Gjöfin til öryrkja 1. maí
Pistill
03.05.2017
Þó að mér sé meinilla við að skrifa þetta persónulega dæmi upp á töflu tel ég það skyldu mína að setja sjálfan mig inn í jöfnuna svo að þeir sem nenna að lesa átti sig á skemmdarverkunum sem verið er að vinna á heilbrigðiskerfinu. „Deilur um stærðfræði“ held ég að sé líka betra að útskýra með einstökum dæmum úr raunveruleikanum.
Á baráttudegi verkalýðsins – ekki öryrkja eins Gylfi Arnbjörnsson tók skýrt fram í fréttum gærkvöldsins – tók nýtt greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga gildi sem skiptir mig miklu máli því að ég hef gengið til læknis í tólf ár vegna sjúkdóms míns.
Lengi vel greiddi ég innan við 3.000 kr. í komugjald á göngudeild Landspítalans. Svo ákvað læknirinn minn að opna prívatstofu á síðasta ári. Ég hafði val um að fá annan lækni á göngudeildinni en kaus að hitta minn frábæra lækni áfram en við það hækkaði það sem ég þarf að reiða fram í hvert skipti í tæpar 6.000 kr. Áðan fór ég inn á réttindagáttina á vef Sjúkratrygginga til að sjá hvað ég þarf að greiða fyrir næsta tíma, 16. maí, vegna breytinganna: 13.385 kr.
Í fyrramálið ætla ég að senda lækninum mínum póst og afþakka tímann þó að ég virði hann mikils og hann hafi reynst mér afburðavel. Ekki bara vegna þessarar hækkunar sem skall á 1. maí, þar kemur fleira til.
Um áramótin færði alþingi okkur öryrkjum aðra gjöf. Fram að því mátti ég vinna mér inn 109.000 kr. á mánuði án þess að bæturnar skertust. Með nýjum reglum fæ ég 20% af striti mínu í vasann – restin fer í skerðingar og skatta (sem ég útskýrði með útreikningum í öðrum status á veggnum mínum fyrir nokkru). Ég hef setið við þýðingar undanfarið og útborgað tímakaup þegar upp er staðið er 4-500 kr. eftir því hve hratt ég vinn og öll hlé dreg ég frá – matartíma, kaffipásur og skrepp – og að sjálfsögðu er ekkert orlof eða önnur réttindi sem bætast við þar sem þetta er verktakavinna. Það tekur mig því allt að 33 klukkutíma að vinna mér inn fyrir læknisheimsókninni. Ég tek skýrt fram að ég hef heldur ekkert upp á mína ágætu útgefendur að klaga, þeir eru prýðisfólk, sanngjarnir í samningum og greiða eftir umsömdum taxta.
Svo eru það lyfin, hin hliðin á peningnum. Í fyrra var greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga vegna lyfjakaupa breytt þannig að í fyrsta sinn á hverju árstímabili þarf að greiða lyf fullu verði, öryrkjar þó að hámarki 22.000 kr. Eftir það kemur 85% kostnaðarþátttaka Sjúkratrygginga inn og verður enn meiri innan tímabilsins. Það tekur mig því a.m.k. 44 klukkutíma að vinna mér inn fyrir skammtinum sem læknirinn ávísaði í síðasta tíma.
Ef ég ætla að leysa út lyfin mín og mæta hjá lækninum kostar það mig u.þ.b. 70-80 tíma vinnu, og eins og verktakar vita er varla hægt að skrifa út meira en 5 tíma á átta stunda vinnudegi þannig að við erum að tala um þriggja vikna slímsetu við skjáinn. Það segir sig sjálft að þar sem ég er öryrki hef ég ekki fullt starfsþrek þannig að þetta er óvinnandi vegur. En ég fæ örorkubætur, duga þær ekki? Nei, mér eru úthlutaðar rúmlega 220.000 kr. eftir skatt og þær leyfa ekki þann lúxus að leita sér lækninga eða leysa út lyf. Þess vegna þarf ég að vinna mér fyrir því og myndi ekki kveinka mér undan því ef 80% teknanna væru ekki hirt af mér.
Þó að ég gæti forgangsraðað betur, lifað fábrotnara og einfaldara lífi, verið dyggðugri, þá hef ég ekki geð í mér til að hamast á hamstrahjólinu til að halda uppi heilbrigðiskerfinu – aurunum ætla ég að verja í annað.
Það eru þrír mánuðir síðan ég tók lyfin mín og nú er ég hættur að sækja mér læknisþjónustu ótilneyddur þar til óseðjandi auðvaldsskrímslið er dautt.