Nýfrjálshyggin stjórnvöld eru sökudólgurinn, ekki Hrunið

Gunnar Smári Egilsson Frétt

Í grein í Fréttablaðinu í dag heldur Sölvi Blöndal, hugmyndafræðingur Gamma, því fram að hrörnun innviða á Íslandi megi rekja til Hrunsins, að skuldir hins opinbera hafi þá hækkað svo mjög að það hafði ekki bolmagn til nýfjárfestinga, ekki einu sinni til að viðhalda innviðastofninum. Þetta er rangt hjá Sölva, eins og allir vita.

Þótt mörg sveitarfélög skuldi heldur mikið, skuldar íslenska ríkið nú minna en um langan aldur. Ástæða minni innviðauppbyggingar á umliðiðnum árum eru fyrst og fremst afleiðingar stjórnarstefnu síðustu áratuga; að eyða fé ríkissjóðs í skattaafslætti til fyrirtækja og hinna efnameiri og ríflegan afgang af rekstri ríkissjóðs; í stað þess að byggja upp innviði eða styrkja velferðarkerfið. Vandi Íslands er langvarandi nýfrjálshyggin efnahagsstjórn. Hrunið var vissulega afleiðing hennar, en aðeins lítill hluti skaðans sem nýfrjálshyggjan hefur valdið.

Þetta má lesa af þeim línuritum sem Sölvi lætur fylgja greininni. Þau sýna að vandinn verði ekki til við Hrunið, heldur sýna þau þvert á móti að hin nýfrjálshyggna efnastjórn var farin að grafa verulega undan innviðum samfélagsins upp úr síðustu aldamótum.

Sjálfstæðisflokkurinn háði kosningabaráttu sína í haust undir kjörorðinu „Á réttri leið“ og lofaði óbreytri nýfrjálshygginni efnahagsstefnu. 29% kjósenda sögðu já, takk, hit me with your rhythm stick

Rifjum upp þrjú stig nýfrjálshyggjunnar:

  1. Skattar á fyrirtæki og hinna efnameiri lækkaðir. Opinberir sjóðir skuldsettir til að mæta tekjutapinu. Kenningin er að tekjurnar muni aukast aftur seinna meir svo allt samfélagið muni á endanum stórgræða á skattalækkun til hinna ríku.
  2. Batinn af skattalækkunum lætur standa á sér. Gjaldtaka aukin innan velferðarkerfisins til að mæta tekjutapinu, dregið úr fjárfestingum vegna innviða og ríkiseignir seldar til að stoppa upp í gatið. Hagræðingarkröfur auknar innan velferðarkerfisins, starfsfólki sagt upp og þjónusta skert. Dregið úr húsnæðisbótum, barnabótum, persónuafslætti og öðrum tekjujafnandi þáttum skattkerfisins og skattar þannig hækkaðir á almennu launafólki, einkum þeim með lægstu launin og lægri meðallaun.
  3. Enn fréttist ekkert af auknum tekjum vegna skattalækkana til hinna efnameiri. Enn fleiri ríkiseignir því seldar, gjaldtaka innan velferðarkerfisins aukin enn og innviðagjöld lögð á og síðan stóraukin. Velferðarkerfið skorið enn meira niður. Hluti af grunnkerfum samfélagsins flutt til einakaðila; til dæmis í heilbrigðis-, mennta- og vegakerfinu, og skattfé almennings með þeim hætti einkavætt.

Niðurstaða þessara leiðar er algjört niðurbrot samfélagsins, flutningur allra verðmæta til hinna allra ríkustu, hrun millistéttarinnar niður í lágstétt og efnahagslegt hrun og valdaleysi lágstéttanna. Sölvi skrifar grein sína þegar við erum komin langt inn í þriðja fasann af niðurbroti nýfrjálshyggjunnar á samfélaginu og hvetur okkur til að halda áfram á sömu braut. Við erum „Á réttri leið“, eins og Sjálfstæðisflokkurinn orðaði það fyrir síðustu kosningar.

Fyrsta grafið sem Sölvi dregur fram sýnir þróun innviðastofns (sjúkrahús, skólar, hafnir, flugvellir, vegir, brýr, göng, flutningskerfi raforku, breiðband og aðrir innviðir upplýsingatækni) sem hlutfalls af landsframleiðslu (græna línan) til samanburðar við meðaltal áranna 1990-2008 (gullin lína). Grænan línan sýnir að innviðastofninn fór hratt lækkandi upp úr aldamótum og lækkaði fram að Hruni, reis þá upp (vegna minnkandi landsframleiðslu, fyrst og fremst) en hefur síðan sigið aftur frá 2011, þegar fjölgun ferðamanna tók að auka við landsframleiðsluna.

En hvaða sögu segir græna línan?

Hún sýnir vaxandi innviðastofn sem hlutfall af landsframleiðslu í kjölfar þjóðarsáttasamningana fyrir 1990, ekki síst vegna minnkandi hagvaxtar og landsframleiðslu, en síðan nokkuð jafna og örugga hrörnun fram að Hruni, einkum eftir að skattalækkunaráform Sjálfstæðisflokksins náðu fram upp úr aldamótum; afnám eignaskatta, tekjuskattar fyrirtækja færðir niður í 15% og fjármagnstekjuskattur í 10%. Hrörnun innviða helst fullkomlega í hendur við hrörnun skattkerfisins. Skattheimtan þjónar ekki lengur hagsmunum samfélagsins heldur aðeins hinum ríkustu.

Græna línan sýnir að hlutfallið hækkar í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, að mestum vegna falls landsframleiðslu en einnig vegna nokkurrar hækkunar á sköttum fyrirtækja og fjármagns (veiðileyfagjöld, orkuskattur, auðlegðarskattur, hækkun fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts fyrirtækja) en fellur síðan aftur þegar landsframleiðslan hækkar og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs afnemur stóran hluta af skattahækkunum vinstri stjórnarinnar.

Í raun sýnir þessi græna lína mikla sorgarsögu. Íslendingar fóru lengra inn á braut nýfrjálshyggjunnar en flestar aðrar þjóðir, meðal annars vegna þess að hér voru litlar varnir uppi (arftakar hinna sósíalísku flokka tóku upp nýfrjálshyggna efnahagsstefnu og verkalýðshreyfingin spilaði með). Þrátt fyrir að þessi stefna hafi leitt meira hrun yfir Íslendinga en aðrar þjóðir; þá leiddi það mikla hrun ekki til neinna róttæka breytinga á stefnunni. Hún var meira og minna endurreist ásamt öllum þeim fyrirtækjum og bönkum sem höfðu valdið Hruninu. Ef ekki hefði hér komið til aukin innspýting fjármagns vegna mikillar fjölgunar ferðamanna hefði þurft að skera enn harkalegar niður í velferðarþjónustu til viðbótar við kerfisbundið niðurbrot innviða.

Næsta graf Sölva sýnir sömu sögu. Löngu fyrir Hrun var farið að ganga á innviði samfélagsins þrátt fyrir ímyndað góðæri. Niðurbrot innviða eru því ekki afleiðing aukinnar skuldsetningar opinberra aðila vegna Hrunsins heldur var niðurbrotið stefna stjórnvalda. Þau kusu að flytja fé frá innviðauppbyggingu til hina ríkustu í samfélaginu með því að gefa þeim eftir eðlilega skattheimtu. Stærstu ríkisframlög síðustu ára eru þannig ekki sýnileg í fjárlögum heldur koma þau til áður en skattarnir eru lagðir á; gríðarleg eftirgjöf til fjármagns- og fyrirtækjaeigenda, eftirgjöf sem að öllum líkindum er um 100 milljarðar króna árlega sé miðað við eðlilega skattheimtu í nágrannalöndum okkar eða þau skatthlutföll sem þótt eðlileg fyrir fáeinum árum síðan.

Þegar stjórnvöld ákváðu að gefa ríkasta fólkinu á Íslandi þessa fjármuni spurði enginn hvar þau ætluðu að finna þá. Það var engin krafa uppi um að þau sýndu fram á hvernig fjármagna ætti þessar skattalækkanir. Fjármögnun þeirra kemur hins vegar meðal annars fram í gröfunum hans Sölva, í kerfisbundnu niðurbroti innviða. Auk þess birtist fjármögnun þeirra í sífellt hærri gjaldtöku innan velferðarkerfisins, niðurbroti hins félagslega íbúðakerfis, skertri opinberri þjónustu, lækkun bóta og hækkun skatta á launafólk.

Síðasta grafið sýnir sambærilega sögu. Eftir því sem niðurbrot tekjuöflunarkerfis ríkissjóðs gengur lengra því vanbúnara er samfélagið til ráðast í nýframkvæmdir. Samfélag sem taldi sig geta reist Kárahnjúkavirkjun upp úr aldamótum til að skaffa einum vinnustað á Reyðarfirði rafmagn er með öllu ómögulegt að tryggja yngra fólki, öryrkjum og tekjulágum húsnæði. Samfélag sem tekur sig ráða við að gefa hinum allra ríkustu skattaafslátt upp á 100 milljarða króna árlega ræður ekki við að byggja nýjan Landspítala.

Þannig hefur nýfrjálshyggjan ekki aðeins grafið undan tekjuöflun ríkissjóðs heldur molað niður allt áræði og kjark í samfélaginu; stjórnmálin horfa aðgerðalaus upp á neyð fólks vegna hruns húsnæðismarkaðarins, eftir að uppbygging hans var að fullu flutt frá stjórnvöldum út á hinn svokallaða frjálsa markað, þar sem hrægammasjóðir á borð við Gamma ráða lögum og lofum og soga lífskraftinn úr ungu fólki, lífeyrisþegum og láglaunafólki. Stjórnmálin standa verklaus frammi fyrir húsnæðisþörf Landspítalans þrátt fyrir áeggjan svo til allra kjósenda á landinu um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Þau hafa tapað trúnni á að það sé þeirra hlutverk að móta samfélagið. Stjórnmálafólkið er eftir langvarandi valdatíð nýfrjálshyggjunnar orðið svo heilaþvegið af dellukenningum hennar; að þau halda að hlutverk sitt sé ekki að móta samfélagið með félagslegum aðgerðum heldur sé hlutverk þeirra að strjúka markaðnum sem blíðast svo hann komi ef til vill með lausnirnar.

Sem hann kemur aldrei með. Alla vega ekki lausnir fyrir almenning. Lausnir markaðarins eru aldrei aðrar en þær sem þjóna þeim best sem stjórna markaðnum, þeim sem eiga mestan peninginn og fara með því með mest völd á markaðnum, drottna yfir honum.

Félag viðskipta- og hagfræðinga valdi Sölva Blöndal hagfræðing ársins 2016, fyrst og fremst vegna veðmáls hans um hvernig Gamma gæti hagnast af húsnæðisvanda almennings, fyrst með því að kaupa íbúðarhúsnæði ódýrt þegar almenningur missti það í kjölfar Hrunsins, síðan með síhækkandi húsaleigu vegna skorts á leiguhúsnæði fyrir þá sem höfðu misst húsnæði sitt eða vildu komast inn á ört þrengri leigumarkað í kjölfar aukningar ferðamanna og loks með hækkandi húsnæðisverði vegna bólumyndunar á íbúðamarkaði og skorts á fasteignum vegna samdráttar í byggingu íbúðarhúsnæðis eftir Hrun.

Í þessu ástandi, algjörri blindu stjórnmálanna fyrir viðvarandi valdaráni hinna auðugu, flutningi á völdum frá hinu félagslega sviði (þar sem hver maður hefur eitt atkvæði) yfir á hinn svokallaða markað (þar sem hver króna hefur eitt atkvæði), í hægri og öruggri umpólun samfélagsins frá lýðræði að auðræði; birtist Sölvi Blöndal, hagfræðingur ársins, með nýtt tilboð, sem hljóðar svo (ef ég má umorða það):

Nú þegar búið er að brjóta hina sameiginlegu sjóði á bak aftur með skattaafslætti til hinna auðugu, svo mjög að velferðarkerfið er að leysast upp og innviðir samfélagsins að hrörna, mæli ég hér með tilboði til ykkar frá hinum ríku. Við erum tilbúin að láta sumt af þeim peningum sem þið gáfuð okkur, með hinum rausnarlega skattaafslætti, renna inn í innviðauppbyggingu gegn því að vegir, flugvellir, skólar, sjúkrahús og svoleiðis séu flutt úr sameiginlegri eigu og sameiginlegri umsýslu yfir til okkar, hinna ríku. Ef plan okkar gengur eftir munu sameiginlegar eigur ykkar verða okkar, ekki ósvipað og raunin hefur orðið með fiskinn í sjónum. Það finnst okkur gott sístem. Það hefur gert okkur enn auðugri og enn valdameiri. Og ykkur fátækari og valdaminni. Sem er fínt. Því þá getum við haldið áfram að mylja niður velferðarkerfið, sem við þurfum ekkert á að halda því við eigum nóga peninga til að borga fyrir menntun, heilbrigðisþjónustu og svoleiðis. Við erum ekki háð sameiginlegri velferð, við töpum á henni; borgum meira en við fáum. Þess vegna hættum við að borga skattinn og viljum nota peninga til að kaupa upp það sem eftir er af sameiginlegum eigum ykkar og byggja upp nýjar til að geta rukkað ykkur og fært þannig skattheimtuna frá ríkinu til okkar.

Einhvern veginn svona er tilboðið sem kalla má „Á réttri leið“.

Og hvernig viljið þið svara því? Já, takk?

Það er löngu kominn tími til að segja þessu víðátturuglaða liði að þagna, ýta því frá völdum og taka til við að móta samfélag sem þjónar fleirum en hinum allra ríkustu. Þessi grein Sölva hlýtur að vekja fólk af værum blundi og ber að þakka honum það. Ef almenningur rís ekki fljótlega upp og nær völdum í samfélaginu verður ekkert samfélag eftir. Það verður orðið einkaeign örfárra fjölskyldna.

Gunnar Smári

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram