Í alvöru!

Símon Vestarr Pistill

Ókei, hættum nú þessu kjaftæði og tölum aðeins saman í alvöru.

82 prósent af þeim auð sem var skapaður á plánetunni árið 2017 rann í vasa hins allra ríkasta prósents jarðarbúa. Gleymdu í smástund hvað þér finnst sósíalismi vera óraunhæfur. Sjáðu bara fyrir þér partí með tíu gesti.

Allir urðu svangir og lögðu í púkk fyrir fimm pizzum. Sendillinn kom og Siggi fór til dyra með seðlana frá mannskapnum. Svo stóð hann í forstofunni og hámaði í sig fjórar heilar pizzur og kjagaði prumpandi inn í stofuna með hina síðustu. „Er ég ekki helvíti almennilegur að leyfa ykkur að skipta á milli ykkar síðustu pizzunni?”

Finnst þér Siggi hafa verið helvíti almennilegur? Ekki? Hvernig væri þá sleppa því að bjóða honum næst? Hann gerir þetta í hvert einasta skipti!

Nú hugsarðu kannski: þetta er ekki hliðstæða við kapítalismann. Og það er satt. Ég er of mjúkhentur. Í dæmisögunni minni er Siggi tíu prósent viðstaddra. Til að líkingin haldi vatni er ekki nóg að hann borði frá níu manns heldur nítíu og níu. Auðmaðurinn stendur í forstofunni og borðar fjörtíu af þeim fimmtíu pizzum sem voru pantaðar og nítíu og níu manns þurfa að skipta á milli sín þeim tíu sem eftir eru. Þau fá hér um bil ein sneið á mann ef hver baka er skorin í tíu búta. Og Siggi át fjörtíu. Heilar. Pizzur.

Þú hugsar kannski: ef Siggi er ríkasta eina prósentið þá gefur hann mest frá sér í samneysluna. Borgar hann ekki hæstu skattana? En þá ertu að rugla saman raungildi og skiptagildi. Gleymdu orðum eins og skattar og samneysla. Leggðu meira að segja til hliðar peningahugtakið. Peningar eru ekki auður heldur ávísun á eignarhald á auði. Sjáðu þetta heildstætt fyrir þér:

Hvað skapar auð? Vinna. Og 82 prósent af auðnum fer í vasa fólksins í fínu fötunum. Eiga ekki allir að fá að njóta ávaxta erfiðis síns? Hefur fólkið í fínu fötunum virkilega unnið svona mikið meir en hin 99 prósentin? Vinnur einn milljarðamæringur á við nítíu og níu aðra? Hvað í andskotanum gæti ein manneskja gert til að verðskulda þessa ónáttúrulegu yfirburðastöðu?

Ekki segja: tja, svona er þetta bara.

Svona er þetta af því að við erum ekki búin að koma okkur saman um að breyta þessu.

Ekki segja: þetta hefur verið svona svo lengi að það á aldrei eftir að breytast.

Þrælahald var við lýði árhundruðum saman og fyrir rétt rúmri öld þótti það fáránleg hugmynd að konur fengju kosningarétt. Eða eigum við að tala um viðhorf til giftinga samkynhneigðra fyrir þrjátíu árum?

Ekki segja: vertu raunsær.

Vert þú raunsær!

Hvað heldurðu að þetta gangi lengi? Hvað heldurðu að fólk láti lengi nota sig sem rauðan dregil fyrir þá sem halda að þeir séu guðir á meðal manna? Hvað heldurðu að vistkerfi okkar þoli rányrkju okkar í þágu stjarnfræðilegs gróða ríka prósentsins lengi áður en þau gefa sig endanlega? Heyrirðu ekki brakið í spilaborginni, manneskja? Ertu með dulu fyrir augunum og sokka í eyrunum?

Sá sem sagði þér að endalok kapítalismans myndu leiða af sér endalok hagsældar gleymdi að segja þér að kapítalisminn er á góðri leið með að valda endalokum dýrategundarinnar sem þú tilheyrir. Að tala um þá áhættu sem fylgi því að útrýma auðvaldsskipulaginu sem við búum við er eins og að skamma farþegana í bílnum sínum fyrir að vera ekki með sætisbeltin spennt eftir að maður keyrir fram af kletti.

Heldurðu kannski að Siggi gefi þér aukasneið ef þú hjálpar honum að svíkja okkur hin? Eða jafnvel að þú verðir Siggi einn daginn? Heldurðu í vonina um það? Í guðs bænum fáðu þér þá smá sjálfsvirðingu. Er ekki betra að deyja standandi í lappirnar en lifa nötrandi á hnjánum?

Þú veist að þetta er rétt, félagi.

Komdu út úr skápnum og slástu í hópinn með okkur.

Þú ert ekki fáviti.

Þú ert sósíalisti.

Í alvöru, maður.

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram