Kviðdómslýðræði

Benjamín Julian Pistill

Hvernig er best að gera lýðræði? Okkur þykir svo sjálfsagt og blátt áfram að hafa það að við spyrjum okkur sjaldnast hvort framkvæmdin á því sé í grundvallaratriðum rétt. Þjóðaratkvæðagreiðslur, fulltrúar og flokkar virðast jafn sjálfsagður bakgrunnur stjórnmála einsog strigi fyrir málverk. Öll þessi atriði eru þó umdeild og, þegar vel er að gáð, jafnvel andlýðræðisleg.

Alræði flokkanna í hinu pólitíska kerfi er vel þekkt og allt að því klisjukennt vandamál. Það birtist í hentisemi flokkseigenda í uppröðun framboðslista, skoðanakúgun þingmanna og peningaplokki úr ríkissjóði í þágu flokksmaskínunnar. Svonefndir „fulltrúar“ almennings á þingi eru allt annað en þversnið þjóðarinnar, heldur er um að ræða mikið til æviráðna stjórnmálastétt, sem er upp til hópa menntuð í lögfræði eða skyldum fögum. Það virðist ekki vekja neina furðu þegar kynslóð eftir kynslóð úr sömu fjölskyldum vinnur stólaleikinn sem við köllum alþingiskosningar. Þá sjaldan sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru lagðar fyrir eru þær um málefni sem þessi stétt velur, með þeirra orðalagi, sem þau velja sjálf hvort þau fari eftir. Almenningur verður að sækja sér þekkingu um málið í fjölmiðla, sem eru nær allir í eigu auðmanna.

Til að lýðræði virki og komi fram í raun og veru þarf meira en þessar stofnanir. Ákvarðanirnar þurfa að vera nær almennum borgurum, sem þurfa betra tóm til að yfirvega fyrirliggjandi vandamál. Við höfum ekki tíma til að sitja öll á þingi, en þingið einsog það er núna virkar ekki heldur, enda nýtur varla það varla trausts nokkurs manns.

Lýðræðisfræðingar hafa undanfarin ár fundið aðra og betri leið sem svarar þessum vandamálum. Hún á rætur sínar í sögu Aþenu til forna og felst í því að opinber stefna sé samin af almennum borgurum sem eru valdir af handahófi til starfans. Aþeningar skipuðu sitt æðsta yfirvald með þeirri aðferð, og þótt stjórnmálafræðingar hafi lengi ekki viljað trúa þessu, þá ber öllum heimildum saman um það. Og þessi aðferð hefur reynst ágætlega þegar hún er prófuð.

Tilraunir hafa verið gerðar í Kanada og Hollandi að láta slembivalda borgara endurskrifa kosningalöggjöfina og niðurstöðurnar hafa verið sláandi fágaðar. Hóparnir kölluðu til sín fagfólk, vógu og mátu röksemdir og gögn og komust svo að yfirvegaðri og manneskjulegri niðurstöðu. Flokkum hefði aldrei verið treystandi fyrir þessari vinnu, enda eru þeir reglulega staðnir að „kjördæmahagræðingu“ — endurskilgreiningu kjördæmamarka sér í hag.

Tillögur lýðræðisfræðinganna minna um margt á kviðdóma, sem eru einmitt líka valdir af handahófi og meta röksemdir sem þeim eru kynntar. Kviðdómar hafa í hendi sér mannslíf, en það er ekki þrátt fyrir það sem þeir eru skipaðir almennum borgurum, heldur einmitt þess vegna. Ekki þótti tækt að yfirvaldið hefði öll ráð í hendi sér í réttarsal. Kviðdómurinn var aðhald almennings með löggjafa og dómsvaldi.

Þessa hugmynd má útvíkka svo um munar, og hún leysir mörg vandamál á einu bretti: Eiginhagsmunapot flokkanna, ofureinföldun þjóðaratkvæðagreiðslunnar og elítisma fulltrúaræðisins. Almennir borgarar, með ráðrúm til starfa og aðgang að sérfræðingum og reynsluboltum, eru fullfærir um að móta samfélagið sitt. Fái þeir það, þá gerir það útaf við sérhagsmunagæslu fulltrúa sem eru svo gott sem æviráðnir.

Kviðdómslýðræði þroskar bæði þátttakendurna og samfélagið í heild. Eins og Rosa Luxemburg sagði fyrir óralöngu við Lenín: Það verður að treysta almenningi fyrir lýðræðinu. Það er eina leiðin fyrir okkur að læra það.

Benjamín Julian

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram