Ásta Dís: Þekki því á eigin skinni fárækt, heilsubrest og félagslega einangrun

Hin Reykjavík

5. Ásta Þórdís Guðjónsdóttir
Hin Reykjavík

„Ég er 52 ára, Vestfirðingur í húð og hár og bý að því að vera sveitastelpa ættuð úr Djúpinu. Í sveitinni lærði ég að nýta, gera við og endurnýta alla hluti enda skiptir lagni og verkvit öllu máli í lífsbaráttunni þar og ekki í boði að skreppa í búð eftir einhverju smáræði.

Móðir mín er hreyfihömluð kona sem ég lærði margt af en hún lét fötlun sína aldrei koma í veg fyrir að hún gerði það sem hún ætlaði sér, pabbi minn er bifvélavirki en vann lengi vel sem leigubílstjóri. Eiginmaður minn er Eggert Bjarki Eggertsson sölumaður hjólbarða og alhliða dekkjasérfræðingur. Við erum búsett í Bakkahverfi í Breiðholti og við eigum samtals 4 uppkomin börn. Við vorum hér áður fyrr á flakki á milli leiguíbúða, sem er bæði óöruggt og lýjandi, en keyptum svo íbúðina okkar 1999 og erum því búin að vera á sama stað í Breiðholtinu í 19 ár.

Strax á unga aldri var ég sannfærð um að það væri eitthvað að samfélagi sem krefðist þess að allir pössuðu í fyrir fram mótuð box. Konur ættu og mættu bara að gera vissa hluti, en karlmönnum væri ætlað eitthvað allt annað. Og þar sem ég vissi ekki hvað ég vildi prófaði ég því ýmislegt sem ekki þótti sérlega kvenlegt s.s. mótauppslátt, handlang hjá múrarameistara, tók svo meirapróf og keyrði steypubíl svo dæmi séu tekin, en prófaði líka kvenlegri störfin eins og að vinna á hárgreiðslustofu, í fiski og á saumastofu. Ég flutti um tíma til Svíþjóðar, tók sjúkraliðann þar og vann á sjúkrahúsi í Stokkhólmi. Eftir að ég flutti heim aftur prófaði ég ýmis afgreiðslustörf áður en ég skellti mér í bókhalds og skrifstofunám þar sem ég dúxaði og hef ég starfað í þeim geiranum síðan.

Auk þess að hafa fjölbreytta starfsreynslu í farteskinu, bý ég einnig yfir reynslu af fátækt, heilsubresti og félagslegri einangrun í kjölfarið og þekki því á eigin skinni hversu mannskemmandi ferli það er að ganga í gegnum. Mestumvert er þó að ég þekki einnig flóknu skrefin út úr því lífi og veit að það er til líf eftir erfiðleika en í viðleitni minni við að miðla þeirri reynslu minni fór ég alla leið úr fátækt, þunglyndi og félagslegri vanvirkni beint í valdeflingu annarra og fulla félagslega virkni. Ásamt því að hafa stjórnað bingóunum árum saman var ég formaður Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu í 6 ár, sat í stjórn Sjálfsbjargarheimilisins, einnig í stjórn MedicAlert á Íslandi og var ein af stofnendum og stjórnarmaður Skjaldar, félags um skjaldkirtilssjúkdóma.

Síðustu 7 árin hef ég setið í stjórn Evrópsku samtakanna, EAPN (European Anti Poverty Network) sem berjast gegn fátækt á Evrópugrundvelli,og er önnur af tveimur samhæfingarstjórum Pepp Ísland, samtökum fólks í fátækt en þangað eru allir velkomnir sem búa við eða hafa búið við fátækt og félagslega einangrun því það er mikilvægt að leiða saman fólkið í aðstæðunum sem situr uppi með skömmina og fólkið sem er komið út úr aðstæðunum og getur talað um það og miðlað reynslu sinni.“

Ásta Dís er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavíkur. #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram