Sósíalismi 21. aldarinnar – Skrifum sögu hans saman

Viðar Þorsteinsson Pistill

Tímabilið frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar fram að olíukreppunni 1973 var án efa mesta velmegunartímabil Vesturlanda. Barátta verkalýðshreyfinga og sósíalistaflokka, veðruð af heimskreppu og fasisma, virtist loksins bera árangur. Verkafólk eignaðist von um mannsæmandi lífsskilyrði. Lágmarkslaun varin af verkalýðsfélögum og velferðarkerfi varið af sósíalistaflokkum virtust komin til að vera. Þetta var maístjarnan sem skein í augum fólks af kynslóð foreldra okkar og foreldra þeirra.

Á síðustu áratugum hefur vestrænn kapítalismi verið í hægfara kreppu, löngu tímabili minnkandi hagvaxtar og aukins samkeppnisþrýstings. Í örvæntingarfullri leit eftir gróðainnspýtingu hefur auðvaldið, undir fána nýfrjálshyggjunar, lagst til atlögu gegn árangrinum sem náðist á áratugunum eftir stríð. Auðvaldsstéttinn hefur ráðist gegn velferðarkerfinu, stöðvað kjarabætur og krafist niðurbrots reglulverks og landamæra í þágu frelsis fjármagnsins. Á sama tíma hafa fjöldahreyfingar almennings veikst. Verkalýðsfélög hafa oftar en ekki breyst í skrifræðisbákn og verkamannaflokkar eru óþekkjanlegir vegna málamiðlana sinna við nýfrjálshyggjuna.

Afleiðingarnar af þessari leiftursókn auðvaldsins og uppgjöf almannahreyfinga eru sýnilegar hvar sem drepið er niður fæti. Bandaríska ryðbeltið, breskar iðnaðarborgir, íslenskt sjávarþorp, úthverfi stórborganna á meginlandi Evrópu – alls staðar er veruleikinn sá að samfélagið þjónar ekki fólkinu. Þess í stað þarf fólkið að færa fórnir til að viðhalda samfélagi sem virðir framlag þeirra og manngildi að vettugi. Ofan á pólitíska ósigra bætast svo enn frekari ógnir. Má þar nefna sjálfvirknivæðingu í iðnaði og þjónustugeiranum sem ógnar störfum okkar, loftslagsbreytingar sem ógna öryggi barnanna okkar, lausamennskuhagkerfið sem brýtur niður starfsöryggi og mörkin milli vinnu og heimilis og skuldabyrðina sem stelur jafnóðum úr einum vasanum því sem vinnst í hinn.

Þessi reynsla hefur mark sitt á mína kynslóð. Varla von á öðru en að fólk sé týnt. Ólíkt afa og ömmu, sem urðu vitni að stórstígum framförum og voru full vonar, upplifa yngri kynslóðir ítrekaða ósigra og sífellda varnarstöðu. Afleiðingarnar eru einstaklingshyggja, uppgjöf og sinnuleysi um stjórnmál. Leitað er í alls konar falslausnir og draumóra. Háværir lýðskrumarar espa upp innbyrðis illindi milli hópa almennings á grundvelli trúar og uppruna. Snjóþvegnir ungpólitíkusar með visnaða kratarós í hnappagati telja almenningi trú um að upptaka samevrópsks gjaldmiðils muni göldrum líkast færa okkur kjarabót. En enginn þorir að tala um hinn raunverulega vanda: sívaxandi misskiptingu gæða og auðræði hinna fáu.

Það er löngu tímabært að leggja drög að nýjum sósíalisma, sósíalisma 21. aldarinnar. Sá sósíalismi byggir á sömu gildum og baráttuhreyfingar almennings síðustu aldirnar. Stríðið um 8 tíma vinnudaginn, verkföllin sem tryggðu laun og velferð, þjóðfrelsishreyfingarnar í nýlendunum, kvennaverkfallið 1975, jafnvel bændauppreisnir miðalda og baráttan fyrir afnámi þrælahalds – í öllum þessum bardögum hélt almenningur á lofti sama fánanum, hugsjóninni um jöfnuð alls fólks, frelsi, mannhelgi og samstöðu.

Okkar bíður stórt en spennandi verkefni. Gamlir sigrar og rík saga veita okkur innblástur, en við getum ekki bara snúið hjólum sögunnar við. Við eigum að krefjast betri, fullkomnari og nútímalegri sósíalisma. Það er ekki víst að við höfum hráefnin í uppskriftirnar sem virkuðu árið 1960. Við þurfum líka að læra af mistökum sósíalismans eins og hann var iðkaður á 20. öld, en án þess að draga úr okkur eldmóð og sannfæringu.

Það má sjá fyrir sér baráttu á tveimur samtengdum víglínum. Á annarri víglínunni, víglínu hins þekkta, endurvekjum við baráttuna fyrir mannsæmandi launum og öflugu velferðarkerfi. Að hluta til verður þessi víglína skjaldborg um sigra fortíðar, að hluta til krafa um að ganga lengra í því sem við vitum að virkar: hærri launataxta, meiri framlög til velferðar, styttri vinnuviku og hærri skatta á hina auðugu. Á hinni víglínunni, víglínu hins óþekkta, setjum við fram nýstárlegar sósíalískar útfærslur af alls kyns kerfisbreytingum, svo sem innleiðingu vinnustaðalýðræðis og samvinnufélagaforms, lýðræðisvæðingu lífeyrissjóðakerfisins, tilraunum með borgaralaun, hverfalýðræði og svo mætti lengi telja.

Sósíalistahreyfing 21. aldarinnar verður hreyfing kvenna og karla, verkafólks og millistéttarfólks, hvítra og brúnna, innfæddra og innfluttra, höfuðborgar og dreifbýlis, sjávarþorpa og sveita, forvitinna og fullvissaðra. Það sem sameinar okkur er óréttlætið sem við mætum og ódrepandi vilji okkar til að losna undan því. Saman skrifum við nýja sögu sósíalisma 21. aldarinnar.

Viðar Þorsteinsson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram