Borgaði billjón pund fyrir starfið

Katrín Baldursdóttir Pistill

Allar gullkistur opnuðustu hjá Theresu May þegar sýnt var að hún myndi missa starf sitt sem forsætisráðherra Bretlands eftir kosningarnar í síðasta mánuði. Núna er hún búin að eyða einni billjón punda af skattfé Breta til að halda djobbinu. Og hvert fóru svo þessir peningar? Jú þeir voru notaðir til þess að kaupa stuðning írska DUP (Democratic Unionist Party) flokksins við Theresu og Íhaldsflokkinn til áframhaldandi stjórnarsetu. Ef Theresa hefði ekki borgað þessa billjón hefði hún án ef misst starfið í hendur sósíalistans Jeremy Corbyn. En hvaða stefnumál komu inn með þessum írska flokki og hvernig gagnast þau almenningi? Nákvæmlega ekki neitt heldur þvert á móti. Gera bara illt verra. Þessi DUP flokkur er stórhættulegur afturhaldsflokkur sem er móti fóstureyðingum, hjónaböndum samkynhneigðra og fordómafullur með eindæmum. Einn þingmaður DUP orðaði það svo í breska þinginu að Biblían talaði um Adam og Evu ekki Adam og Steve. 

Það kaldhæðnislega við þetta að þrátt fyrir allan þennan kostnað við að halda stólnum þá er samt heitt undir Theresu May og hún alls ekki örugg um starf sitt. Hún er einangruð og hennar eigin ráðherrar tala öðru máli en hún. Sérstaklega ráðherrar velferðarmála. Þeir segja að það þurfi meira fjármagn til skólamála, heilbrigðismála og atvinnumála. En þegar á veita fjármagni til velferðar almennings þá lokar Theresa öllum gullkistunum aftur. Þá er allt í einu allt gullið búið.

Af hverju getur Theresa ekki opnað gullkisturnar þegar allt stefnir í óefni í velferðarmálum í landinu. Niðurskurðurinn hefur verið svo svakalegur að alls staðar er farið að svíða. Svarið hjá Theresu er að það sé ekki hægt að auka útgjöld og safna skuldum. Það sé ekki réttlátt gagnvart börnunum okkar og barnabörnum. Þvílík hræsni. Á sama tíma stelur hún billjón pundum af almannafé undir rassinn á sjálfri sér. Og ekki má hækka skattana hjá auðjöfrunum sem hún þjónar. Auk þess hefðu þeir örugglega ekki viljað láta Theresu fá billjón pund til að halda djobbinu. Vilja að sjálfsögðu fá forsætisráðherrann frítt og nota sameiginlega sjóði til að borga brúsann.

Níðst á almenningi

Ástandið í heilbrigðismálum er orðið mjög alvarlegt í Bretlandi, sérstaklega í London. Það er þak á laun opinberra starfsmanna í landinu. Þó allt hækki má ekki hækka launin. Það er rekin algjör láglaunastefna. Alveg sama þó ráðherrar velferðarmála í ríkisstjórn Íhaldsflokksins tali nú um að það þurfi að breyta þessu eins og áður segir er Theresa hörð á því að halda launaþakinu. Þetta gerir það að verkum að fleiri hundruð hjúkrunarfræðingar, læknar og aðrir sem starfa í heilbrigðisgeiranum segjast ekki lengur geta lifað af laununum og ætla að hætta störfum ef ekkert breytist. Þetta er verst í London því þar er dýrast að lifa og þessar stéttar velja því að flytja frá London og til staða sem auðveldara er að framfleyta sér. Kennarar og fólk sem starfar við félagsþjónustu segir það sama.

Ég átti í vikunni samræður við ungan mann sem býr í London og á 3 börn og þar af eitt fatlað. Hann sagði að nú væri búið að skera svo niður í þjónustu við fatlaða að hann vissi ekki hvað hann ætti að taka til bragðs. Hann sagði að hann hefði alls ekki efni á því að fara á einkareknar læknastofur. Hann sagði mér jafnframt að það væri alltaf verið að einkavæða meira og meira og meðal annars fleiri skóla. Skólar sem hétu “public schools” væru jafnvel látnir heita það áfram þó búið væri að selja þá einkaaðilum. Almenningur þyrfti svo að borga meira og meira fyrir skólapláss barnanna.

Fátækt hefur aukist verulega í Bretlandi. Fólk sækir til fæðisbanka (food banks) í síauknum mæli. Áætlað er að um 4 milljónir barna alist upp við fátækt. Billjón pund hefðu getað bjargað þessum börnum, fólkinu í röðunum við fæðisbankanna, hækkað launin hjá fólki sem starfar við velferðarþjónustu og aukið framlög til velferðarmála. Nei, Theresa May þurfti að borga fyrir djobbið, þröngva sér upp á almenning sem ekki vildi hana, sleikja sér upp við argasta afturhaldsflokk sem um getur og níðast á breskum almenningi.

Theresa skili gullinu

En enn þá getur allt gerst og allt eins víst að hún hrökklist úr starfi vegna þess hversu einangruð hún er innan flokksins. Draumastaðan væri auðvitað sú að það yrði kosið aftur því allar líkur eru á að Verkamannaflokkurinn fengi meirihluta atkvæða ef kosið yrði nú. Það er gríðarleg undiralda hérna í Bretlandi, allir að tala um pólitík og sífellt fleiri snúast á sveif með sósíalistum. Menn eru að átta sig  betur og betur á því að þetta þjóðskipulag gengur ekki upp.

Unga fólkið kaus Verkamannaflokkinn í síðasta mánuði, nú er fylgið að aukast meðal eldri hópa samkvæmt könnunum. Í vikunni bárust fréttir af því að millistéttin væri hætt að geta sparað eins og hún gerði áður. Fólk hefur ekkert á milli handanna í lok mánaðarins. Getur ekkert lagt fyrir í varasjóð eins og það hefur alltaf gert. Þetta skapar mikið öryggisleysi og ótta. “Hvað verður um okkur ef eitthvað kemur upp á, hvernig komumst við af þegar við verðum gömul”, eru algengar og eðlilegar spurningar.

Við skulum bara vona að það verði kosið aftur í Bretlandi sem fyrst og að Jeremy Corbyn verði næsti forsætisráðherra. Gullkisturnar verða þá opnaðar í þágu almennings. Og þá væri réttast að rukka Theresu May um þessa billjón sem hún stal af almenningi til að halda stólnum. Hún ætti að skila gullinu. Það þýðir örugglega ekki að rukka auðjöfrana sem hún hefur fórnað sér fyrir. Þeir munu ekki vilja kannast við hana þegar hún er komin út í kuldann. Enda er það lífsspeki kapítalismans að hver sé sjálfum sé næstur og að Guð hjálpi þeim sem hjálpi sér sjálfur. Hinir geta bara étið það sem úti frýs.

Katrín Baldursdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram