Hið nýja fjöllyndi

Viðar Þorsteinsson Pistill

Jafnvel þótt íslenska hagkerfið hafi jafnað sig furðu hratt á efnahagshruninu 2008 hefur pólitísk kreppa og upplausnarástand áfram ríkt í íslenskum stjórnmálum. Stjórnarkreppur, fjöldamótmæli á götum út, stór hneykslismál, nýir stjórnmálaflokkar – allt skekur þetta íslensk stjórnmál og virðist ekkert lát verða á. Þetta ástand er afar ólíkt lognmollu og almennum leiðindum íslenskra stjórnmála í tíð Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og Geirs Haarde, jafnvel þótt enginn hörgull hafi verið á óstjórn og spillingarmálum á þeim árum.

Nú þegar fer að styttast í tíu ára afmæli Hrunsins er hætt við að hátíðarræður og greinarskrif fari að snúast um að minnast Hrunsins sem aflokins sögulegs viðburðar, að skrifa Hrunið inn í þann helgileik sem opinberri sögu íslenska lýðveldisins hættir til að verða. En söguritarar stofnanavaldsins geta ekki breytt þeirri staðreynd að við lifum sannarlega ennþá í miðju hringiðunnar sem hrunið hratt af stað: pólitískri óeirð sem enn sér ekki fyrir endann á. Kosningarnar 2016 kunna til dæmis að hafa verið þær sem mörkuðu endalok íslenska fjórflokkakerfisins.

Hvað velur þessari löngu pólitísku ókyrrð sem neitar að hverfa jafnvel þótt einhvers konar góðæri hafi leyst efnahagskreppu af hólmi og margur gjörningurinn hafi verið framinn til að friða lýðinn? Fyrir því eru eflaust margar ástæður. Hrunið opnaði augu Íslendinga fyrir spillingarhít íslenska stjórnkerfisins, gegnsýrt af sérhagsmunapoti og fyrirgreiðslupólitík. Auðvitað vissu þetta allir, en Hrunið afhjúpaði hinn nakta keisara íslensks yfirvalds á svo harkarlegan hátt að enginn gat þagað lengur og látið eins og ekkert væri. Meðvirknin var á enda.

Krafan um umbætur og siðbót hefur allar götur síðan verið eitt meginstef íslenskra stjórnmála. Velgengni Pírata á síðustu árum er að stórum hluta til marks um áframhaldandi eldmóð þessarar baráttu, og kosningasigur Besta flokksins í Reykjavík árið 2010 var að sama skapi drifin áfram af löngun kjósenda til að gefa íslenska stjórnmálakerfinu spark í rassinn. Og mögulega má telja sjálfum sér trú um að einhvers konar umbótalöngun hafi legið baki þeirri ákvörðun margra fyrrum kjósenda Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að kjósa Viðreisn í síðustu kosningum. Íslenski fjórflokkurinn er ekki lengur áskrifandi að stuðningi fólksins í landinu. Hann gengur ekki lengur um með ákveðna málaflokka eða sneiðar hins pólitíska litrófs í rassvasanum. Íslenskir kjósendur eru tilbúnir að nota valds sitt til að gefa nýjum hlutum séns.

Grunnskilyrðið fyrir þessari nýju frelsisást íslenskra kjósenda – óþol fyrir spillingu og valdsþægindum gamalla flokka – eru líka endurspegluð í stjórmálum á meginlandinu. Þar hafa nýir flokkar komið fram bæði til hægri og vinstri, til að mynda Momentum-hreyfing Jeremys Cobryn og UKIP í Bretland, Podemos á Spáni, og En Marche! hreyfing Emmanuels Macron Frakklandsforsenda. Rétt eins og á Íslandi hefur velgengni einstakra nýrra flokka sannarlega verið hverful, en enginn skyldi á þeim grundvelli álykta að hið nýja fjöllyndi kjósenda heyri sögunni til.

Í kringum íslensku þingkosningarnar árið 2016 fór að bera á orðinu „kerfisbreytingar“, sett fram sem einhvers konar regnhlífarhugtak til skýringar á þeim miklu fylgistilfæringum sem þá áttu sér stað, ekki síst til frá gömlu flokkunum og til þeirra nýju. Það hugtak og umræðan í kringum það var þó alltaf afar yfirborðskennd, og reyndist skammlíf. En kerfisbreytingar eru það sem sósíalistar hafa barist fyrir í mörg hunduð ár: Að koma á fót þjóðfélagskerfi þar sem borin er jöfn virðing fyrir ekki aðeins vinnuframlagi sérhverrar persónu heldur einnig rétti sérhvers einstaklings til að hafa rödd í öllum ákvörðunum sem varða hag hans og umhverfi. Margar af þeim umbóta- og kerfisbreytingahugmyndir sem fram hafa komið á síðustu árum eru einhvers konar milduð eða smækkuð útgáfa af þessari sígildu kröfu sósíalista.

Hvaða hugmyndir um kerfisbreytingar munu fanga hug almennings á næstu árum? Munu þær ganga lengra en að fjalla eingöngu um stjórnskipun og kosningalýðræði á vettvangi sveitarfélaga og ríkis? Verður sett fram krafa um jafnan rétt til upplýsinga, áhrifa og hlutdeild í arðsemi innan atvinnulífsins? Mun koma fram krafa um kerfisbreytingar innan verkalýðshreyfingarinnar og jafnvel lífeyrissjóðakerfisins? Allt bendir til að umbótaaldan, jafnvel þótt hún sé enn hvikul og fljótandi, haldi áfram að rísa. Ef það fjarar væri óskandi að eftir stæði öflug hreyfing í þágu mannúðar og jöfnuðar, klöpp til að byggja á baráttu okkar gegn misskiptingu valds og auðs.

Viðar Þorsteinsson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram