Skattleggjum hin ríku til að byggja um góðar almenningssamgöngur
Pistill
15.10.2019
Samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu inniheldur ýmislegt mjög jákvætt og ég fagna sérstaklega uppbyggingu almenningssamgangna. Það er mikilvægt fyrir þá sem treysta algjörlega á almenningssamgöngur, að hér sé sett fram heildstætt og gott kerfi. Öflugar almenningssamgöngur, sérstaklega því náttúruvænni sem þær eru, eru einnig mikilvægur þáttur í umhverfisvernd, sem lykill í því að draga úr mengun og þess vegna er nauðsynlegt að leggja meira í þær, svo að þær séu áreiðanlegur kostur sem fleiri sjá sér fært að nota. Það hefur lengi verið ákall um að stórbæta almenningssamgöngur og rekstur þeirra á að vera þannig að þær teljist sjálfsögð þjónusta við íbúa.
Nauðsynlegt er að leggja meira í almenningssamgöngur. Slíkt þarf að eiga sér stað bæði á framkvæmdastiginu og hins vegar með því að tryggja að raddir þeirra sem nota almenningssamgöngur komi meira að borðinu í þeirri uppbyggingu svo að þær verði byggðar upp samkvæmt væntingum þeirra sem nota þær. Ef markmiðið er að fá fleiri til þess að nota strætó og síðar meir Borgarlínu þá tel ég að meira þurfi til en flott kerfi. Það þarf að vera kerfi sem fólk hefur reynslu af því að virki vel og það hefur því miður ekki alltaf verið þannig. Þess vegna er svo mikilvægt að tryggja að þessar raddir þeirra sem treysta nú á strætó, komi að borðinu og komi að mótun leiðakerfa, tíðnitöflu, biðskýlamálum, fargjaldaverðum og á hvaða tímum vagnarnir ferðist. Þannig byggjum við upp gott kerfi sem hægt er að reiða sig á.
Uppbygging almenningssamganga er mikilvæg og eins og áður hefur komið fram, þá teljum við sósíalistar að þetta eigi að vera fjármagnað úr sameiginlegum sjóðum okkar, þess vegna leggjum við þessa fyrirvara fram. Við teljum að skattarnir eigi að greiða fyrir þessa uppbyggingu og getum ekki samþykkt svokölluð flýti- og umferðagjöld. Í samningnum sem hér liggur fyrir er talað um að gjöldin eigi m.a. að flýta fyrir framkvæmdum við uppbyggingu á fyrsta áfanga Borgarlínu og uppbyggingu stofnstígakerfis fyrir göngu- og hjólreiðar. Þá auðvitað spyr maður sig af hverju almenningur eigi að greiða ofan á skatta fyrir það að hér byggist upp góðar almenningssamgöngur og góðir göngu- og hjólreiðastígar á skömmum tíma? Er þetta ekki einmitt ástæða þess að við greiðum skatta, að hér getum við haft góð sameiginleg innviðakerfi, m.a. góðar almenningssamgöngur og góða göngustíga? Hér er verið að leggja til að við samþykkjum það að leggja gjöld á fólk, til að greiða fyrir uppbyggingu almenningssamganga, á sama tíma og við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að tekjur og innkoma fólks er ekki skattlögð jafnt, t.d. ef við skoðum launatekjur og fjármagnstekjur. Það eru þessar forsendur sem ganga ekki upp.
Markaðsvæðing grunnkerfa er það sem blasir við manni nái þessi fjármögnun veggjalda fram að ganga. Á fólk allt í einu að fara að greiða fyrir ferðir upp Ártúnsbrekkuna? Á núna að fara að greiða fyrir það sem áður var gjaldfrjálst? Og hver á að halda utan um þetta kerfi sem sér um að innheimta veggjöld? Við höfum áhyggjur af því að þessi gjöld munu leggjast með mestum þunga á lágtekjufólk, þar sem veggjöldin eru föst krónutala og því hlutfallslega hærri kostnaður fyrir lágtekjufólk samanborið við aðra. Þá er talað um að vegggjöld verði innheimt á ákveðnum svæðum og það mun líka því ekki hafa jöfn áhrif á alla, það fer eftir því á hvaða svæði er keyrt. Þessar tillögur eru ekki til þess fallnar að hafa jöfn áhrif á alla. Af þessum ástæðum sem ég hef talið hér upp, leggjum við sósíalistar fram þessa fyrirvara.
Keldnalandið er til umfjöllunar í samningnum og undir lið númer sex, sem fjallar um fyrirkomulag samstarfs, þar kemur fram að félag sem er í sameiginlegri eigu ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi þann tilgang að hrinda í framkvæmd efni samkomulagsins. Í samkomulaginu stendur orðrétt að: „Félagið taki við Keldnalandi og annist þróun þess með það að markmiði að hámarka verðmæti þess.“ Þegar fregnir bárust þess efnis um að Keldnalandið yrði selt til að fjármagna samgönguupbyggingu þá augljóslega höfðu verkalýðsfélögin áhyggjur af því að þarna hafði tilgangi með framlagi Keldnalandsins inn í lífskjarasamninginn til uppbyggingar hagkvæms húsnæðis verið breytt til þess að fjármagna samgönguuppbyggingu. Við sósíalistar tökum undir þessar áhyggjur, í samningum kemur fram að markmiðið sé að hámarka verðmæti Keldnalandsins. Ef landið fer í útboð til hæstbjóðenda þá eru svo miklar líkur á því að það leiði til hás húsnæðisverðs fyrir þá sem koma til með að búa þar í stað þess að áherslan verði lögð á hagkvæmt húsnæði.
Borgin er með samningsmarkmið á nýjum uppbyggingarsvæðum, þar sem miðað er við að um 20% íbúða verði leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttar og/eða íbúðir í eigu Félagsbústaða og stefnt að því að Félagsbústaðir hf. hafi kauprétt fyrir allt að 5% íbúða. Með þessum fyrirvara erum við að víkka það út en frekar og tryggja það að þeir sem hafa áhuga á að byggja sér húsnæði á þessu svæði og eru í þörf fyrir slíkt komi til með að fá úthlutað lóð þar. Þannig fyrirbyggjum við að aðilar hagnist á því að byggja upp húsnæði fyrir fólk og tryggjum það að þeir sem eru í þörf fyrir húsnæði fái hagkvæmt húsnæði, í stað þess að þeir sem eru með mesta fjármagnið fái lóðirnar. Með því að úthluta til húsbyggjenda, verkamannabústaða, byggingarsamvinnufélaga og þar með talið byggingarsamvinnufélaga leigjenda sem hefðu áhuga á að byggja sér húsnæði þar, má tryggja að svæðið fari í úthlutun til fjölbreyttra aðila. Þannig má tryggja að þar verði allskonar íbúðir en að markmiðið sé alltaf á hagkvæmt húsnæði og tryggt að þar komist enginn að sem hefur það eina markmið að græða fjárhagslega á þeim sem eru í þörf fyrir húsnæði.
Við erum hér til þess að skapa góða borg, þar sem húsnæðismálin og samgöngumálin falla undir og því legg ég fram eftirfarandi viðaukatillögu um fyrirvara við samþykkt samkomulags ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 2033:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir sáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, með eftirfarandi fyrirvörum. Í fyrsta lagi að fallið verði frá öllum fyrirætlunum um flýti- og umferðargjöld, eða svokölluðum veggjöldum sama hvaða nöfnum þau kunna að nefnast. Í öðru lagi að Keldnaland verði ekki selt til hæstbjóðenda heldur úthlutað til húsbyggjenda, verkamannabústaða, byggingarsamvinnufélaga, þar með talið byggingarsamvinnufélaga leigjenda og annarra sem hafa áhuga á að byggja sér húsnæði þar. Í þriðja lagi að lagt verði meira í Borgarlínu og strætó og að tryggt verði að almenningssamgöngur verði byggðar upp samkvæmt væntingum þeirra sem nota þær.
Sanna Magdalena Mörtudóttir