Ekki hægt að ræða fjárhagsáætlun án þess að ræða aukin gjöld á hin ríku

Gunnar Smári Egilsson Frétt

Yfirlýsing vegna sósíalista í borgarstjórn vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2019:

Mótun fjárhagsáætlunar stendur nú yfir hjá öllum ráðum Reykjavíkurborgar. Fjárhagsáætlun byggir á rammaáætlun og er miðað við að allir útgjaldaliðir rúmist innan hennar. Ætlast er til að fulltrúar í ráðum borgarinnar aðlagi tillögur sínar að þessum ramma, ef þeir vilja auka framlög til tiltekins málefnis verði þeir að leggja til að skorið verði niður til annars málefnis. VIÐ HÖFNUM ÞESSU ALFARIÐ! Við sættum okkur ekki við að vinna að fjárhagsáætlun þegar búið er að höggva frá mikilvægustu álitamál stjórnmálanna og innan ramma sem byggir á arfleið nýfrjálshyggjunnar. Það er ekki hægt að setjast niður við fjárhagsáætlun borgarinnar án þess að spyrja fyrst hvar eru framlög fyrirtækja og hinna ríku? Fyrir fáum árum var aðstöðugjald fyrirtækja lagt af. Þau greiða ekki lengur fyrir þá innviði sem rekstur þeirra byggir á. Hvers vegna greiða fyrirtækin ekki dagvist barna? Er dagvistin ekki einmitt forsenda þess að launafólkið mæti til vinnu? Hvernig stendur á því að auðugasta fólkið í Reykjavík borgar ekki krónu í útsvar og leggur ekkert til reksturs borgarinnar? Allra ríkasta fólkið, 0,1% þeirra sem sölsað hafa undir sig mestum auð á liðnum áratugum, hefur allar tekjur sínar af fjármagni en borgar af þeim tekjum ekkert útsvar. Hér hafa aðeins verið tekin tvö dæmi af því hvernig tekjuöflunarkerfi sveitarfélaga voru sköðuð á nýfrjálshyggjutímanum svo hin ríku kæmust undan því að greiða til samfélagsins. Þetta er fílinn í herberginu. Ástæða þess að Reykjavíkurborg hefur svikið fjölskyldur sem hafa orðið undir húsnæðiskreppunni, ástæða þess að borgin greiðir starfsfólki sínu skammarlega lág laun og ástæða þess að borgin svíkur viðkvæma hópa um nauðsynlega þjónustu er sú, að borgin hefur þegar fært hinum ríku óheyrilegar fjárhæðir með því að innheimta ekki af þeim sjálfsagða skatta. Vald til að leggja skatta og gjöld á hin ríku liggur ekki alfarið hjá Reykjavíkurborg, en það er fráleitt að setjast niður og ræða fjárhagsáætlun án þess að ræða fyrst stórkostlegar fjárveitingar til auðugasta fólksins í formi niðurfellingar útsvars og gjald á tekjur þeirra. Með því að beygja sig undir rammaáætlun værum við að samþykkja þetta óréttlæti, að hin ríku geti komist undan því að borga til samfélagsins og hafi fært allar byrðar af rekstri Reykjavíkurborgar yfir á launafólk og almenning. Við neitum því að forsenda þess að auka þjónustu við almenning sé sú að skera niður þjónustu við almenning. Við viljum byrja á því að ræða hvernig leggja megi gjöld á fjármagnstekjur hinna ríku og eðlilega endurgreiðslu fyrirtækja fyrir þá þjónustu og aðstöðu sem borgin veitir þeim.

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi
Daníel Örn Arnarsson varaborgarfulltrúi

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram