Hvers vegna sósíalismi?

Úr umræðunni Sögur

„Ég varð fyrir miklum áhrifum af foreldrum mínum og öðrum í fjölskyldunni sem voru í verkalýðsbaráttu, alþýðubandalaginu, herstöðvaandstæðingum og því öllu. En svo var það kannski aðallega Hrunið 2008 sem vakti mig upp eftir að hafa verið meira í svona „eins máls aktívisma“ (Palestínu, umhverfisvernd o.fl.) síðan í menntaskóla. Eftir Hrunið vissi ég að ég væri sósíalisti og að breytingar á efnahagskerfinu væru aðal atriðið! Svo hafði kosningabarátta Bernie Sanders líka mikil áhrif á mig en ég hef búið í Ohio í Bandaríkjunum í sjö ár,“ skrifaði Viðar Þorsteinsson á Facebook-síðu Sósíalistaflokks Íslands og hvatti aðra félaga til að segja frá því hvers vegna þeir hefðu fengið áhuga á sósíalisma.

Steindór J. Erlingsson var fyrstur til svars: „Ég var hægri maður fram að þrítugu. Meistaranám í vísindasögu og tæplega tveggja ára starf sem upplýsingafulltrúi bandaríska sendiráðsins gerðu mig að sósíalista,“ skrifaði Steindór.

„Sem barn ólst ég upp við mikinn jöfnuð,“ skrifaði Einar Símonarson. „Foreldrar mínir bjuggu í öruggu og ódýri leiguhúsnæði gátu auðveldlega fengið ódýrt lán ef þau vildu kaupa sér eign. Faðir minn var með örugga vinnu og gat vel framfleytt okkur og meira til þó hann væri eina fyrirvinnan. Ég fékk allt frítt í barnaskóla, allir fenguð að vera með í öllu án þess að efnahagur réði för. Sá sem stjórnaði þessu öllu hét Olaf Palme.

„Ég er alin upp af fólki sem var í Fylkingunni og gekk Keflavíkurgöngur, hefur alltaf kosið til vinstri og látið sig kjör og réttindi fólks varða, svo að mín gildi eru líklega að miklu leyti mótuð af því,“ skrifaði Erla E. Völundardóttir. „Svo fíla ég bara velferðarkerfið, allavega grundvallarhugmyndina um það, síður þá útfærslu sem við köllum velferðarkerfi á Íslandi í dag.“

„Ég er alin upp af millistéttarsjálfstæðisfólki sem dásamaði hægrið,“ skrifaði Maggý Helga Jóhannsdóttir Möller. „Með auknum þroska og aldri sá ég hvernig foreldrar mínir tilbáðu eitthvað sem var þeim aldrei innan seilingar og gat aldrei orðið. Draumurinn um að verða ríkur og þá væri gott að vera sjalli. Þegar ég áttaði mig á þessu þá var ekki aftur snúið. Ég kýs frekar að vera raunsæ og styðja það afl sem getur stutt mig og þá sem minna mega sín.“

„Gerðist fulltime verkamaður 14 ára. Því meira sem ég þroskast og því meira sem ég læri verð ég vissari um ágæti sósíalismans,“ skrifaði Jón Þórir Guðmundsson.

„Fyrir mér var kreppan 2008 byrjunin, og með tímanum gerði maður sér betri grein fyrir spillingunni og græðginni sem stýrir samfélaginu,“ skrifaði Alexander Árni. „Ár eftir ár er alltaf kosin sami spillti stjórnmálaflokkurinn sem kemst sífellt upp með vanhæfni og sýnir algjöra veruleikafirringu gagnvart þeim sem tilheyra ekki ríku stéttinni. Það þarf að gera afar róttækar breytingar á öllu kerfinu, laga stjórnarskránna sem er ekki gerð fyrir almúgann heldur auðvaldið. Út frá þessum skoðunum næ ég mest að tengja mig við sósíalisma.“

„Hlýt að hafa fæðst með þannig hugarfar vegna þess að ég man ekki eftir mér öðruvísi,“ skrifar María Gunnlaugsdóttir. „Ég var strax sósíalisti sem ungur krakki. Var þó alin upp á framsóknarheimili, en það var reyndar all önnur framsókn en er í dag.“

„Sósíalismi stendur ekki fyrir neinu öðru en samfélagi þar sem jöfnuður ríkir og þeir sem minna mega sín fá þá aðstoð sem þeir þurfa til að lifa mannsæmandi lífi,“ skrifar Bergljót Davíðsdóttir. „Ef einhver heldur að orðið sé eitthvað tengt Karli Marx eða kommúnisma er það mesti misskilningur. Meira að segja eru öfl innan Sjálfstæðisflokksins sem eru sósíalísk og margir þingmenn flokksins eru það í hjarta sínu . Það má segja má að flokkurinn hafi verið nær sósíalisma en frjálshyggju fyrir 1980-90. Það var ekki fyrr en DO með Hannes Hólmstein og aðra viðlíka menn, sem ráðgjafa einkahagsmunirnir urðu ofa á. Mín skoðun er að það sem hamlar vinstri öflunum í landinu er forsjárhyggjan, boðin og bönnin og regluverkið sem ætlar hvern mann að drepa. Það fælir frá. Ég veit satt að segja ekki hvort það er gerlegt að reka samfélag velferðar og um leið frelsi einstaklingsins til að ráða lífi sínu. Hef ekki lagt það fyrir mig að skoða það. En ég vona að við getum rekið velferðarsamfélag án regluverks sem hamlar því að manneskjan fái ráðið lífi sínu en ekki alltaf haft vit fyrir henni og hvað er henni fyrir bestu.“

„Ég las Byltingin á Kúbu eftir Magnús Kjartansson fyrir um 25 árum, ég var nýhættur í skóla, reiður við kerfið, fjölskylduna og bara flesta svo ég varð alveg grjótharður strax,“ skrifar Balti Steinn Gestsson. „Svo mildaðist ég og harðnaði eftir því hvort óréttlætið og sukkið var þolanlegt eða yfirgengilegt.“

„Ég átti mín fyrstu ár í húsi þar sem Einar Olgeirsson bjó og kallaði ég hann víst Einar afa,“ skrifar Guðmundur Bjarnason. „Einar tók ekki stjórnmálin með heim úr vinnunni og var vinsæll meðal flestra. Hann tók Strætó í vinnunna (Alþingi) og var kurteis við alla háa sem lága. Mikið sakna ég hans!“

„Frá því ég var barn og gleypti í mig heimsbókmenntirnar, hlustaði á foreldra mína og afa og ömmur ræða pólitík og fór sjálf að vinna,“ skrifar Ása Jóhanns. „Réttlætiskenndin og samkenndin voru alltaf álíka sterkar og efldust bara frekar en hitt með aldrinum. Ég varð jafnréttissinni sem unglingur og verkalýðsbaráttugen fékk ég með móðurmjólkinni. Ógeð á kerfislægum klíkuskap, snobbi og óréttlæti hefur alltaf fylgt mér.“

„Ég hef verið að færast til vinstri síðan í hruninu og Grikklands krísunni sérstaklega,“ skrifar Guttormur Þorsteinsson. „Það er orðið svo augljóst að nýfrjálshyggjan er að eyðileggja samfélög Vesturlanda og stímir á fullri ferð í krísur vélmennavæðingar og gróðurhúsaáhrifa. Sósíaldemókratar og frjálslyndir vinstrimenn virðast ekki hafa nein svör, heldur beygja sig aftur og aftur undir alræði markaðshyggjunnar. Sá sem hefur hvað helst fengið mig til að endurskoða það sem við tökum sem sjálfsögðu að þessu leyti er líklega David Graeber (en hann er reyndar anarkisti).“

„Fyrir það fyrsta: Græðgi fjármagnseigenda og misskipting á landsins gæðum,“ skrifar Leifur A. Benediktsson. „Í annan stað var Brauðmolakenningin helber lygi sem FLokkurinn reyndi að telja okkur trú um að svínvirkaði, öllum til hagsbóta. Bófarnir gefa nefnilega algjöran skít í okkur og ræna okkur við öll möguleg tækifæri. Og í þriðja lagi vil ég vera hugmyndafræðilega ljósárum frá BjarNa aðalbófa og öllu því hyski sem hann styðja.“

„Ég kynntist Sjálfstæðisflokknum,eftir það var sjálfgefið að ég yrði sósíalisti,“ skrifar Olav Heimir Davidson.

„Þótt ég hafi fyrst og fremst orðið sósíalisti af að lesa Marx í framhaldsskóla og háskóla og fjármálakrísan styrkti mig svo enn meira í þeirri sannfæringu,“ segir Jóhann Helgi Heiðdal, „þá var það líka sú upplifun að eignast börn. Nú er mín reynsla kannski ekki týpísk, en ég eignaðist þrjú börn í einu (eineggja þríbura), en ég þurfti þá í fyrsta sinn að reiða mig á velferðarkerfið af alvöru. En ég hef samt haft það fínt, ég bý í Danmörku og átti rétt á því sama og danir, ásamt því að ég á mjög góða og hjálpsama fjölskyldu. En ég hef alla tíð síðan hugsað mikið um fólk sem er ekki eins heppið og með börn: innflytjendur og hælisleitendur, fátækir, öryrkjar, atvinnulausir, o.s.frv. Börn breyta allri heimssýn manns, og ég skil einfaldlega ekki að fólk geti átt börn og talið að status quo í heiminum sé ásættanlegt. Áður en ég eignaðist strákana fannst mér t.d. fjármálakrísan 2008 spennandi. En þegar maður á börn vill maður bara öryggi, eitthvað sem kapítalisminn einkennist allra síst af.

„Mér var einfaldlega innrætt í bernsku að það væri rangt af mannkyni að sjá ekki til þess að allir hefðu nóg. Að sumir gröðkuðu til sín meðan aðrir liðu skort,“ segir Anna María Sverrisdóttir. „Síðan hafa liðið mörg ár og hef ég mátað mig við stefnur ýmissa flokka en aldrei verið sátt. Ég sætti mig við að við yrðum aldrei öll sátt um alla hluti en grundvallarhugmyndin um sósíalismann hefur aldrei horfið. Í hjarta mínu er ég sósíalisti.“

„Ég man ekki öðruvísi eftir mér nema sem sósíalisti,“ segir Júlíus Einar Halldórsson. „Ég bar út Þjóðviljann í mínu hverfi á Siglufirði sem stálpað barn, vissi þó þá lítið um hvað sósíalismi var annað en blaðið sem ég bar út var kallað kommablað, foreldrar mínir ræddu þó ekki mikið um pólitík, en orðin sem maður heyrði oftast var íhaldið, auðvaldið kommarnir, og verkalýðurinn, Seinna lærði maður að setja þessi orð í rétt samhengi. Með aldrinum hef ég orðið meir og meiri sósíalisti. veit ekki af hverju, en réttlætistilfinning hefur alltaf verið sterk hjá mér og ég hef aldrei þolað óréttlæti á hvaða sviði sem er.“

Og þetta samtal heldur áfram á Facebook-síðu Sósíalistaflokks Íslands. Takið endilega þátt.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram