Ættum að byrja á tekjunum

Sanna Magdalena Mörtudóttir Pistill

Í dag ræddum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020, ásamt fimm ára áætlun fyrir árið 2020-2024. Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpi að fjárhagsáætlun er grundvallarhlutverk A-hluta Reykjavíkurborgar [rekstur sem er að hluta eða öllu leyti fjármagnaður með skatttekjum] „að veita íbúum Reykjavíkur góða þjónustu með sem hagkvæmustum hætti og leggja með skýrri framtíðarsýn í fjármálum grunn að auknum lífsgæðum borgarbúa til lengri og skemmri tíma“.

Þannig að við eigum að veita góða þjónustu og leggja grunn að auknum lífsgæðum með skýrri framtíðarsýn í fjármálum. Þar finnst mér nauðsynlegt að við ræðum þætti eins og ábyrga fjármálastjórn í launamálum. Reykjavíkurborg er einn af stærstu vinnustöðum landsins með um 9000 þúsund manns sem starfa hér en ég get ekki séð að við séum með neina heildræna launastefnu sem skoðar launamálin í heild sinni. Á meðan það hefur ekki verið samið við hina lægst launuðu í borginni sjáum við að hinir hæst launuðu sem starfa hér hjá borginni eru með margfalt hærri laun. Er það ábyrg fjármálastjórn? Er fjármunum best varið á þann veg? Þurfum við ekki að taka umræðu um hvað telst vera ásættanlegt launabil innan borgarinnar í heild sinni, sem einn vinnustaður?

Reykjavíkurborg stendur gegn bættum lífskjörum verkafólks

Við sósíalistar höfum lagt fram ýmsar tillögur sem snúa að því að ræða þessi mál og skoða þau í samhengi en þær hafa ekki fengið hljómgrunn en allt eru þetta þættir sem ég tel nauðsynlegt að skoða þegar fjármál borgarinnar eru til umræðu. Ég tel þetta sérstaklega mikilvægt þegar kemur að því að vera með skýra framtíðarsýn í fjármálum og leggja grunn að auknum lífsgæðum. Á hvaða vegferð erum við þegar borgin getur ekki samið við hina lægst launuðu? Hér er talað um að það sé stór óvissuþáttur að það eigi eftir að semja við opinbera starfsmenn og við vitum að það á eftir að semja við marga sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Það er talað um aukin lífsgæði og kjaramál og hér erum við að ræða fjármál borgarinnar og hvernig við ætlum að skipta kökunni og enn á eftir að semja við marga sem vinna fyrir Reykjavíkurborg. Getur einhver upplýst mig um stöðu mála í þessum efnum? Á samningavefsíðu Eflingar kemur eftirfarandi fram sem veitir okkur innsýn í stöðu mála:

„Efling hefur setið nokkra fundi með Reykjavíkurborg. Enginn árangur hefur náðst sem hönd er á festandi. Samninganefnd Eflingar er ekki vongóð að sú nálgun sem ríkt hefur á fundum skili árangri. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara 17. september. Það hefur komið samninganefnd Eflingar verulega á óvart að sjá afstöðu borgarinnar til styttingar vinnuvikunnar. Væntingar stóðu til þess að um raunstyttingu á vinnutíma væri að ræða, enda hefur Reykjavíkurborg verið í fararbroddi tilraunaverkefnis um þannig styttingu, með mjög góðum árangri. Þessum árangri hefur Reykjavíkurborg hampað á málþingum og fundum. Einnig má nefna að í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga töluðu allir flokkar sem nú sitja í meirihluta fyrir raunstyttingu vinnuvikunnar. Í krafti þeirra loforða til starfsmanna og íbúa borgarinnar fara þessir flokkar nú með völd í borginni.“

Ég spurði hver staðan væri í þessum málum og lagði fram formlega spurningu í ræðu minni um hvað væri að frétta í þessum málum. Allt þetta tal um styttingu vinnuvikunnar hjá borginni og enn ekki búið að semja. Það er nauðsynlegt að borgin gangi að eðlilegum kröfum starfsfólksins og bæti starfsaðstæður þeirra. Annað gengur ekki.

Mikilvægt að innheimta útsvar af fjármagnstekjum

Það kemur fram að ákveðin langtímamarkmið skuli mynda forsendur fimm ára áætlunar A-hluta, það er talað um sjálfbæran grunnrekstur í greinargerð með frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2020. Þar vil ég að sjálfsögðu minna á mikilvægi þess að leggja útsvar á fjármagnstekjur, það er ekki hægt að reka borg án þess að innheimta gjöld frá þeim með hæstu tekjurnar en rukka bara slíkt af þeim sem hafa launatekjur eða eru með tekjur frá almannatryggingum. Það var lögð fram tillaga að sömu álagningarhlutfalli útsvars og þar kom fram að „Um 83% af útsvarsstofni Reykjavíkurborgar er til komin vegna launagreiðslna einstaklinga á vinnumarkaði og um 17% má rekja til annarra greiðslna, s.s. lífeyrisgreiðslna, örorkubóta og atvinnuleysisbóta. Tvær mikilvægustu forsendur áætlana um útsvarstekjur eru því þróun launa og vinnumagns í Reykjavík.“

Við vitum það að útsvarið er einn veigamesti tekjustofn sveitarfélaganna og mér finnst sláandi að sjá að 83% af útsvari er komið frá launafólki en 17% frá öðrum svo sem þeim sem eru á örorkubótum, fá tekjur frá lífeyrisgreiðslum eða atvinnuleysisbótum en við vitum að þeir aðilar eru oft mjög tekjulágir og það er 0 sem við sjáum í útsvari frá fjármagnstekjum. Þeir einstaklingar sem hafa oft mjög háar tekjur í formi fjármagnstekna og lágra launatekna og nota þjónustu borgarinnar til jafns á við aðra borgarbúa greiða lítið sem ekkert til borgarinnar í formi útsvars, þar sem ekkert útsvar er lagt á fjármagnstekjur líkt og launatekjur. Eins og þið hafið oft heyrt mig segja þá tel ég gríðarlega mikilvægt að koma því á og slíkt yrði mikilvægur tekjustofn sveitarfélaganna og er líka sanngirnismál, að hér greiði allir af tekjum sínum til sveitarfélagsins sem þeir búa í. Það er þó gott að það hafi verið samþykkt að vinna áfram með tillögu okkar sósíalista um útsvar á fjármagnstekjur og að sú tillaga hafi verið tekin til nánari skoðunar.

En mér finnst við þó dálítið vera að byrja á öfugum enda þegar við sitjum hér og ræðum hvernig eigi að skammta fjármagni á ólíka liði. Að svið borgarinnar fái ákveðin fjárhagsramma sem þau eigi að vinna út frá og þurfi að forgangsraða málum innan fjárheimilda. Við vitum að það er miklu meira sem við eigum að vera að gera og vitum að við þurfum að vera að gera í verkefnum borgarinnar en höfum ekki verið að leitast við að styrkja tekjugrunna borgarsjóðs, t.d. út frá útsvarsmöguleikum sem ég nefndi hér áðan. Þess vegna finnst mér ekki að við eigum að vera að forgangsraða mikilvægum verkefnum á kostnað annarra mikilvægra verkefna, þegar við erum ekki einu sinni að rukka ríka fólkið fyrir þjónustu sem það nýtir til jafns á við aðra borgarbúa sem hér búa.

Lóðum á að úthluta, ekki selja á uppboði

Þegar við skoðum liðinn sem fjallar um sjálfbæra fjármögnun fjárfestinga, þá kemur fram að fjárfestingar A-hluta skulu almennt fjármagnaðar af rekstri að teknu tilliti til reglulegra tekna af gatnagerðargjöldum og sölu lóða. Með sölu lóða, þá er verið að vísa til byggingarréttargjalds.

Áður fyrr var lóðum úthlutað til þeirra sem byggðu sér síðan upp heimili sín en núna eru lóðir seldar í útboði og ég tel að við getum líka ekki verið að treysta á sölu byggingarréttar sem uppsprettu tekjulindar og spyr hver framtíðarsýnin er í þessu, er litið svo á að þetta eigi að tryggja jákvæða rekstrarafkomu borgarsjóðs til lengdar? Því þetta hefur verið stór liður í því. Eins og áður sagði, þá var það áður þannig að lóðum var úthlutað til þeirra sem að höfðu áhuga á því að búa þar í stað þess að lóðir fóru til hæstbjóðanda með mesta fjármagnið, þannig að ég skil ekki af hverju við getum ekki frekar farið í þá átt að úthluta lóðum til húsbyggjenda, verkamannabústaða og byggingarsamvinnufélaga eins og til dæmis byggingarsamvinnufélaga leigjenda og þá fer uppbyggingin fram á forsendum þeirra sem muna búa þar. Ég sé sölu byggingarréttar sem gjaldtöku á eignum almennings og spyr því hversu mikið er verið að treysta á sölu lóða og byggingarréttargjalds sem fjármögnunarleið?

Ekkert sést til uppbyggingar félagslegs húsnæðis

Varðandi húsnæði þá kemur fram að „Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár stutt vel við uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði fyrir þann hóp sem ekki getur séð sjálfum sér og sínum fyrir húsnæði“. Eins og staðan er í dag miðað við núverandi tölur inni á velstat, tölfræðivef Reykjavíkurborgar kemur fram að 752 séu á biðlista. Mér finnst það ekki endurspegla góðan stuðning við uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði. Að mínu mati hefur orðræða meirihlutans lagt höfuðáherslu á að árangur hafi náðst í því að stytta biðlistann, en ég sé hvað það eru margir enn þá á honum, það eru enn þá 752 einstaklingar sem eru að bíða. Og þar af eru 191 að bíða eftir 3 herbergja íbúðum eða stærri íbúðum þannig að það má áætla að það séu barnafjölskyldur, þannig að fjöldinn sem er að bíða er miklu meiri en 752 einstaklingar, þar eru líka börn að bíða. Þannig að þegar það er talað um að vel hafi verið stutt við uppbyggingu á félagslegu húsnæði þá sést það ekki í þessum tölum. Við verðum að tryggja það að þeir einstaklingar sem geta ekki séð sér og sínum fyrir húsnæði, komist í öruggt skjól.

Í tengslum við það var er ég með spurningar sem tengjast biðlistanum. Nýjar reglur um félagslegar leiguíbúðir voru samþykktar í maí 2019 en þær tóku ekki gildi fyrr en einhverju síðar. Ef við skoðum fjölda á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð í apríl 2019 þá var fjöldinn 876 svo fer talan lækkandi og í nóvember 2019 eru 752 einstaklingar á biðlista, þannig að það eru 124 færri á biðlista. Ef við tökum saman fjölda úthlutana fyrir alla mánuðina frá apríl til september, þá er heildarfjöldi úthlutana 76 íbúðir en það vantar þarna inn tölur fyrir úthlutanir í október og nóvember sem skiljanlega eru ekki komnar inn. Fyrir einhverju síðan lagði ég inn fyrirspurn um hvort að einhver hafi fallið af biðlistanum í kjölfar áherslubreytinga í nýjum reglum. En ég mun kalla eftir upplýsingum um það hversu margir hafa fengið úthlutað í október og hvort að öll fækkun á biðlista sé tilkomin vegna úthlutana.

Félagsbústaðir er B-hluta fyrirtæki, þ.e.a.s. það skilgreinist sem fjárhagslega sjálfstætt fyrirtæki í eigu borgarinnar. Félag sem sér um félagslegar leiguíbúðir borgarinnar á að vera fjárhagslega sjálfstætt fyrirtæki. Hvernig gengur sú mynd upp? Ég veit að Reykjavíkurborg hefur veitt Félagsbústöðum einhver framlög en í grunninn gengur þetta ekki upp, þetta er á ábyrgð borgarinnar. Það er ekki hægt að segja að Félagsbústaðir og tekjgrunnur, það er að segja leigutekjur frá íbúum sem eru tekjulágir borgarbúar, eigi að vera grunnurinn sem haldi uppi þessari ábyrgð og fjárhagslegri sjálfbærni. Reykjavíkurborg ber hér ábyrgð fyrir því að tryggja að þeir sem eru að bíða eftir öruggu húsnæði komist í öruggt skjól en séu ekki að bíða til lengdar. Svo eru margir sem að komast ekki einu sinni á listann þar sem þeir uppfylla ekki skilyrðin um að geta fengið félagslega leiguíbúð en eru samt í brýnni þörf fyrir húsnæði en eru bara í ömurlegri stöðu og við sem borg þurfum að grípa inn í af meira krafti og ég sé ekki skýr merki þess í fjárhagsáætlunargerð.

Launahækkanir hækka útsvar, óþarft að hækka gjöld

Ef við snúum okkar síðan að gjaldskrárhækkunum, þá velti ég fyrir mér í því samhengi hvort að hækkun launa almennt sem hefur að einhverju leyti átt sé stað upp á síðkastið leiði ekki til aukinna útsvars inn í borgarsjóð? Þ.e.a.s. hærri laun borgarbúa leiði til meiri tekna fyrir borgarsjóð og velti því fyrir mér hvort að það sé þá nokkuð þörf á öllum þessum gjaldskrárhækkunum? Ég er sérstaklega á móti gjaldskrárhækkunum sem tengjast þjónustu við börn, þau hafa engar tekjur þannig af hverju erum við að rukka þau? Ég tel að útgangspunktur okkar í þjónustu við börn, ætti að vera engar tekjur engin gjöld, þannig getum við skapa barnvænni borg. Þá er sérstaklega mikilvægt að skoða að gjaldtaka komi ekki illa niður á þeim sem standa verst og þá sérstaklega t.d. hvað varðar gjaldskrá velferðarsviðs en hún nær til margra aðila og þar með talið eldri borgara sem hafa margir hverjir oft lítið á milli handanna. Einn liðurinn í gjaldskrárhækkunum snéri að launahækkunum fyrir stuðningsfjölskyldur og ég óskaði eftir því að það yrði kosið sér um þann lið, þar sem ég styð það heilshugar en styð ekki gjaldskrárhækkanir á alla hina liðina sem verið er að leggja til að hækki.

Varðandi gjaldskrárhækkanir almennt þá kemur fram í greinargerð að: „Gjaldskrártekjur vegna þjónustu aukast um 2,5% til samræmis við tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga.“ En þegar tillögur að gjaldskrárhækkunum eru skoðar þá er ýmislegt sem er hærra en það. Það er t.d. lagt til hjá ÍTR að 10 miða sundkort barna hækki um 2,9% sem er hærra en þessi 2,5% og árskort barna hækkar um 2,8% samkvæmt þessari tillögu og ég get ekki samþykkt svona hækkanir.

Fasteignaskatta á eign frekar en fasteignagöld á skuldir

Að lokum hafði ég þetta að segja um fyrirkomulag afsláttar til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2020: Það er mikilvægt að tryggja að gjaldtaka komi ekki niður á þeim verst settu í borginni. Fasteignagjöld leggjast jafnt á eignir og skuldir, sá sem býr í skuldlausri íbúð greiðir fasteignagjöld og sá sem býr í sambærilegri íbúð en skuldar hana alla, þ.e.a.s. á ekkert eða lítið í henni, greiðir líka fasteignagjöld. Ég tel mikilvægt að endurskoða innheimtu fasteignaskattsins m.a. svo að hann taki ekki hækkunum samhliða markaðshækkunum á verði íbúðarhúsnæðis og verði mjög íþyngjandi. Hér var ég innblásin og var hér innblásin af því sem Starfsgreinasambandið hafði að segja um fasteignaskatta í kröfugerð sinni gagnvart stjórnvöldum í tengslum við kjarasamninga í árslok á síðasta ári.

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram