Bitlaus barátta

Katrín Baldursdóttir Pistill

Verkalýðshreyfing sem hefur engin pólitísk markmið er tannlaus. Hún breytir engu. Hún spilar með. Hún reynir á engan hátt að breyta þjóðskipulaginu. Hún veitir ekkert viðnám við vexti stórfyrirtækja, auðsöfnun á fárra hendur, græðgi og vaxandi ójöfnuði. Þetta hefur komið á daginn. Verkalýðshreyfingin á ekki roð í stórlaxana á vinnumarkaði eins og staðan er í dag. Þetta þýðir að staða launþegans á hinum hnattræna vinnumarkaði mun veikjast enn frekar. Það hefur nefnilega komið í ljós að mesta martröð launamannsins er hnattvæðingin. Kapítalistum er leyft að spila frítt á alþjóðamarkaði, hafa lögin með sér, hirða gróðann og skilja launamanninn eftir með sárt enni. Það gengur ekki að verkalýðshreyfingin samþykkti yfirráð kapítalismans sem nokkurs konar hagfræðilega reglu eða náttúrulögmál. Þar með dæmdir hún verkamenn til þrældóms um alla framtíð.

Fræðimenn hafa á undanförnum árum velt fyrir sér hlutverki verkalýðsfélaga einkum í ljósi þess hversu mikið áhrif þeirra eru að minnka, félögum að fækka og meðlimum sömuleiðis. Mörgum launamanninum er beinlínis bannað að vera í félagi eða er hótað atvinnumissi sé hann í verkalýðsfélagi. Þetta á líka við um Vesturlönd. Margir sósíalískir fræðimenn segja að verkalýðsfélög ættu fyrst og fremst að hafa pólitískt hlutverk. Þótt dagleg starfsemi felist í því að vinna litla sigra í baráttunni við atvinnurekendur um kaup og kjör þá leiði það í sjálfu sér ekki til breytinga á hagstjórninni. Hin pólitíska þýðing verkalýðsfélaga sé miklu meiri. Þau geti útrýmt samkeppni á milli verkamanna innbyrðis og sameinað verkalýðinn til þess að ráðast að rótum vandans.

Ein tegund umræðunnar um hnattvæðingu er að það sem er að gerast í nútímanum sé hluti af einhvers konar þróun. Ef einhver mótmælir því þá sé sá hinn sami að standa í vegi fyrir „eðlilegri“ þróun og jafnvel vísindalegri þróun. Það sé því ekki hægt að sporna við eða breyta þróuninni. Þetta er afar hættulegt viðhorf. Þar með er verið að samþykkja framgang hins óhefta kapítalisma sem “eðlilega” þróun og ef þú hefur aðra skoðun ertu bara púkó eða algjört afturhald, eða gamall hippi eða draumóramaður, óskynsamur og úr takti við veruleikann og kannski eitthvað bilaður. Eða svona svartsýnn besservisser með vandamál heimsins á herðunum. Og kannski ertu ógn við samfélagið og það beri að dæma þig og jafnvel alla leið í fangelsi. Stóreignamennirnir hafa nefnilega öll ráð í hendi sér. Þeir eiga fjölmiðlana, almannatengslafyrirtækin og nota öll trixin og peningana til að sannfæra okkur um að það komi öllum til góða að þeir græði sem mest. Og að við kaupum sem mest. Þannig verðum við hamingjusöm. Hvar eru verkalýðsfélögin í þessu andrúmi? Þau eru að reyna að setja litla plástra á sár launamanna sem duga skammt. Auðmenn fá sífellt stærri bita af kökunni á meðan verkalýðshreyfingin hefur afsalað sér pólitísku hlutverki sínu til breytinga á þjóðskipulaginu.

Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur líka afsalað sér pólitísku hlutverki sínu, telur það ekki sitt hlutverk að breyta þjóðskipulaginu og er í sífelldri vörn gegn sívaxandi auði og áhrifum auðjöfra á vinnumarkaði. Það sem meira er þá á hún í huggulegum stofusamræðum við samtök atvinnurekenda um hvernig á að haga málum bara svona eins og hagsmunirnir séu sameiginlegir. Verkalýðshreyfingin á Íslandi er auk þess í stórum dráttum hrifin af hnattvæðingunni, telur hana af hinu góða og hún feli í sér að íbúar og lönd tengjist nánari böndum, bæði pólitískt, viðskiptalega, efnahagslega og menningarlega. ASÍ tilgreinir ótal kosti hnattvæðingarinnar í bæklingi sem hreyfingin gaf út árið 2006 og heitir Ísland og hnattvæðingin. Eftirfarandi punktar eru tilgreindir í bæklingnum um ágæti hnattvæðingarinnar.

  • Fleiri samningar um frjáls viðskipti á milli landa.
  • Ódýrari flutningur á vörum, þannig að verð þeirra hækki ekki mikið, þótt þær séu fluttar langar leiðir.
  • Vörur eru í vaxandi mæli framleiddar þar sem ódýrast og best er fyrir framleiðslutækin að framleiða þær.
  • Auðveld, hröð og ódýr alþjóðleg samskipti með Internetinu, netpósti, síma og flugsamgöngum
  • Aukin alþjóðleg skipti á þekkingu og tækni.
  • Ólíkir menningarheimar og dagleg samskipti og tengsl, með þeim auknu kröfum sem það gerir til þess að hægt sé að ræðast við, vinna og lifa saman.

Svo mörg voru þau orð. Verkalýðshreyfingin á Íslandi lofar hnattvæðinguna þrátt fyrir hinar gríðarlegu afleiðingar sem hún hefur haft fyrir launamenn heimsins. Verkalýðshreyfing sem hefur þessi viðhorf er ekki líkleg til að bíta stóran bita af skrokki auðmannsins. Heldur þvert á móti alltaf minni og minni.

Katrín Baldursdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram