Engin stéttarvitund hjá arftökum hinna sósíalísku flokka

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Framboðslistar Samfylkingarinnar og VG á höfuðborgarsvæðinu vöktu almenna ánægju meðal flokksmanna. Sem er athygli vert því listarnir voru með afbrigðum einsleitir. Ef við tökum frá einn nýbúa af hverjum lista, einn eldri borgara og einn verkamann eða verkakonu sést að fólkið á listunum er meira og minna steypt í sama mót, kemur úr sömu stéttum og er á sama aldri. Þetta bendir til tvenns: Annars vegar að þessir arftaka hinna sósíalísku flokka frá tuttugustu öld eru orðnir algjörlega stéttablindir, hafa gleypt hráann áróður nýfrjálshyggjunnar um að stéttir skipti ekki máli í pólitískum átökum dagsins. Hins vegar að þessir flokkar eru ekki fjöldahreyfingar heldur þröngar klíkur.

Skoðum þetta nánar:

Stéttaflokkun launafólks

Ef við styðjumst við stéttagreiningu Hagstofunnar þá skiptist vinnumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu svona:

Stjórnendur og embættismenn: 9,9%
Sérfræðingar: 27,9%
Sérmenntað starfsfólk: 16,0%
Skrifstofufólk: 4,2%
Þjónustu- og verslunarfólk: 23,3%
Bændur og fiskimenn: 0,5%
Iðnaðarmenn: 9,0%
Véla- og vélgæslufólk: 3,5%
Ósérhæft starfsfólk: 5,7%

Þetta er alþjóðleg flokkun sem hagstofur styðjast við. Þetta er ekki flokkun í auðstétt, millistétt og lágstétt að Marxískum toga heldur tilraun til að greina vinnuaflið niður; að nokkru leyti í millistétt og lágstétt og þá eftir status, menntun og launum.

Ef við skoðum miðgildi reglulegra launa, það er mánaðarlaun sem skipta hópnum í tvennt (helmingur er með hærri og helmingur með lægri), þá eru laun þessara hópa svona:

Stjórnendur og embættismenn: 814 þús. kr. á mánuði
Sérfræðingar: 540 þús. kr. á mánuði
Sérmenntað starfsfólk: 512 þús. kr. á mánuði
Skrifstofufólk: 424 þús. kr. á mánuði
Þjónustu- og verslunarfólk: 372 þús. kr. á mánuði
Iðnaðarmenn: 444 þús. kr. á mánuði
Véla- og vélgæslufólk: 394 þús. kr. á mánuði
Ósérhæft starfsfólk: 335 þús. kr. á mánuði

Þarna vantar upplýsingar um miðgildi launa bænda og fiskimanna, ég finn það ekki í fljótu bragði hjá Hagstofunni og þessi hópur kemur ekki við sögu hjá okkur.

Þarna sést hversu fáránlega lág laun eru hjá ósérhæfðu starfsfólki en líka hjá þjónustu- og verslunarfólki og vélafólki. Líka meðal iðnaðarmanna, sem einu sinni voru með umtalsvert hærri laun en ósérhæft starfsfólk.

Stéttaskipting framboðslistanna

Ef við tökum tíu efstu frambjóðendur af listum VG og Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmunum og Kraganum og greinum þá niður samkvæmt stéttaskiptingu Hagstofunnar kemur í ljós að þessir listar endurspegla alls ekki vinnumarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Og geta seint talist brynvörn láglaunafólks.

Áður en ég ber framboðshóp þessara flokka, arftaka sósíalískrar hreyfingar tuttugustu aldar, saman við íbúa á höfuðborgarsvæðinu gef ég frambjóðendum mismunandi vægi þannig að þau sem eru í fyrsta sæti fá 10, þau í öðru sæti fá 9 og svo framvegis; vægi þeirra í tíunda sæti er 1. Og niðurstaðan var þessi:

Stjórnendur og embættismenn: 26,9%
Sérfræðingar: 55,2%
Sérmenntað starfsfólk: 10,2%
Skrifstofufólk: 0,0%
Þjónustu- og verslunarfólk: 7,4%
Bændur og fiskimenn: 0,0%
Iðnaðarmenn: 0,3%
Véla- og vélgæslufólk: 0,0%
Ósérhæft starfsfólk: 0,0%

Það er náttúrlega ekki mikið um þetta að segja. Þetta skýrir sig sjálft. Manni fallast einfaldlega hendur frammi fyrir þessu. Hvað gerðist eiginlega? Hvernig getur hin sósíalíska hreyfing misst svona gersamlega þráðinn.

Það má líka þessu við það sem kallað er gentrification í skipulagsfræði; þegar hipsterar og þokkalega launað millistéttarfólk tekur yfir verkamannahverfi stórborga og fælir verkafólk og innflytjendur burt.

Hér sést skipting vinnumarkaðarins eftir stéttum samkvæmt Hagstofu Íslands (bláar súlur) og vægi þessara stétta í tíu efstu sætunum á framboðslistum VG og Samfylkingarinnar í Reykjavíkur- og Suðvesturkjördæmum.

Hvað vantar — hvað er ofaukið?

Það er enginn verkamaður eða verkakona í tíu efstu sætunum hjá þessum verkamannaflokkum, enginn bóndi (skiljanlega; þetta eru listar á höfuðborgarsvæðinu), enginn sjómaður og enginn úr hópi véla- og vélgæslufólks.

Það er einn iðnaðarmaður: Reynir Sigurbjörnsson rafvirki sem er í tíunda sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.

Fulltrúar skrifstofu-, þjónustu- og verslunarfólks eru þessi: Orri Páll Jóhannsson landvörður, René Biasone, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, Margrét Pétursdóttir, aðstoðarmaður tannlæknis og Esther Bíbí Ásgeirsdóttir, starfsmaður Kvikmyndasafns Íslands.

Þessi fimm eru eru fulltrúar rúmlega 46% launafólk sem tilheyrir þeim stéttum á höfuðborgarsvæðinu sem ekki eru stjórnendur, embættismenn, sérfræðingar eða sérmenntað starfsfólk. Miðað við vægi á listum (mismunandi eftir því hversu ofarlega fólk er) vega þessar stéttir 7,7% hjá þessum flokkum, arftökum hinna sósíalísku flokka. Til að endurspegla vinnumarkaðinn þyrfti fólk úr þessum stéttum að auka hlut sinn sexfalt. Til að endurspegla uppruna þessara flokka, og vinna gegn litlu vægi lágstéttanna hjá framboðum flokka á vegum auðstéttarinnar, þyrfti að auka hlut þeirra enn meira.

(Listinn yfir frambjóðendur úr betur settum hópum launafólks er svo langur að ég sett hann aftast í greinina fyrir þá sem hafa áhuga á að renna yfir hann.)

Hópar utan vinnumarkaðar

Það er um fimmtungur fullorðins fólks á höfuðborgarsvæðinu utan vinnumarkaðar; heimavinnandi, námsfólk, öryrkjar, ellilífeyrisþegar og atvinnulausir.

Enginn í efstu tíu sætum á listum flokkanna er titlaður öryrki. Það má vera að þar sé einhver öryrki; því miður er það svo að öryrkjar kjósa oft fremur að titla sig út frá menntun eða fyrra starfi. Það er einn frambjóðandi sem segist vera í námi; Nikólína Hildur Sveinsdóttir mannfræðinemi. Enginn segist atvinnulaus og enginn heimavinnandi. Fimm karlar á eftirlaunaaldri eru í einu af tíu efstu sætunum: Ellert B. Schram, Þröstur Ólafsson, Steinar Harðarson, Guðmundur Gunnarsson og Sveinn Rúnar Hauksson. Engin kona. Aukið vægi yngri kvenna á listum flokkanna hefur fækkað eldri konum, ef eitthvað er (meira um það síðar).

Samanlagt vægi þessara sex sem eru fulltrúar þeirra hópa sem eru utan vinnumarkaðar er 6,7%. Þessir hópar þyrftu að vera þrisvar sinnum öflugri á listum flokkanna til að endurspegla samfélagið á höfuðborgarsvæðinu. Og enn öflugri ef þessir flokkar ætluðu sér að verða málsvara þeirra hópa sem hið kapítalíska kerfi skaðar mest.

Skiptir þetta máli?

Og þar komum við að kjarna málsins. Óréttlæti samfélagsins leggst ekki jafnt á allt fólk. Óréttlæti kapítalismans brýtur mest niður lífskjör og lífsgæði þeirra sem vinna lengst fyrir lægstu laununum. Fólk í efri lögum vinnumarkaðarins upplifir aðeins brot af þeirri frelsisskerðingu, valdaleysi og sárindum sem fólk á lægstu laununum upplifir. Það þekkir ekki vonleysi fátæktar og bjargarleysis. Það kann að hafa lesið um það, en það hefur ekki upplifað það. Og upplifir það ekki í dag.

Þið tókuð kannski eftir því að þeir karlar á listunum sem eru komnir á ellilífeyri koma flestir úr stéttum sem höfðu sterk lífeyrisréttindi og úr störfum sem gáfu þeim há laun og góða möguleika til að safna eftirlaunum og sparifé til efri áranna. Á þessum listum er því enginn sem þekkir fátækt þeirra sem lifa á skammarlegum eftirlaunagreiðslum, búa ekki í skuldlausu húsnæði og eiga ekki fyrir mat út mánuðinn. Þarna eru heldur ekki fulltrúar öryrkja, sem skammtaðir eru peningar sem duga ekki fyrir framfærslu.

Stjórnar þetta áherslum flokkanna? Er þetta skýringin á að öryrkjum og láglaunafólki finnst Flokkur fólksins frekar ávarpa sig en fulltrúar þeirra flokka, sem þó eiga að vera arftakar hinnar sósíalísku hreyfingar á tuttugustu öld. Meginstraumur frelsisbaráttu hinna fátæku liggur ekki lengur um þessa flokka.

Klíkuvæðing

Það er einkenni stofnana og félaga sem missa sjónar af tilgangi sínum að verða fórnarlömb klíkuvæðingar. Þegar við vitum ekki til hvers við komum saman og getum látið einhvers konar æðri tilgang leiðbeina okkur, föllum við fljótt niður á einskonar félagslegt frumstig. Við veljum okkur félagsskap fólks sem er líkt okkur í háttum, á svipuðu reki og með svipaðan bakgrunn. Forysta í flokkum og félögum verður þá undraskjótt einsleit og fráhrindandi öðrum en þeim sem tilheyra klíkunni.

Við sáum afleiðingar þessar klíkumyndunar flokkanna í greiningu á starfsstéttum, en við getum líka séð klíkumyndunina þegar við skoðum frambjóðendur eftir aldri.

Svona er aldursskipting fólks á höfuðborgarsvæðinu:

76 ára+: 7,5%
71-75 ára: 4,5%
66-70 ára: 6,1%
61-65 ára: 7,3%
56-60 ára: 8,6%
51-55 ára: 8,9%
46-50 ára: 8,5%
41-45 ára: 9,0%
36-40 ára: 9,3%
31-35 ára: 9,6%
26-30 ára: 10,2%
21-25 ára: 10,5%

En svona lítur vægi aldurshópanna út hjá frambjóðendum VG og Samfylkingarinnar:

76+ ára: 3,6%
71-75 ára: 1,8%
66-70 ára: 2,1%
61-65 ára: 3,0%
56-60 ára: 7,9%
51-55 ára: 13,0%
46-50 ára: 9,7%
41-45 ára: 24,8%
36-40 ára: 14,5%
31-35 ára: 7,3%
26-30 ára: 9,7%
21-25 ára: 2,4%

Af þessu sést þótt fólk á aldrinum 36 til 45 ára sé aðeins 18% af landsmönnum þá er vægi þeirra rúmlega 39% á framboðslistum flokkana. Aldurshóparnir fyrr ofan (46-55 ára) og neðan (26-34 ára) hafa álíka vægi á listunum og út í samfélaginu en allir aldurshópar 56 ára og eldri eru með miklum mun minna vægi á listum flokkanna en út í samfélagi. Þeir eru 34% íbúunum en vægi þeirra er aðeins 18%, nærri helmingi minna, á listum flokkanna.

Hér sést skipting íbúa á höfuðborgarsvæðinu eftir aldurshópum (bláar súlur) til samanburðar við vægi þessara aldurshópa á listum VG (rauðar súlur) og Samfylkingarinnar (appelsínurauðar súlur) í tíu efstu sætum á framboðslistum flokkanna í Reykjavíkur- og Suðvesturkjördæmum.

Enn verra hjá VG

Ástæðan liggur fyrst og fremst í vali VG á frambjóðendum. Þar er vægi fólks 56 ára og eldri aðeins tæp 6% á meðan að þessir aldurshópar telja 34% íbúanna. Það eru ekki aðeins eldri karlar sem eiga erfitt uppdráttar hjá VG. Álfheiður Ingadóttir (66 ára á þessu ári) er elsta konan í tíu efstu sætum flokksins í þessum þremur kjördæmum. Næst elst er Svandís Svavarsdóttir (53 á þessum ári). Álfheiður er þannig eina konan í VG sem er eldri en 54 ára. Til samanburðar eru sex konur á listunum sem eru innan við fimm árum eldri og fimm árum yngri en formaðurinn Katrín Jakobsdóttir: Drífa Snædal, Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, Halla Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. Og fjórar af þessum eiga góða möguleika á þingsæti og eru sannarlega hluti af kjarnaforystu flokksins.

Þegar hin sterka ’68-kynslóð var að koma sér fyrir í samfélaginu beitti hún fyrir sig kröfu um fagmennsku og menntun. Þetta var jú, fyrsta kynslóðin sem hóf sig upp úr verkalýðsstétt í millistétt. En þótt þörf hafi verið á meiri fagmennsku og menntun í samfélaginu var augljóst að krafan var fyrst og fremst tæki nýrrar öflugrar kynslóðar til að auka völd sín og áhrif.

Það er freistandi að meta áherslu yngri kvenna í VG á femínisma út frá þessu; að hún sé fyrst og fremst tæki einnar kynslóðar til að skapa sér rými á kostnað þeirra sem fyrir voru. Það má spyrja: Hvar eru eldri konurnar? Konur eru í fjölmennari en karlar í hópi fátækra ellilífeyrisþega. Hvar eru láglaunakonurnar? Konur eru jú fjölmennari en karlar í láglaunastörfum. Hvar eru konurnar sem eru öryrkjar? Konur eru jú fjölmennari en karlar meðal öryrkja. Er femínismi VG fyrst og fremst baráttutæki menntaðra millistéttakvenna sem eru á aldri sem kalla mætti yngri miðaldra.

Aldursskipting frambjóðenda VG er annars þessi:

76+ ára: 0,0%
71-75 ára: 1,8%
66-70 ára: 4,1%
61-65 ára: 0,0%
56-60 ára: 0,0%
51-55 ára: 16,5%
46-50 ára: 14,1%
41-45 ára: 24,1%
36-40 ára: 19,4%
31-35 ára: 4,1%
26-30 ára: 11,2%
21-25 ára: 4,7%

Fólk á aldrinum 26 til 45 ára er 18% fjöldans en vægi þess á listum VG er tæp 46%.

Klíkuvæðing

Það er augljóst að kynslóðin sem nú er um fertugt er öflug kynslóð sem mun láta mikið til sín taka í framtíðinni. Hún minnir á kynslóðina sem var frá aldri Ólafs Ragnars Grímssonar til aldurs Davíðs Oddssonar og sem drottnaði yfir öllu á Íslandi á tímabili nýfrjálshyggjunnar. Fólki sem er um fertugt í dag er hins vegar afkvæmi þessa tímabils; fólk sem komst til vits og ára eftir að hin nýfrjálshyggnu viðhorf höfðu mótað flest svæði mannlífsins.

Það væri gaman að velta fyrir stöðu og hugmyndum þessarar kynslóðar; hvort henni takist að færa samfélagið úr viðjum nýfrjálshyggjunnar eða hvort hún er of bundin þessum tíma og yngri kynslóðir muni taka það að sér að skúra nýfrjálshyggjuna burt. Nú, eða eldri kynslóðir. Sá hópur í samfélaginu sem er næst byltingarástandi í dag er fólki sem er nýkomið á ellilífeyri eftir að hafa borgað skatta alla sína hunds- og kattartíð og stóran hluta launa sinna í lífeyrissjóði og upplifir nú svik samfélagsins, að stjórnvöld hafi logið að þeim alla þeirra æfi. Stjórnvöl,d hafa tapað öllu lögmæti gagnvart þessu fólki. Það er við byltingarástand.

En ég ætla ekki að gera það hér.

Ég ætla hins vegar að benda á að eitt helsta einkenni klúkumyndunar er þegar forystufólk raðar í kringum sig fólki af líku reki og með líkan bakgrunn. Við getum séð þetta gerast í Sjálfstæðisflokknum, þar sem fólk á aldri við Bjarna Benediktsson og flest úr Garðabænum, raðar sér í kringum formanninn og eru hans helstu ráðgjafar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun bjóða fram helling af körlum á hans aldri sem líta út eins og hann sjálfur. Og svo framvegis.

Þetta er ástæðan fyrir því að aldursdreifingin hjá Samfylkingunni er skárri en hjá VG. Þegar súlurit yfir aldursskiptinguna er skoðuð rís upp súla nálægt aldri Loga og forvera hans. Í VG hefur þessi kynslóð misst forystuhlutverk sitt og því rísa engar súlur nema nálægt Katrínu Jakobsdóttur í aldri.

Þetta bendir til að þessir flokkar hafa engin kerfi innbyggð, enga hugsjón eða hugmyndir um hverjum þeir þjóna, sem getur vegið upp á móti eðli hópdýrsins, að rotta sig saman innan um keimlíka.

Og það er það sem er alvarlegt við það sem hér hefur verið dregið fram. Arftakar hinna sósíalísku flokka eru ekki aðeins orðnar að fámennum klíkum, heldur klíkum sem eru algjörlega blindar á hverjum hin sósíalíska hreyfing á að þjóna.

Gunnar Smári Egilsson

 

Ítarefni: Fyrir þá sem áhuga hafa er hér skipting tíu efstu frambjóðenda VG og Samfylkingarinnar í þremur kjördæmum; Reykjavík suður og norður og Suðvesturlkjördæmi. Stuðst er við flokkun Hagstofu Íslands:

Stjórnendur og embættismenn: Andrés Ingi Jónsson, alþingismaður, Drífa Snædal, framkvæmdastýra SGS, Ellert B. Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og fyrrv. Alþingismaður, Guðmundur Gunnarsson fyrrv. formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Gunnar Árnason, framkvæmdastjóri, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri, Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður og formaður VG, Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, alþingismaður, Steinunn Þóra Árnadóttir, alþingismaður, Svandís Svavarsdóttir, alþingismaður, Þórarinn Eyfjörð framkvæmdastjóri SFR stéttarfélags og leikstjóri.

Sérfræðingar: Ágúst Ólafur Ágústsson háskólakennari, Álfheiður Ingadóttir, ritstjóri, Amid Derayat, líffræðingur, Einar Kárason rithöfundur, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, tónlistarfræðingur, Erna Indriðadóttir, fjölmiðlamaður, Eva Baldursdóttir lögfræðingur, Eydís Blöndal, ljóðskáld og heimspekinemi, Finnur Beck, lögfræðingur og stjórnmálafræðingur, Gísli Garðarsson, fornfræðingur, Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur, Gunnar Helgason, leikari og rithöfundur, Halla Gunnarsdóttir, blaðamaður og alþjóðastjórnmálafræðingur, Hallgrímur Helgason rithöfundur og myndlistarmaður, Helga Vala Helgadóttir lögmaður og leikkona, Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, Hjálmar Hjálmarsson, leikari og leikstjóri, Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir vefsmiður, kaos-pilot og athafnastjóri Siðmenntar, Jovana Pavlović, stjórnmála- og mannfræðingur, Kristján Ketill Stefánsson, framkvæmdastjóri, Kristrún Birgisdóttir, sérfræðingur í framhaldsskólamálum, Margrét M. Norðdahl myndlistarkona, Margrét Tryggvadóttir, bókmenntafræðingur og fv. Alþingismaður, Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir, Óli Jón Jónsson kynningar- og fræðslufulltrúi BHM, Ragnar Kjartansson, listamaður, Sigríður Ásta Eyþórsdóttir (Sassa) iðjuþjálfi í Hagaskóla, Sigurþóra Bergsdóttir, vinnusálfræðingur, Símon Birgisson, dramatúrgur, Steinunn Dögg Steinsen, verkfræðingur, Sveinn Runar Hauksson, læknir, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, trans aðgerðasinni, Una Hildardóttir, upplýsingafulltrúi, Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, Þórarinn Snorri Sigurgeirsson sagnfræðingur og formaður Ungra jafnaðarmanna og Þröstur Ólafsson hagfræðingur.

Sérmenntað starfsfólk: Adda María Jóhannsdóttir, framhaldsskólakennari og bæjarfulltrúi, Anna Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri, Páll Valur Björnsson grunnskólakennari, Steinar Harðarson, vinnuverndarráðgjafi, Þorsteinn V. Einarsson, deildarstjóri í frístundamiðstöð og Fjölnir Sæmundsson, lögreglufulltrúi.

Skrifstofufólk: Enginn

Þjónustu- og verslunarstörf: Orri Páll Jóhannsson, landvörður, René Biasone, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, Margrét Pétursdóttir, aðstoðarmaður tannlæknis og Esther Bíbí Ásgeirsdóttir, starfsmaður Kvikmyndasafns Íslands.

Bændur og fiskimenn: Enginn

Iðnaðarfólk: Reynir Sigurbjörnsson rafvirki

Véla- og vélgæslufólk: Enginn

Ósérhæft starfsfólk: Enginn

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram