Siðfræðin á bandi sósíalisma
Pistill
15.06.2017
„Grunnhugmynd allra siðfræði sem við nefnum því nafni er að hagsmunir hvers og eins séu jafn mikilvægir. Frá siðferðilegu sjónarmiði eru engir sérréttindahópar til.“ Þetta stendur á vef velferðarráðuneytisins, ráðuneyti núverandi ríkisstjórnar. Samkvæmt þessu þverbrýtur ríkisstjórnin sín eigin siðferðisviðmið. Sérréttindahópar ráða öllu á Íslandi, hafa rænt auðlindum okkar, öllum ábótasömu viðskiptatækifærunum, keypt húseignir í stórum stíl, heilu hverfin og græða á tá og fingri meðan fjöldi fólks glímir við húsnæðisskort og fátækt. Á vef velferðarráðuneytisins er leitast við að svara þeirri spurning hvers vegna mismunun er siðferðilega röng. Til að svara spurningunni er birtur fyrirlestur dr. teol. Sólveigar Önnu Bóasdóttur um þetta viðfangsefni.
Sólveig segir að mismunun sé siðferðileg röng vegna þess að hún sé óskynsamleg. Hún byggi ekki á málefnalegum ástæðum heldur geðþótta. Vegna hlutdrægni sé mismunun siðferðilega óréttlætanleg.
Mismunun brýtur líka gegn alþjóðlegum samþykktum og skilningi varðandi jöfnuð allra manna og mannhelgi. „Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi“ segir í 3. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Og mannhelgi er eitt af grunngildum Sósíalistaflokks Íslands. En hvað þýðir mannhelgi? Aftur getum við leitað á vef velferðarráðuneytis íslensku ríkisstjórnarinnar um skilgreiningu, nefnilega þá að mannhelgi feli í sé griðland manneskjunnar í heiminum. Mannhelgi þýði að sérhver einstaklingur eigi að geta haldið reisn sinni, sjálfstæði og virðingu sem manneskja.
Fátækt fólk, öryrkjar, börn fátækra foreldra, fólk sem hefur hvorki efni á að leigja eða kaupa sér húsnæði, launamenn á lægstu töxtunum og fátækir aldraðir njóta ekki mannhelgi. Það er ekki hægt að halda reisn, sjálfstæði og virðingu ef grunnþörfum fólks er ekki mætt. Samt er nóg til af peningum í samfélaginu, blússandi hagvöxtur og góðæri, en það er bara fyrir þá sem eiga peningana. Það er ekkert að marka það sem stendur á vef velferðarráðuneytisins og það er móðgun við siðfræðina að velferðarráðuneytið skuli eigna sér þessi orð. Réttast væri að fjarlægja þau af vefnum og setja þar önnur viðmið sem eru í takt við athafnir núverandi ríkisstjórnar.
Mannhelgi er einn af hornsteinum mannréttinda. Íslendingar hafa skrifað undir alþjóðasamninga um mannréttindi og hér á landi starfar Mannréttindaskrifstofa Íslands sem kemur fram fyrir Íslands hönd í alþjóðlegu samstarfi. Þegar ríki hefur skrifað undir alþjóðlega samninga um mannréttindi, eins og Ísland hefur gert, ber því skylda til að fara eftir þeim og vernda mannréttindi einstaklinga innan ríkisins. Skoðum nokkur atriði mannréttinda þeirra alþjóðasamninga sem Ísland hefur skrifað undir.
- Þar er að finna réttinn til mannhelgi. – Þessi réttur er brotinn hér á landi eins og ég hef bent á.
- Þar er að vinna réttinn til fullkominnar líkamlegrar og andlegrar heilsu. – Ríkisstjórnin með allri sinni einkavæðingu og niðurskurði í velferðarmálum er að þverbrjóta þessi mannréttindi.
- Þar er að finna réttinn til viðunandi og hagstæðra vinnuaðstæðna. – Þetta er líka þverbrotið á Íslandi, starfsmannaleigur og gróðafyrirtæki bjóða launþegum upp á algjörlega óviðunandi vinnuaðstæður og vinnuálag, og virða hvorki lögbundna kjarasamninga né lög um aðbúnað og hollustu á vinnustöðum.
- Þar er að finna réttinn til fullnægjandi næringar, húsaskjóls og félagslegs öryggis. – Þessi réttur er þverbrotinn, fátækt fólk sem ekki hefur ekki efni á góðum og næringarríkum mat fyrir sig og börnin og ekki efni á húsnæði nýtur ekki félagslegs öryggis. Þetta er staðreynd hjá allt of mörgum á Íslandi þó ríkisstjórnin vilji ekki kannast við það og bendir bara á hagvöxtinn. En fátækt fólk borðar ekki hagvöxtinn.
- Þar er að finna réttinn til menntunar. – Ríkisstjórnin ætlar bæði að skera enn frekar niður og einkavæða í menntageiranum. Það sé hver maður að þarna er verið að brjóta alþjóðasamninga um mannréttindi.
- Réttur til frelsis frá þrælahaldi. – Margir Íslendingar telja sig þurfa að þræla daginn út og inn til þess að geta framfleytt sér og fjölskyldunni. Áður virtust menn geta lifað af einum dagvinnulaunum, en núna er öldin önnur. Sósíalistaflokkur Íslands hefur það á stefnuskrá sinni að vinnuvikan verði stytt sem er einn liður í að virða þessi mannréttindi.
Inntak sósíalisma eru mannréttindi í víðtækum skilningi. Sósíalisminn segir að mismunun sé siðferðileg röng og óskynsamleg. Þetta er líka kjarninn í allri siðfræði eins og fyrr greinir. Mismunun byggir ekki á málefnalegum ástæðum heldur geðþótta og er siðferðilega óréttlætanleg.
Katrín Baldursdóttir