Kapítalísk ríkisafskipti
Pistill
19.06.2017
„Ríkisafskipti“ var orð sem ég lærði ungur að væri skammaryrði í pólitík. Þetta var á tíunda áratug tuttugustu aldar, í miðjum fimbulvetri nýfrjálshyggjunnar. Þá var enginn maður með mönnum nema þekkja kenningar Friedmans, Hayeks og sendiherra þeirra á Íslandi. Kenning nýfrjálshyggjumanna um ríkisafskipti var sú, að afskipti ríkisins af sérhverju málefni væru til hins verra. Og ekki aðeins til hins verra, heldur beinlínis brot á mannréttindum – ofbeldi gegn háheilögum rétti allra manna til að eiga sig sjálfir.
Um það hvort gangstéttar, heilbrigðiskerfi og leikskólar séu gróf svívirða við mannréttindi má að sjálfsögðu deila og er enn gert af þrótti. En í gagnrýni nýfrjálshyggjunnar á ríkisafskipti var ein dulin og lymskufull forsenda sem sjaldan rædd. Hugmyndafræðingum nýfrjálshyggjunnar tókst nefnilega að planta þeirri hugmynd að einkaeign væri hið eðlilega ástand en sameign væri afsprengi þvingunar og valdbeitingar. Einn stærsti sigur nýfrjálshyggjunar var að koma á kreik þeirri sögu að einkaeignarrétturinn væri náttúrulegur á meðan sameiginleg ráðstöfun eigna væri afskræming á náttúrulegu fyrirkomulagi hlutanna.
En þessi saga er uppspuni. Sannleikurinn er sá að einkaeign og ríkisafskipti eru alls engar andstæður. Það hvernig hin dýrmætu yfirráð yfir framleiðslutækjum samfélagsins færðust í hendur fámennar yfirstéttar – stéttar kapítalista – var aldrei náttúruleg eða sjálfsprottin atburðarás. Þvert á móti var það ofbeldisfullt og blóðugt ferli, á köflum sannkallað stríð, sem við hvert fótmál reiddi sig á frumkvæði og stuðning ríkisvaldsins.
Nýlendustjórnir, ein söguleg grunnforsenda þess að kapítalisminn náði heimsyfirráðum, byggðu iðulega á hnökralausri samvinnu um það verkefni að sölsa undir stórfyrirtæki bæði séreign og sameign annarra með hreinræktuðum ríkisstuddum þjófnaði. Allt fram til ársins 1857 fólst til að mynda nýlendustjórn Breta yfir Indlandi í engu öðru en milliliðalausri einkaeign Austur-Indíafélagsins yfir íbúum, jarðnæði og auðlindum svæðisins. Breska ríkið studdi svo gripdeildir þessa framtakssama einkafyrirtækis með ráðum og dáð, meðal annars með herafla, þegar Indverjar kröfðust þess að hina nýja heimsskipan kapítalismans viðurkenndi mennsku þeirra og réttindi.
Óþol kapítalismans fyrir sjálfsprottinni og sjálfbærri sameign fólks á auðlindum er svo algjört að hann hikar ekki við þvingaða fólksflutninga með aðstoð ríkisins til að koma á einkaeignarfyrirkomulagi, og það þarf ekki að leita til annarra heimsálfa til að finna dæmi um slíkt. Hálandahreinsanirnar á 18. og 19. öld í Skotlandi voru skýrt dæmi um ofbeldi ríkisvaldsins til að afnema rótgróinn sameignarrétt og neyða tilbúna einkaeign upp á almenning. Sömu sögu má segja um íslenska kvótakerfið, sjálft krúnudjásn íslenska auðvaldssamfélagsins. Kvótanum var komið á með lagasetningu sem beindist gegn aldagamalli, sjálfsprottinni sameign Íslendinga á sjávarauðlindinni. Kvótakerfið hefur svo gert fólk að efnahagslegu flóttafólki í eigin landi líkt og hálandahreinsanirnar, allt með dyggri aðstoð dóms og laga. Hinir gömlu almenningar íslenska bændasamfélagsins hafa heldur ekki fengið að vera í friði fyrir einkaeignargerræði hins íslenska ríkis, og undu bjórókratar sér ekki hvíldar fyrr en búið var að troða einkaréttarskilgreiningu kapítalismans upp á sameiginleg beitarlönd íslenskra bænda með atbeina Þjóðlendunefndar.
Saga síðustu alda er því ekki saga um ríkisvald sem beitir ofbeldi til að afnema einkaeign og koma á sameign, heldur er hún oftar en ekki saga um ofbeldisfulla átroðslu einkeignarréttar gegn bæði sameign og dreifðri séreign. Þessi saga heldur áfram. Einhver skammlausasta atlaga kapítalismans gegn sameign í nútímanum má segja að séu samsæri ríkisvalds og stórfyrirtækja gegn frjálsri dreifingu efnis á internetinu. Þar er lagasetningu og lögregluofsóknum beitt til að tryggja að þröngt skilgreindur einkaeignarréttur örfárra stórfyrirtækja á sviði afþreyingar sé gerður öllu öðru heilagari. Gildir þá engu þótt einstaklingar stundi deilingu efnis án gróðamarkamiða og þótt neytendur greiði þegar drjúga tíund til kapítalismans í formi kostnaðar við tölvubúnað og nettengingar. Skynsamlegar lausnir sem gætu verndað bæði réttinn til deilingar og hagsmuni efnishöfunda fá enga áheyrn, enda kapítalisminn góðu vanur: hann þarf ekki að hlusta á rök heldur getur einfaldlega skipað dyggum þjóni sínum, ríkisvaldinu, að láta hundelta, fangelsa og sekta alla þá sem ganga ekki í takt.
Þegar málpípur kapítalismans tala um einkaeignarrétt meina þeir ekki rétt þinn til að eiga þá hluti sem þér eru kærir eða sem þú þarft til að tryggja þitt eigið viðurværi og grundvallarþægindi. Nýfrjálshyggjumenn hafa uppi fagurgala um einkeignarréttinn sem almenn mannréttindi, en þeir meina auðvitað bara heimtingu fámennrar yfirstéttar á einokunarvaldi yfir landi, auðlindum, vinnustöðum, hugverkum og innviðum. Þessi fámenna yfirstétt ríkir hvorki í krafti réttæmis, raka né almannahagsmuna. Kapítalistar beittu ofbeldi til að sölsa undir sig bæði séreign og sameign almennings, og verja þann árangur sinn enn í dag með dómskerfi og lögreglu að vopni. Skynsemi og almannahagur mæla hins vegar skýrt með öðru. Sameignarrétturinn er okkar réttur, og er nauðsynlegt og heilbrigt jafnvægi við séreign. Einkaeign sem er tryggð með þjófnaði og ofbeldi á ekkert skylt við mannréttindi. Ránið á hinu sameiginlega fór fram með aðstoð ríkisvaldsins. Við skulum krefjast þess aftur, með eða án aðstoðar ríkisvaldsins.
Viðar Þorsteinsson