Ályktun opins fundar um starfsgetumat

Tilkynning Frétt

Þann 20. september 2017 efndi Sósíalistaflokkur Íslands til opins fundar um starfsgetumat sem haldinn var í húsnæði Sjálfsbjargar að Hátúni 12 í Reykjavík. Framsögur héldu Eiríkur Smith, fötlunarfræðingur, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ, og Ásta Dís Guðjónsdóttir, formaður Sjálfsbjargar á Höfuðborgarsvæðinu og samhæfingarstjóri Pepp-Ísland. Katrín Baldursdóttir atvinnulífsfræðingur var fundarstjóri og stýrði umræðum að loknum framsögum.

Í lok fundarins var svohljóðandi ályktun samþykkt:

Starfsgetumat er mál sem varðar grundvallarlífsskilyrði öryrkja. Öryrkjar eiga rétt á að taka þátt í ákvörðunum um eigin lífsskilyrði rétt eins og annað fólk í lýðræðissamfélagi. Ætli íslensk stjórnvöld að innleiða starfsgetumat ber þeim að taka fullt tillit til sjónarmiða, tillagna og rökstuðnings Öryrkjabandalags Íslands. Skal þar vísað sérstaklega til skýrslunnar „Virkt samfélag“ frá árinu 2016, sem er afar vönduð, faglega unnin og endurspeglar réttmætar kröfur öryrkja.

Fundurinn áréttar sérstaklega eftirfarandi kröfur:

  • Að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk verði lögfestur hér á landi og valfrjáls bókun staðfest.
  • Að bann við mismunum á vinnumarkaði, þar á meðal gagnvart fötluðu fólki, verði fest í lög.
  • Að starfsgetumat, verði því komið á, lúti stjórnsýslulögum og að niðurstöður starfsgetumats einstaklinga séu rökstuddar og kæranlegar til æðra stjórnvalds.
  • Að innleiðing starfsgetumats, komi til þess, verði studd með sérstökum og viðeigandi opinberum aðgerðum til að koma til móts við þarfir öryrkja á vinnumarkaði.

Reykjavík, 20. september 2017.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram