Hvers vegna Sósíalistaflokkur?
Pistill
22.04.2017
Þegar mannréttinda- og mannúðarbaráttan er sundruð sigrar öflugasti minnihlutahópurinn; ríkir, gamlir, hvítir karlar. Þeir eiga mestan pening og hafa mest völd.
Til að ná af þeim völdum þurfa allir aðrir samfélagshópar að sameinast um sameiginleg markmið; sem er að koma hinum auðugu frá völdum.
Sundruð mannréttinda- og mannúðarbarátta byggir á sömu manngildis- og samfélagshugmynd og nýfrjálshyggjan; að enginn geti barist fyrir öðrum hagsmunum en sínum eigin.
Nýfrjálshyggjan er eitur
Nýfrjálshyggjan seldi þá hugmynd að allir sem fullyrtu að þeir bæru hag annarra fyrir brjósti væru að ljúga. Allt fólk hugsaði í raun aðeins um eigin hag. Þannig væri maðurinn, eigingjörn skepna. Af þessum sökum ætti að byggja samfélagið í kringum það eina afl sem drífur manninn áfram; eigingirnina. Loforð nýfrjálshyggjunnar var að ef allir myndu hugsa um eigin hag og fá óhindrað að berjast fyrir honum á opnum markaði myndi rísa upp á meðal okkar hið fullkomna samfélag.
Þetta gekk ekki eftir. Niðurbrot samfélagslegra stofnana, verkalýðsfélaga og opinberrar þjónustu veikti stöðu þeirra sem voru veikir fyrir á sama tíma og slælegt eftirlit, veikari skattheimta og minni samfélagslegar skyldur styrktu stöðu þeirra sem voru sterkir.
Það kom líka í ljós að frjáls markaður var blekking. Allir markaðir eru sveigðir að þörfum og hagsmunum hinna sterku. Í gegnum vald sitt og peninga keyptu þeir stjórnmálin og beygðu undir sig allar helstu stofnanir samfélagsins. Mikilvægar ákvarðanir voru færðar frá félagslegum stofnunum, þar sem einn maður hafði eitt atkvæði, yfir á skekktan markaðinn, þar sem hver króna hafði eitt atkvæði. Þetta gilti um gengisskráningu, uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, framþróun húsnæðiskerfsins, réttindi launafólks — grunnkerfum samfélagsins sem áður tilheyrði sameiginlegum vettvangi og áttu að verja hagsmuni venjulegs fólks var breytt í leikvöll hinna ríku og voldugu. Jafnvel fátækt og sjúkdómar voru gerð að gróðalind.
Nýfrjálshyggjan hélt því fram að félagslegur rekstur væri ábyrgðarlaus. Það frelsi sem hann færði fólki væri falskt því frelsi væri óhugsandi án ábyrgðar. Og aðeins einkaeignarréttur gæti trygtt ábyrgð. Í Hruninu kom hins vegar í ljós að nýfrjálshyggjan hefur slitið í sundur frelsi og ábyrgð. Þegar á reyndi hafði enginn áhuga á ábyrgðinni og þeir sem áttu efni á því keyptu sig frá henni.
Nýfrjálshyggjan er í dag hrunið hugmyndakerfi. Henni hefur verið varpað á öskuhaug sögunnar.
Markaðstorg mannréttinda
En þar sem nýfrjálshyggjan hafði mótandi áhrif á samfélag okkar og hugmyndir, og var sjálf afsprengi breytinga í heimsmynd okkar og sjálfsmynd, hafa hugmyndir nýfrjálshyggjunnar og samstofna hugmyndir haft áhrif langt út fyrir efnahag, ríkisvald, stéttir og markað.
Samhliða uppgangi nýfrjálshyggjunnar óx þeirri hugmynd fylgi að sameinuð mannréttinda- og mannúðarbarátta stæði í vegi fyrir baráttu undirsettra hópa. Alveg eins og því var haldið fram að markmið um sameiginlega velferð drægju úr hagvexti og þrótti efnahagslífsins. Á það var bent að konur væru jafn kúgaðar innan stéttabaráttunnar og út í samfélaginu og sama mátti segja um samkynhneigða, fatlaða, fólk af erlendum uppruna og aðra undirsetta hópa.
Mannréttinda- og mannúðarbarátta einstakra hópa skilaði miklum árangri á tíma nýfrjálshyggjunnar, en fyrst og fremst í þeim áherslum sem náðu stuðningi hinnar menntuðu millistéttar. Samfélagsleg staða samkynhneigðs menntamanns er allt önnur og betri í dag en árið 1980 á meðan samfélagsleg staða fátækrar konu í láglaunastarfi hefur lítið skánað. Staða láglaunakonunnar hefur í raun versnað því hún hefur misst þá rödd sem áður hljómaði hagsmunum hennar í gegnum stéttarfélög og stjórnmálaflokka. Í dag komast hagsmunir hennar ekki á dagskrá þessara stofnanna.
Tímabil nýfrjálshyggjunnar var því tímabil sundraðrar mannréttinda- og mannúðarbaráttu sem skilaði miklu sigrum en engum árangri þar sem baráttan rakst á hagsmuni auðvaldsins. Það mátti breyta öllu svo lengi sem grundvöllur samfélagsins þjónaði fyrst og síðast hinum ríku og voldugu.
Að mörgu leyti þjónaði hin sundraða barátta auðvaldinu, klauf samstöðuna og hélt átökunum frá raunverulegum hagsmunum hinna ríku og voldugu. Því sundraðri sem baráttan varð því fókuseraðri varð hún á breytingar innan hins óréttláta samfélagskerfis, ekki krafa um breytingar á kerfinu sjálfu.
Flokkur fyrir okkur
Sósíalistaflokkur Ísland verður stofnaður til að svara kalli tímans um samstöðu ólíkra hópa um ríka sameiginlega hagsmuni. Nú er þörf á breiðri samstöðu um að hrekja auðstéttina frá völdum, færa völdin til almennings, bæta lífskjör hans, auki rétt og styrkja öryggi.
Í þessu fellst ekki að sósíalistar vilji leggja af mannréttindabaráttu einstakra undirsettra hópa. Þvert á móti, flokkurinn mun styðja hana af heilum hug. Það er hins vegar ekki ætlun Sósíalistaflokkinn að innlima alla slíka baráttu inn í starf sitt. Það er hvorki lýðræðislegt né vænlegt til árangurs.
Sósíalistaflokkur Ísland mun einbeita sér að hinni almennu stéttabaráttu sem allur almenningur hefur ríkan hag af og er forsenda þess að barátta einstakra hópa skili árangri. Það er sár lærdómur undanfarinna áratuga að þótt einstökum hópum hafi tekist að bæta réttindi sín og stöðu, verður enginn fullnaðarsigur unninn í neinni mannúðarbaráttu nema að hið óréttláta auðvaldskerfi verði fellt. Auðvaldið hefur alla tíð sett sig á móti öllum raunverulegu réttindabótum og ekki leyft neina mannréttindabaráttu nema þá sem ekki ógnar valdi auðstéttanna. Af þeim sökum verður hvert okkar að heyja áfram baráttu fyrir hagsmunum okkar hóps en jafnframt að taka þátt í baráttu allra hinna til að fella kerfið sem kúgar okkur öll.
Þau sem vilja vinna að breytingum innan óréttláts kerfis munu ekki uppskera nema takmarkaða og tímabundna sigra, því undirliggjandi skipan samfélagsins vinnur gegn hagsmunum þeirra. Kerfið sjálft er kúgandi og mun alltaf beygja fólk undir sig, misnota og kúga.
Þjónum hinum verst stæðu
Vegna þessa tvískipta eðlis baráttunnar mun Sósíalistaflokkurinn ekki ætla sér að eigna sér kvennabaráttuna eða umhverfismálin, ekki ætla sér að verða eini farvegur mannréttindabaráttu fatlaðra, innflytjenda eða samkynhneigðra né reyna að sameina innan flokksstarfsins alla baráttu allra undirsettra hópa. Það væri úrelt hugmynd um stjórnmálaflokk. Einn stjórnmálaflokkur getur aldrei orðið allt fyrir alla. Samfélagið er flóknara en svo og birtingarmyndir baráttunnar fjölbreytilegri, auðugri og kvikari. Stjórnmálaflokkur sem ætlar sér að innbyrða alla baráttuna myndi virka heftandi og letjandi.
Sósíalistaflokkurinn Ísland er flokkur fyrir þau sem vilja berjast gegn óréttlátu þjóðskipulagi í samfélagi við alla sem hafa hag af þeirri baráttu. Og þar sem hin sundraða mannúðarbarátta undanfarinna áratuga hefur laskað mest stöðu hinna veikast settu, hópa sem ekki hafa haft bolmagn til að keppa á markaðstorgi málefnanna – öryrkja, leigjenda, innflytjenda, láglaunakvenna, ómenntaðra, atvinnulausra og annarra fátækra; mun Sósíalistaflokkurinn fyrstu mánuðina einbeita sér að því að efla baráttu þessara hópa, styrkja stéttarvitund þeirra og fylkja til stéttabaráttu.
Allir nema hinir ofsaríku hafa hag af baráttu fyrir bættum lífskjörum hinna verst settu. Engar rannsóknir styðja þá hugmynd að bættur hagur hinna best settu skili sér í bættum hag til annarra. En fjölmargar rannsóknar hafa sýnt fram á að bættur hagur hinna verst settu skilar sér í betri hag fyrir alla. Nema hina ofsaríku.
Áhersla Sósíalistaflokksins á verst settu hópa samfélagsins byggir því ekki aðeins á því að þetta séu þeir hópar sem hafa orðið út undan í þeirri tvístruðu mannréttindabaráttu sem auðmagnið sættir sig við; ekki aðeins vegna þess að okkur ber að taka upp baráttu fyrir hina veiku til að vinna gegn siðferðislegu hruni nýfrjálshyggjunnar sem vill láta okkur þjóna hinum sterka; ekki bara til að leiðrétta fullyrðingar andmannúðar um að fátækt sé hinum fátæka að kenna og ekki félagslegt vandamál sem okkur ber öllum að vinna bug á; heldur líka vegna þess að fljótlegasta og auðveldasta leiðin til að bæta lífskjör allra er að lyfta upp þeim sem standa verst og hafa mátt líða fyrir óréttlæti þjóðskipulagsins.
Það er því bæði skynsamt og rétt, sjálfsagt og þarf að Sósíalistaflokkur Íslands muni fyrstu mánuði einbeita sér að því að þjóna hinum verst settu.
Ef þú vilt taka þátt í slíkri baráttu þá er Sósíalistaflokkur Íslands flokkur fyrir þig. Og þú rétta manneskjan til að móta þann nýjan flokk.
Með baráttukveðju
Gunnar Smári Egilsson