Að farða gyltu

Símon Vestarr Pistill

Einhverju sinni heyrði ég því fleygt að mikilfenglegasta áróðursbrella í sögu markaðssetningar hefði verið 99 senta verðlagningin. Engin þörf á stórum afslætti. Það kostar mann ekki nema eitt sent að breyta ásýnd verðsins. Hvort myndi maður frekar kaupa vöru á $5.00 eða $4.99? Að ég tali nú ekki um muninn á $10.00 og $9.99? Þetta fyrirbæri varð auðvitað alþjóðlegt og við höfum búið svo lengi við það að við erum hætt að koma auga á það. Fyrsti geisladiskurinn minn kostaði tvöþúsund kall árið 1992 (State of Control með Barren Cross fyrir þá fjóra Íslendinga sem þekkja til) en með því að gefa mér tíkall til baka gat verslunin gefið verðmiðanum andlitslyftingu og skrifað 1.990 kr.

Markaðssetning gengur út á þetta: að gera vöru eða þjónustu álitlega. Stundum er það spurning um að setja smá glans á annars fínan söluvarning. Stundum er það spurning um að farða gyltu. Sem færir mig að markaðssetningu í stjórnmálum.

Hvað sem maður annars kýs í kosningum hljóta allir að geta verið sammála mér þegar ég segi að stærsti markaðssetningarsigur í íslenskri pólitík sé nafnið Sjálfstæðisflokkurinn. Allt frá hárómantísku hugtakinu sjálfstæði (sem getur þýtt allt eða ekkert en engin manneskja er á móti) út að ákveðna greininum sem hangir aftan í orðinu eins og þotuslóði. Þetta er ekki bara flokkur sjálfstæðra manna heldur EINI flokkurinn sem sjálfstæður maður getur látið bjóða sér á kjördag. Maðurinn sem fann upp á þessu nafni til að skella á samansoðna djöflasýru frjálslyndra og íhaldsmanna á sjálfu upphafsári kreppunnar miklu hlýtur að hafa fengið medalíu.

Silfrið hlýtur svo auðvitað Framsóknarflokkurinn. Hver með réttu ráði gæti verið á móti því að vera sjálfstæður og sækja fram? En ef talsmenn þessara flokka bæru einhverja virðingu fyrir sannleikanum myndu þeir stjörnumerkja nöfn þessara flokka alls staðar sem þau stæðu á prenti. Og í neðanmálsgreinunum stæði:

*Athugið að sjálfstæði það sem nafn flokksins vísar til nær aðeins til stóreignarmanna. Þeir sem rétt ná endum saman (eða jafnvel engan veginn) í sveita síns andlits verða ekki sjálfstæðari fyrir tilstuðlan þessa félagsskapar.

og:

*Athugið að þeir sem sækja fram í Framsóknarflokknum gera það fyrir eigin hagsmuni og spillingin sem af hlýst getur valdið ógleði og uppköstum.

Af hverju erum við svo auðtrúa að það þarf ekki annað en álitlegt flokkheiti til að fá okkur til að framselja frumburðarrétt okkar á fjögurra ára fresti? Ég held að það hafi með það að gera að stjórnmálaumræðan á Íslandi hefur svo lengi verið á sama plani og þras um enska boltann. „Heldurðu með Liverpool eða United?“ Þeir sem segja að átakastjórnmál séu fyrri tíma fyrirbæri hafa ranga tegund átaka í huga. Í misskiptingarsamfélagi kapítalismans verða alltaf átök af því að hagsmunir eignastéttarinnar eru ekki þeir sömu og hagsmunir þeirra sem þurfa að vinna til að hafa í sig og á. En flokkshollusta á að vera tengd því góða sem flokkurinn lætur af sér leiða, ekki hugsunarlaus fylgispekt við einhvern listabókstaf sem afi manns krossaði alltaf við þegar lambalæri kostaði tvær krónur og Haukur Mortens var bestur á balli.

Ég held með Val. Ég hef alltaf haldið með völsurum af því að mamma spilaði með þeim og afi minn og bróðir unnu titla með þeim. Ég ætti satt að segja erfitt með að hætta að halda með þeim. Ég veit ekki hvað þyrfti til eiginlega. Að þeir eitruðu vatnsból með gervigrasgúmmíi eða réðu nasista sem stjórnarformann? Ég myndi samt alltaf fagna inni í mér ef þeir ynnu titil. Þannig að ég á það sameiginlegt með mörgum Sjálfstæðismönnum að elska fána með ránfugli á út yfir öll rök og meðvitund.

Á ensku er þetta kallað tribalism og er yfirleitt meinlaust í íþróttum. En þegar kemur að stjórnmálum verðum við að lyfta umræðunni á hærra plan. Við megum ekki við því sem samfélag að styðja gjörspilltan auðræðisflokk kynslóð fram af kynslóð bara af því að fjölskylda manns hefur alltaf gert það. Launamaður sem greiðir Sjálfstæðisflokknum atkvæði er ekki að mjaka sér inn í eitthvað vinningslið heldur að senda inn formlega beiðni um að vera rændur afkomuöryggi og grundvallarþjónustu. Sýnum smá sjálfsvirðingu. Við eigum betra skilið.

Símon Vestarr

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram