Aðför Vigdísar Hauksdóttur að mannréttindum í Reykjavík

Ynda Gestsson Pistill

Mannréttindi eru ein af mikilvægustu grunnstoðum Sósíalistaflokksins og í stefnuskrá flokksins segir meðal annars: „…að tryggja að grunnþörfum allra íbúa sveitarfélaga sé mætt, almenn velferð verði veruleiki fyrir alla, að allir lifi með reisn og önnur mannréttindi séu virt í takt við fremstu ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga…“ Einnig er talað um að framfylgja þurfi „ítrustu kröfum um jafnrétti í skólastarfi…“ Í þessu felst að ekki má mismuna fólki vegna kynþáttar, stéttar, kyns, kynvitundar og kynhneigðar svo nokkur dæmi séu nefnd. Þannig eiga hælisleitendur, flóttafólk og hinsegin fólk (e.LGBTQIAK+) rétt á því að lifa við frelsi til að vera þau sem þau eru án þess að vera beitt ofbeldi eða kúgun hvorki til orðs né æðis.

Til þess að gryggja þennan rétt er nauðsynlegt að Reykjavíkurborg reki áfram Mannréttindaskrifstofu. Þetta er ein af grunnstoðum lýðræðis í borginni og það má aldrei bregða fæti fyrir það mikilvæga starf sem þar er unnið í þágu borgaranna. Þess vegna brá mér mikið þegar ég hlustaði á Vigdísi Hauksdóttur í þættinum Vikulokin þann 28.04. s.l. því þar sagði þessi oddamaður Miðflokksins: að sér finnist mannréttinda- og lýðræðisráð „ótrúleg sóun á fjármunum“.

Þetta sagði frambjóðandi sem seilist til valda í Reykjavík. Þetta er svo fáheyrt að undarlegt má teljast að nokkur geti látið þetta sér um munn fara. Þarna teflir frambjóðandinn þúsundum Reykvíkinga í hættu. Hún vill vill tefla jaðarsettum borgurum sem eru í viðkvæmri stöðu í hættu til þess að „spara pening“. Ef frambjóðandinn ætlar með einu pennastriki að slá mikilvægt starf Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar útaf borðinu tel ég vafasamt að hún eigi erindi í framboð.

Einn af þeim samfélagshópum borgarinnar sem hefur notið góðs af mannréttindastarfi borgaryfirvalda er Samtökin ´78 sem í dag 9. maí fagna 40 ára afmæli sínu. Ef frambjóðandinn Vigdís Hauksdóttir ætlar að halda upp á afmæli samtakanna með því að loka Mannréttindaskrifstofu af því hún kallar starf hennar sóun á fjármunum hefur þjónkun við fordóma náð nýjum hæðum. Á meðan enn er ráðist með hatursorðræðu og líkamlegu ofbeldi á hinsegin fólk og Ísland  hrapar neðar og neðar á réttinda skrám ILGA (International Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Iintersex Association) er meiri ástæða til þess að efla og bæta mannréttindastarf á vegum borgarinnar en að slá það af eins og frambjóðandinn hótar að gera. Það má ekki gerast að mannréttindi í borginni verði færð aftur til járnaldar í anda nýrra myndbanda frá auglýsingastofu Miðflokksins.

Sósíalistaflokkurinn mun beita sér fyrir því að mannréttindi verði efld í borginni og munum við koma í veg fyrir þau mannréttindabrot sem Vigdís Hauksdóttir boðar fyrir hönd flokks síns.

Ynda Gestsson
frambjóðandi Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram