Hvers konar Sósíalistaflokkur?

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Sósíalistaflokkur Íslands byggðist upp í kringum einfalda hugmynd; að sjálfur kjarni hinnar sósíalísku baráttu hefði dofnað og sá doði hefði valdið stórkostlegum skaða í samfélaginu. Flokkurinn er því byggður utan um kjarna hinnar sósíalísku baráttu; að taka völdin frá auðstéttinni sem hefur sveigt öll grunnkerfi samfélagsins að eigin þörfum, að færa fólki vald yfir eigin lífi og umhverfi, að tryggja öllum landsmönnum mannsæmandi lífskjör, ódýrt og öruggt húsnæði, ókeypis heilbrigðisþjónustu og menntun og að efla stéttabaráttu til að ná fram þessum markmiðum. Þetta er sú stefna sem flokksmenn hafa skráð sig í flokkinn undir.

Á undirbúningstímanum hafa mótast í samtölum fólks hugmynd hvernig næstu skref í mótun flokksins verða stigin. Þar sem flokkurinn er enn óstofnaður hafa þessar hugmyndir mótast í óformlegu samtali ólíkra einstaklinga. Niðurstöðurnar mætti draga í eftirfarandi punkta:

Meginverkefni Sósíalistaflokks Íslands á næstu mánuðum verður að auka stéttarvitund fólks og efla stéttabaráttu. Þetta verður gert með því að fá þau sem hafa skráð sig í flokkinn til að starfa og fjölga félagsmönnum. Flokksfólk lifir og starfar í ólíkum deildum samfélagsins og flokkurinn vill verða stuðningur fyrir fólk í sinni baráttu fyrir jöfnuði úti í samfélaginu. Sósíalistaflokkurinn ætlar sér að verða hvati að og farvegur fyrir vaxandi stéttabaráttu.

Flokkurinn mun leggja sérstaka áherslu á að byggja upp starf meðal þeirra hópa sem óréttlátt þjóðskipulag og veik barátta undanfarinna áratuga hefur leikið verst:; fátæka, láglaunafólk, leigjendur, öryrkja, leigt verkafólk. Barátta þessara hópa þarf sérstakan stuðning og flokkurinn vill tala virkan þátt í henni innan félaga sem fólkið hefur myndað og mun mynda. Samstaða lágstéttanna og þátttaka þeirra í baráttu fyrir samfélagsbreytingum er forsenda árangurs. Til að efla hana verðum við að styrkja samkennd með fólki sem stendur veikast. Sósíalistaflokkurinn ætlar sér að verða hvati að og farvegur fyrir uppreisn þess fólks sem hefur þolað grimmast óréttlæti undir alræði auðstéttanna.

Á sama tíma vill Sósíalistaflokkurinn styrkja almenna umræðu með því að standa fyrir greiningum á samfélaginu, fyrir hverja valdastofnanir vinna og hvernig þær grafa undan lífskjörum almennings og mannhelgi fólk. Flokkurinn mun því standa fyrir samtali, útgáfu og fundum til að vega upp á móti einhæfum áróðri auðstéttanna sem flæðir yfir fólk, afhjúpa rán auðstéttanna og birta raunsanna mynd af lífsbaráttu almennings. Sósíalistaflokkurinn ætlar sér að vera hvati að og farvegur fyrir andspyrnuna gegn valdinu, stuðla að frelsi fólks undan oki þess.

Á stofnfundi flokksins verður lagt til að valin verði undirbúningsnefnd til að halda utan um starf flokksins fram að hausti. Nefndin hefur ekki umboð til stefnumörkunar en er falið að efna til sósíalistaþings í haust þar sem árangur fyrstu skrefanna verður metin og næstu skref í mótun flokksins stigin. Allir fundir undirbúningsnefndar verða opnir öllu félagsfólki. Það er mikilvægt fyrir flokkinn að leita leiða til að forðast mistök annarra stjórnmálahreyfinga við uppbyggingu innra starfs. Sósíalistaflokkurinn ætlar sér að verða hvati að auknu lýðræðiskröfum almennings og farvegur fyrir lýðræðislega þátttöku almennings í stjórnmálum.

Gunnar Smári

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram