi, ódýrt húsnæði fyrir almenning, ókeypis aðgang að menntakerfinu, t.d. háskólum o.s.frv. Aukning á stuðningi við Verkamannaflokkinn var sú mesta síðan 1945, sem er mjög táknrænt. Þá vann Verkamannaflokkurinn sinn mesta kosningasigur fram að því, og hóf miklar umbætur á bresku samfélagi í þágu verkalýðsstéttarinnar sem enn sér merki þrátt fyrir öll Thatcher- og Blair árin.

Ný vinstri hreyfing

Afleiðingarnar af þessum stóratburðum eiga eftir að koma betur í ljós, því þær tákna meginbreytingu í öllum viðmiðum vinstri hreyfingarinnar. Það sem ekki var hægt fyrir 8. júní er hægt núna. Það er hægt að leggja fram róttæka stefnuskrá um skattlagningu á auðmönnum til að efla velferðarkerfið og fá stuðning við það í þingkosningum. Vinstri flokkar þurfa ekki lengur að leggja fram lúpulegar og útvatnaðar stefnuskrár fyrir þingkosningar, þar sem þunn súpa er borin á borð fyrir kjósendur. Þar er, svo dæmi séu tekin úr íslenskum stjórnmálum, reynt að breiða yfir stuðning við kvótakerfi og styrkingu kapítalismans með því að tala um umbætur í umhverfismálum og kvenréttindum (sem eru í sjálfu sér góðar fyrir sinn hatt, en eru misnotaðar til að fela afturhaldsstefnu á öðrum sviðum). Hvergi er minnst á verkalýðsstéttina, uppgjör við alþjóðavæðinguna, né neinar alvöru áætlanir til að vinda ofan af niðurskurði í ríkisútgjöldum lagðar fram. Samfylkingin og forysta VG sýndu í ríkisstjórninni 2009-2013 að þar voru á ferðinni flokkar sem höfðu kokgleypt hugmyndir Blairismans. Þeir endurreistu gjörsamlega gjaldþrota kapítalismann á Íslandi óbreyttann, í stað þess að nota það frábæra færi sem þá gafst til að endurskipuleggja samfélagið í þágu almennings, með stuðningi hinnar öflugu og róttæku almannahreyfingar sem orðið hafði til eftir hrun. Vinstri armur VG barðist að vísu hetjulega fyrir raunverulegri vinstri stefnu – og hafði gríðarleg áhrif, en fékk bágt fyrir hjá forystunni.

Allt frá Hruni hafa íslenskir kjósendur krafist róttækra samfélagsbreytinga, en þeir stjórnmálaflokkar sem þeir hafa stutt til valda hafa ekki staðið undir þeim kröfum. Þess í stað hafa flokkarnir lagt alla áherslu á að endurreisa þá stefnu og þær stofnanir sem hrundu 2008.

Á Íslandi endurspeglaðist óánægjan með hrunið fyrst í uppreisn, svo í kosningunum 2009 með stórsigri vinstri flokkanna, síðan í ósigri þessara sömu flokka í Icesave-málinu fyrir hreyfingu almennings gegn Icesave-samningunum og loks í stórsigri Framsóknarflokksins 2013. Síðan fóru Píratar á flug í skoðanakönnunum og svo hrundi stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eftir afhjúpun Panamaskjalanna. Viðbrögð íslensks almennings við hruninu voru mun ákveðnari en víðast hvar annars staðar og uppreisnin öflugri og meira viðvarandi. Það var ekki bara vegna þess hversu hrunið var algert og mikið hér á landi, heldur líka vegna þess að fjöldi fólks tók til vopna, ef svo má segja, gegn auðvaldinu og háði og háir harða baráttu á mörgum sviðum gegn því.

Vonbrigðin 2016

Niðurstaða kosninganna 2016 hefur hins vegar valdið gríðarlegum vonbrigðum. Til valda komst umboðslítil og lömuð stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Fylgi hennar og áhrifavald er afar takmarkað. Meðal viðbragða við þessu er stofnun Sósíalistaflokks Íslands, sem eins og Jeremy Corbyn boðar endurreisn sósíalismans: Fráhvarf frá nýfrjálshyggju, stórbætt lífskjör almennings og endurreisn velferðarkerfisins, uppgjör við hugsunarhátt Thatcher-tímans eða hér á landi Davíðstímans, og nýjan sósíalisma. Sósíalisminn er nefnilega eina svarið sem almenningur á við ofbeldisfullri og hrokafullri pólitík yfirstéttarinnar. Sósíalisminn verður að vera lykilþáttur í gagnsókn almennings á því sviði sem skiptir mestu máli: Að ná völdum á Alþingi og í ríkisstjórn með stefnu sem beinist gegn auðvaldinu og hafnar því að endurreisa óbreytt kerfi eins og „vinstri“ flokkarnir gerðu eftir hrun. Þrátt fyrir aðdáunarvert úthald aðgerðasinna síðan hrunið varð þá hefur vantað pólitískt afl til að endurspegla andófið gegn auðstéttinni. Það pólitíska afl er nú orðið til, og þar er markvisst sótt í smiðju sósíalismans til að smíða baráttutæki fyrir almenning. Stund sósíalismans mun renna upp hér á landi fyrr eða síðar, og Sósíalistaflokki Íslands er ætlað að flýta fyrir því.

Oft er meðal aðgerðasinna rætt um að stjórnmál sem eingöngu miða við kosningasigra séu innihaldslítil. Fjöldahreyfing, barátta almennings á götunni fyrir réttindum sínum, verði að vera meginþáttur í stjórnmálum. Saga Íslands undanfarinn áratug eða svo sýnir hins vegar að götubaráttan dugar ekki ein og sér: Það verður líka að vera til stjórnmálaflokkur sem er fær um að leiða þessa baráttu, þannig að með henni fáist varanlegar umbætur og að lokum bylting, þannig að vald auðstéttarinnar verði alveg afnumið og almenningur fái völdin.

Árni Daníel Júlíusson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram