Unglingar og sósíalísk orð

Áslaug Einarsdóttir Pistill

Ég vinn í sjálfboðaliðasamtökum sem vinna með ungu fólki, 10 til 16 ára, við listsköpun og jafnréttisfræðslu. Ég velti því mikið fyrir mér þessa dagana hvernig ég get samþætt starfið mitt með ungmennunum við það að starfa í sósíalískri hreyfingu.

Ég hef t.d verið að velta því fyrir mér hvaða orðaforða unglingar sem ég vinn með nota til að lýsa sinni pólitísku vitund og sínum grunngildum. Orð eins og virðing, jafnrétti og vinátta eru dæmi um grunngildi sem hanga upp á vegg á öllum leikskólum og grunnskólum, en ég er að hugsa um hvaða orð ná inn að innsta kjarna, hvaða orð eru það sem stýra samskiptunum þeirra við annað fólk og þau miða sína pólitísku vitund út frá. Hvaða orð eru rauði þráðurinn í því pólitíska narratívi sem þau máta lífið sitt við.

Í starfinu mínu tölum við mikið um jafnrétti. Við tölum um réttindi jaðarhópa, um femínisma, hinsegin málefni, forréttindi, fordóma, hreyfingavinnu. Við tengjum jafnréttisstarfið við grunngildi jöfnuðar, samhjálpar og samstöðu á margvíslegan hátt. Unglingarnir sem við vinnum með eru mjög fróðir um ýmsar baráttur. Um kynjakerfið og Druslugönguna, um rasisma og Black Lives Matter hreyfinguna, um hinsegin fordóma og réttindabaráttu trans fólks. Unglingarnir okkar eru meðvitaðir um hinar ýmsu jafnréttisbaráttur og með góðan orðaforða til að lýsa ójafnrétti og ójöfnuði, sérstaklega þeim baráttum sem hafa mikið notað samfélagsmiðla sem vitundarvakningartól.

En við tölum lítið saman um ójafnrétti sem misskiptingu. Við tölum lítið um sósíalisma.

Ég hef tekið eftir skorti á orðum til að lýsa misskiptingu. Stéttaskiptingu, kapítalisma, og verkalýðsbaráttu. Unglingarnir sem ég vinn með tala lítið um misskiptingu, þá helst í samhengi við neyslumun. Þau taka eftir því að sumir fá 66 gráður norður dúnúlpur og nýjasta iphone-inn frá foreldrum sínum á meðan aðrir foreldrar hafa ekki efni á óniðurgreiddu tómstundastarfi.

Það er mikið talað um aukinn kvíða hjá unglingum og hann er yfirleitt tengdur við mikla samfélagsmiðlanotkun. En við setjum kvíða unglinga ekki nógu oft í samhengi við að samfélagsinnviðirnir eru að rotna og misskiptingin í samfélaginu að aukast. Að margir foreldrar vinna of mikið og fjölskyldan flytur of oft. Að þau eru barnið sem býr í einu blokkinni á Nesinu, innan um einbýlishúsin. Að mamma þeirra er öryrki og með geðsjúkdóm og fær ekki þann stuðning sem hún þarf. Við höfum tekið eftir því í starfinu okkar að það er erfitt að finna orð til að setja þessa tilfinningu í samhengi við réttindabaráttu.

Okkar hugmyndafræði gengur mikið út á að orða hluti upphátt, að nefna hvernig við ætlum að hafa samskiptin okkar, að nefna gildin sem við ætlum að vinna eftir. Kannski ættum við í starfi okkar að byrja að kalla samvinnu, samstöðu og samhjálp sósíalísk samskipti. Að tala um að vinna gegn misskiptingu um leið og við tölum um jafnrétti. Ég held við sem vinnum með ungu fólki þurfum að æfa okkur betur í sósíalísku tungumáli, til að gefa ungmennum tækifæri til að setja grunngildin sín í sósíalískt samhengi. Til að hjálpa þeim að ramma upplifanir sínar inn í pólitískt narratív þar sem barátta gegn misskiptingu er rauði þráðurinn.

Því ég er vongóð um að við lýðræðisvæðum samfélagið og byggjum góða undirstöðu undir sósíalíska hreyfingu ef við lærum að tala saman um grunngildin okkar í margvíslegum baráttuhópum. Ef við fáum tækifæri til að sýna þau í verki í samvinnu. Þessir hópar sem byggja á sósíalísku tungumáli og sósíalískum samskiptum munu mynda net. Og netið er fjölbreytt sósíalísk baráttuhreyfing.

Áslaug Einarsdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram