Mig langar út á róló
Pistill
15.04.2017
„Ég trúi þessu ekki, er það,“ spurði ég vinnufélaga minn þegar hann sagði mér að dagvinnutíminn hjá Dönum væri styttri en samt framleiddu þeir meira á dag en við Íslendingar. Þetta var fyrir 25 árum þegar vinnumórallinn á Íslandi var sá að það væri enginn maður með mönnum nema hann ynni helst ekki minna en 10-12 á dag. Ég heyrði oft viðkvæðið, „hann tekur enga yfirvinnu, hann nennir ekkert að vinna“. Þrýstingurinn var svo gríðarlegur, sérstaklega á karlmenn. Svo fóru menn að gangast upp í þessu, sjálfsmyndin var sterk ef þeir unnu mikið. Það hefur þótt fínt að vera þreyttur eftir að hafa unnið svo lengi og hafa svo mikið að gera í vinnunni. Ég sjálf skyldi aldrei þennan móral og vildi vinna styttri vinnutíma en kærði mig ekki um að vera álitin löt svo ég talaði lítið um það.
En sem sagt að þegar vinnufélagi minn sagði mér frá þessu með Danina þá tók ég þessu sem nokkurs konar fagnaðarerindi. Jess, nú gat ég sýnt fram á með tölum hvað það væri vitlaust að vinna of mikið. Hins vegar er málið ekki svona einfalt á Íslandi. Í raun og veru ennþá vitlausar. Það er vegna þess að menn græða miklu meira á því á hér á landi að vinna yfirvinnu en í nágrannalöndunum og víðar. Það er að segja að á meðan t.d. Hollendingur fær 20% meira fyrir yfirvinnutímann en hann hefur fyrir dagvinnutímann fáum við Íslendingar 60-80% meira. Launþegi sem þarf meira til lífsviðurværis reynir eðlilega að krækja sér í yfirvinnu. Þetta sést best á tölum því á Íslandi vinna menn fleiri yfirvinnustundir á mánuði en í nokkru öðru landi í Evrópu samkvæmt nýlegum tölum Eurostat, sem er hagstofa ESB.
Ef þetta er allt svona vitlaust af hverju er þessu ekki breytt? Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og breyta viðteknum hefðum og venjum. Hins vegar eru menn að vakna og stytting vinnuvikunnar er komin á dagskrá í kjarasamningum. Atvinnurekendur vilja sem sagt líka breyta þessu. Það er komið á blað að stytta vinnuvikuna og hækka dagvinnulaunin.
Atvinnurekendur eru að gera sér grein fyrir því að heilsulaus maður gagnast illa í vinnu. Það hefur komið í ljós að mikið vinnuálag leiðir til alls konar sjúkdóma, andlegra og líkamlegra, eyðileggur fjölskyldulífið og dæmir menn til langra fjarvista frá vinnu og alltof oft til örorku.
Í bókunum með þeim kjarasamningum sem nú eru í gildi segir að stefnt skuli að styttingu vinnuvikunnar en ekkert um hversu mikið eða hvenær þxað skuli taka gildi. Þó það sé í bókun er ekkert víst að það verði af því í bráð, því að mörg stéttarfélög líta á það sem skiptimynt í baráttunni fyrir hærri launum. Ef ekki fást hærri laun þá væri hægt að fá styttri vinnuviku í staðinn.
Stytting vinnuvikunnar er eitt af fyrstu baráttumálum Sósíalistaflokks Íslands til að bæta lífsgæði fólks í landinu og auðvelda því að gerast virkir þátttakendur í mótun samfélagsins. Stytting vinnuvikunnar er ekki aðeins þjóðhagslega hagkvæm heldur líka lífsspursmál. Þetta er spurning um heilsu og heilbrigði, velferð og vellíðan, færri innlagnir á sjúkrastofnanir og síðast en ekki síst fleiri stundir með fjölskyldu og börnum, ungum börnunum sem þurfa svo mikið á því að halda að hafa pabba og mömmu hjá sér og fá ást og umhyggju til þess að geta þroskast á eðlilegan hátt og orðið heilbrigðir einstaklingar.