Ákall til verkalýðsforingja á Íslandi
Pistill
01.07.2017
Það eru um 200 verkalýðs- og stéttarfélög í landinu. Það þýðir að það eru líka um 200 verkalýðsforingjar á Íslandi. En af hverju heyrist svona lítið í þessum foringjum, körlum og konum sem hafa það meginhlutverk að semja um laun og önnur starfskjör í kjarasamningum fyrir hönd félagsmanna sinna og gæta hagsmuna þeirra á vinnumarkaði. Af hverju eru margir á svo lágum launum að þeir geta ekki lifað á þeim? Það eru kauptaxtar í launatöflum stórra stéttarfélaga þar sem launin eru undir 260 þúsund krónum á mánuði. Það má samkvæmt lögbundnum kjarasamningum borga fólki svo lág laun að það er ekki nokkur sjens að lifa á þeim. Hvað segið þið verkalýðsforingjar um þetta? Hvernig viljið þið breyta baráttunni til þess að svona smánarlaun heyri sögunni til? Hver er ykkar stefna í kjarabaráttu? Fyrir hvað standi þið? Hvað vilji þið gera til að jafna kjörin í landinu? Hvaða nýjar aðferðir eru nauðsynlegar?
Þessar spurningar eru allar réttmætar og eðlilegar. Um 85% allra launamanna í landinu eru í verkalýðs- eða stéttarfélögum. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi og velferð margra. Bilið milli ríkra og fátækra er að breikka. Fátækt er staðreynd á Íslandi. Þúsundir íslenskra barna lifa við fátækt. Fólk hefur ekki efni á þaki yfir höfuðið, hvorki að leigja né kaupa. Biðraðir eftir félagslegu húsnæði hafa aldrei verið lengri. Flestir launþegar vilja að stéttarfélögin leggi aðaláherslu á að bæta kjörin, hækka kaupið. Önnur atriði eru neðar á listanum. Þetta hefur komið í ljós í könnunum.
Kæru foringjar, eitthvað klikkaði
Kæru verkalýðsforingjar, það hefur eitthvað klikkað í baráttunni, hvað er það? Komi þið fram og segið ykkar hug. Af hverju eru þeir ríkari alltaf að verða ríkari? Af hverju fær hinn almenni launþegi ávallt minni bita af kökunni? Þetta er að gerast á ykkar vakt. Við viljum fá að heyra hvað þið hafið að segja og hvernig þið sjáið framtíðina fyrir ykkur. Við eigum rétt á því, þið eruð í vinnu hjá okkur og á góðum launum. Margir með meira en milljón á mánuði.
Nú er það svo að flest félögin mynda með sér sambönd og er ASÍ stærst þeirra. Þar eru um 15 verkalýðsleiðtogar í miðstjórn sem fer með valdið. Þetta fólk smíðar stefnuna sem síðan forseti ASÍ og aðrir starfsmenn á skrifstofunni þar eiga að fylgja. Það virðist vera orðin lenska hjá forystumönnum verkalýðs- og stéttarfélaga að vísa í miðstjórnina og ákvarðanir sem þar eru teknar en gera sig ekki gildandi að öðru leyti. Það sama á við önnur heildarsamtök launþega. En launþegar eru í tilteknum félögum, borga félagsgjöld í þau og vilja heyra í sínum foringja. Hvað vill minn foringi gera til að bæta og breyta baráttuaðferðunum?
Nóg til af peningum
Algeng félagsgjöld í verkalýðs- og stéttarfélögum eru um 1% af heildarlaunum. Launþegar sem eru með 300 þúsund á mánuði, borga því um 3 þúsund á mánuði í félagsgjöld til síns stéttarfélags eða um 36 þúsund á ári. Einstætt foreldri á þessum launum með 2 börn á framfæri gæti notað þessa peninga til að greiða fyrir tómstundaiðju barna sinna sem foreldrið hefði ekki efni á að öðrum kosti. Að sjálfsögðu eiga stéttarfélögin ekki að bjóða félagsmönnum upp á svona lélega taxta. Þá eru þeir ekki að standa sig. Nóg er til af peningum í landinu. Bullandi hagvöxtur, útgerðin græðir á tá og fingri og ferðamennirnir komast varla fyrir í öllum þeim fjölmörgu hótelum og gistirýmum sem sprottið hafa upp víðs vegar um landið.
Það sem er líka mjög alvarlegt er að á vakt þessara 200 verkalýðsforingja þrífast svívirðileg undirboð, starfsmannaleigur sem gera út þræla, ólöglegar jafnaðarkaupgreiðslur, kjarasamningsbrot af ýmsu tagi og greiðslur undir lágmarkslaunum. Það sem hefur verið reynt að gera í þessu hefur ekki dugað. Af hverju er ekki búið að taka á þessu föstum tökum? Kæru verkalýðsforingjar hvað ætli þið að gera í málinu?
Háskólamenn í BHM kvarta yfir því að menntun sé ekki metin til launa á Íslandi. Laun séu á engan hátt sambærileg því sem gerist í viðmiðunarlöndunum. Hvernig ætla foringjar félaganna þar að breyta sínum starfsháttum til að ná meiri árangri?
Leiðinlegustu fundir sem fyrirfinnast
Því er stundum borið við að fólk geti bara komið á félagsfundi hjá sínu stéttarfélagi og kosið nýjan forystumann ef það er ekki ánægt með þá forystu sem fyrir er. En ef við skoðum málið nánar þá er oftast kosið um formenn einu sinni á ári á ársfundi. Þetta eru leiðinlegustu fundir sem fyrirfinnast. Algeng dagskrá er svona:
- Skýrsla stjórnar
- Reikningar félagsins lagðir fram
- Lagabreytingar
- Sjóðir – Reikningar
- Fjárhagsáætlun og ákvörðum um félagsgjöld
- Kosning stjórnar
- Kosning skoðunarmanna reikninga félagsins
- Kosning í nefndir og önnur trúnaðarstörf
- Önnur mál
Hvernig er hægt að bjóða félagsmönnum upp á svona, auðvitað nennir enginn að mæta, auk þess sem félagsmenn sjá engan tilgang í því. Það breytist hvort eð er ekki neitt.
Þúsund skárri leiðir
Nei, kæru verkalýðsforingjar þið hafið þúsund leiðir á upplýsingaöld til að láta í ykkur heyra opinberlega, ná til félagsmanna og tjá ykkur um hvernig þið ætlið að breyta baráttuaðferðum til að ná meiri árangri í starfi. Launþegar hafa til þess fullan rétt.
Mikil umræða hefur verið um lífeyrissjóðina og allt sukkið og svínaríið þar, himinhá laun framkvæmdastjóra og jafnvel annarra starfsmanna, bónusgreiðslur og fleira. Þetta eru sjóðir launþega. Dæmi eru um að forystumenn spili ansi djarft og oft með mjög áhættusömum fjárfestingum. Það hefur aðeins heyrst í örfáum verkalýðsforingjum opinberlega um þetta mál. Hvað segi þið hin, finnst ykkur þetta bara allt í lagi, gildir það hér að þögn sé sama og samþykki? Ef þið viljið sjá breytingar þá hvaða?
Verkalýðsforingjar, stigið nú fram og upplýsið okkur launþega um hvernig þið sjáið fyrir ykkur framtíðina. Þetta er ákall til ykkar. Við bíðum spennt.
Katrín Baldursdóttir