Launþegar fá 120 milljörðum minna – eigendur 170 milljörðum meira
Staðreyndir
22.04.2017
Þegar skattaframtöl fyrirtækja eru skoðuð á umliðnum árum kemur í ljós að hlutdeild launa er nú miklum mun minni en var um aldamótin á meðan útgreiddur arður og aðrar útgreiðslur til eigenda eru miklum mun hærri. Jafnvel þótt stóru bankarnir þrír séu settir innan sviga er augljóst að eigendur fyrirtækja taka mun meira til sín og þá á kostnað launþega.
Í nýjasta tölublaði Tíundar, tímariti ríkisskattstjóra, dregur Páll Kolbeins hagfræðingur saman skattframtöl rekstraraðila á Íslandi og sýnir þróun ýmissa stærða. Meðal annars vekur Páll athygli á hvernig skipting milli launa, leigu, vaxta og arðs hefur þróast síðustu átján árin. Þessi skipting gefur til kynna hvernig afrakstri af fyrirtækjum er skipt á milli launafólks, auðmagns og eigenda fyrirtækjanna. Og eins og við er að búast sýna þessar tölur að hlutdeild launafólks hefur stórlega dregist saman; ekki aðeins í aðdraganda Hrunsins og í Hruninu sjálfu heldur hefur launafólk ekki náð að jafna sinn hlut á sama tíma og eigendur fyrirtækja taka til sín æ stærri hluta kökunnar.
Fyrirtæki fyrir eigendurna
Hugmyndir um fyrirtækið hafa tekið breytingum á undanförnum áratugum, hvaða fyrirbrigði þetta er. Fyrirtæki starfa samkvæmt lögum og reglugerðum; samfélagslegu samkomulagi sem færir þeim að mörgu leyti réttindi eins og þau væri mannverur og eigendum þeirra takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum. Fyrirtæki eru því að mörgu leyti samfélagslegar stofnanir þótt þau geti verið í einkaeigu. Á síðustu öld döfnuðu því hugmyndir um samfélagslegt hlutverk fyrirtækja. Litið var á þau sem stólpa í samfélögum, grunn öryggis og festu, vaxtar og velsældar.
Á því tímabili sem nýfrjálshyggjan var ríkjandi hugmyndastefna, frá kosningasigrum Margrétar Thacher og Ronalds Reagan um 1980 og fram að fjármálahruninu 2008, breyttust hugmyndir fólks um fyrirtækið. Í takt við almenna höfnun á samfélagslegum gildum náði sú kenning fótfestu að fyrirtæki væru fyrst og fremst eign eigenda sinna og ættu í raun ekki að þjóna neinum nema hluthöfum sínum. Því var jafnvel haldið fram að þetta væri hin eina rétta og náttúrlega sýn á fyrirtækin; að þau gætu mengast og afvegaleiðst ef stjórnendur vildu hafa aðra hagsmuni að leiðarljósi en hag hluthafanna. Eftir því sem fyrirtækin þjónuðu eigendum sínum betur því betur þjónuðu þau heildinni og samfélaginu.
Þetta eru samstofna hugmyndir og lituðu aðra þætti og stofnanir samfélagsins. Sú trú var ríkjandi að ef hver einstaklingur og hver hópur sækti sína þrengstu hagsmuni af hörku og elju myndi upp rísa réttlátt og gott samfélag; byggt upp af eigingjörnum hvötum einstaklinganna. Samfélagið var í raun ekki til nema sem summa einstaklinganna. Því var hafnað að maðurinn væri hópdýr.
Fyrirtæki losna úr samfélaginu
Alþjóðavæðing ýtti undir þessar kenningar. Fyrirtæki voru ekki lengur bundin því samfélagi sem þau spruttu upp úr heldur gátu flutt starfsemi sína, að hluta eða öllu leyti, hvert þangað sem þjónaði hagsmunum hluthafanna betur.
Hér heima má sjá svipuð áhrif af kvótakerfinu og frjálsu framsali. Fyrir kvótakerfið var útgerðarmaðurinn tengdur sínu þorpi. Hann bar húsbóndaskyldur gagnvart íbúunum, ekki ósvipaðar og stórbændur gagnvart vinnuhjúum sínum. Þótt hann byði fólki ekki upp á mannsæmandi líf af launum sínum gat hann ekki kippt grundvellinum undan lífsafkomunni. Húsbóndanum bar að gæta hjarðar sinnar.
Með frjálsu framsali breyttist þetta. Kvótaeigandi gat selt kvótann úr plássinu og stungið af með söluverðið. Í næsta skattaskjól ef svo bar undir. Litið var svo á að hann bæri enga ábyrgð gagnvart lífsafkomu þeirra sem höfðu lifað og starfað við fyrirtækið.
Við þekkjum samskonar dæmi úr mannkynssögunni. Breska krúnan náði að róa skosku hálöndin með því að skilgreina land sem áður var almenningur sem einkaeign höfðingjanna. Við það rofnuðu tengsl höfðingjanna við meðbræður sína og það liðu ekki nema nokkrir áratugir þar þeir hröktu fólk af löndum sínum. Þetta var kölluð Hálandahreinsunin.
Það þekkjast því mörg dæmi þess úr sögu og samtíma hversu mikil áhrif það hefur þegar rofin eru tengsl fyrirtækja og auðlinda við samfélagið.
Bullið í bólunni
Samkvæmt samandregnum skattframtölum rekstraraðila voru laun og launatengd gjöld um 860 milljarðar króna á núvirði að meðaltali síðustu þrjú ár síðustu aldar, frá 1997 til 1999. Útgreiddur arður úr þessum fyrirtækjum til eigenda sinna var á þessum árum 61 milljarður króna. Launafólkið fékk með öðrum orðum um 14 sinnum hærri fjárhæð en eigendurnir.
Árið 2007, á hápunkti bólunnar fyrir Hrun, þegar eigendur misnotuðu fyrirtækin hvað mest og drógu úr þeim mesta fjármuni, fóru launagreiðslur upp í 1285 milljarða króna á núvirði. Þá var samanlagður útgreiddur arður til eigenda hins vegar um 680 milljarðar króna. Launþegar fengu til sín tæplega tvöfalda þá upphæð sem eigendur drógu til sín.
Þar sem eitt einkenni áranna fyrir Hrun var flókinn fyrirtækjastrúktúr þar sem hvert eignarhaldsfélagið stóð upp af öðru má búast við að í samandregnum framtölum sé hluti af arðinum tvítalinn og í sumum tilfellum jafnvel þrí- og fjórtalinn.
Launin frosin en arðurinn rýkur upp
En þessi flókni fyrirtækjastrúktúr var að mestu fallinn þegar komið var fram á árin 2013 og 2014. Árið 2013 voru samanlögð laun og launatengd gjöld fyrirtækjanna 737 milljarðar króna á núvirði eða um 14 prósent lægri en meðaltal áranna 1997 til 1999. Árið 2014 hækkuðu launin upp í 763 milljarða en voru samt 13 prósent lægri en á síðustu árum síðustu aldar.
Árið 2013 var útgreiddur arður og aðrar útgreiðslur til eigenda úr fyrirtækjum 204 milljarðar króna á núvirði eða 240 prósent hærri en arðurinn var í lok síðustu aldar. Og 2014 hækkaði arðurinn enn, fór í 234 milljarða króna á núvirði eða 258 prósent yfir því sem var í lok síðustu aldar.
Ef við gerum ráð fyrir að hlutfallið milli launa og arðs hefði verið það sama 2014 og það var að meðaltali 1997 til 1999 má segja að launþegar hafi fengið 120 milljörðum minna í sinn hlut árið 2014 af samanlögðum launum, leigu, vöxtum og arði. Með sama hætti má segja að eigendur fyrirtækja hafi á þessu ári tekið til sín 171 milljarð króna í arð umfram það hlutfall sem almennt var ríkjandi í lok síðustu aldar.
Úr 14 sinnum niður í 4 sinnum meira
Sem kunnugt er greiddu bankarnir út ríkulegan arð árið 2014 og var það byggt á gríðarlegum hagnaði þeirra. Það er því ef til vill eðlilegt að skera bankanna frá öðrum fyrirtækjum þar sem stór hluti hagnaðar þeirra var byggður á endurmati eigna og lýsa ekki eðlilegu árferði eða viðvarandi rekstrarstöðu.
Ef við skerum stóru bankanna þrjá frá heildinni þá lækka launagreiðslur ársins 2014 um 42 milljarða króna á núvirði og arðurinn um 47 milljarða króna. Eftir situr 721 milljarður króna í launagreiðslur á móti 187 milljörðum krónum í arð.
>Eins og fyrr segir fengu launþegar um 14 sinnum meira í sinn hlut en eigendurnir í lok síðustu aldar en þeir fengu minna en fjórum sinnum meira en eigendurnir árið 2014. Ef bankarnir eru hafði með fengu launþegar rúmlega þrisvar sinnum meira en eigendur fyrirtækja árið 2014.
Vantar milljón í launaumslagið
Það hafa því orðið miklar breytingar á því hvernig kökunni er skipt á þessum árum. Ef við reiknum með um 110 starfandi hjá framtalsskyldum rekstraraðilum, en opinberar stofnanir eru ekki inn þessum tölum, felur þessi breyting í sér að sneið hvers starfsmanns var rúmlega einni milljón krónum minni 2014 en hún hefði verið ef hlutfallið á milli launagreiðslna og arðs úr fyrirtækjum hefði verið lík því sem það var í lok síðustu aldar.
Það erfitt á áætla hversu mikið hagur hvers eigenda hefur batnað að sama skapi. Eigendur fyrirtækja eru miklum mun færri en launafólkið. Þessi færsla frá launagreiðslum til arðs er því ein birtingarmynd þeirrar þróunar sem verið hefur á Vesturlöndum undanfarna áratugi; að fjöldinn fær minna í sinn hlut á meðan hinir fáu fá sífellt meira.
Því var almennt trúað á tímabili nýfrjálshyggjunnar að því meira sem fáir fengju því betur hefði heildin það. Hrunið afhjúpaði þetta sem bábilju og nú leggur meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áherslu á að besta leiðin til að bæta kjör heildarinnar sé að lyfta upp þeim sem minnst bera úr býtum.
Það er með öðrum orðum heillavænlegra að láta þennan 171 milljarð króna, sem tiltölulega fáir eigendur fyrirtækja tóku til sín umfram það sem þeir gerðu í lok síðustu aldar, renna til fjöldans, launamanna. En þótt þetta séu orðin almennt viðurkennd sannindi í hagstjórn hafa þau ekki náð að breyta kerfinu. Það virðist halda áfram eins og ekkert hafi orðið Hrunið.
Áður birt í Fréttatímanum