Lausn í lofstlagsmálum finnst ekki innan kapítalismans, kapítalisminn er vandamálið
Pistill
26.06.2017
Tvær sviðsmyndir eru nú í spilunum varðandi breytingar loftslags á jörðinni af mannavöldum. Báðar krefjast sósíalisma. Önnur sviðsmyndin, sú skárri, er að það takist að koma böndum á losun koltvísýrings, stöðva hlýnun og snúa vistkerfum jarðarinnar aftur til jafnvægis. Hin sviðsmyndin, sú verri, er að hlýnun jarðar, bráðnun jökla, hækkun sjávarborðs, aukin tíðni veðurhamfara og önnur tilheyrandi umhverfisáhrif haldi áfram ótrauð með skelfilegum afleiðingum fyrir alla jarðarbúa. Báðar þessar sviðsmyndir krefjast mikils af kjörnum leiðtogum og raunar mannkyninu öllu – sem eru varla fréttir í eyrum nokkurs mannsbarns, en hitt er minna rætt: Öll marktæk viðbrögð við loftslagsbreytingum krefjast uppgjörs við kapítalismann.
Meiriháttar alþjóðleg samþykkt um losunarminnkun hefur reynst gríðarlega erfitt ef ekki ómögulegt verkefni. Hvað eftir annað hafa þjóðarleiðtogar snúið heim frá hátíðlegum ráðstefnum með auma og hálfkaraða samninga sem almennt er viðurkennt að lítið vægi hafa. Nýjasta ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að yfirgefa Parísarsamkomulagið er varla annað en opinber viðurkenning á því sem allir vita: alþjóðlegir samningar um málefnið eru ekki teknir alvarlega innan stjórnmálanna. Klúr og skammlaus hegðun Donald Trumps á opinberum vettvangi merkir ekki að raunveruleg stefna hans sé í reynd frábrugðin öðrum þjóðarleiðtoum.
Hvað veldur því að ríki heims geta ekki komist að haldbæru samkomulagi um eitt stærsta hagsmunamál mannkyns fyrr og síðar, málefni sem brennur á almenningi um víða veröld? Svarið er að innan núverandi heimsskipanar eru einstök ríki, sem og samstarf þeirra, rígbundin á klafa hagsmuna auðvalds og stórfyrirtækja. Á meðan krafa kapítalismans um hagvöxt og innbyrðis samkeppni efnahagssvæða ríkir öllu öðru ofar, þá mega ríkin sín lítils sem fulltrúar almannavalds. Krafa kapítalismans um skammtímagróða, sem er byggð inn í efnahagsstjórn nær allra ríkja veraldar að meira eða minna leyti, trompar óhjákvæmilega þá ábyrgu en til skamms tíma ógróðavænlegu framtíðarsýn sem aðgerðir gegn hlýnun jarðar krefst. Það er sama hversu vænt okkur þykir um framtíð barnanna okkar og barnabarna, á meðan neysla þeirra og framleiðsla verður ekki metin til fjár hér og nú þá skipta þarfir þeirra auðvaldskerfið engu máli.
Sósíalismi er efnahagskerfi sem er stýrt af fólkinu sjálfu og með hagsmuni þess að leiðarljósi. Þegar bæði eign og arður af rekstri fyrirtækja er dreift á sanngjarnan hátt milli fólks í samfélaginu hefur möguleikinn á því að hrifsa til sín skammtímagróða á kostnað langtímahagsmuna verið fjarlægður. Sósíalismi breytir ekki fjölbreytileika mannlegra hvata, en hann losar hagkerfið úr járnkrumlu eiginhagsmuna hinna fáu. Aðeins með ábyrgri og lýðræðislegri stjórn fólksins yfir miðstöðvum framleiðslunnar getum við komið í veg fyrir að kynsóðum framtíðarinnar verði fórnað fyrir skammtímagróða. Sósíalismi er grunnforsenda þess að ríki heims geti undirritað marktækt samkomulag um aðgerðir gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Þess vegna þurfa allir sem láta loftslagsbreytingar sig varða að kasta fyrir róða sjálfsblekkingunni um „grænan kapítalisma“ og byrja þegar í stað að vinna að þjóðfélagsbreytingum í átt að sósíalisma.
En við þurfum, því miður, líka að búa okkur undir seinni sviðsviðmyndina. Sviðsmynd þar sem hækkun sjávarborðs og fjölgun náttúruhamfara verður veruleiki okkar innan fárra áratuga. Þeim breytingum mun fylgja gríðarlegur kostnaður. Hver mun greiða hann? Að óbreyttu mun kapítalisminn, ásamt hugmyndafræðingum sínum og framkvæmdastjórum, gera sitt besta til að tryggja að sá kostnaður lendi á efnaminna fólki, launþegum og skattgreiðendum, sem og fátækari þjóðum. Öllu verður kappkostað til að tryggja að yfirstéttin fái haldið auðsöfnun sinni áfram truflunarlaust, og að reikningurinn vegna eyðileggingar, hamfara, borgarastríða og byggðaröskunar verði sendur annað.
Það verkefni að lágmarka og gera við skaðann vegna loftslagsbreytinga verður dýrt og fyrirhafnarmikið. Á síðustu áratugum hefur framkvæmdastjórum auðvaldsins tekist að snarminnka kostnaðarþátttöku þess í sjálfsagðasta öryggisneti almennings við hefðbundnar aðstæður, velferðarkerfinu. Undir seinni sviðsmyndinni blasir ekki eingöngu við það verkefni að endurheimta velferðarkefið okkar, heldur einnig hitt, að gæta þess að árangur af því verkefni verði ekki jafnharðan ógiltur um leið og álag eykst vegna afleiðinga loftslagsbreytinga, svo sem flóttamannabylgju, aukinnar fátæktar, og vaxandi ríkisútgjalda við skaðaminnkun.
Mun blandað hagkerfi og hugmyndafræði frjálslyndra miðjumanna um væga skatta og penar reglugerðir duga til að mæta þessum áskorunum? Munu kurteisleg samræðustjórnmál við forstjóra og fjárfesta nægja til að sannfæra þá um að axla ábyrgð sína á afleiðingum kerfisins sem þeir smíðuðu og græða á? Að sjálfsögðu munu margir almannatenglar starfa á drjúgu tímakaupi við að sannfæra almenning um einlægan vilja stórfyrirtækja til að hjálpa fórnarlömbum loftslagsbreytinga. Loftslagsflóttamenn og strandaðir ísbirnir munu prýða vandlega matreitt myndefni sem notað verður til að selja gerfilausnir á borð við kolefnisjöfnun og endurvinnslu innan óbreytts kapítalísks kerfis.
En loftslagskreppan er ekkert ólíkt öðrum kreppum sem auðvaldshagkerfið hefur getið af sér, hvort sem þær eru vistkreppur, húsnæðiskreppur, fjármálakreppur, eða stjórnmálakreppur. Auðvaldskerfið leysir þær ekki sjálft. Eingöngu vald og kraftur okkar sjálfra getur dregið auðvaldið til ábyrgðar. Sú barátta getur fljótt orðið barátta um líf og dauða þar sem líf almennings kann að þýða dauða auðvaldsins. Krafan um að mannleg velferð í öllum sínum myndum sé leiðarljós efnahagskerfisins, það leiðarljós sem einnig nefnist sósíalismi, er eina leiðin til þess að afstýra hörmungum loftslagsbreytinga hvort sem það er fyrir eða eftir að hlýnun jarðar verður óumflýjanlegur veruleiki.
Viðar Þorsteinsson